Innlent

Skrifa undir samstarfssamning vegna frekari rannsókna á sviði fæðingarorlofs

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Stefán Hrafn Jónsson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, hafa skrifað undir samstarfssamning sem snýr að frekari rannsóknum á sviði fæðingarorlofsmála. Um er að ræða samstarf vegna rannsóknarinnar Taka og nýting á fæðingarorlofi meðal foreldra á Íslandi, en markmið hennar er að meta hvernig íslensk löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof nýtist foreldrum og horft verði sérstaklega á áhrif þeirra auknu réttinda sem hafa verið innleiddar á síðustu 3 árum. Samningurinn gildir frá 1. desember 2020 til 1. desember 2023.

Rannsókninni er skipt í þrjá megin rannsóknarþætti:

1) Rannsókn sem byggir á fyrirliggjandi gögnum Fæðingarorlofssjóðs þar sem afurðin verður söguleg samantekt á nýtingu fæðingarorlofs.

2) Tvær megindlegar kannanir, annars vegar meðal foreldra sem hafa nýtt rétt sinn hjá sjóðnum og hins vegar meðal foreldra sem ekki hafa sótt til sjóðsins. Afurðir þessa hluta verða gagnaskrár með svörum foreldra við spurningum kannananna og skýrslur um niðurstöður beggja rannsóknanna.

3) Greining á þeirri stefnumótun sem lá til grundvallar löggjöfinni árið 2000. Afurðir þessa hluta verða fræðilegar greinar til birtingar í íslenskum og alþjóðlegum tímaritum um stefnumótun sem lá til grundvallar lagasetningunni árið 2000.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er gleðiefni að tryggja frekari rannsóknir á fæðingarorlofslöggjöfinni. Við höfum lagt mikla áherslu á að endurreisa fæðingarorlofskerfið með tugmilljarða aðgerðum á þessu kjörtímabili og mikilvægur hluti af því er að halda áfram að greina áhrif þessara aðgerða. Rannsóknin sem nú fer af stað mun veita okkur mikilvæga þekkingu um áhrif þessara aðgerða á næstu árum.“

Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Halda áfram að lesa

Alþingi

Forsætisnefnd afgreiðir erindi um siðareglumál

12.5.2021

Forsætisnefnd afgreiddi á fundi sínum 10. maí erindi sem henni barst 18. apríl sl. frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann óskaði álits forsætisnefndar á því hvort ummæli hans í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. stæðist siðareglur alþingismanna. Niðurstaða forsætisnefndar er birt í meðfylgjandi bréfi til Björn Levís Gunnarssonar

Var niðurstaðan sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglnanna.

Halda áfram að lesa

Innlent

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að landlæknir veiti upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna COVID-19 bólusetningar. Einkum með tilliti til þeirra sem, af heilsufarslegum ástæðum, telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin