Veður

Skjálftahrinan á Reykjanesskaga enn í gangi


Ný gögn gefa ástæðu til að skoða nánar þá sviðsmynd sem snýr að kvikuinnskoti undir svæðinu við Fagradalsfjall

2.3.2021

Uppfært 02.03. kl. 8.10

Hrinan á Reykjanesskaga stendur enn yfir og er mesta virknin nú bundin við nágrenni Keilis og Trölladyngju. Aðeins dró úr virkninni í gærkveldi en upp úr kl. 22 jókst hún aftur. Á miðnætti mældist skjálfti M3.6 að stærð 1.3 km NA af Trölladyngju. Rétt um klukkan 3 í nótt mældust svo tveir skjálftar yfir stærð 4. Sá fyrri var kl 02:53 1.3 km SV af Keili og var 4.3 að stærð. Sá seinni var í Fagradalsfjalli, kl 03:05, 4.6 að stærð. Þeirra varð beggja vel vart á Suðvesturhorninu og þess seinni alveg austur á Hellu og í Vestmannaeyjum.


Uppfært 01.03. kl. 18.15

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Fram kom á fundinum að sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur mælt um 1800 skjálfta frá miðnætti og eru þeir að mestu bundnir við svæði SV af Keili og Trölladyngju. Af þessum 1800 eru 23 skjálftar að stærð 3 eða stærri og um 3 skjálftar eru 4 að stærð eða stærri. Sá stærsti frá miðnætti mældist kl. 16:35, 5,1 að stærð og átti hann upptök um 1 km ASA við Keili.

Vísindaráð fór einnig yfir gervihnattamyndir (InSAR) sem bárust í dag. Úrvinnsla úr þeim myndum sýna meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga. Líklegasta skýringin er sú að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið síðustu daga. Unnið verður betur úr þessum nýju gögnum m.a. með líkangerð til þess að varpa skýrara ljósi á framvindu mála.

Í ljósi þessara nýju gagna sem rædd voru á fundi vísindaráðs í dag og sérfræðingar hafa farið yfir, er mikilvægt að skoða nánar þá sviðsmynd sem snýr að kvikuinnskoti undir svæðinu við Fagradalsfjall.

Mögulegar sviðsmyndir: 

 • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
 • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
 • Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
 • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
  • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
  • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð

Núverandi virkni á Reykjanesskaga er kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu og hvort ein sviðsmynd sé líklegri en önnur. Von er á nýjum gögnum síðar í vikunni sem geta varpað skýrara ljósi á ástæður þessarar hrinu. Vísindaráð mun funda aftur á morgun til að leggja frekara mat á þau gögn sem liggja fyrir ásamt því að meta nýjar mælingar.

Wrapped_icelandic_23febto1mar--1-

Nýjasta úrvinnsla úr gervihnattamyndum úr Sentinel-1 sem barst í morgun. Hún sýnir meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga og á því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið. Sjá PDF útgáfu af myndinni hér.


Uppfært 01.03. kl. 10.15

Tæplega 800 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesi frá miðnætti. Er virknin áfram einkum bundin við svæðið SV við Keili og við Trölladyngju. Í nótt kl. 01:31 varð skjálfti af stærð M4,9 um 2,5 KM VSV af Keili og fannst hann víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Vesturlandi.

Sex skjálftar yfir M3,0 hafa mælst frá miðnætti. Fimm þeirra mældust VSV við Keili en einn SA við Trölladyngju.


Uppfært 28.02. kl. 21.30

Frá miðnætti í dag hafa nú mælst yfir 1600 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, þar af 33 yfir M3,0 og sjö M4,0 eða stærri. Virknin er aðallega bundin við svæði sem er um 2 km NA við Fagradalsfjall en eftir hádegi færðist virknin lítillega í NA nær Keili. Auk þess mældust skjálftar við Trölladyngju í nótt og við Grindavík rétt eftir hádegi. Skjálftarnir hafa fundist vel á höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi og austur að Hvolsvelli.

 • M4,7 kl. 00:19 um 2,0 km NA af Fagradalsfjalli
 • M4,0 kl. 07:54 um 1,5 km NA af Fagradalsfjalli
 • M4,3 kl. 11:32 um 3 km NA af Fagradalsfjalli
 • M4,2 kl. 15:39 um 1,5 km VSV af Keili
 • M4,3 kl. 16:29 um 0,5 km V af Keili
 • M4,0 kl. 18:43 um 1,0 km SV af Keili
 • M4,7 kl. 19:01 um 2,0 km SSV af Keili

Yfirfarid_280221

Kortið sýnir staðsetningu jarðskjálfta sem hafa verið yfirfarnir í dag.

M4_280221

Þetta kort sýnir staðsetningu þeirra sjö skjálfta sem hafa mælst M4,0 eða stærri það sem af er degi.


Uppfært 28.02. kl. 13.20

Laust upp úr miðnætti varð jarðskjálfti af stærð 4,7 um 2,8 km NA af Fagradalsgjalli. Klukkan 5:54 mældist svo skjálfti 4,0 að stærð og annar kl. 11:31 um 4,3 að stærð, báðir áttu upptök um 2,5 km NA af Fagradalsfjalli. Tilkynningar hafa borist víðsvegar af Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu, austur á Hvolsvöll og upp í Borgarfjörð, um að skjálftarnir hafi fundist þar.

Eins og fram kom á fundi vísindaráðs almannavarna í gær gefa mælingar síðusta daga engar vísbendingar um kvikusöfnun eða gosóróa á svæðinu.

Yfir 10.000 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst í síðustu viku. Um 30 skjálftar yfir M4,0 hafa mælst og um 200 jarðskjálftar hafa verið stærri en M3,0.

Skjamynd-2021-02-28-131415

Uppfært 27.02. kl. 18.40

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR. 

Fram kom á fundinum að virknin í skjálftahrinunni er núna fyrst og fremst bundin við svæðið í kringum Fagradalsfjall eftir M5,2 í morgun og er hrinan sú öflugasta frá árinu 1933.

Vísindaráð fór yfir þær mælingar og gögn sem liggja fyrir s.s. jarðskjálftamælingar, GPS gögn, gasmælingar og úrvinnsla úr gervitunglamyndum. Mælingar gefa engar vísbendingar um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið, en sýna vel ummerki jarðskjálftanna sem hafa orðið hingað til.

Flestir skjálftar sem mælst hafa síðustu daga eru á um 5 km. dýpi við Fagradalsfjall og hafa ekki færst nær yfirborði, en slíkt gæti verið vísbending um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið.  Í hrinu sem varð við  Fagradalsfjall árið 1933 urðu all nokkrir kröftugir skjálftar á skömmum tíma, sambærilegir þeim sem nú ganga yfir. Þeirri hrinu lauk án þess að til eldgoss kæmi. Sama má segja um hrinu sem varð árið 1973.

Mynd sem sýnir dæmi um kröftuga skjálfta og hrinur sem orðið hafa á svæðinu við Fagradalsfjall á árunum 1930-2016. Smelltu hér til að sjá stærri útgáfu af myndinni.

Núverandi virkni á Reykjanesskaga sem í raun má rekja aftur um rúmt ár hefur verið kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu, en nú er fyrst og fremst horft á þessar tvær sviðsmyndir:

 • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
 • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5.5-6.5 að stærð.

Yfir 7200 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst 24.febrúar og má búast við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram næstu daga. Það er því mikilvægt að fólk hugi að innanstokksmunum á heimilum sínum til að tryggja að þeir valdi ekki slysum ef kröftugir skjálftar verða.

Veðurstofan, Háskólinn og samstarfsaðilar munu vinna að fjölgun mælitækja á Reykjanesskaganum á næstu dögum og vikum til að geta áttað sig betur á framvindu hrinunnar. Meðal annars er í skoðun að setja upp fleiri GPS mæla til að átta sig betur á eðli jarðskjálftahrinunnar. Eins er í skoðun að tengjast fleiri jarðskjálftamælum til dæmis þeim sem ÍSOR er með á svæðinu og koma þeim í rauntímavöktun á Veðurstofunni. Að auki er verið að skoða hvort hægt sé að koma fyrir jarðskjálftamælitækjum í Brennisteinsfjöllum sem eru austan við það svæði þar sem helsta virknin. Það gæti mögulega gefið skýrari mynd á þróun mála m.t.t. hvort að von sé á stærri skjálfta sem ætti upptök í Brennisteinsfjöllum en sagan geymir dæmi um upptök kröftugra skjálfta þar t.d. árið 1968.

Uppfært 27.02. kl. 11.30

Frá miðnætti hafa mælst yfir 1100 skjálftar, stærsti skjálftinn mældist 5,2 að stærð kl. 08:07 í morgun og fannst hann vel á höfuðborgarsvæðinu, austur á Skóga og norður í Hrútafjörð. Mínutu síðar mældist skjálfti af stærð 3,9. Um 24 jarðskjálftar yfir 3,0 að stærð hafa þar að auki mælst frá miðnætti. Virknin er aðalega bundin um 2 km NA við Fagradalsfjall og eftir M5,2 skjálftann í morgun virðist virknin hafa færst við SV horn Fagradalsfjalls og er það líklegast vegna spennubreytinga í kjölfar skjálftans.

Yfir 7200 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst 24.febrúar og má búast við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram næstu daga.

Vegagerðin varar við sprungum sem myndast hafa í Suðurstrandarvegi á Reykjansskaga, vestan við Vigdísarvallaveg. Sprungurnar hafa líklega myndast í kjölfar jarðhræringa sem hafa verið á svæðinu. Í tilkynningu frá Vegagerðinni eru vegfarendur varaðir við sprungunum og þeim bent á að aka varlega um svæðið.

Sprungan í veginum er í tæplega 8.2km fjarlægð í loftlínu frá upptökum M5.7 skjálftans á miðvikudaginn.


Uppfært 27.02. kl. 9.10

Klukkan 08:07 varð jarðskjálfti 5,2 að stærð, um 2.5 km NA af Fagradalsfjalli. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst. Stærsti skjálftinn fannst austur að Skógum og norður að Hvanneyri. Alls hafa rúmlega 600 skjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Þar af mældust 9 skjálftar yfir M3,0 að stærð. Af þessum níu mældist sá stærsti M3,8 kl. 2:30 og fannst hann víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Annar skjálfti, af stærð M3,7, mældist kl. 04:14. Hrinan er nú einkum bundin við svæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis

Svona hrinur eru ekki einsdæmi á þessu svæði, t.d. mældust um fimm skjálftar af stærð M4,9 til M5,9 við Fagradalsfjall þann 10. júní 1933.

Skjamynd-2021-02-27-085918

Uppfært kl. 17.30

Í dag hafa 21 skjálfti mælst af stærð 3 til 4,4 norðanvert Fagradalsfjall. Á milli klukkan 11:59 og 14:00 mældust 14 jarðskjálftar þeirra og nú laust fyrir klukkan fimm mældust tveir, annar 4,4 að stærð. Þessir skjálftar hafa allir fundist á höfuðborgarsvæðinu og þeir stærstu einnig á Suðurlandi, á Akranesi og í Borgarnesi. Þessi virkni er með upptök í nágrenni við stærsta skjálfta hrinunnar sem varð kl. 10:05 að morgni 24. febrúar sl. og mældist 5,7 að stærð.  

“Við höfum séð hrinur áður þar sem margir skjálftar af svipaðri stærð mælast á stuttum tíma. Þetta er sambærilegt því sem við sáum á Tjörnesbrotabeltinu síðastliðið sumar en þekkist einmitt líka í hrinum á Reykjanesskaganum”, segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. “Klassísk jarðskjálftafræði gerir frekar ráð fyrir einum meginskjálfta og svo eftirskjálftum þar sem stærsti eftirskjálfti hefur styrk sem er 1,2 minni en meginskjálftinn og aðrir skjálftar eru minni. Við höfum hinsvegar mælt 5 aðra skjálfta, til viðbótar við 5,7 skjálftann, sem hafa styrk á bilinu 4,5 og 5. Þetta mætti túlka þannig að í raun séu þetta nokkrir meginskjálftar og svo margar eftirskjálftahrinur.  Jarðskorpan er tiltölulega þunn á Reykjanesskaganum og stærstu skjálftar á þessu hrinusvæði verða ekki mikið stærri þar, einfaldlega vegna þess að jarðskorpan brotnar áður en meiri spenna getur hlaðist upp“, segir Kristín.

Myndin hér að neðan sýnir samsettar Sentinel-1 gervitunglamyndir sem bárust í morgun og spanna tímabilið 19.-25. febrúar. Gervitunglaúrvinnsla staðfestir að færslur hafa mælst á svæðinu milli Svartsengis og Krýsuvíkur en þær nema nokkrum sentímetrum. Flekaskil ganga þvert í gegnum Reykjanesskagann og eru færslurnar sem mælast með gervitunglum til marks um landrekshreyfingar þar sem Evrasíuflekinn færist í austlæga átt og Ameríkuflekinn til vesturs. Engin gögn benda til að eldgos sé yfirvofandi.

Unwrapped_icelandic--1-

Rauður litur táknar hreyfingu í átt að gervitunglinu og fjólublár hreyfingu frá gervitunglinu sem flaug vestur fyrir landið. Svörtu örvarnar yfir landakortinu tákna færslur Evrasíuflekans og Ameríkuflekans. Svörtu örvarnar í hægra horninu niðri sýna stefnu og sjónlínu gervitungls. Stærsti jarðskjálftinn að stærð 5,7 sem varð 24. febrúar síðastliðinn birtist sem rauð stjarna. Hér er myndin á PDF formi.

Gasmælisýni sem tekin voru í gær sýna óvenju há gildi af vetni. Túlkun á mælingunni liggur ekki fyrir en ekki er hægt að útiloka að hún sé til marks um kvikugas á nokkurra kílómetra dýpi sem losnað hafi í jarðskjálftunum. Engar aðrar markverðar breytingar sjást fyrir aðrar gasmælingar en vetni. Mælingarnar verða endurteknar eftir helgi. 

Uppfært kl. 12.20

Nú kl. 12:06 varð jarðskjálfti af stærð 4,4 um 2 km NA af Fagradalsfjalli. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og allt norður í Borgarnes.


Uppfært 26.02. kl. 9.10

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesi er enn í gangi. Frá því um miðnætti hafa mælst um 600 jarðskjálftar á svæðinu. Einn skjálfti af stærð 3.2 mældist núna í morgun kl. 08:37, 2,1 km austur af Fagradalsfjalli. Sskjálftinn fannst á Reykjanesskaganum og áhöfuðborgarsvæðinu. Aðrir skjálftar frá því um miðnætti hafa verið minni. Frá því að hrinan hófst hafa mælst hátt í 5000 skjálftar á svæðinu.

Uppfært 25.02. kl. 15.00

Núna kl. 14:35 varð skjálfti af stærð M3,5 rétt fyrir norðan Fagradalsfjall. Hann fannst á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu.

Hrinan er enn í gangi en rúmlega 2500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá miðnætti.

Uppfært 25.02. kl. 10.00

Tveir skjálftar yfir M3 að stærð mældust á Reykjanesskaganum í nótt. Sá fyrri mældist M3,1 að stærð kl. 00:53 og átti upptök um 4 km SSV af Fagradalsfjalli en sá síðari mældist M3,4 að stærð kl. 03:26 um 2,2 km N af Krýsuvík. Fundust báðir víða á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaganum.

Jarðskjálftahrinan er enn í gangi þó heldur hafi dregið úr fjölda kröftugra skjálfta í bili. Sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands hefur mælt um 1000 jarðskjálfta á svæðinu frá miðnætti.

Núverandi virkni á Reykjanesskaga sem í raun má rekja aftur um rúmt ár hefur verið kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu, en nú er fyrst og fremst horft á þessar tvær sviðsmyndir:

 • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
 • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5.5-6.5 að stærð.

Veðurstofan mun halda áfram að fylgjast náið með þróun mála. Mælingar hingað til gefa engar vísbendingar um kvikuinnskot í þessari hrinu en sérfræðingar Veðurstofunnar munu halda áfram að mæla gasútstreymi á svæðinu, en ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum.

Melissa Anne Pfeffer við gasmælingar á Reykjanesskaganum í gær. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Sara Barsotti)

Uppfært kl. 16.45

Í jarðskjálftahrinum eins og þeirri sem nú gengur yfir getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður eða snjóflóð fallið. Eitthvað hefur verið um skriðuföll á Reykjanesskaga vegna skjálftanna. Meðal annars féll talsvert af grjóti yfir gamla Suðurstandaveginn sem nú er aflagður. Einnig hafa tilkynningar borist af grjóthruni í Þorbirni við Grindavík, úr Keili, við Djúpavatnsleið og við Kleifarvatn.Myndir sem sýna grjóthrun í Þorbirni og var tekin í eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun. (Ljósmyndir: Veðurstofan/Esther Hlíðar Jensen)

Á bloggsíðu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar kemur fram að ef skjálftavirknin heldur áfram er talin meiri hætta á að jarðskjálftarnir komi af stað grjóthruni en öðrum ofanflóðum. Ef skjálftavirkni færist austar stækkar áhrifasvæðið og nær þá u.þ.b. yfir Reykjanesskaga, norður í Hvalfjarðarsveit, umhverfis Þingvallavatn og austur að Þjórsá. Á því svæði eru mörg fjöll sem nýtt eru til útivistar, m.a. Esjan, Hengill, Ingólfsfjall, Vífilsfell, Helgafell og Keilir. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót eða snjór getur hrunið.

Jarðskjálftahrinan minnir íbúa á þekktum jarðskjálftasvæðum á mikilvægi þess að huga að lausum innanstokksmunum og kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á vefsíðu almannavarna.


Uppfært kl. 13.58

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir í viðtali við fréttastofu RÚV að óstöðugleiki nái yfir stórt svæði. Jarðskjálftarnir í morgun hafa verið milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar. Hins vegar hafa engir skjálftar fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla á þessu ári. Þar hafa í sögunni orðið skjálftar að stærð 6,5. Það gæti verið vísbending um að það svæði sé læst og losni ekki um spennu þar nema í stærri skjálfta. „Við erum í miðjum atburði núna. Við teljum að meðan þessi óstöðugleiki er í gangi þá eru auknar líkur á því að það verði enn þá fleiri skjálftar og jafnvel stærri skjálftar“, sagði Kristín í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur í aukafréttatíma í sjónvarpi í hádeginu. „Hrinan byrjaði austan við Fagradalsfjall og svo flutti hún sig nær Krýsuvík í Núpshlíðarháls og svo hafa fleiri skjálftar dreift sér á ríflega 20 km langt svæði milli Kleifarvatns og Sýlingafells..“

Kristín segir hrinuna óvenjulega, hún sé kröftug og henni fylgi margir kröftugir skjálftar á stuttum tíma. Engar vísbendingar eru þó um gosóróa, en sérfræðingar Veðurstofunnar hafa meðal annars verið við gasmælingar á svæðinu til að meta hvort einhverjar breytingar séu merkjanlegar á gasútstreymi. Ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum:

 • Skriður og grjóthrun geta átt sér stað eftir stóra jarðskjálfta, líklegast á svæðum með óstöðugar hlíðar, bratta klettarveggi og laust efni, t.d. í nágrenni Kleifarvatns.
 • Skjálftar af stærð M5.5-6.5 geta átt sér stað á Reykjanesskaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða m.a. á höfuðborgarsvæðinu.
 • Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða hægur vindur.


Uppfært kl. 12.48

Núna kl. 12:37 varð skjálfti af stærð M4,8 við Kleifarvatn.

Uppfært kl. 11.36

Skjálftinn sem mældist M5.7 í morgun er hluti af hrinu sem hófst í kringum Krýsuvík fyrir nokkrum dögum. Frá miðnætti hafa mælst um 500 skjálftar í hrinunni. Annar skjálfti M4.2 mældist um kl. 10.27 og átti hann upptök í Núpstaðahálsi innan við 1 km NV af Krýsuvík. Hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunna numið alls 11 skjálfta yfir M4,0 að stærð frá því hrinan hófst.


Uppfært kl. 11.20
Jarðskjálftinn á Reykjanesskaga hefur fundist víða um land. Veðurstofan hefur fengið tilkynningar meðal annars úr Húnaþingi, Ólafsvík, Ísafirði og frá Hellu.

Við bendum á að vegna jarðskjálftahrinunnar eru auknar líkur á grjóthruni í  og skriðuföllum á Reykjanesskaga á meðan á hrinunni stendur.

Uppfært kl. 10.30

Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum í síðustu viku, um 100 fleiri en í fyrri viku. Mesta virknin var annars vegar við Fagradalsfjall, einkum síðari hluta vikunnar og hins vegar norðan og austan Grindavíkur. Stærsti skjálftinn við Fagradalsfjall var 2,3 að stærð þann 21. febrúar kl. 09:28 og sá stærsti við Grindavík, 2,8 þann 21. febrúar kl. 17.30. Engar tilkynningar bárust um að þessir skjálftar hefðu fundist. Þann 18. febrúar kl. 08:10 varð skjálfti 2,9 að stærð við Núpshlíðarháls. Það var stærsti skjálfti vikunnar. Um 20 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, stærsti 18. febrúar kl. 08:16 M2,8.

Athugið að skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar meðan verið er að fara yfir sjálfvirkar mælingar. Á kortum okkar birtast óyfirfarin gögn sem þýðir að þar má greina tákn um staðsetningu skjálfta utan Reykjanesskaga sem ekki eru áreiðanleg gögn.

Færsla kl. 10.15

Í dag kl. 10:05 varð skjálfti af stærð M5.7 3.3 km SSV af Keili á Reykjanesskaga. Hann fannst víða á Suðvesturhorni landsins, m.a. í Vestmannaeyjum. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og búast má við frekari eftirskjálfum.

Veður

Hversu lengi varir gosið við Fagradalsfjall?

Átta strókar sjást við gosstöðvarnar þegar þessi mynd er tekin. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson).


20.4.2021

Spá veðurvaktar um gasdreifingu

Sjálfvirk spá fyrir Fagradalsfjall og veðurathuganir

Sjá einnig færslur á Facebook og Twitter síðum Veðurstofunnar

Uppfært 20.04. kl. 15:15

Þegar um þrjátíu dagar eru liðnir frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall er eðlilegt að spyrja sig hvort hægt sé að segja til um hversu lengi eldgosið muni standa. Nýjar sprunguopnanir hafa myndast nokkrum sinnum frá því að gos hófst og nú hefur til að mynda engin kvika komið upp úr nyrsta gígnum á gosstöðvunum síðustu tvo sólarhringa eða svo.

„Það er ekki augljóst hvað það táknar varðandi framgang gossins“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofunni. „Frá því að gosið hófst fyrir um þrjátíu dögum hefur það verið síbreytilegt. Nú er engin kvika að streyma upp úr fyrsta gígnum sem opnaðist utan Geldingadala, það til dæmis endurspeglar þennan síbreytileika og ekki víst að gígurinn sé alveg sofnaður“, segir Sara. „Því er ekkert hægt að fullyrða um að það séu fyrstu merki þess að gosið sé að dvína. Þvert á móti þá sýnir nýjasta samantekt samstarfsfélaga okkar í Háskólanum að hraunflæði hefur ekki minnkað og hefur jafnvel aukist síðustu daga“, segir Sara að lokum.

Nordur_Gigur_

Loftmynd af nyrsta gígnum við gosstöðvarnar tekin sunnudaginn 18. apríl. Af myndinni að dæmi virðist engin virkni vera í gígnum. (Ljósmynd: Náttúrufræðistofnun Íslands).

Hægt að áætla mátt gossins út frá upplýsingum frá gervihnöttum

Til að meta mátt gossins er einnig hægt að notast við upplýsingar úr gervitunglum sem greina hitageislun á yfirborði jarðar. Slíkar mælingar má til dæmis sjá á vefsíðu MIROVAverkefnisins (Middle InfraRed Observation of Volcanic Activity) sem greinir og birtir nánast í rauntíma upplýsingar um frávik í hitageislun á yfirborði jarðar

ThermalAnomaly_Krisuvik_20042021

Yfirlit af vefsíðu MIROVA sem sýnir hitafrávik yfir gosstöðvunum. (Mynd: MIROVA)

30days

Skemmtileg samantekt sem sýnir hvernig hraunbreiðan frá gosstöðvunum hefur þróast. Útlínur hraunbreiðunnar eru byggðar á mælingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og úrvinnslu frá Landmælingum Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.


Uppfært 19.04. kl. 12:10

Í dag eru um 30 dagar frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall. Í samantekt frá Jarðvísindastofnun Háskólans segir að meðalhraunrennslið fyrstu 30 dagana er 5,6 m3/s. Í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. Mælingarnar á hrauninu sýna nú að nokkur aukning hefur orðið síðustu 1-2 vikur. Meðalrennslið fyrstu 17 dagana var 4,5-5 m3/s, en síðustu 13 daga er það nálægt 7 m3/s.

Samanburður við önnur gos sýnir að þrátt fyrir aukninguna er rennslið nú aðeins um helmingur þess sem kom að meðaltali upp fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Samanburður við Holuhraun sýnir að rennslið nú er 6-7% af meðalhraunrennsli þá sex mánuði sem það gos stóð. Rennslið er svipað og var lengst af í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.

Afl gossins hefur aukist samhliða opnun fleiri gíga

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit sem Jarðvísindastofnun Háskólans gaf út í morgun á mælingum á hraunflæði gossins. Niðurstöðurnar eru að heildarrennsli frá öllum gígum á sex daga tímabili, 12.-18. apríl hafi að meðalatali verið tæpir 8 m3/s. Þetta er nokkur aukning frá meðalrennslinu í gosinu og staðfesting á því að samhliða opnun fleiri gíga í síðustu viku hefur afl gossins aukist nokkuð, Flatarmál hrauns er orðið 0,9 km2 og heildarrúmmál er nú rúmlega 14 milljónir rúmmetrar.

Hraunflaedi_19042021

Gröfin hér að ofan sýna meðal annars þróun á flatarmáli og rúmmáli hrauns og hraunflæði. Sjá má að þróun á flatarmáli hraunsins er ekki jafn „línuleg“ og þróun rúmmálsins, en það er vegna þess að til að byrja með óx hraunbreiðan á þykktina innan Geldingadala frekar en að dreifa úr sér. Vinna við úrvinnslu gagna varðandi jarðefnafræði og gas stendur yfir og verða línuritin uppfærð um leið og henni er lokið

Þrívíddarlíkan af gosstöðvunum

Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er starfrækt loftljósmyndastofa þar sem unnið er að jarðfræðikortlagningu með myndmælingatækni, þar sem teknar eru ljósmyndir úr lofti og myndirnar notaðar við gerð þrívíddarlíkana. Þessi aðferð hefur nýst vel við kortlagningu á gossvæðinu í við Fagradalsfjall en með þrívíddarlíkönunum má áætla rúmmál og þykkt hraunsins, hraunrennsli og margt fleira. Hægt er að skoða þrívíddarlíkanið með því að smella á myndina hér að neðan.

Skjamynd-2021-04-19-114118

Uppfært 17.04. kl. 18:15

Upp úr klukkan þrjú í dag var staðfest að ný sprunguopnun hafi myndast við gosstöðvarnar. Um litla opnun er að ræða sem staðsett er inn á hraunbreiðu og þétt upp við annan gíg á svæðinu. Ekki er líklegt að þessi nýja opnun breyti miklu um framgang gossins.

Á fundi vísindaráðs fyrr í vikunni var talsvert rætt um möguleikan á að greina fyrirvara um nýjar sprunguopnanir. Um klukkan 13:20 í dag tóku náttúruvársérfræðingar á vakt Veðurstofunnar eftir lækkun í styrk á óróamælum næst gosstöðvunum. Staðfest hefur verið að styrkur í óróa hefur fallið í um klukkustund, eða lengur, áður en nýjar gossprungur opnast við Fagradalsfjall. Eftir að vakt Veðurstofunnar varð vör við lækkun í óróastyrk var tilkynning send á almannavarnir og björgunarsveitarmenn sendar á staðinn til þess að fylgjast vel með hvort breytingar yrði á gosvirkni eða nýjar sprungur væru að opnast. Stuttu síðar kom tilkynning frá vettvangi að ný opnun hafi myndast.

MicrosoftTeams-image--16-

Nýja opnunin sést hér fyrir miðri mynd og er staðsett þétt við gíg sem áður hafði myndast. (Ljósmynd: Almannavarnir)

Eins og rætt var á fundi vísindaráðs síðasta fimmtudag er fylgni milli þess að styrkur óróa falli og að nýtt gosop myndast. Hinsvegar eru einnig nokkur dæmi um að styrkur á óróamælum minnki án þess að ný gosop myndist. Eins er ekki hægt að greina mögulega staðsetningu á nýjum opnunum út frá óróamælingunum. Hér er hægt er að lesa stutta fróðleiksgrein um greiningu á styrk óróa og möguleg tengsl við myndun nýrra sprunguopnanna við Fagradalsfjall.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun halda áfram að vakta svæðið og fylgjast sérstaklega vel með breytingum á óróa sem gefur vísbendingar um að ný gosop gætu myndast við Fagradalsfjall.


Uppfært 15.04. kl. 16:30

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi í dag. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun, framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þá mengun sem fylgir eldgosinu.

Áfram er mesta skjálftavirkni á Reykjanesskaga norðarlega í kvikuganginum, við Litlahrút og að Keili.  Lítil aflögun mælist á þessu svæði bæði á GPS tækjum og í gervitunglagögnum.

Síðustu vikuna hafa opnast nýir gígar á sprungunni á milli Geldingadala og þess gígs sem opnaðist annan í páskum.  Þetta hefur haft áhrif á hvert hraun rennur og bunkast nú upp hraun í SA hluta Geldingadala og má búast við að það renni úr skarðinu sem þar er á næstunni.  Rætt var um hvort hægt væri að sjá fyrir þegar nýjar opnanir verða á sprungunni innan eldgosasvæðisins, en merkin eru afar lítil og erfitt að mæla þau með þeim hætti að hægt verði að vara fyrir með mikilli vissu og fyrirvara.

Hraunflæði hefur verið nokkuð stöðugt frá upphafi goss, þó hægt sé að greina litlar sveiflur inn á milli.  Ekkert bendir til þess að það sjái fyrir endan á gosinu.  Gosmengun er mest gosstöðvarnar og dvínar hratt með aukinni fjarlægð frá þeim.

Uppfært 15.04. kl.0:30

Frá því að ný gossop mynduðust á þriðjudaginn er hægt að tala um að kvika komi nú upp á 8 stöðum við Fagradalsfjall. Hraun hefur runnið frá nýjustu opnunum yfir nýja gönguslóðann – gönguleið A – það gerðist síðdegis í gær. Ekki eru komnar nýjar mælingar á heildar hraunrennsli frá gosstöðvunum en samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar sem gerðar voru áður en nýju opin mynduðust hafði hraunrennsli haldist nokkuð jafnt síðustu fjóra sólarhringa, eða um tæpir fimm rúmmetrar á sekúndu að meðaltali. Vísindaráð almannavarna mun funda í dag til að fara yfir nýjustu gögn og mælingar.

Lokað er við gosstöðvarnar í dag. Talsverð mengun var við gosstöðvarnar í gær og allnokkur verkefni hjá viðbragðsaðilum þeim tengdum. Við minnum á að hægt hér er að nálgast nýjustu gasmengunarspána og hægt er að fylgjast með loftgæðum á vefsíðu Umhverfisstofnunar, loftgaedi.is

Myndir teknar með um tveggja klukkustunda millibili. Á seinni myndinni er hraunbreiðan komin yfir nýja gönguslóðan. Ef miðað er við slóðann fyrir miðri mynd sést framrás hraunjaðarins vel. (Ljósmyndir: Almannavarnir/Björn Oddsson).

Ljósmynd tekin síðdegis á þriðjudaginn eftir að nýjustu opin mynduðust. Þarna má telja átta stróka. (Ljósmyndi: Almannavarnir/Björn Oddsson).


Uppfært 10.04. kl. 9:15

Um eða upp úr klukkan þrjú í nótt varð sólarhringsvakt Veðurstofunnar þess vör að líklega hefði enn önnur opnunin myndast við gosstöðvarnar. Við birtingu varð það ljóst á vefmyndavélum að fjórða opnunin er miðja vegu milli þeirra sem opnuðust á hádegi þann 5. apríl og á miðnætti aðfaranótt 7. apríl.

Við sjónrænt mat af vefmyndavélum virðist megin hrauntaumurinn sameinast því hraunflæði er rennur í Geldingadali úr norðri.

Við bendum á nýjustu gasmengunarspána og veðurspá fyrirgosstöðvarnar .

Eins bendum við á nýtt kort af gosstöðvunum sem er í færslunni hér að neðan, þar sem hættusvæði við Fagradalsfjall er skýrt afmarkað.

Screenshot-from-2021-04-10-05-49-39

Skjáskot af vefmyndavél á MBL tekin í birtingu í morgun.

Uppfært 09.04. kl. 20.30

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi til að ræða framgang gossins við Fagradalsfjall. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og mengun sem fylgir eldgosinu. 

Á fundinum voru einnig ræddar þær hættur sem snúa að fólki sem sækir gosstöðvarnar heim og hvaða svæði væru hættulegust með tilliti til hraunflæðis, gasmengunar og mögulegrar opnunar á nýjum sprungum.

Nýjar sprungur geta opnast án fyrirvara

Á fundinum var farið yfir GPS mælingar og gervitunglamyndir til að meta breytingar sem hafa orðið á svæðinu eftir að nýjar sprungur opnuðust. Merki um breytingar komu fram við nýjar gossprungur sem opnuðust annan í páskum og aðfaranótt þriðjudags.  Breytingarnar eru hinsvegar mjög litlar og fyrirboðar áður en sprungurnar opnast ekki greinanlegir.  Vísbendingar eru um að á svæðinu frá sunnanverðum Geldingadölum og norðaustur fyrir gossprungurnar liggi kvika grunnt og ekki hægt að útiloka að fleiri gossprungur geti opnast á næstu dögum eða vikum. Opnun nýrrar gossprungu án sjáanlegra fyrirvara gæti valdið bráðri hættu fyrir fólk.  Svæðið sem þessi hætta nær til er talið vera þar sem kvikan náði næst yfirborði eða frá suðvestur hluta Geldingadala og í norðaustur að Litla-Hrúti.

MicrosoftTeams-image--8-

Kortið afmarkar það svæði þar sem fólk getur verið í bráðri hættu vegna skyndilegra atburða sem geta orðið á gosstöðvum. Innan hættusvæðisins er allra mesta hættan á opnun fleiri gossprungna án fyrirvara og því getur fylgt skyndilegt og hratt hraunflæði sem erfitt er að forðast. Utan þessa svæðis eru einnig aðrar hættur sem fylgja framrás hrauns og uppsöfnunar gass. Á kortinu má sjá drög að nýrri gönguleið austan við hættusvæðið.

Brattar og háar brúnir á hraunbreiðunum við gosstöðvarnar geta verið óstöðugar. Stór glóandi hraunstykki geta hrunið úr þeim án fyrirvara sem getur skapað mikla hættu. Eins getur kvika skotist út undan hraunbrúninni og sú kvika getur ferðast mjög hratt.

Mesta skjálftavirknin síðustu tvær vikur er norðarlega í kvikuganginum og nær að Keili. Rétt sunnan við Keili, við Litla-Hrút, mælast grunnir skjálftar og er fylgst vel með þeirri virkni. Grunnir skjálftar geta verið vísbending um að kvika sé að leita til yfirborðs. Ekki er því hægt að útiloka að kvika nái til yfirborðs norðar yfir í kvikuganginum sem nær að Keili. 

Líkur á því að með auknu hraunrennsli aukist gasmengun

Bráðabirgðamælingar benda til þess að hraunflæði hafi frekar aukist við opnun síðustu gossprungna, en nákvæmari mælinga er að vænta í dag. Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður í Meradali og Geldingadali. 

Við opnun á fleiri sprungum og auknu hraunflæði má leiða líkur að því að magn gass frá gosstöðvunum hafi aukist miðað við það sem var þegar einungis gaus í Geldingadölum. Mesta afgösunin kemur frá gígunum en mun minna frá hraunrennslinu sjálfu, en talað er um afgösun þegar gas sem veldur mengun losnar úr kvikunni út í andrúmsloftið. 

Mikil mengun mælist í kringum gosstöðvarnar, en utan hennar dvínar hún hratt.  Veðurstofan hefur sett upp tvo gasmæla, annan við gönguleið A og hinn í Meradölum til að fá skýrari mynd af gasmenguninni næst gosstöðvunum.

Uppfært 07.04. kl. 18.15

Á myndum sem voru teknar í könnunarflugi nú síðdegis má sjá að hraunbreiðurnar úr gosopunum þremur ná nú saman. Hraun frá þriðja gosstaðnum sem opnaðist á miðnætti hefur runnið bæði til suðurs niður í Geldingadali og í norðaustur í áttina að gosopinu ofan við Meradali. Samfeld hraunbreiða er því á milli gosstaðanna þriggja sem í raun tilheyra einni og sömu gossprungunni yfir kvikuganginum við Fagradalsfjall.

BO1_07042021

Samfelld hraunbreiða er nú á milli gosstaðanna þriggja við Fagradalsfjall. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Lava_078042021_2

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu gosstaðanna þriggja með rauðu og hraunflæði úr þeim eins og staðan er síðdegis í dag. Ekki er búið að kortleggja hraunflæðið úr nýjasta gosopinu sem opnaðist á miðnætti nákvæmlega. Útlínur þess hrauns eru innan skástrikaða svæðisins og unnið út frá ljósmyndum.


Uppfært 07.04. kl. 8:45

Hraunflæðið úr nýjustu gosrásinni virðist að mestu renna niður í Geldingadali. Þessi þriðja gosrás opnaðist á miðnætti og er á milli gosstaðanna tveggja sem fyrir voru. Björgunarsveitir höfðu séð jarðsig á svæðinu í gær um 420 metrum norðaustan við upptakasvæðið í Geldingadölum sem var um 150m að lengd og um 1 metri að dýpt. Það er þar sem nýjasta gosrásin er staðsett.

Uppfært 06.04. kl. 17:50

Hraun heldur áfram að renna úr nýju sprungunum til austurs og niður í Meradali og er hraunflæði talið vera um 7 rúmmetrar/sekúndu. Til samanburðar er hraunflæði úr gígunum í Geldingadölum talið vera um. 5,5 rúmmetra/sekúndu.

New_sprungur_05042021_3--005-

Nýju gossprungurnar sem mynduðust í gær, um kl 12 á hádegi, eru um 700 m norðaustan við gosstöðvarnar, á Fagradalsfjallsheiðinni norðan við Geldingadali. Sprungurnar eru í heild um 200 m langar og eru í sömu stefnu og sprungur á fyrri gosstöðvum. Rauða línan táknar sprunguna sem opnaðist 19. mars.

BO1

Hraunið frá nýju sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Meradali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar eins og þessi mynd sýnir sem tekin var um klukkan 15 í dag. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 05.04. kl. 14:50

Myndir frá nýjum gossprungum í nágrenni gosstöðvanna í Geldingadölum sýna að um er að ræða tvær gossprungur og er miðja þeirra staðsettar um 700 metra norðaustan við eldgígana í Geldingadölum. Sprungurnar eru samtals um 100 – 200 metra langar. Hraunið frá sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Meradali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar.

Ný gossprunga

Yfirlitsmynd sem sýnir nýjar gossprungur ausutur af eldgígunum í Geldingadölum, hrauná sem rennur úr nýju sprungunum og hraun sem er að myndast í Meradölum (til hægri á myndinni.

MicrosoftTeams-image--2-

Hraunið er þunnfljótandi og rennur eftir gili í Meradali.

Ný gossprunga

MicrosoftTeams-image--7-

Ljósmyndirnar tók Björn Oddsson hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Uppfært 05.04. kl. 13.20

Ný gossprunga opnaðst um klukkan 12 í dag í grennd við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Fyrsta mat er að sprungan sé sennilega um 200 metra löng og er miðja hennar staðsett um kílómetra norðaustur af gosstöðvunum í Geldingadölum. Hraunið frá nýju sprungunni rennur niður í Meradali.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nú við gosstöðvarnar til að rýma svæðið. Flugvél með vísindamönnum er á leiðinni og munu þeir meta nánar staðsetningu og stærð nýju gossprungunnar.

Flugkóði fyrir Keflavíkurflugvöll er áfram appelsínugulur þar sem um er að ræða hraungos með lítilli sem engri öskudreifingu og er því ekki talin hætta af gosinu fyrir flugumferð.

Nýja gossprungan er vel sýnileg í gegn um vefmyndavél RÚV sem fylgjast má með á RÚV 2

Halda áfram að lesa

Veður

Áhrif loftslagsbreytinga þegar of dýru verði keyptar


Alþjóðaveðurfræðistofnunin kynnti í dag nýja skýrslu um ástand loftslags jarðar

19.4.2021

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) gaf út í dag skýrslu sem lýsir ástandi loftslags jarðar – „State of the Global Climate“. Skýrslan er samantekt unnin af fjölmörgum stofnunum og vísindamönnum og lýsir ástandi loftslags jarðar sem og afleiðingum loftslagsbreytinga.

“Loftslag jarðar er að breytast og áhrif breytinganna eru þegar of dýru verði keyptar, bæði gagnvart íbúum og náttúrunni. Við þessu þarf að bregðast og það strax í ár“, sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, þegar skýrslan var kynnt í New York í dag.

Samkvæmt skýrslunni þurftu milljónir jarðarbúa að takast á við öfgar í veðri á síðasta ári vegna loftslagsbreytinga samhliða baráttunni við kórónuveiruna. Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi hægt á hagkerfum heims virðist faraldurinn ekki hafa hægt á loftslagsbreytingum.

Síðustu sex ár þau heitustu á jörðinni frá upphafi mælinga

Árið 2020 var eitt heitasta ár á jörðinni frá upphafi mælinga. Hitamet var slegið þegar hitinn fór í 38.0 °C í Verkhoyansk í Rússlandi 20. júní, sem er hæsta hitastig sem mælst hefur norðan heimskautsbaugs. Árið 2020 fór nærri því að jafna met ársins 2016 og reyndar er munurinn á þessum tveimur árum innan óvissumarka í hnattrænum samantektum (mynd 1). Árið 2016 var ákaflega öflugur El Nino atburður í gangi í Kyrrahafi, en slíkir atburðir hækka hnattrænan hita iðulega. Árið 2020 var engu slíku til að dreifa, heldur var Kyrrahafið óvenju kalt, en slíkt gerist samfara La Nina atburðum.

Síðustu sex ár eru heitustu ár frá upphafi mælinga og síðasti áratugur einnig sá heitasti.

“Árið 2020 var óvenju heitt og það þrátt fyrir kælandi áhrif frá La Nino atburðinum” sagði prófessor Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. “Það er merkilegt að hiti ársins 2020 var sambærilegur við hita ársins 2016 þegar einn öflugasti El Nino sögunnar átti sér stað. Þetta sýnir að merkjanleg áhrif mannkyns eru nú jafnstór kröftum náttúrunnar”.

Mynd1

Mynd 1: Myndin sýnir hnattrænar hitabreytingar  síðustu 140 árin. Punktarnir sýna meðaltal hvers árs, en strikin tákna óvissumörk. Litlu munar á árunum 2016, 2019 og 2020 og því geta smávægilegar breytingar í mati á hita breytt röðinni hvaða ár er í fyrsta eða öðru sæti. Sýnd er samantektin frá Berkeley háskóla , en samantektir frá  öðrum stofnunum sýna mjög álíka niðurstöður.

Stöðugar og áframhaldandi loftslagsbreytingar

Allir mælikvarðar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra sem sýndir eru í þessari skýrslu sýna stöðugar og áframhaldandi loftslagsbreytingar, aukingu í aftakaveðrum með eyðileggingu og tjóni fyrir einstaklinga og samfélög.

„Þessi neikvæða þróun mun halda áfram árum saman óháð því hvort okkur tekst að hemja losun gróðurhúsalofttegunda“, segir prófessor Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. „Þess vegna er mikilvægt að fjárfesta í aðlögun. Fjárfesting í kerfum til að vakta og fylgjast með þróun veðurs og vara við aftakaveðrum er mikilvæg leið til að aðlagast. Hjá sumum minna þróuðum ríkjum er gap í athugunarkerfum og brotalamir í veður-, vatns- og loftslagsþjónustu“, segir Petteri.

Halda áfram að lesa

Veður

Ný gossprunga skammt frá gosstöðvum í Geldingadölum

Ný gossprunga

Ljósmynd/Almannavarnir


5.4.2021

Uppfært 05.04. kl. 14:50

Myndir frá nýjum gossprungum í nágrenni gosstöðvanna í Geldingadölum sýna að um er að ræða tvær gossprungur og er miðja þeirra er staðsett um 700 metra norðaustan við eldgígana í Geldingadölum. Sprungurnar eru samtals um 100 – 200 metra langar. Hraunið frá sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Merardali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar. 

Uppfært 05.04. kl. 13.20

Ný gossprunga opnaðst um klukkan 12 í dag í grennd við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Fyrsta mat er að sprungan sé sennilega um 200 metra löng og er miðja hennar staðsett um kílómetra norðaustur af gosstöðvunum í Geldingadölum. Hraunið frá nýju sprungunni rennur niður í Merardali.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nú við gosstöðvarnar til að rýma svæðið. Flugvél með vísindamönnum er á leiðinni og munu þeir meta nánar staðsetningu og stærð nýju gossprungunnar.

Flugkóði fyrir Keflavíkurflugvöll er áfram appelsínugulur þar sem um er að ræða hraungos með lítilli sem engri öskudreifingu og er því ekki talin hætta af gosinu fyrir flugumferð.

Nýja gossprungan er vel sýnileg í gegn um vefmyndavél RÚV sem fylgjast má með á RÚV 2

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin