Veður

Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar komið á fót á Veðurstofu Íslands

Ársfundurinn var fjarfundur sendur út frá Norðurljósasal Hörpu. (Ljósmynd: Veðurstofan/Haukur Hauksson)


Skrifstofan er mikilvægur vettvangur til að styðja stefnu stjórnvalda um aðlögun vegna loftslagsbreytinga sem nú er í smíðum

5.5.2021

Ársfundur Veðurstofu Íslands val haldinn í morgun undir yfirskriftinni „Brú milli vísinda og samfélags – Leiðin til aðlögunar vegna loftslagsbreytinga.

Atburðir undanfarinna missera hafa leitt í ljós hversu viðkvæmt samfélagið er fyrir náttúruvá og að þegar slæmar sviðsmyndir ganga eftir skipta innviðir, stofnanaumgjörð og undirbúningur lykilmáli. Loftslagsbreytingar eru náttúruvá og þeim fylgja margháttaðar áskoranir og ljóst er að um langt skeið verður þörf á vöktun á umfangi þeirra og víðtækri aðlögun að áhrifum þeirra. Ef samfélagið mætir þessum áskorunum á skipulegan hátt má draga úr því tjóni sem loftslagsbreytingar valda, og nýta þjóðinni til hagsbóta þær breytingar sem gefa tilefni til slíks. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði ársfundinum og þar þakkaði hann starfsfólki Veðurstofunnar fyrir vel unnin störf á síðustu misserum við að takast á við ólíkar áskoranir sem fylgja þeirri náttúruvá sem við búum við á Íslandi. Ráðherra talaði um stefnu stjórnvalda til að takast á við loftslagsbreytingar. Á fundinum tilkynnti Guðmundur Ingi að ákveðið hefði verið að veita fjármagni til að koma á fót skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.

Nýja skrifstofan verður „brú milli vísinda og samfélags“

Með stofnun skrifstofu um loftslagsþjónustu og aðlögun verður til vettvangur sem mun þjónusta brýn verkefni á sviði aðlögunar, leggja til sviðsmyndir að loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, auk vöktunar á afleiðingum. Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar verður vettvangur  fyrir vísindasamfélagið, fagstofnanir og hagaðila hvað varðar aðlögun auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og sinna miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings.

„Það að takast á við loftslagsbreytingar er stærsta verkefni samfélagsins um ókomin ár og vöktun, rannsóknir og miðlun upplýsinga hvað varðar loftslagsbreytingar er að verða sífellt stærri og mikilvægari þáttur í hlutverki Veðurstofunnar”, sagði Árni Snorrason í ræðu sinni á ársfundinum.  “Á sama hátt og við bregðumst við þegar náttúruvá á borð við eldgos á Reykjanesskaga dynur yfir eða ofanflóð á Seyðisfirði, þarf samfélagið að beita réttum aðgerðum við að vakta og takast á við loftslagsbreytingar. Þær aðgerðir þurfa að byggja á vísindalegum grunni og þá tölum við gjarnan um að mynda “brú milli vísinda og samfélags”, sagði Árni.

Sameiginlegur vettvangur fagstofnanna og hagaðila

Veðurstofa Íslands mun veita skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar forystu, en skrifstofan verður sameiginlegur vettvangur háskólasamfélagsins, Rannís, fagstofnana og hagaðila. Veðurstofan, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Skipulagstofnun eru þær fagstofnanir sem hafa hvað skýrast hlutverk þegar kemur að aðlögun vegna loftslagsbreytinga og er það byggt á niðurstöðum Loftslagsskýrslunnar frá 2018. Á þessum stofnunum er fjöldi starfsfólks sem sinnir vöktun og rannsóknum vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Þeirra framlag mun mynda grunninn að þeim rannsóknum, mælingum, fróðleik og öðrum gögnum sem skrifstofan mun miðla og nýta til að sinna hlutverki sínu. Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar verður því umgjörð fyrir samvinnu vísindasamfélagsins, vísindanefndar og hagaðila.

Loftslagsbreytingar og þjóðarhagur

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands flutti erindi á fundinum þar sem hún meðal annars fór yfir hvernig loftslagsaðgerðir móta áhrif á þjóðarhag. „Ef viðbrögð við loftslagsbreytingum eru vandlega ígrunduð og byggja á upplýstri og samhæfðri ákvarðanatöku geta þau haft jákvæð áhrif á þjóðarhag. En það sé mikilvægt að hefjast handa strax þar sem bæði mótvægisaðgerðir og aðlögun taka tíma“ sagði Brynhildur meðal annars í erindi sínu. Hún lagði einnig áherslu á að vísindi aðlögunar gengu þvert á fræðasvið.

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands velti fyrir sér spurningunni; „Hvað gerist í náttúrinni sem við þurfum að aðlagast?“. Hann sagði að það séu miklar breytingar sjáanlegar á veðurfari síðusta áratuga sem hafa haft mikil áhrif á náttúrufar á landi og í hafi og á því verði áframhaldandi þróun á næstu áratugum. Sumar afleiðingar má flokka sem náttúruvá. „Viðbrögð við þessari nýju vá þarf að skipuleggja líkt og áhættustýringu við annarri náttúruvá“, sagði Halldór í erindi sínu og sagði að veruleg þörf væri á aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs stýrði pallborðsumræðum með fulltrúum sveitarfélaga, stofnanna og fyrirtækja fá þeirra sýn á áskoranir samfélagsins og nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Þátttakendur í pallborðinu voru sammála um að áskoranir vegna loftslagsbreytinga væru miklar og fjölbreyttar og að skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar væri mikilvæg til að samþætta aðgerðir innan samfélagsins.

Í pallborðinu voru (frá vinstri): Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, Eygerður Margrétardóttir, sérfræðingur í umhverfis og úrgangsmálum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hjálmar A. Sigþórsson, framkvæmdastjóri TM trygginga, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Þor­kell Lind­berg Þór­ar­ins­son, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs stýrði umræðum (Ljósmynd: Veðurstofan/Haukur Hauksson)

Loftslagsþjónustu fyrir samfélagið

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar sagði að það hafi verið unnið að þessari hugmynd um skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hér á Veðurstofunni í nokkurn tíma. “Hjá systurstofnunum okkar erlendis eru þetta svokölluð Climate Service Centres – sem er þá meðal annars „loftslagsþjónusta“, eins og við köllum það, sem styður aðlögun þessara ríkja. Markmiðið með þessari skrifstofu er ekki síst að ná fram meiri virðisauka í þeirri þekkingu sem liggur í fagstofnunum og miðla henni af meiri krafti en áður”, sagði Árni.

Nú er vinna á lokametrunum við gerð hvítbókar eða tillögu að stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum. Í þeirri vinnu hefur komið fram að  ólíkar stofnanir hafa mikilvægt hlutverk hvað varðar aðlögun vegna loftslagsbreytinga. Þannig að hér er líka tækifæri að skerpa áherslurnar í starfi ýmissa fagstofnanna bæði á sviði náttúru- og félagsvísinda  til þess að auka framboð á heilstæðri loftslagsþjónustu fyrir samfélagið.

Alþjóðlegur vettvangur samstarfs er mikilvægur þegar kemur að aðlögun

Veðurstofa Íslands er tengiliður (National Focal Point) við Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) í umboði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC eru vísindalegar forsendur fyrir þeim alþjóðlegu aðgerðum sem farið hefur verið í til að uppfylla Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans (Kyoto og Parísarsamninginn). Einnig leggja þær vísindalegan grunn að áhættumati gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga og aðlögun að þeim. Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar er enn fremur ætlað að vera tengiliður við alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðaveðurfræðistofnunina (WMO) og ESB Kópernikusaráætlunina um vöktun jarðar.

Skýrslur IPCC leggja jafnframt ákveðinn grunn að skýrslum Vísindanefndar en sú nýjasta kom út á vormánuðum 2018: Loftslagsbreytingarog áhrif þeirra á Íslandi . Í þeirri skýrslu var farið yfir umfang breytinga og ummerki þeirra hér á landi á liðnum áratugum og auk þess fjallað um líklegar breytingar og afleiðingar þeirra á næstu áratugum. Nýrri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar er ætlað að styrkja starf Vísindanefndar og sinna miðlun og útgáfu á skýrslum nefndarinnar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi.

Veður

Hraunflæðilíkön hafa sannað sig í eldgosinu við Fagradalsfjall

Hraun streymir úr Geldingadölum niður í Nátthaga 13. júní.


Samstarfsverkefni Veðurstofunnar og Háskólans um frekari þróun hraunflæðilíkana

22.6.2021

Eldgosið sem hófst í Geldingadölum 19. mars hefur nú staðið viðstöðulaust í nær þrjá mánuði. Á þeim tíma hefur gosið skipt um takt nokkrum sinnum.  Nýir gígar opnast og lokast, hraunrennslið aukist og samsetningu þess breyst. Eldgosið hefur verið talsverð áskorun fyrir vísindamenn ekki síst þegar kemur að því að spá fyrir um farveg og hegðun hraunflæðis frá eldstöðvunum.

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa verið í samstarfi um notkun og þróun hraunflæðilíkana í verkefni sem styrkt er af Rannsóknarsjóði á vegum RANNÍS. Hraunflæðilíkön voru fyrst notuð í gosinu í Holuhrauni fyrir um sex árum síðan, en það er fyrst núna í eldgosinu við Fagradalsfjall sem veruleg þróun hefur átt sér stað í notkun þeirra hér á landi.

“Við teljum að í eldgosinu við Fagradalsfjall hafi hraunflæðilíkön virkilega náð að sanna sig”, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. “Líkönin hafa nýst viðbragðsaðilum við að meta hvaða innviðir eru mögulega í hættu vegna hraunflæðis sem og að stýra umferð og bæta öryggi fólks við eldstöðvarnar. Þannig að við teljum að þessi líkön hafi komið að góðum”, segir Sara.

Það er óljóst hversu lengi eldgosið mun standa, en mikilvægt að reyna að spá fyrir um mögulegar hættur og tjón á innviðum eftir því hver framvindan verður. Nú beinist athyglin að Nátthaga suður af gosstöðvunum og áhrif hraunflæðis þaðan á Suðurstrandarveg og svæðið niður að sjó.

Unnið að frekari þróun hraunflæðilíkana

„Þegar kemur að því að spá fyrir um hvernig náttúruöflin haga sér þá er alltaf talsverð óvissa í spilunum og það er eins með hraunflæðilíkönum“ segir Dr. Gro Birkefeldt Möller Pedersen, rannsóknasérfræðingur hjá Háskóla Íslands, en hún hefur leitt þetta samvinnuverkefni milli háskólans og Veðurstofunnar. „Jafnvel þó svo að hraunflæði mælist stöðugt frá eldstöðinni þarf að taka tilliti til óreglulegs flæðis og sífeldra breytinga á farvegum hraunsins sem sumir eru liggja nú undir hraunhellunni á nokkrum stöðujm. Allt þetta skapar ákveðna óvissu í niðurstöðunni“, segir Gro. Þegar reyna á að spá fyrir um hvort og þá hvenær hraun geti mögulega flætt yfir Suðurstrandaveg og síðan niður að sjó, bætist við óvissa um hversu lengi það tekur fyrir svæðið í Nátthaga að fyllast áður en hraun fer að flæða niður úr dalnum. „Við höfum sett upp tvær sviðsmyndir, „minni“ og „stærri“, fyrir mögulegt hraunflæði úr Nátthaga, þar sem gert er ráð fyrir mismiklu magni af hrauni“, segir Gro. „Stærri sviðsmyndin sýnir mögulega stöðu á hraunbreiðunni í sumar eða byrjun hausts, að öllu óbreyttu en síðan er alltaf þessi óvissa um hvenær hraun byrjar að flæða suður úr Nátthaga“, segir Gro.

Nattahaga_lava_model_22062021

(Smelltu á myndina til að sjá hana stærri). Líkanið sýnir tvær sviðsmyndir af mögulegu hraunflæði suður úr Nátthaga. Sviðsmyndirnar gera ráð fyrir hraunflæði upp á 3.1 km3 annars vegar og 29 km3 hinsvegar. Talsverð óvissa ríkir um hversu lengi það tekur fyrir svæðið í Nátthaga að fyllast áður en hraun fer að flæða niður úr dalnum. (Líkan: Veðurstofan/Háskóli Íslands/Gro Birkefeldt Möller Pedersen)

„Þegar kemur að hraunflæði er ef til vill ekki eins mikilvægt að svara spurningunni um hvenær hraun nái ákveðinni útbreiðslu eins og hver mögulegur farvegur hraunsins verði“ segir Sara. „Í því samhengi teljum við að hraunflæðilíkön geti áfram nýst okkur vel við gerð viðbragðsáætlanna“.

Halda áfram að lesa

Veður

Deildarmyrkvi á sólu á Íslandi 10. júní

Deildarmyrkvinn líkt og hann mun líta út í Reykjavík 10. júní kl. 10:17. Þá skyggir tungl á 69% af þvermáli sólar og veldur 61% myrkvun. Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.


Almyrkvi mun sjást á Íslandi eftir fimm ár

8.6.2021

Deildarmyrkvi á sólu mun sjást á Íslandi 10. júní næstkomandi.  Í deildarmyrkva fer tunglið fyrir hluta sólarinnar, en ekki verður almyrkvi.  Í Reykjavík hefst myrkvinn kl. 09:06 og lýkur kl. 11:33.  Hann verður mestur kl. 10:17, en þá skyggir tungl á 69% af þvermáli sólar og veldur 61% myrkvun. Mesta myrkvun á Íslandi verður breytileg eftir landsvæðum, 56-65% og tímasetningu getur skeikað um nokkrar mínútur frá Reykjavík.  Skýjafar og veður hafa mikil áhrif á hversu vel myrkvinn sést.

„Þetta verður mesti sólmyrkvi á Íslandi frá því fyrir sex árum, 20. mars 2015, en þá varð 98% myrkvun í Reykjavík og yfir 99% á Austfjörðum, en þá sást almyrkvi á Svalbarða og í Færeyjum“ segir Þórður Arason, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Því miður lítur ekki vel út með veðrið á fimmtudaginn og stefnir í rigningu víða um land, en þó er ekki útilokað að það rofi til smástund einhversstaðar“, segir Þórður og minnir á að til að vernda augun er nauðsynlegt að hafa sérstök gleraugu við að skoða sólmyrkva!

Nauðsynlegt er að hafa sérstök sólmyrkvagleraugu við að skoða sólmyrkva, til að vernda augun.  (Ljósmynd: Veðurstofan / Þórður Arason).

Þessi myrkvi mun hvergi sjást á jörðinni sem almyrkvi, en mun koma fram sem hringmyrkvi við sólarupprás í Ontario í Kanada, færist svo hratt í norður, yfir norðurhluta Grænlands og endar í Síberíu.  Við hringmyrkva er tunglið of langt frá jörðu til að hylja alla sólina og sólin nær að skína hringinn í kringum tunglið.

Almyrkvi á sólu mun sjást á Íslandi eftir fimm ár

Eftir fimm ár, 12. ágúst 2026 um kl. 17:45, verður fyrsti almyrkvi á sólu á Íslandi síðan 1954, og sá þrettándi frá landnámi.  Almyrkvinn mun sjást á öllu vestanverðu landinu og mun vara í 1 mín í Reykjavík, en lengst 2 mín 13 s á Bjargtöngum.  Almyrkvi á sólu sást síðast í Reykjavík árið 1433.

Braut almyrkvans 12. ágúst 2026, miðjan er sýnd með rauðri línu og breidd skugga almyrkvans afmarkast af bláu línunum.  Almyrkvinn verður lengstur í punkti GE á Breiðafjarðarmiðum, 2 mín 18 s.  (Kort: NASA).

Halda áfram að lesa

Veður

Tíðarfar í maí 2021

Stutt yfirlit

2.6.2021

Maí var kaldur og þurr. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fram eftir mánuðinum, það var kalt og óvenju úrkomulítið um land allt. Gróður tók lítið við sér og sinueldar voru tíðir. Það tók svo að hlýna og rigna í lok mánaðar. Sólskinsstundir mældust óvenjumargar í Reykjavík.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í maí var 5,7 stig og er það -1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig -1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,7 stig, -1,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,4 stig og 4,2 stig á Höfn í Hornafirði. Maíhitinn var sá kaldasti á öldinni á Egilsstöðum, Dalatanga, Teigarhorni og á Höfn.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 5,7 -1,1 105 151 -1,1
Stykkishólmur 4,4 -1,3 112 til 114 176 -1,4
Bolungarvík 3,6 -1,1 90 124 1,2
Akureyri 4,7 -1,5 98 141 -1,7
Egilsstaðir 3,0 -2,5 60 67 -2,6
Dalatangi 2,4 -1,9 73 83 -2,0
Teigarhorn 3,3 -2,0 121 til 123 149 -2,0
Höfn í Hornaf. 4,2 -2,1
Stórhöfði 4,8 -1,4 129 145 -1,3
Hveravellir -0,4 -2,0 50 57 -2,0
Árnes 4,8 -1,7 114 142 -1,6

Meðalhiti og vik (°C) í maí 2021

Maí var mjög kaldur um allt land og meðalhitinn alls staðar vel undir meðallagi. Að tiltölu var kaldast austanlands en hlýrra vestanlands. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -3,4 stig á Kárahnjúkum en minnst -0,5 stig á Gjögurflugvelli.

Hitavik sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2011-2020).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 5,8 stig við Garðskagavita en lægstur var hann á Gagnheiði -4,0 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 0,2 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,4 stig á mönnuðu stöðinni á Akureyri þ. 28. Á sjálfvirku stöðvunum mældist hæsti hitinn 20,3 stig þ. 27. á Staðarhól og í Húsafelli. Mest frost í mánuðinum mældist -14,0 stig á Setri þ. 11. Mest frost í byggð mældist -9,7 stig á Brú á Jökuldal.

Úrkoma

Maí var þurr um land allt. Óvenju lítið rigndi fyrstu 3 vikur mánaðarins. Sinueldar voru tíðir.

Úrkoma í Reykjavík mældist 38,9 mm sem er 74% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 14,9 mm sem er 62% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 20,1 mm og 20,9 mm í Höfn í Hornafirði. Nánast úrkomulaust var á Höfn þar til þ. 28.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 7, þremur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 3 daga mánaðarins, tveimur færri en í meðalári.

Snjór

Alautt var í Reykjavík og á Akureyri allan mánuðinn.

Sólskinsstundafjöldi

Mánuðurinn var mjög sólríkur.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust óvenju margar eða 355,0 sem er 126 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar hafa aldrei mælst eins margar í Reykjavík í maímánuði. Fyrra sólskinsstundarmet maímánaðar í Reykjavík var frá 1958, 330,1 stund.

Hafa ber þó í huga að skipt var um mæliaðferð í Reykjavík síðastliðin áramót. Hætt var að mæla sólskinsstundir með svokölluðum Campbell–Stokes mæli, þar sem sól skín í gegnum glerkúlu og brennir rauf í blað sem þar er komið fyrir. Skipt var um blað einu sinni á sólarhring og lengd randarinnar á blaðinu mæld. Nú er notast við sjálfvirkan sólskinsstundamælir. Örlítill munur er á mælunum tveimur, mestur á heiðríkum dögum, en þá mælir sjálfvirki mælirinn meira en sá gamli. Því má ætla að sólskinsstundirnar í Reykjavík í maí 2021 hafi jafnað metið frá því 1958.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 206,6, sem er 35,6 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var jafn meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum fram til þess 25. Þá tóku suðaustlægar áttir við.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1017,5 hPa og er það 4,5 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1030,9 hPa á Flateyri þ. 1. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 997,7 hPa í Bolungarvík þ. 30.

Fyrstu fimm mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins var 2,8 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 33. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fimm 1,3 stig. Það er 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 40.sæti á lista 141 ára.

Þurrt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári. Heildarúrkoma mánaðanna fimm var 232,4 mm sem er 63% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Mánuðirnir fimm hafa ekki verið jafnþurrir frá 1995 í Reykjavík. Á Akureyri hefur heildarúrkoma mánaðanna fimm mælst 215,8 mm sem er rétt yfir meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Meðalloftþrýstingur ársins heldur áfram að vera óvenjuhár.

Vorið

Vorið var kalt, þurrt og sólríkt. Gróður fór seint af stað.

Meðalhiti vorsins var alls staðar undir meðallagi áranna 1991 til 2020 (vik miðað við síðustu tíu ár eru innan sviga). Hann var -0,6 stigum undir í Reykjavík (-0,8), -0,6 stigum undir á Akureyri (-1,0), -0,6 stigum undir í Stykkishólmi (-1,0) og -1,3 stigum undir á Egilsstöðum (-1,6).

Í Reykjavík var úrkoman um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var heildarúrkoma vorsins um 60% af meðalúrkomu og í Stykkishólmi var hún um 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Vorið var mjög sólríkt bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Skjöl fyrir maí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin