Samherji

Snæfell EA 310 til heimahafnar eftir endurbætur

Snæfell EA 310 / ljósmyndir/samherji.is/Þórhallur Jónsson

Snæfell EA 310 / ljósmyndir/samherji.is/Þórhallur Jónsson

Snæfell EA 310, frystitogari Samherja, kom til Akureyrar sl. laugardag. Samherji keypti skipið af Framherja í Færeyjum á árinu. Ýmsar endurbætur voru gerðar á skipinu í kjölfar kaupanna, sem aðallega er ætlað að stunda veiðar og vinnslu á grálúðu og karfa.

Skipið sem var smíðað í Noregi árið 1994 er 85 metra langt og 2,898 brúttótonn. Samið var um endurbæturnar við Orskov Yars skipasmíðastöðina í Fredrikshavn í Danmörku.

Vinnslulínan var endurnýjuð, vistarverur voru að stórum hluta endurgerðar og einnig sameiginleg rými. Rafeindahluti í brú var endurnýjaður að mestu leyti. Skipt var um loftræstikerfi og ýmiss búnaður í vélarrúmi var uppfærður. Þá var skipið heil-málað, bæði að innan og utan.

Samtals tóku þessar breytingar í Danmörku liðlega þrjá mánuði.

Ráðgert er að Snæfell haldi til veiða síðar í vikunni. Átjan menn verða að jafnaði í áhöfn. Skipstjóri í fyrsta túr verður Pálmi Hjörleifsson og yfirvélstjóri Óli Hjálmar Ólason. Stefán viðar Þórisson verður skipstjóri á móti Pálma.

Meðfylgjandi myndir tók Þórhallur Jónsson ljósmyndari er Snæfell kom til heimahafnar, Akureyrar.

Samherji

„Fiskvinnsluhúsið á Dalvík glæsilegt dæmi um nýsköpun og góðan aðbúnað“

Konurnar í Félagi kvenna í sjávarútvegi á Dalvík í gær/myndir samherji.is

Konurnar í Félagi kvenna í sjávarútvegi á Dalvík í gær/myndir samherji.is

Um sextíu konur í Félagi kvenna í sjávarútvegi kynntu sér í gær fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Heimsóknin var í tengslum við aðalfund félagsins. Agnes Guðmundsdóttir fráfarandi formaður segir heimsóknina hafa verið einstaklega fróðlega, enda fiskvinnsluhúsið afar glæsilegt á allan hátt. Hún segir að sjávarútvegur sé spennandi atvinnugrein, konum fjölgi hægt en örugglega.

Konur úr öllum landshlutum

Félag kvenna í sjávarútvegi fagnar tíu ára afmæli á næsta ári en félagið var á sínum tíma stofnað af hópi kvenna sem fann fyrir þörf á aukinni tengingu, samstarfi og eflingu kvenna í greininni. Markmið félagsins er meðal annars að gera konur sýnilegri, bæði innan sjávarútvegsins og utan hans. Aðalfundur félagsins var haldinn í Háskólanum á Akureyri í gær fyrir fullum sal félagskvenna. Fyrir fundinn heimsóttu konurnar fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Agnes Guðmundsdóttir, sem starfar hjá hjá Icelandic Asia, segir að konur í sjávarútvegi úr öllum landshlutum hafi komið saman fyrir norðan.

Íslendingar framarlega á heimsvísu

„Þessi heimsókn í fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var einmitt liður í þeirri viðleitni að efla samstöðuna meðal kvenna í sjávarútvegi og tengja betur landsbyggðina. Við vorum allar sammála um að þetta nýja fiskvinnsluhús væri til fyrirmyndar, bæði hvað varðar hönnun, aðstöðu starfsfólks og alla hátæknina sem er svo áberandi hvert sem litið er. Húsið er glæsilegur vitnisburður um þá staðreynd að við Íslendingar stöndum afar framarlega í fiskvinnslu á heimsvísu. Íslenskt hugvit er sérlega áberandi í húsinu, sem segir líka sína sögu.“

Konum fer fjölgandi

„Já, konum hefur fjölgað töluvert í sjávarútvegi á undanförnum árum en greinin er engu að síður enn tiltölulega karllæg. Samkvæmt nýrri rannsókn sem Félag kvenna í sjávarútvegi stóð fyrir, kemur fram að fjölgunin er þó nokkur sem er auðvitað jákvætt. Við þurfum meiri fjölbreytileika í greinina. Sjávarútvegur er gríðarlega spennandi atvinnugrein og nýsköpunarfyrirtækjum hefur fjölgað ört á síðustu árum. Ég hvet konur til að líta til sjávarútvegsins og skoða alla möguleikana sem þar eru til staðar. Svo er ánægjulegt að sjá að konur sækja mjög í sjávarútvegsfræðina við Háskólann á Akureyri, þannig að á margan hátt get ég verið nokkuð bjartsýn á framtíðina hvað þetta allt saman varðar.“

Sjávarútvegur er spennandi atvinnugrein

Aðalfundur félagsins var svo haldinn á Akureyri síðdegis í gær, þar sem nýr formaður tók við en Agnes hefur verið formaður síðastliðin fjögur ár. Nýr formaður er Margrét Kristín Pétursdóttir hjá Vísi í Grindavík.

„Þetta hafa verið skemmtileg ár. Aðalfundurinn var mjög vel sóttur og það er sóknarhugur í okkur. Konum hefur verið að fjölga mjög í félaginu, sem tengjast svo að segja öllum sviðum sjávarútvegsins. Við höfum verið að efla félagið undanfarið, settum af stað mentor prógram og fórum í viðamikla rannsókn á stöðu kvenna innan greinarinnar. Ég segi hiklaust að sjávarútvegur sé ein mest spennandi atvinnugrein landsins. Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík er glæsilegt dæmi um nýsköpun, frumkvöðlastarf og góðan aðbúnað. Þetta var góður dagur hérna fyrir norðan,“ segir Agnes Guðmundsdóttir.

Halda áfram að lesa

Samherji

Stefán Viðar snýr heim til Íslands

Baldvin Þorsteinsson og Stefán Viðar Þórisson um borð í Cuxhaven NC í vikunni/myndir samherji.is

Baldvin Þorsteinsson og Stefán Viðar Þórisson um borð í Cuxhaven NC í vikunni/myndir samherji.is

Stefán Viðar Þórisson sem hefur verið skipstjóri á þýska frystitogaranum Cuxhaven NC 100 frá því skipið var tekið nýtt í notkun árið 2017, færir sig á næstunni yfir á Snæfell EA 310, frystitogara Samherja. Stefán Viðar hefur verið skipstjóri á skipum Samherja í um tvo áratugi, lengst af erlendis.

Í vikunni var landað um 670 tonnum af afurðum úr Cuxhaven í Hafnarfirði en Stefán Viðar var einmitt skipstjóri í túrnum sem tók alls fimmtíu sólarhringa.

Snæfell hélt til veiða á þriðjudaginn undir stjórn Pálma Hjörleifssonar en Stefán Viðar verður skipstjóri á móti Pálma.

Toppkarlar í hverju plássi

Baldvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri Deutsche Fishfang Union sem gerir út Cuxhaven kvaddi Stefán Viðar í Hafnarfjarðarhöfn og færði honum blómvönd í tilefni þessara tímamóta.

Stefán Viðar segist kveðja Cuxhaven með söknuði en hlakka jafnframt til að taka við nýjum verkefnum uppi á Íslandi.

„Þessi síðasta veiðiferð á Cuxhaven gekk vel í alla staði, þótt veiðin hafi verið frekar dræm í restina. Við vorum í grænlenskri lögsögu, norðan við Dohrnbanka. Cuxhaven er frábært skip í alla staði og áhöfnin er traust og góð, valinn maður í hverju rúmi. Ég fæ núna smá fríi, þar sem Pálmi verður skipstjóri á Snæfellinu og svo tek ég væntanlega næsta túr. Mér líst vel á skipið og allan aðbúnað um borð, þar sem toppkarlar eru í hverju plássi.“

Varð skipstjóri aðeins 26 ára gamall

Stefán Viðar er 42 ára en með gríðarlega reynslu. Hann útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík með skipstjórnarréttindi vorið 2001 og á námsárunum var hann háseti á Víði EA, togara Samherja. Árið 2004 lá leiðin til Deutsche Fishfang Union, Evrópuútgerðar Samherja. Fyrst sem stýrimaður á frystitogaranum Kiel NC og þar á eftir Wiesbaden GDY, sem er systurskip Kiel.

Hann varð skipstjóri Wieisbaden, aðeins 26 ára gamall og síðan þá hefur Stefán Viðar stýrt ýmsum skipum Deutsche Fishfang Union, síðast Cuxhaven NC.

Til þess að geta stýrt þessum erlendu togurum aflaði Stéfán Viðar sér skipstjórnarréttinda í Bretlandi og Þýskalandi, auk íslenskra eins og áður er getið.

Síðasti túrinn og bráðum fyrsti túrinn

„Cuxhaven vakti mikla athygli á sínum tíma enda skipið vel búið á allan hátt, bæði hvað varðar vélbúnað, vinnslu og aðbúnað áhafnar. Þótt Snæfellið sé eldra skip er það afar vel búið, þannig að í mínum huga ríkir bara tilhlökkun vegna þessa næsta verkefnis hjá Samherja. Ég á því láni að fagna að eigendurnir hafa treyst mér fyrir stórum verkefnum og fyrir það er ég þakklátur. Þetta hefur verið farsælt samband, traust á báða bóga. Ég hef náð að skoða Snæfellið ágætlega og líst vel á þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipinu á undanförnum mánuðum. Þótt ég hafi verið í mínum síðasta túr á stóru og öflugi skipi, getum við líka sagt að ég fari senn í minn fyrsta túr á stóru og öflugu skipi og slíkar breytingar eru bara hressilegar. En fyrst er samt sem áður að halda heim til Reyðarfjarðar.“

Mikil umsvif þegar skipin eru í landi

„Það eru töluverð umsvif í landi þegar svona stór skip koma til hafnar og margir eru kallaðir til. Löndunargengi sjá um löndun og flutningafyrirtæki þurfa að vera tilbúin svo að segja strax og lagst er að bryggju. Oftar en ekki er óskað eftir þjónustu ýmissa fyrirtækja vegna endurbóta og viðhalds, það er því mikið um að vera þegar skipin eru í landi. Þannig var þetta í Hafnarfjarðarhöfn í vikunni og þannig verður þetta þegar Snæfell kemur til löndunar í framtíðinni,“ segir Stefán Viðar Þórisson verðandi skipstjóri á Snæfelli EA 310 og fráfarandi skipstjóri Cuxhaven NC 100.“

Halda áfram að lesa

Samherji

Nýr frysti- og kælibúnaður ÚA eykur rekstraröryggi fiskvinnslunnar – Vélstjóri fylgist með búnaðinum í gegnum farsíma

Frystigeymslur ÚA eru stórar og miklar/myndir samherji.is

Frystigeymslur ÚA eru stórar og miklar/myndir samherji.is

Frysti- og kælibúnaður fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa hefur verið uppfærður að stórum hluta á síðustu tveimur árum. Með nýjum búnaði eykst rekstraröryggi og hagræði til mikilla muna, auk þess sem kerfin eru umhverfisvænni en þau gömlu.

Kælismiðjan Frost á Akureyri var helsti verktakinn í breytingunum en Frost er leiðandi fyrirtæki í kælitækni hér á landi. Guðmundur Hannesson framkvæmdastjóri segir að verkefnið í ÚA hafi verið nokkuð umfangsmikið og á köflum flókið.

Mikil sjálfvirkni

„Viðhald búnaðarins hefur verið með ágætum í gegnum tíðina en engu að síður var kominn tími á endurnýjun og uppfærslur. Í kerfum hússins sem áður hýsti rækjuverksmiðjuna Strýtu var notast við freon sem kælimiðil en uppfærður búnaður notar ammoniak sem er algjörlega náttúrulegt efni. Sjálfvirknin er líka umtalsverð og nýi búnaðurinn nýtir orkuna margfalt betur en sá gamli. Í sjálfu fiskvinnsluhúsi ÚA hefur kæli- og frystikerfið sömuleiðis verið endurnýjað, þar voru settar upp kælipressur með mun betri nýtingu en þær gömlu, sem höfðu þjónað sínum tilgangi vel og lengi. Einnig voru settir upp plötuvatmaskiptar sem nýta orkuna mun betur.“

ÚA stendur framarlega á sviði kæli- og frystibúnaðar

„Helsta áskorunin í þessu öllu saman var sjálfsagt að samþætta nýjan og eldri búnað, sem var að mestu gert þegar fiskvinnsla lá niðri vegna sumarleyfa. Þess vegna var lögð höfuðáhersla á góðan og vandaðan undirbúning á öllum sviðum og ég segi hiklaust að vel hafi tekist til. Framkvæmdum er ekki lokið að fullu en með þeim uppfærslum sem þegar eru að baki er engu að síður hægt að fullyrða að Útgerðarfélag Akureyringa stendur ansi framarlega hvað kæli- og frystibúnað snertir.“

Álag á búnaði allt annað

Guðmundur segir að tækniframfarir í frysti- og kælikerfum séu örar.

„Já, sannarlega en þó snýst þetta svo sem alltaf um hið sama, kæla eða frysta afurðir. Við getum hæglega borið þetta saman við framleiðslu á bílum, sem hafa alla tíð verið á fjórum dekkjum. Í dag sjá tölvur um eftirlit og öryggið hefur aukist til mikilla muna, auk þess sem orkunýtingin er til muna betri en á árum áður. Á eldri pressunum keyrðu mótorarnir alltaf á fullu álagi, hvort sem mikið álag var á kerfinu eða ekki. Á því nýja er álagið alltaf í samræmi við þörfina á hverjum tíma.“

Samanburðurinn eins og svart og hvítt

Jakob Björnsson vélstjóri hjá ÚA segir að nýja kerfið reynist vel. Auk Frosts sáu Rafeyri og Raftákn um framkvæmdir ásamt starfsfólki Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja.

„Þetta er gríðarleg breyting, það er ábyggilegt. Ég er ekki frá því að orkusparnaðurinn sé á bilinu 20 til 30 prósent og það munar um minna. Núna sjá tölvurnar um að fylgjast með mörgum þáttum, þannig að rekstraröryggið er allt annað. Rafmagnið hefur sömuleiðis verið endurnýjað að stórum hluta, svo sem í aðaltöflum. Þótt gamla kerfið hafi á margan hátt verið ágætt, er samanburðurinn eins og svart og hvítt.“

Fylgist með búnaðinum í gegnum farsímann

„Já, ég get fylgst með öllu kerfinu í gegnum farsímann minn. Ef eitthvað bilar fæ ég skilaboð samstundis og í því felst auðvitað mikið öryggi. Þessar breytingar hafa í raun gengið ótrúlega vel fyrir sig, enda var kappkostað að vanda allan undirbúning. Við búum svo vel hérna á Akureyri að geta leitað til fyrirtækja sem hafa góða þekkingu á sviði fiskvinnslu, sem er klárlega mikils virði. Enda er Eyjafjarðarsvæðið þekkt víða um heiminn fyrir faglega þjónustu og góðar lausnir á sviði sjávarútvegsmála,“ segir Jakob Björnsson vélstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin