Veður

Skjálftavirkni á Reykjanesskaganum

Mynd sem sýnir skjálftavirkni 6.-13. maí á svæðinu við Svartsengi. Appelsínugulir þríhyrningar eru skjálftastöðvar, bláir eru GPS mælistöðvar. (Mynd úr skjálftavefsjá Veðurstofunnar)


Ný gögn sýna glögglega það ris sem er að eiga sér stað

23.5.2022

Nýjar gervihnattamyndir hafa borist úr Sentintel-1interferogram en eru þær frá 27. apríl – 21. maí 2022. Þar sést að landris hefur verið í kringum 40-45 mm síðan að nýjasta jarðskjálftahrinan hefur staðið yfir.

23.05.-mynd20220427-20220521

Nýjustu upplýsingar sem sýnir það ris sem hefur orðið frá 27. apríl-21. maí. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin)

Um 400 jarðskjálftar mældust með SIL sjálfvirku staðsetningarkerfi Veðurstofunnar á liðnum sólarhring. Í dag 23. maí kl. 07:15 mældist jarðskjálfti af stærð 3,5 um 3 km austnorðaustan við Þorbjörn. Hans varð vart á Reykjanesskaganum og að höfuðborgarsvæðinu. Í gærkvöldi, 22. maí kl. 23:13, varð jarðskjálfti af stærðinni 3,0 á sömu slóðum. 

23.05.2022decomp

Nýjustu upplýsingar sem sýnir það ris sem hefur orðið frá 27. apríl-21. maí. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin)

Uppfært 19.05 kl 15:37

 Í dag komu ný gögn fram úr Sentinel-1 interferogram frá seinustu 12 dögum eða frá 7.-19. maí 2022.

Þar sést nokkuð glögglega það ris sem er að eiga sér stað í kringum Svartsengi, en það mælist 2-2,5 sm á tímabilinu. 20220507-20220519

Nýjustu upplýsingar sem sýnir það ris sem hefur orðið frá 7.-19. maí. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin)

Uppfært 16.05 kl 13:00

Jarðskjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaga og hafa mælst yfir 3000 skjálftar á svæðinu við Eldvörp á Reykjanesi undanfarna viku. Síðan í gær, 15. maí, hafa mælst níu skjálftar yfir 3 af stærð og tveir yfir 4 af stærð. Stærsti skjálftinn var 4,3 af stærð og varð 15. maí klukkan 17:38. Talið er að mesta skjálftavirknin sé á 4-6 km dýpri.  

Samkvæmt GPS mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR gervihnattamyndum eru færslur á yfirborði jarðar sem sýna þenslumerki sem bendir til kvikusöfnunar vestur af Þorbirni, líklega vegna kvikusöfnunar. Samkvæmt frumniðurstöðum er þetta á 4-5 km dýpi.  

Í ljósi kvikusöfnunar og þenslumerkja á Reykjanesi hefur VONA fluglitakóðinn verið færður frá grænu yfir á gulan.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafa lýst yfir óvissustigi Almannavarna frá og með 15. maí.

Csk_asc_21apr-08mai

Nýjustu gervitunglagögn úr Cosmo-SkyMed (InSAR) af Reykjanesskaga sem sýna breytingar á svæðinu frá 21. april til 8. maí. Miðja þenslunnar og jafnframt þar sem risið mælist mest er vestan við Þorbjörn upp á um það bil 1,5 sm. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Michelle Maree Parks)

14.05

Talsverð skjálftavirkni hefur mælst á Reykjanesskaganum síðustu vikuna og hefur virknin verið hvað mest við Svartsengi og í nágrenni Grindavíkur. Alls hafa um 1.700 skjálftar mælst í sjálfvirka kerfinu á þessu svæði í vikunni, sá stærsti um 2.9 að stærð.

Í frétt sem var birt í lok síðasta mánaðar kom fram að GPS mælanetið á Reykjanesskaganum sem nemur færslur á yfirborði jarðar sýnir þenslumerki sem bendir til kvikusöfnunnar á talsverður dýpi við Fagradalsfjall. GPS stöðvar í nágrenni við Þorbjörn hafa á síðustu tveimur vikum sýnt breytingar sem benda til lítilsháttar þenslu við Svartsengi. „Þessar færslur sem við sjáum eru ennþá litlar, í kringum 10-15mm þar sem þær eru mestar“, segir Benedikt G. Ólafsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands, en Benedikt í samvinnu við Jarðvísindastofnun Háskólans fylgist náið með jarðskorpuhreyfingum á svæðinu. „Færslan sem við greinum nú svipar til þeim sem við greindum á sömu slóðum fyrri hluta árs 2020“, segir Benedikt.

InSAR gervitunglamyndir sem spanna tímabilið 29. apríl – 7 maí og 21. apríl – 8. maí, sýna sambærilegar breytingar og mælst hafa á GPS stöðvunum. „Það sem við höfum lært af eldsumbrotunum á Reykjanesskaga er að aukning í skjálftavirkni og aflögun getur verið fyrirvari eldgoss, en þá er það alls ekki alltaf raunin“, segir Michelle Maree Parks, en Michelle er ein af vísindamönnum í aflögunarteymi Veðurstofunnar, sem fylgist meðal annars með landrisi. „Eins og oft áður þurfum við hreinlega að sjá hver þróunin verður. Við erum að keyra líkön til að meta t.d. á hvaða dýpi kvikan er á þessu tiltekna svæði. Eins eigum von á nýjum InSAR myndum síðar í mánuðinum og þær eru hluti af þeim gögnum sem við munum vinna úr til að átta okkur betur á þróuninni á svæðinu við Svartsengi”, segir Michelle.

Veður

Hlýnun á norðurslóðum heldur áfram að aukast hraðar en hnattræn hlýnun

Í samantektinni er norðurslóðum skipt upp í átta svæði og er fjallað um árstíðabundið yfirlit og spár fyrir hvert þeirra. Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, sá um að kynna niðurstöður fyrir árstíðarbundið yfirlit og horfur á hitastigi og úrkomu fyrir Vestnorræna svæðið (Western-Nordic).


24.6.2022

Hlýnun á norðurslóðum heldur áfram að aukast hraðar en hnattræn hlýnun. Þetta kemur fram í samantekt samráðsfundar um veðurfarshorfur á norðurslóðum, en fundurinn sem haldinn er tvisvar á ári, er hluti af Arctic Climate Forum, sem er samstarfsvettvangur ríkja á norðurslóðum.

Á síðasta áratug hefur meðalhiti flestra ára verið með því sem mest var á tímabilinu 1900-2022. Þetta á jafnt við um sumar- og vetrarhita sem ársmeðalhita, þó vissulega sé verulegur breytileiki á milli ára, einkum á kuldatímabilum.

Í samantektinni kemur einnig fram að veturinn 2022 náði útbreiðsla norðurskautsíssins hámarki tveimur vikum fyrr en í meðalári. Ef horft er til mælinga á útbreiðslu norðurskautsíssins frá 1979, hefur útbreiðsla hans á hverjum vetri verið að minnka tíu ár í röð.

Mikilvægt að draga saman yfirlit og spár um horfur á norðurslóðum

Þessi samantekt kemur í kjölfar 9. fundar Arctic Climate Forum sem haldin var á netinu 24.-25. maí 2022. Þar komu saman fulltrúar Íslands, Bandarikjanna, Kanada, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Rússlands. Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, sá um að kynna niðurstöður fyrir árstíðarbundið yfirlit og horfur á hitastigi og úrkomu fyrir Vestnorræna svæðið.

„Þessi samstarfsvettvangur, sem er undir hatti Alþjóðaveðurfærðistofnunarinnar, er mikilvægur til að nýta sérþekkingu innan hvers lands til að átta sig betur á heildarstöðu á norðurslóðum. Hópurinn tekur einnig saman veðurhorfur næsta árs, til dæmis hvað varðar hitastig, úrkomu og hafís, en spár um myndun og hörfum hafíss skiptir sum byggðarlög á norðurslóðum verulegu máli“, segir Anna Hulda.

Hlekkur á samantekt og yfirlýsingu fundarins í heildsinni (PDF)

Líkindaspá byggð á nokkrum líkönum (e. multi model ensemble probability forecast) sem sýnir líkurnar á því að meðalhiti á tímabilinu júní, júlí og ágúst 2022 verði hærri eða lægri en að jafnaði. Yfir 40% líkur eru á að meðalhiti verði hærri á öllum svæðum á norðurslóðum (gul og appelsínugul svæði). Mestar líkur á hærri meðalhita (60-70%) eru í austur- og vesturhluta Síberíu og í suðurhluta Chukchi-Bering svæðinu (rauð svæði)  (Heimild: www.wmolc.org)

Halda áfram að lesa

Veður

Land heldur áfram að rísa við Öskju

Öskjuvatn í vetrarsól í lok apríl 1999. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)


Risið er nokkuð stöðugt. Engar vísbendingar eru um að kvika sé að nálgast yfirborð.

16.6.2022

Frá því að landris fór að mælast við Öskju í byrjun ágúst 2021 hefur það haldist nokkuð stöðugt. Miðja þenslunnar er við vesturjaðar Öskjuvatns við Ólafsgíga en nærri rismiðjuni er GPS stöð sem hefur sýnt landris upp á um það bil 2.5 sm á mánuði. Í heildina hefur land risið á þessum stað um 30 sm frá því í byrjun ágúst í fyrra.

Gröfin sýna færslur á GPS stöðinni OLAC í norður, austur og upp fyrir tímabilið 19. júlí, 2021 til 12. júní, 2022. Stöðin, sem er staðsett nærri miðju landrissins (sjá yfirlitskort af stöðvunum neðar í fréttinni), sýnir að um mánaðarmótin júlí-ágúst fór ris að mælast. Vegna óblíðrar veðráttu rofnaði samband við mælistöðvarnar yfir háveturinn.

Snjóalög trufla úrvinnslu gervitunglamynda

Gervitunglamyndir frá því í byrjun september 2021 sýndu vel umfang og miðju landrissins, en ekki er hægt að styðjast við nýjar gervitunglamyndir af svæðinu þar sem snjór kemur í veg fyrir að sjá nothæft merki. Von er á nýjum gervitunglamyndum í lok þessa mánaðar sem gefa skýrari mynd af þróun mála svo lengi sem snjóalög trufli ekki úrvinnslu þeirra.

Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 1. ágúst – 20. september, 2021. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum úr Sentinel-1 (InSAR). Rauði liturinn sýnir landris og blái sig (sjá kvarða). Miðja þenslunnar og jafnframt þar sem risið mælist mest er við norðvesturhorn Öskjuvatns nærri GPS stöð (svartur þríhyrningur). (Veðurstofa Íslands/Myndvinnsla: Vincent Drouin)

Monitor-map-45x25-cm-GPS-stations-20211014_NEW

Kort sem sýnir staðsetningar á GPS mælum og öðrum búnaði Veðurstofunnar við Öskju. Stöðin OLAC sést við vesturjaðar Öskjuvatns, en gröfin hér að ofan eru frá þeirri stöð. Stöðvunum sem merktar eru JONC, KASC og TANC var bætt við í september 2021 til að efla vöktun eldstöðvarinnar í kjölfar þess að landris fór að mælast. (Veðurstofa Íslands)

Engar vísbendingar um að kvika nálgist yfirborð

Líklegast er að um innflæði kviku sé að ræða. Módelreikningar benda til að merkið eigi sér uppruna á um 2 km dýpi í jarðskorpunni.

“Eldfjöll sýna oft lotubundna virkni þar sem þau liggja svo að segja í dvala með lítilli mælanlegri virkni árum og áratugum saman en inn á milli koma virknitímabil með þennslu, jarðskjálftum og jarðhita”, segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands. Askja er virk eldstöð og þar mælast reglulega skjálftar, en síðast gaus í Öskju árið 1961. Reglulegar mælingar sýndu einnig landris á árunum 1970-1972 en hlé varð á þeim mælingum og þegar reglulegar mælingar hófust að nýju árið 1983 hafði land sigið. Síðan þá hafði mælst stöðugt landsig um 1 sm á ári þar til nú.

“Þegar kemur að Öskju er engin leið að segja til um það fyrirfram hvernig slík virknitímabil þróast, en algengast er að slíkum tímabilum ljúki án þess að til eldgoss komi. Það er ekki langt síðan það gaus þarna, ekki nema 60 ár og ef við rýnum í tölfræðina yfir þekkt gos í Öskju hefur gosið þar að meðaltali tvisvar á hverju eitthundrað ára tímabili. Það má alveg gera ráð fyrir því að þessi atburðarrás endi með eldgosi, en það er engin leið að vita með vissu. Þegar gaus þarna síðast 1961 þá var það meðalstórt hraungos sem ekki fylgdi mikil gjóska og með núverandi vöktun ættum við að geta brugðist við í tíma ef til eldgoss kemur”, segir Benedikt.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, lýsti yfir óvissustigi Almannavarna vegna landrissins í september í fyrra. Veðurstofan fylgist vel með þróun mála og mun veita upplýsingar um allar breytingar sem verða á virkninni.

Nánari upplýsingar um eldstöðina Öskju má lesa á islenskeldfjoll.is

Rekstur og viðhald á tækjum í Öskju er gríðarlega krefjandi, enda er Askja nánast á miðju hálendi Íslands og ekkert GSM samband inni í öskjunni. Samhliða rekstri GPS stöðva við Öskju eru reknir endurvarpar á norðanverðum öskjurimanum sem tengir GPS stöðvar með radíólink við umheiminn sem oft eru viðkvæmir fyrir óveðri. Á myndinni má sjá endurvarpinn á norðanverðum öskjurimanum og GPS stöðin TANC, Öskjuvatn í baksýn. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt Gunnar Ófeigsson)

Halda áfram að lesa

Veður

Tíðarfar í maí 2022

Stutt yfirlit

2.6.2022

Maímánuður var hægviðrasamur og að tiltölu hlýr á sunnanverðu landinu en kaldur á því norðanverðu. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Á Akureyri var úrkomusamt þennan mánuðinn en í Reykjavík var hlýtt og sólríkt.

Hiti

Meðalhiti maímánaðar í Reykjavík var 7,7 stig. Það er einu stigi yfir meðallagi 1991 til 2020 og 1,1 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 6,3 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en við meðallag undanfarinna tíu ára. Meðalhitinn var 5,7 stig í Stykkishólmi og 7,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 7,7 1,0 24 152 1,1
Stykkishólmur 5,7 0,1 61 til 62 177 0,0
Bolungarvík 4,6 -0,1 60 125 -0,3
Grímsey 3,5 -0,1 58 149 -0,5
Akureyri 6,3 0,1 55 142 0,0
Egilsstaðir 5,7 0,2 31 68 0,3
Dalatangi 4,3 0,1 33 84 0,1
Teigarhorn 5,6 0,3 35 150 0,5
Höfn í Hornaf. 7,0 1,0
Stórhöfði 7,0 0,8 18 146 1,1
Hveravellir 2,6 1,0 7 58 1,2
Árnes 7,7 1,2 19 143 1,5

Maí var hlýr um allt sunnanvert landið og inn til landsins á Norðausturlandi, en kaldur að tiltölu á Vestfjörðum og Norðurlandi. Jákvætt hitavik miðað við undanfarin tíu ár var mest 1,8 stig á Ölkelduhálsi. Mesta neikvæða hitavikið var -1,2 stig á Raufarhöfn.

Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur 8,7 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur -0,6 stig á Gagnheiði. Lægsti mánaðarmeðalhiti í byggð mældist 2,2 stig á Fonti á Langanesi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,5 stig á Hjarðarlandi þ. 29. Lægstur mældist hitinn -10,4 stig á Gagnheiði annan dag mánaðarins. Lægsti mældi hiti í byggð var -8,6 stig á Þingvöllum sama dag.

Úrkoma

Heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 44,0 mm, eða um 84% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 50,6 mm í maí, en það er rúmlega tvöföld meðalúrkoma maímánaðar á tímabilinu 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 59,9 mm sem er 49% umfram meðallag maímánaðar árin 1991 til 2020.

Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri var 11 í Reykjavík, einn dag umfram meðallag tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman einnig 1,0 mm eða meiri 11 daga mánaðarins, en þar er það er sex dögum oftar en í meðalári.

Snjór

Jörð var alauð allan mánuðinn í Reykjavík en hún var flekkótt þrjá morgna mánaðarins á Akureyri.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir mánaðarins 259,3, en það er rúmum 50 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist 184,1 sólskinsstund í maí, eða 13,1 stund yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 10 (NNA-átt) og þ. 12. (NNA-átt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1006,6 hPa, en það er 6,4 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1034,1 hPa á Grundarfirði þ. 29. Lægsti mældi loftþrýstingur mánaðarins var 987,4 hPa á Keflavíkurflugvelli þ. 25.

Fyrstu fimm mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins mældist 3,0 stig, eða 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,1 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn í Reykjavík raðast í 24. sæti á lista 152 ára. Meðalhiti janúar til maí var 2,0 stig á Akureyri. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri raðast meðalhiti mánaðanna fimm í 22. sæti á lista 142 ára.

Það hefur verið úrkomusamt í Reykjavík það sem af er ári. Maí var fyrsti mánuður ársins með úrkomu undir meðallagi og sólskinsstundafjölda umfram meðallag í Reykjavík. Heildarúrkoma ársins hingað til mældist 57 % umfram meðalúrkomu fyrstu fimm mánaða áranna 1991 til 2020, eða 580,9 mm. Aðeins einu sinni hefur heildarúrkoma janúar til maímánaða mælst meiri en í ár, en það var árið 1921 þegar það mældust 629,6 mm í Reykjavík. Á Akureyri mældist heildarúrkoma fyrstu fimm mánaða ársins 248,8 mm, eða 18% umfram meðallag tímabilsins 1991 til 2020.

Vorið

Vorið var hægviðrasamt og hlýtt, en meðalhiti vorsins var yfir meðallagi á landinu öllu (vik frá meðallagi áranna 1991 til 2020; vik frá meðallagi áranna 2012 til 2021). Meðalhitinn mældist 6,4 stig í Reykjavík (1,2; 1,1), 5,4 stig á Akureyri (1,0; 0,7), 4,9 stig í Stykkishólmi (0,7; 0,4) og 4,4 stig á Egilsstöðum (0,7; 0,6).

Vorúrkoma í Reykjavík var 115,6 mm, eða 0,3 mm umfram meðallag undanfarins áratugar. Það er 4 mm umfram meðalvorúrkomu 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 64,5 mm þetta vorið sem er 14,2 mm umfram meðallag áranna 1991 til 2020 og 12,4 mm umfram meðaltal síðustu tíu ára.

Í Reykjavík var apríl þungbúinn en maí sólríkur. Í heildina voru sólskinsstundir vorsins 20,1 umfram meðallag undanfarins áratugar og 20,2 umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 20,3 fleiri sólskinsstundir en að meðallagi tímabilsins 1991 til 2020, en fjöldi sólskinsstunda var 7,4 stundum undir meðaltali síðustu tíu ára.

Skjöl fyrir maí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin