Samtök Atvinnulífsins

Skattkerfið jafnar tekjur landsmanna

Skattkerfið jafnar tekjur landsmanna

Í umræðu um tekjuskatt einstaklinga í aðdraganda kosninga er öllu snúið á haus.

Lágtekjufólk býr ekki við háa skattbyrði, enda á það ekki að gera það. Þeir sem hærra standa í tekjustiganum skila sannarlega sínu til samfélagsins og búa við mun hærri skattbyrði, hvort sem talið er í prósentum eða krónum. Það blasir við að tekjuskattskerfið á Íslandi er öflugt við að jafna kjör í landinu og virkar feikivel í þeim tilgangi.

Jöfnunaráhrif tekjuskattskerfis

Tekjuskatta verður að skoða í samhengi við heildartekjur og vaxta- og barnabætur og aðrar tekjutilfærslur ríkisins. Tekjuskattsgreiðslur, að frádregnum vaxta- og barnabótum, leiða í ljós mikil jöfnunaráhrif skattkerfisins. Tekjuhæstu 10% framteljenda greiða um 50% af öllum tekjuskatti til samneyslu og fjárfestinga ríkisins. Næstu 10% greiða 22% alls tekjuskatts. Lægstu fimm tekjutíundirnar, sem eru framteljendur með heildartekjur, að undanskildum fjármagntekjum, undir 490 þúsund krónum á mánuði, greiða 1% af öllum tekjuskatti. Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru þannig miklu meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir.

Á það hefur verið bent að upp úr 1990 hafi lægstu laun verið skattfrjáls. Þá voru lágmarkslaun töluvert lægri en nú. Á árinu 1992 voru lágmarkslaun 133 þúsund krónur á mánuði á verðlagi dagsins í dag en eru nú 351 þúsund krónur á mánuði, eða næstum þrefalt hærri. Bætt lífskjör hafa leitt til þess að á síðustu þremur áratugum hefur framteljendum, sem greiða tekjuskatt, fjölgað hlutfallslega. Það er heilbrigðismerki að fleiri launamenn geti tekið þátt í fjármögnun samneyslunnar.

Afflutningur veldur glundroða

Afflutningur stjórnmálaflokka á virkni tekjuskattkerfisins er ætlað að rugla fólk í ríminu og skapa glundroða í umræðu um skattamál. Á Íslandi eru greidd há laun og næstum hvergi er tekjujöfnuður meiri. Almenn samstaða er um að styðja við þau sem hafa minnst milli handanna og byggir skattkerfið á því að skattbyrði aukist með hærri launum og auknum kaupmætti.

Stjórnmálaflokkarnir leggja fram tillögur sínar í efnahagsmálum í aðdraganda kosninga. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa birt útreikninga tengda þeim sem finna má á vefsíðum samtakanna.

Mikilvægt er að allar tillögur um skattkerfisbreytingar, stórar sem smáar, séu settar í tölulegt samhengi. Tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 162 milljarða króna ef lágmarkslaun yrðu gerð skattfrjáls, líkt og var um skamma hríð fyrir þremur áratugum. Það svarar til um 80% af öllum tekjuskattgreiðslum einstaklinga til ríkisins. Slík skattalækkun er óraunhæf því tekjutap ríkisins yrði tæpast bætt upp í tekjuskattkerfinu án gífurlegra skattahækkana, nema stefnt sé að samsvarandi niðurskurði samneyslunnar sem raunar enginn hefur lagt til.

Bergmálshellir

Ósannindi verða ekki sannleikur þótt þau séu endurtekin. Staðreyndir málsins eru þessar:

Á Íslandi eru greidd ein hæstu lágmarks- og meðallaun í heimi. Báðar stærðir eru leiðréttar fyrir kaupmætti og taka þannig tillit til hás framfærslukostnaðar á Íslandi. Auk þess hefur tekjujöfnuður aukist á undanförnum 15 árum. Hér ríkir einn mesti tekjujöfnuður í heimi. Ísland er með næstmesta tekjujöfnuð í Evrópu að teknu tilliti til jöfnunaráhrifa skattkerfa. Hin Norðurlöndin skipa 5.-11. sæti í þessum samanburði .

Byggja verður á staðreyndum þegar tekist er á um efnahags- og skattamál.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Samtök Atvinnulífsins

Orkuskipti í landflutningum – Þáttur hefst kl. 10:00

Orkuskipti í landflutningum – Þáttur hefst kl. 10:00

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu ræðir við Gísla Arnarson, framkvæmdastjóra innanlandssviðs Samskipa um orkuskipti í landflutningum í snörpum 15 mínútna þætti.

Í þættinum er m.a. rætt um áhuga flutningafyrirtækja á orkuskiptum, óvissu sem þeim tengist, þær áskoranir sem fylgja áformum stjórnvalda um hröð orkuskipti og hverskonar skilaboð gætu e.t.v. liðkað fyrir.

Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og málefnum orkuskipta í fróðlegum 20 mínútna umræðuþáttum. Þættirnir eru sýndir á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 10:00 í Sjónvarpi atvinnulífsins og í Samtölum atvinnulífsins á helstu hlaðvarpsveitum.

Hér má sjá nánari dagskrá mánaðarins

 Samtöl atvinnulífsins  

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Á eignaverð að stýra vaxtastefnu Seðlabankans?

Á eignaverð að stýra vaxtastefnu Seðlabankans?

Hér á landi hefur kostnaður vegna eigin húsnæðis um það bil fimmtungs vægi í vísitölu neysluverðs. Eðli máls samkvæmt hefur þróun húsnæðisverðs því mikil áhrif á íslenskt vaxtastig og heldur meira að jafnaði en gengur og gerist víða erlendis. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,4 prósent en vísitala neysluverðs án húsnæðis er við verðbólgumarkmið.

Með öðrum orðum, það sem hefur helst drifið áfram verðbólgu síðustu misseri er hækkun húsnæðisverðs.Sú staða sem nú er uppi hefur áður sést og var nokkuð fyrirséð. Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað að meðaltali um ríflega 16 prósent á síðastliðnu ári og virðist fátt benda til annars en að það muni áfram hækka.

Verðhækkanir á eignamarkaði eru ekki óeðlilegar þegar vextir lækka og laun hækka líkt og verið hefur. Það sem hins vegar vegur þyngra nú er framboðsskortur á húsnæði sem hefur þrýst verðinu enn hraðar upp samhliða því að íbúðum til sölu hefur farið hratt fækkandi.

Seðlabankastjóri gagnrýndi vandræðaganginn við skipulagsmál á Íslandi í viðtali nýverið. Hér er einfaldlega of lítið byggt og of fáum lóðum úthlutað. Einkum er það stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, sem virðist enn á ný hafa sofið á verðinum. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins hafa ekki verið færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu síðan í febrúar 2017 og mælist samdrátturinn á síðustu tólf mánuðum mestur í Reykjavík.

Dýrkeypt fórnarskipti eignaverðs og stöðugleika

Þó það hljómi undarlega má segja að framboðsskortur á húsnæði í Reykjavík hafi bein áhrif á það hvort verðbólgumarkmið Seðlabankans haldi eða ekki. Almennt er viðtekið að vextir séu fremur máttlaust stjórntæki gegn miklum eignaverðshækkunum og reyndar er Ísland skólabókardæmi um slíkt. Á árunum 2004-2007 var reynt að draga úr verðhækkun fasteigna með miklum stýrivaxtahækkunum með þeim afleiðingum að krónan styrktist, eftirspurn jókst, viðskiptahalli náði stærð sem ekki hafði sést áður og fasteignaverð hélt áfram að hækka.

Fórnarskipti þess að beita stýrivöxtum á eignaverð annars vegar og hagvaxtar og efnahagslegs stöðugleika hins vegar, geta því orðið talsverð. Staðreyndin er sú að verð á eignamörkuðum er almennt mjög sveiflukennt. Þetta á ekki síður við fasteignaverð enda framboð fremur seint að bregðast við breyttri eftirspurn.

Þá er fasteignamarkaðurinn á Íslandi ekki stór í alþjóðlegum samanburði, fremur eins og lítið úthverfi í samanburði við breska, sænska eða þýska húsnæðismarkaðinn, svo dæmi séu tekin. Sveiflurnar geta því orðið enn meiri.

Á sveiflukenndur húsnæðisliður að ráða för?

Ólíkt því sem áður var hefur stjórntækjum Seðlabankans fjölgað, en flest eru þau á forræði fjármálastöðugleikanefndar. Takmarkanir á veðsetningarhlutföllum og greiðslubyrði fasteignalána eru dæmi um slík stjórntæki. Meginstjórntæki peningastefnunefndar er hins vegar stýrivextir og hennar helsta hlutverk að tryggja stöðugt verðlag. Eignaverðshækkanir stýrðu áður fyrr vaxtastefnu Seðlabankans, sú tilraun mistókst og má ekki endurtaka sig.

Eftir stendur sú spurning hvort húsnæðisliður sem sveiflast upp og niður eftir því hvernig skipulagsmálum er háttað í Reykjavík eigi yfirhöfuð heima í verðbólgumarkmiði Seðlabankans? Aðrir eignamarkaðir heyra alfarið undir fjármálastöðugleika, af hverju gildir hið sama ekki um fasteignamarkaðinn?

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021 í beinu streymi 09:00

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021 í beinu streymi 09:00

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021 fer fram í Hörpu í dag kl. 09:00.

Fullbókað er á viðburðinn í Hörpu en áhugafólk um umhverfismál og orkuskipti þarf ekki að örvænta þar sem streymt er beint af fundinum hér neðar.

Dagurinn er árviss viðburður og að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Í tengslum við daginn er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi málefnum orkuskipta. Nánari dagskrá umhverfismánaðarins má sjá hér.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í ár verða veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel í umhverfismálum. Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verðlaun fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins. Venju samkvæmt afhendir forseti Íslands Umhverfisverðlaun atvinnulífsins.

Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Setning

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

Orkuskipti – Leiðin fram á við

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri

Orkuskipti Bílaleigu Akureyrar

Jón Gestur Ólafsson, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Hölds ehf.

Orkuskipti í sjávarútvegi

Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum SFS

Vistvænni mannvirkjagerð

Sigrún Melax, gæðastjóri Jáverk ehf.

Fjármögnun orkuskipta – tækifærin og áskoranir frá sjónarhóli banka

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni Íslandsbanka

Í pallborðsumræðum taka þátt:

Bjarni Herrera, forstöðumaður sjálfbærni KPMG
Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur Ph.D. VSÓ og dósent við Háskóla Íslands
Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins:

Forseti Íslands afhendir viðurkenningu
fyrir umhverfisframtak ársins og til umhverfisfyrirtækis ársins.

Kaffi og tengslamyndun

Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta:

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin