Innlent

Snemmbúið aprílgabb Viðreisnar

Margir héldu eflaust að um snemmbúið aprílgabb væri að ræða þegar greint var frá því á síðasta degi marsmánaðar að þingflokkur Viðreisnar hefði lagt fram tillögu til þingsályktunar um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

Ein helsta hindrunin í vegi þeirra sem ekkert þrá heitar en inngöngu Íslands í gangi í tollabandalag Evrópusambandsins með fullri aðild að sambandinu er samningurinn um evrópska efnahagssvæðið sem þjónað hefur hagsmunum Íslands ákaflega vel í ríflega aldarfjórðung. Kostur EES-samningsins fyrir okkur Íslendinga felst ekki síst í því að hann tekur til þess kjarna í samstarfi Evrópusambandsríkjanna sem lýtur að frjálsum viðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn, sem og frjálsri för fólks, en bindur ekki hendur okkar þegar kemur að öðrum samstarfssviðum ESB. Ef EES-samningsins nyti ekki við ættu sjónarmið þeirra sem ólmir vilja inn í tollabandalagið greiðari leið að íslensku þjóðinni. Og það er einmitt ástæðan fyrir því að ESB-sinnar hér á landi hafa með þaulskipulögðum hætti reynt að grafa undan EES-samningnum á undanförnum árum.

Aðeins um aukaaðildina

Skýrasta dæmið um rangfærslur í þessu skyni eru linnulausar fullyrðingar um að við Íslendingar innleiðum 80-90 prósent af löggjöf Evrópusambandsins og því gætum við allt eins verið í Evrópusambandinu og haft þá „bein áhrif“ á mótun löggjafarinnar. Nýjasta útfærslan af þessari röksemd er kölluð „aukaaðild að Evrópusambandinu“ í greinargerð sem fylgir aprílgabbi Viðreisnar. Það vill þannig til að á fyrsta ári mínu sem utanríkisráðherra létum við gera úttekt á þessu. Hún leiddi svart á hvítu í ljós að frá gildistöku samningsins árið 1994 og til ársloka 2016 þurftum við Íslendingar að innleiða 13,4% sem Evrópusambandið samþykkti á sama tímabili. Þetta hlutfall hefur lítið breyst á síðustu fimm árum.

Því hefur einnig verið haldið fram að undir EES-samninginn falli öll helstu málefnasvið ESB og við séum því eins og áhrifalaust aðildarríki að sambandinu. Þetta er líka fullkomlega rangt. Mestu skiptir fyrir okkur að við erum ekki hluti af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni sem enginn getur lengur mælt bót. Þar fyrir utan erum við laus við stefnu ESB þegar kemur að landbúnaði/dreifbýlisþróun, skattamálum, gjaldmiðilssamstarfi, byggðastefnu, réttarvörslu, dóms- og innanríkismálum, tollabandalagi, utanríkistengslum, öryggis- og varnarmálum, fjárhagslegu eftirliti, framlagsmálum og stofnunum. Af 34 köflum ESB löggjafarinnar eru tíu kaflar að fullu hluti af EES-samningnum en þrettán kaflar standa alfarið fyrir utan.

Linnulausar rangfærslur ESB-sinna víkja ekki staðreyndum til hliðar. Innganga í ESB myndi þýða að við tækjum upp 100% af ESB gerðum en ekki 13,4%. Innganga í ESB myndi þýða að allir 34 málaflokkar ESB ættu við um okkur en ekki einungis þeir sem okkur eru hagfelldastir. Staðreyndin er sú að við erum aðilar að sérsniðnum samningi sem hentar íslenskum hagsmunum ákaflega vel og gerir um leið að verkum að engin þörf er á inngöngu í tollabandalag ESB-ríkjanna. Gleymum því ekki að hlutfall tollskrárnúmera sem ekki bera toll hér er þannig 89,6%, en um 27% í ESB. Því myndi verð hér á mörgum vörum og þjónustu hækka við inngöngu í ESB.

Enginn hljóp apríl

Vísað er til þess í áðurnefndri greinargerð að vegna heimsfaraldurs þurfi Ísland að „nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt“. Með aðild að EES-samningnum njótum við fulls viðskiptafrelsis með allar vörur nema landbúnaðarvörur og hluta sjávarafurða á EES-svæðinu. Samningurinn tryggir okkur búsetu-, atvinnu- og námsrétt í öðrum ríkjum svæðisins og mikil tækifæri eru fyrir Íslendinga til að taka þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum og það gerum við. Við njótum s.s. margvíslegs ávinnings af innri markaðnum án þess að þurfa að axla byrðarnar af ESB-aðild og þær eru stórfelldar. Ísland er fríverslunarþjóð og við höfum fullt frelsi til þess að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki enda er fríverslunarnet okkar víðfeðmara en net Evrópusambandsins. Hver skyldi annars hinn mikli hagvöxtur vera á evrusvæðinu? Jú, heil 1,27% árið 2019 og 1,84% 2018!

Í dag býr Ísland hins vegar við þá ákjósanlegu stöðu í krafti EES-samningsins að eiga greiðan aðgang að innri markaði ESB. Við getum um leið tekið okkar eigin ákvarðanir um hvernig við viljum móta samskipti okkar við þau ríki sem standa utan þess. Snemmbúið aprílgabb Viðreisnar á það sem betur fer sameiginlegt með flestum slíkum blekkingum að þegar undrunin er liðin hjá þá er yfirleitt þægileg tilfinning að sjá að veruleikinn og staðreyndir segja allt aðra sögu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2021

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin