Connect with us

Innlent

Skýrsla Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra komin út​

Published

on

Grænlandsnefnd utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur skilað af sér ítarlegri skýrslu með tillögum um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum. Ráðherra kynnti utanríkisráðherra Grænlands skýrsluna í gær.

Guðlaugur Þór skipaði nefndina í apríl 2019. Formaður hennar er Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, en aðrir fulltrúar eru þau Unnur Brá Konráðsdóttir og Óttarr Guðlaugsson.

Skýrslan ber heitið Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum. Í henni forgangsraðar nefndin tíu tillögum til stefnumörkunar og leggur til að Grænland og Ísland geri með sér rammasamning um samstarfssvið í framtíðinni. Samtals eru tillögur nefndarinnar 99 talsins og fjalla um möguleika á auknu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og stofnana, einkageirans, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar.

Að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra markar skýrslan tímamót enda hefur utanríkisráðuneytið aldrei fyrr ráðist í jafn umfangsmikla greiningu á samskiptum landanna tveggja.

„Ég tel mikilvægt að hefja sem fyrst samtal og samvinnu við grænlensk stjórnvöld um framkvæmd tillagnanna. Tillögurnar eru afbragðs grundvöllur til að skilgreina sameiginlegar áherslur og sameiginleg viðfangsefni landanna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Að baki tillögum nefndarinnar er umfangsmikil og ítarleg greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna. Skoðuð var breytt staða landanna vegna aukins áhuga stórveldanna á norðurslóðum. Einnig er viðamikil skoðun á helstu atvinnugreinum s.s. sjávarútvegi, ferðaþjónustu og námuvinnslu.

Guðlaugur Þór kynnti Steen Lynge, utanríkisráðherra Grænlands, skýrsluna á fjarfundi þeirra í gær. „Það var bæði ánægjulegt og áhugavert að heyra skoðanir Lynge á skýrslunni enda gerði hann góðan róm að efni hennar. Við sammæltumst um að vinna að rammasamningi milli landanna þar sem lýst væri markmiðum á tilgreindum samstarfssviðum. Jafnframt lagði Lynge til að við myndum kynna skýrsluna sameiginlega á Hringborði norðurslóða í haust,“ segir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Ég hef einnig sett í gang vinnu við þingsályktunartillögu sem ég hyggst leggja fram á vorþingi, þar sem lýst er vilja og markmiðum Íslands um aukið samstarf landanna.“

Í skýrslunni er fjallað um land og samfélag, stjórnskipulag og stjórnmál í Grænlandi, innviði í uppbyggingu, meðal annars umtalsverða uppbyggingu flugsamgangna og sjóflutninga. Sérstaklega er fjallað um Austur-Grænland og þau sérstöku viðfangsefni sem þar er við að etja.

Nefndin heimsótti Grænland þar sem hún hélt fjölmarga fundi með heimamönnum. Einnig fundaði nefndin með miklum fjölda íslenskra fyrirtækja, stofnana og frjálsra félagsamtaka.

Löndin eiga nú þegar mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta meðal annars á sviði sjávarútvegs, flugþjónustu, stjórn flugumferðar, ferðaþjónustu og málefna norðurslóða. Aukin samvinna um heilbrigðismál, menntamál og stoðþjónustu við námuvinnslu gætu orðið mikilvæg samstarfssvið í framtíðinni.

Á alþjóðavettvangi eiga löndin þegar vaxandi samstarf þar sem norræn og vestnorræn samvinna ber hæst og einnig samstarf innan Norðurskautsráðsins.

Innlent

Ísland leggur fram 285 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Jemen

Published

on

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tilkynnti um 285 milljóna króna heildarframlag Íslands, til þriggja ára, á áheitaráðstefnu um Jemen í dag. Framlagið skiptist á milli þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna, sem vænta þess að áheitaráðstefnan skili 3,85 milljörðum bandarískra dala, tæplega 500 milljörðum íslenskra króna. Ekki verður ljóst fyrr en í lok ráðstefnunnar undir kvöld hvort sú fjárhæð náist.

„Jemenska þjóðin er á barmi hungursneyðar sem er sú skelfilegasta sem við höfum séð í áratugi. Þörfin fyrir árangursríka, skilvirka og skipulagða fjármögnun mannúðaraðgerða í Jemen hefur því aldrei verið eins brýn,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi á ráðstefnunni fyrr í dag sem fór fram gegnum fjarfundabúnað með þátttöku rúmlega eitt hundrað fulltrúa ríkisstjórna.

Guðlaugur Þór greindi frá því í ávarpinu að framlag Íslands skiptist á milli þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna sem allar væru áherslustofnanir í stefnu Íslands í mannúðarmálum. Um er að ræða svæðasjóð vegna Jemen hjá samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Af 95 milljóna króna árlegu framlagi næstu þrjú árin ráðstafar UNFPA 40 milljónum, WFP 30 milljónum og svæðasjóður OCHA 25 milljónum.

„Íbúar Jemens hafa þjáðst of mikið og of lengi. Það þarf að binda enda á átökin með varanlegri pólitískri lausn,“ voru lokaorð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á áheitaráðstefnunni í dag.

„Lífið er á þessari stundu óbærilegt fyrir flesta íbúa Jemen,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu áður en ráðstefnan hófst. Hann sagði jafnframt að börn í Jemen upplifðu bernskuna sem „sérstaka tegund af helvíti“ og brýnt væri að koma á friði og takast á við afleiðingar átakanna. 

Áheitaráðstefnur sem þessar hafa jafnan verið haldnar árlega frá því stríðið í Jemen hófst fyrir tæplega átta árum. Markmið þeirra er að tryggja nauðsynlegan mannúðarstuðning við óbreytta borgara í Jemen en hvergi í heiminum er neyðarástand talið alvarlegra. Um átta af hverjum tíu íbúum þurfa á mannúðaraðstoð að halda og ástandið versnar dag frá degi.

Á síðasta ári var af hálfu Íslands varið 105 milljónum íslenskra króna til mannúðarmála í Jemen, 65 milljónum var ráðstafað til UNFPA og 40 milljónum til WFP.

Continue Reading

Alþingi

Sérstök umræða um innviði og þjóðaröryggi þriðjudaginn 2. mars

Published

on
1.3.2021Þriðjudaginn 2. mars um kl. 13:45 verður sérstök umræða um innviði og þjóðaröryggi. Málshefjandi er Njáll Trausti Friðbertsson og til andsvara verður forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir.

NjallTrausti_KatrinJak

Continue Reading

Innlent

COVID-19: Upplýsingar um bólusetningar í viku hverri

Published

on

Um 8.900 einstaklingar verða bólusettir á landsvísu í þessari viku, þ.e. dagana 1. – 7. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu sóttvarnalæknis í dag sem birtir áætlun um bólusetningar hverrar viku á vef embættis landlæknis. Eins og fram kemur í tilkynningunni verða einstaklingar í aldurshópnum 80 ára og eldri bólusettir með 4.600 skömmtum af bóluefni Pfizer og 4.300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila verða bólusettir með bóluefni Astra Zeneca. Allt bóluefni sem fer í dreifingu í vikunni verður notað til að bólusetja fyrri bólusetningu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) annast bólusetningar í sínu heilbrigðisumdæmi. Eins og fram kemur í tilkynningu HH í dag verður öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins sem eru fæddir 1939 eða fyrr boðin bólusetning sem fram fer í Laugardagshöllinni þriðjudaginn 2. mars og miðvikudaginn 3. mars. Nánari upplýsingar um framkvæmdina eru á vef HH.

Continue Reading

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin