Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Skýrsla starfshóps um þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir

12.10.2021

Starfshópur um þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir hefur skilað skýrslu sinni til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ef þjóðarleikvangur í knattspyrnu verður áfram á Laugardalsvelli þá sé framtíð frjálsíþróttastarfs best borgið á nýjum leikvangi fyrir norðan Suðurlandsbraut, austan frjálsíþróttahallar við Engjaveg. Mannvirki sem myndi tengjast núverandi frjálsíþróttahöll, öðrum íþróttamannvirkjum sem og öðrum opnum svæðum í Laugardal.

Starfshópurinn sér fram á að mannvirkið verði vel nýtt fyrir alþjóðlegt keppnishald og stærri mót á vegum Frjálsíþróttasambands Íslands og Íþróttasambands fatlaðra, æfingar afreksmanna, æfingar barna-, unglinga og annarra í hverfisfélögum í Reykjavík en einnig sem möguleg aðstaða fyrir afreksíþróttamiðstöð í Laugardalnum, auk rannsókna, þjálfunar og kennslu í skólum.

Í starfshópnum sátu fulltrúar frá Frjálsíþróttasambandi Íslands (FRÍ), Reykjavíkurborg og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) auk fulltrúa ráðuneytisins. Fulltrúi ÍSÍ í hópnum var Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ.

Hér má lesa skýrslu starfshópsins.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Skólablak og Íþróttavika Evrópu/BeActive

15.10.2021

Blaksamband Íslands (BLÍ), í samstarfi við Evrópska blaksambandið (CEV), ÍSÍ, UMFÍ og blakfélög í landinu, stendur fyrir viðburðinum Skólablak fyrir grunnskólakrakka í 4.-6. bekk um allt land. Skólablakið er röð blakviðburða sem haldnir verða á landsvísu í október. Þetta er þriðja árið sem að viðburðurinn er haldinn og áætlað er að hann verði haldinn með svipuðu sniði næstu fjögur árin.

ÍSÍ kemur að verkefninu í tengslum við Íþróttaviku Evrópu/BeActive með styrk frá Evrópusambandinu, Erasmus+. Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við hreyfingarleysi meðal almennings. Hér má kynna sér nánar Íþróttaviku Evrópu.

Markmið Skólablaksins er að auka þátttöku barna í blaki á landsvísu með því að hafa leikreglurnar einfaldar og þægilegar svo að börn á öllum getustigum geti tekið þátt í leiknum. Auk þess er markmiðið að bjóða upp á skemmtilegan viðburð fyrir börn á þessum aldri þar sem þau fá ánægjulega upplifun af hreyfingu og keppni.

Viðburðirnir verða haldnir á 11 stöðum um landið í október 2021 og gert er ráð fyrir nokkuð hundruð grunnskólanemendum á Skólablakið á hverjum viðburði. Reiknað er með að þúsundir grunnskólabarna um allt land muni kynnast blakíþróttinni á næstu árum. Næstu viðburðir eru sem hér segir:

 • 18. október, ÍR-heimilið, Reykjavík
 • 19. október, ÍR-heimilið, Reykjavík
 • 20. október, Kórinn, Kópavogi
 • 22. október, Skessan, Hafnarfirði
 • 29. október, Fellið Varmá, Mosfellsbæ 

Nánari upplýsingar um verkefnið Skólablak er að finna á heimasíðu Blaksambandsins.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Kynningarfundir samskiptaráðgjafa

11.10.2021

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, hyggst kynna starfsemi embættisins fyrir íþrótta- og æskulýðsfélögum á kynningarfundum víða um land á næstu mánuðum. á dagskrá fundanna verður kynning á starfi samskiptaráðgjafa, kynning á öflun upplýsinga úr sakaskrá og kynning á vinnu við samræmingu viðbragðsáætlana vegna atvika og misgerða.

Óskað er eftir því að á kynninguna mæti forsvarsaðili eða stjórnarmeðlimur félaga eða starfseininga ásamt einhverjum starfsmönnum, leiðbeinendum eða þjálfurum sem vinna oftar í beinum tengslum við þátttakendur og iðkendur. Í kjölfar kynningarinnar verður útbúið efni sem félög geta nýtt sér til að koma skilaboðunum áfram innan sinna raða. Hvert félag eða starfseining getur mætt á þær kynningar sem staðsettar eru þeim næst en er velkomið að mæta á aðrar kynningar ef sá tími og/eða staður hentar þeim betur.

Kynningarnar verða á eftirtöldum stöðum og dagsetningum í október og nóvember:

 • Akureyri fimmtudaginn 14. október. Háskólinn á Akureyri, hátíðarsalur kl.18:30
 • Húsavík föstudaginn 15. október. Fosshótel Húsavík kl.16:30
 • Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 20. október. Nýheimar fræðslusetur kl.20:00
 • Egilsstaðir fimmtudaginn 21. október. Menntaskólinn á Egilsstöðum kl.17:00
 • Selfoss miðvikudaginn 27. október.
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands, hátíðarsalur kl.17:30
 • Reykjanesbær fimmtudaginn 28. október. Íþróttaakademían í Reykjanesbæ kl.18:00
 • Borgarnes þriðjudaginn 2. nóvember. Menntaskóli Borgarfjarðar, Hjálmaklettur kl.18:00
 • Ísafjörður miðvikudaginn 3. nóvember. Stjórnsýsluhúsið kl.18:00
 • Kópavogur mánudaginn 8. nóvember. Kórinn kl.17:00
 • Reykjavík mánudaginn 15. nóvember. ÍSÍ Engjavegi 6, Fundarsalur E kl.17:00
 • Reykjavík þriðjudaginn 16. nóvember. ÍSÍ Engjavegi 6, Fundarsalur E kl.13:00
 • Reykjavík miðvikudaginn 17. nóvember. ÍSÍ Engjavegi 6, Fundarsalur E kl.19:00
 • Hafnarfjörður miðvikudaginn 24. nóvember. Kaplakriki, Sjónarhóll salur kl.17:00

ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína og íþrótta- og ungmennafélög innan vébanda þeirra til að mæta á kynningar samskiptaráðgjafans.

Markmið með starfi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er að slíkt starf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar. Með atvikum og misgerðum er átt við andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik.

Nánari upplýsingar um samskiptaráðgjafa er að finna á heimasíðu embættisins.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Heiðurskrossar og Gullmerki veitt á Íþróttaþingi ÍSÍ

09.10.2021

Við þingsetningu framhaldsþings 75. Íþróttaþings ÍSÍ í dag voru veittar heiðursveitingar til forystufólks úr íþróttahreyfingunni.

Í samræmi við samþykktir framkvæmdastjórnar ÍSÍ þar að lútandi var Þráni Hafsteinssyni og Lilju Sigurðardóttur, fráfarandi stjórnarfólki ÍSÍ veitt Gullmerki ÍSÍ fyrir frábær störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Lilja á að baki sex ára stjórnarsetu hjá ÍSÍ og Þráinn fjögurra ára stjórnarsetu en bæði hafa þau sinnt fjölbreyttum leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar á vettvangi félaga, íþróttahéraða og sérsambanda svo eitthvað sé nefnt. Án efa mun ÍSÍ eiga þau áfram að sem bakhjarla í verkefnum framtíðarinnar.

Við sama tækifæri voru eftirtaldir einstaklingar sæmdir Heiðurskrossi ÍSÍ:

Birna Björnsdóttir

Birna hefur verið leiðtogi í fimleikahreyfingunni á Íslandi í áratugi. Hún sat í stjórn Fimleikasambands Íslands sem meðstjórnandi, síðar varaformaður og sem formaður frá árinu 1985 – 1987. Síðar sneri hún aftur í stjórn og gegndi meðal annars varaformennsku frá 2008 – 2012. Birna var mjög virk í alþjóðastarfi fimleika, innan Fimleikasambands Norðurlanda, Evrópska fimleikasambandsins og Alþjóðafimleikasambandsins þar sem hún lét mikið að sér kveða.Ég vil biðja Birnu um að koma hingað upp og taka við heiðursviðurkenningunni.

Björgvin Þorsteinsson

Björgvin er einn af okkar allra fremstu kylfingum og á langan og glæsilegan feril í golfíþróttinni. Auk afreka á golfvellinum hefur hann verið virkur í leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar. Hann sat meðal annars í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967-1969 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998 – 2002. Björgvin situr í Áfrýjunardómstól ÍSÍ og hefur verið kjörinn á Íþróttaþingum ÍSÍ til starfa hjá dómstólnum síðastliðin ríflega tuttugu ár.

Engilbert Olgeirsson

Engilbert Olgeirsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins frá árinu 1991. Hann var kjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ árið 2000 og sat þar til ársins 2009. Hann sat meðal annars í stjórn Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ og sem formaður Hnefaleikanefndar ÍSÍ. Hann situr í vinnuhópi ÍSÍ um Ferðasjóð íþróttafélaga og hefur gert frá upphafi þess vinnuhóps og eins situr hann í Heiðursráði ÍSÍ. Engilbert hefur verið leiðtogi á sínu heimasvæði en einnig verið virkur í nefndum á vegum FRÍ, GLÍ og UMFÍ svo eitthvað sé nefnt.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir

Helga varð fyrst kvenna formaður Ungmennafélags Íslands en hún gegndi því embætti á árunum 2007 – 2015. Helga var lengi í stjórn UMFÍ áður en hún varð formaður, hún var fyrst kjörin í stjórnina árið 1997 og sat í varastjórn fyrsta tímabilið. Hún varð svo meðstjórnandi árin 1999-2001 og varaformaður árin 2001-2007. Ég vil biðja Helgu Guðrúnu um að koma hingað upp og taka við heiðursviðurkenningunni.

Sigríður Jónsdóttir

Sigríður sat í stjórn Badmintonsambands Íslands frá 1988 og var formaður sambandsins frá 1990-1996. Hún var kjörin í framkvæmdastjórn ÍSÍ árið 1996 og átti samfellda 25 ára setu í stjórn ÍSÍ en hún hætti störfum í stjórn á þinginu nú í maímánuði. Sigríður gegndi embætti varaforseta á árunum 1997-2006 og aftur árin 2017 – 2021. Hún situr í Íþróttanefnd ríkisins fyrir hönd ÍSÍ.Ég vil biðja Sigríði um að koma hingað upp og taka við heiðursviðurkenningunni.

Valdimar Leó Friðriksson

Valdimar á að baki áratuga starf í hreyfingunni. Hann var formaður Handknattleiksfélags Akraness í eitt ár, var framkvæmdastjóri Ungmennasambands Eyjafjarðar 1993-1994 og framkvæmdastjóri Umf. Aftureldingar 1994-2005. Valdimar Leó sat í stjórn UMSK í 23 ár, þar af í 20 ár sem formaður sambandsins. Hann var kjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ í maí síðastliðnum. Ákvörðun um að heiðra Valdimar Leó var staðfest í framkvæmdastjórn í marsmánuði.

ÍSÍ óskar öllum heiðurshöfum innilega til hamingju!

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin