Félag atvinnurekenda

Snúningur Póstsins í boði neytenda og skattgreiðenda

4. desember 2019

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Fréttablaðinu 5. desember 2019

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, var í viðtali í Markaði Fréttablaðsins í síðustu viku. Þar var dregin upp jákvæð mynd af þróun mála hjá ríkisfyrirtækinu, undir fyrirsögninni „Öflugur viðsnúningur hjá Íslandspósti.“ Var meðal annars sagt frá því að dregið hefði úr hallarekstri fyrirtækisins og stefndi í að afkoman yrði við núllið á næsta ári.

Misheppnaðar fjárfestingar fyrrverandi stjórnenda í samkeppnisrekstri keyrðu Íslandspóst í greiðsluþrot. Það eru að sjálfsögðu góðar fréttir ef tekizt hefur að koma böndum á óráðsíuna og vitleysuna, sem viðgekkst árum saman hjá fyrirtækinu, á ábyrgð og undir eftirliti stjórnar fyrirtækisins sem valin er af stjórnmálaflokkunum á Alþingi. Myndin er samt kannski ekki alveg eins falleg og viðtalið við nýja forstjórann gaf til kynna.

Skattgreiðendur til bjargar
Í fyrsta lagi hefði Íslandspósti ekki verið haldið gangandi nema með aðstoð skattgreiðenda. Fyrirtækið hefur ekki verið rekstrarhæft í langan tíma. Hlutafé Póstsins hefur verið aukið um milljarð til að gera honum kleift að standa við skuldbindingar sínar. Þann milljarð borga skattgreiðendur. Þá hefur Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tekið (afskaplega hæpna) ákvörðun um að Pósturinn fái um 1.500 milljóna króna framlag úr alþjónustusjóði vegna meints taps af millilandasendingum.  Væntanlega munu þeir peningar líka koma frá skattgreiðendum, því að sjóðurinn er tómur.

Viðskiptavinirnir ættu að fá verðlækkun
Í öðru lagi mega nýir stjórnendur Íslandspósts eiga að þeim hefur tekizt að lækka kostnað hjá fyrirtækinu umtalsvert, enda blasti það við þeim sem til þekkja að fyrirtækið hafði verið afskaplega illa rekið. Upplýst hefur verið að kostnaður hafi verið lækkaður um hálfan milljarð hið minnsta á ársgrundvelli og svigrúm sé til frekari hagræðingar.

Ekki hefur fengizt upplýst hvernig hagræðið skiptist á milli rekstrarþátta, en ætla má að það sé fyrst og fremst í alþjónustunni, sem ber allan fastan kostnað fyrirtækisins. Birgir forstjóri gleymir að nefna að í póstlögum, sem hafa gilt um starfsemina, er innbyggð hagræðingarskylda. Samkvæmt lögunum á gjaldskrá fyrir alþjónustu, sem Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvarðanir um, að taka mið af raunkostnaði, að viðbættri hæfilegri álagningu. Í reglugerð um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda er að finna skýra heimild PFS til að hafna kostnaði sem ekki er nauðsynlegur til að veita viðkomandi þjónustu.

Það blasir því við að hafi kostnaður við að veita alþjónustu lækkað, eiga viðskiptavinir Póstsins að njóta þess í lækkun gjaldskrár.

Gjaldskrár andstæðar lögum?
Sú lækkun bætist við það sem viðskiptavinirnir eiga inni hjá fyrirtækinu vegna oftekinna gjalda á árunum 2016 og 2017, en PFS hefur staðfest að umframhagnaður af einkaréttarrekstri á þessum árum nam tæplega milljarði króna. Ef gjaldskrá Póstsins fyrir bréfasendingar verður óbreytt eða hækkar jafnvel, er það lögbrot.

Neytendasamtökin reka nú mál fyrir Eftirlitsstofnun EFTA vegna hækkunar á gjaldskrá Íslandspósts vegna erlendra póstsendinga. Samtökin mótmæla því að kostnaði vegna rekstrarvanda Póstsins sé velt yfir á neytendur án þess að fyrir liggi greining á raunkostnaði vegna erlendra sendinga. Birgir hefur svarað þeim og sagt að kostnaðurinn sé vel þekktur, en gleymir þá að geta þess að hann hefur sjálfur sagt að hann hafi lækkað kostnað Póstsins um a.m.k. hálfan milljarð eftir að gjaldskráin var sett. Lögum samkvæmt verður að laga gjaldskrána að því.

Það er því útlit fyrir að Birgir forstjóri gæti þurft að endurskoða tekjuáætlunina, sem gefur til kynna að á næsta ári verði Pósturinn rekinn við núllið.

Ríkið er áfram í bullandi samkeppni
Í þriðja lagi segir Birgir frá því að öll dótturfélög Póstsins hafi nú verið seld eða séu á lokametrunum í söluferli. Með því sé verið að „skapa frið um Póstinn með því að bregðast við þeirri gagnrýni að Pósturinn hafi verið með umsvif á mörkuðum sem tengjast ekki kjarnastarfseminni með beinum hætti.“

Kjarnastarfsemi ríkisfyrirtækis? Dæmi um vöruúrvalið á pósthúsi.

Þetta er líka gott og blessað svo langt sem það nær; dótturfélög eins og prentsmiðjan Samskipti, Frakt ehf. og Gagnageymslan hafa verið seld. Samkeppnisrekstur Íslandspósts við einkafyrirtæki, sem oft er býsna fjarskyldur kjarnasamstarfseminni, fer hins vegar ekkert síður fram í móðurfélaginu. Allir sem þurfa að fara á pósthús vita að þau eru í harðri samkeppni við sjoppur, gjafavöruverzlanir, bóka- og ritfangaverzlanir og minjagripabúðir. Íslandspóstur rekur áfram gríðarlegan flota sendibíla í beinni samkeppni við einkareknar sendibílastöðvar. Miklar fjárfestingar undanfarið, til dæmis í póstboxum, gagnast fyrst og fremst samkeppnisrekstri Íslandspósts í bögglaþjónustu. Neyðarframlagið frá skattgreiðendum fer sem sagt í áframhaldandi sókn á samkeppnismörkuðum.

Skattgreiðendur og neytendur borga
Í viðtalinu kemur fram að Íslandspóstur glími við þunga afborgunarbyrði og mikla skuldsetningu eftir fjárfestingar síðustu ára. Sú byrði er fyrst og fremst til komin vegna misheppnaðra ævintýra í samkeppnisrekstri.

Ýmislegt bendir til að skattgreiðendur og neytendur – sem eru nú yfirleitt sama fólkið – verði látnir standa undir þeirri byrði, með fullu samþykki stjórnmálamanna og eftirlitsstofnana. Sú fyrirætlan verður auðveldari en ella, vegna þess að enn hefur ekki verið gerð almennileg úttekt á öllum þeim kolröngu ákvörðunum, sem komu ríkisfyrirtækinu á heljarþröm og hver beri á þeim ábyrgð. Slík úttekt yrði væntanlega afskaplega óþægileg, bæði fyrir stjórnmálamennina og eftirlitsstofnanirnar. En það er kannski efni í aðra grein.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Gera tollar okkur að meðvituðum neytendum?

14. apríl 2021

Eggjabændur eru bæði komnir út í lífræna ræktun og farnir að gefa upplýsingar um aðbúnað dýranna. Það er ekki algengt í íslenskum landbúnaði.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið fyrir skemmstu og fjallaði annars vegar um gagnsemi tollverndar fyrir íslenzkan landbúnað og hins vegar um mikilvægi þess að neytendur séu meðvitaðir um matvöruinnkaupin og styðji ekki óbeint við framleiðsluhætti sem vinna gegn umhverfinu, hreinlæti, velferð dýra eða kjörum bænda og landbúnaðarverkafólks. Um seinna atriðið getum við verið sammála.

Einhvers misskilnings virðist reyndar gæta þegar Vigdís skrifar í byrjun greinar að það sé „allt eins gott í upphafi að nefna að tollar eru lagðir á fleiri vöruflokka en eingöngu innfluttar landbúnaðarvörur“ og fjallar í framhaldinu um það hlutverk tolla að vernda innlenda framleiðslu. Hér á Íslandi hafa tollar verið afnumdir af öllum vörum öðrum en sumum landbúnaðarvörum og sumum iðnaðarvörum úr landbúnaðarhráefnum. Allar aðrar framleiðslugreinar spjara sig án tollverndar.

En það er ekki aðalatriðið hér, heldur keðjuábyrgð neytandans, eins og Vigdís kallar það; að neytendur séu meðvitaðir um hvernig staðið er að framleiðslu og dreifingu matvæla og öll virðiskeðjan höfð í huga. Neytendur sýna í vaxandi mæli slíka ábyrgð og hafa skoðanir á því hvað þeir kaupa og láta ofan í sig.

Innlent=gott, útlent=slæmt?
Í umræðum á Íslandi ber enn á þeirri hugmynd að hægt sé að skipta búvörum í tvo flokka; innlendar, sem eru hollar, öruggar, umhverfisvænar og ábyrgar og erlendar, sem eru ekkert af þessu og þess vegna eins gott að koma í veg fyrir að við notum of mikið af þeim, til dæmis með háum tollum.

Veruleikinn er hins vegar ekki svarthvítur. Það er algjörlega fráleitt að setja allan útlendan landbúnað undir sama hatt hvað varðar t.d. framleiðsluaðferðir, dýravelferð og kjör starfsfólks – og jafnfráleitt að meðhöndla íslenzkan landbúnað með sama hætti. Tökum nokkur dæmi.

Það hefur verið notað sem röksemd fyrir innflutningshöftum að þau sporni gegn neyzlu Íslendinga á búvörum sem standast ekki kröfur um fæðuöryggi. Svo einfalt er það samt ekki. Síðastliðið sumar sagði Stöð 2 t.d. frétt af því að kjúklingur hefði verið innkallaður níu sinnum oftar vegna salmonellusmits hér á landi en í Danmörku á 12 mánaða tímabili. Langmest af innfluttum kjúklingi í íslenzkum verzlunum er einmitt frá Danmörku.

Fyrir nokkrum misserum býsnuðust menn yfir kolefnisspori nýsjálenzks lambakjöts, sem var keypt til landsins vegna skorts á innlendri vöru. Þar gleymdist að taka eitt og annað með í reikninginn. Flutningur, jafnvel heimshorna á milli, er oftast aðeins lítið brot af kolefnisspori vöru í samanburði við framleiðsluferlið. Nýsjálenzk lambakjötsframleiðsla er svo gott sem kolefnishlutlaus, m.a. vegna víðtækrar skógræktar á jörðum bænda. Kolefnisspor íslenzkrar sauðfjárræktar er hins vegar með því stærsta sem gerist samkvæmt nýlegri rannsókn vísindamanna við Landbúnaðarháskóla Íslands. Það getur reyndar verið mikill munur á kolefnislosun einstakra búa og fer t.d. eftir því hvort mikið votlendi var ræst fram til öflunar heyja eða hvort fé er beitt á land sem er í slæmu ástandi. En um það fær hinn íslenzki neytandi engar upplýsingar, enda veit hann sjaldnast hvaðan lambakjötið hans kemur.

Umræðan um aðbúnað dýra er ekki mjög þroskuð á Íslandi. Í grannlöndum okkar vilja margir neytendur ekki kaupa búvörur eins og kjöt og egg nema þeir séu vissir um að þær standist kröfur um „higher welfare“, þ.e. að aðbúnaður dýra sé betri en lágmarksreglur segja til um, að varphænur og grísir geti til dæmis gengið laus úti við. Segja má að eggjaframleiðendur á Íslandi séu einu bændurnir sem farnir eru að veita neytendum aðgengilegar upplýsingar um aðbúnað dýranna – líklega ýtti Brúneggjamálið duglega við þeim.

Lífræn ræktun er sömuleiðis skammt á veg komin hér á landi miðað við flest nágrannalöndin og mun betra framboð á innfluttum, lífrænt ræktuðum búvörum en innlendum.

Kjör sauðfjárbænda hafa árum saman verið til umræðu; fæstir geta þeir framfleytt sér með sauðfjárrækt einni saman og segjast sumir varla hafa í sig og á. Það er áhyggjuefni – en erum við að ýta undir léleg kjör sauðfjárbænda með því að kaupa íslenzka lambakjötið?

Frjálst val á grunni upplýsinga og umræðu
Þessar vangaveltur eru ekki settar fram til að varpa rýrð á íslenzkan landbúnað, síður en svo. Þar er margt vel gert og af gríðarlegum metnaði. En við megum ekki falla í þá gryfju að láta eins og allar innlendar búvörur séu frábærar út frá öllum mælikvörðum og allar útlendar stórvarasamar. Staðreyndin er sú að í landbúnaði nágrannalanda okkar í Evrópu, þaðan sem langstærstur hluti innfluttra mjólkur- og kjötvara kemur, er unnið samkvæmt sama regluverki og gildir hér á landi og bændur sýna sama metnað og frumkvæði í því að framleiða vörur sem neytendur treysta.

Ef við viljum efla ábyrgð og meðvitund neytenda gerum við það með umræðu og upplýsingum, bæði um það sem vel er gert og það sem ekki tekst eins vel, jafnt í íslenzkum landbúnaði og erlendum. Það er næsta víst að álagning tolla í því skyni að halda innfluttum búvörum frá neytendum gerir ekkert til að auka meðvitund okkar um það sem við kaupum og neytum. Eðlilegast er að við höfum sem frjálsast val á milli búvara af ólíkum uppruna, og veljum einmitt út frá upplýsingum og umræðu.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Verður aftur brotið á fræðslufyrirtækjum með ríkisstyrkjum til sumarnáms?

13. apríl 2021

Skjáskot af vef Endurmenntunar Háskóla Íslands í fyrrasumar. Námskeiðin sem hér sjást eru öll í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkafyrirtækja og öll niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu. Verðið er 3.000 krónur, en það treystir ekkert einkarekið fræðslufyrirtæki sér til að keppa við.

Félag atvinnurekenda hefur sent Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra erindi og spurst fyrir um áform ráðuneytisins um að leggja í annað sinn hundruð milljóna króna til sumarnáms í framhalds- og háskólum vegna kórónuveirufaraldursins. FA kvartaði til bæði Samkeppniseftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna ríkisstyrkja til sumarnáms í fyrra, en þeir voru m.a. nýttir til að niðurgreiða um tugi prósenta námskeið endurmenntunardeilda háskólanna, sem haldin eru í beinni samkeppni við námskeið einkarekinna fræðslufyrirtækja. FA taldi þetta brot á lögum um opinbera háskóla, samkeppnislögum og EES-samningnum.

Tvöfalt áfall fræðslufyrirtækjanna
Síðastliðið sumar voru námskeið endurmenntunardeildanna, sem alla jafna kosta tugi þúsunda, boðin á 3.000 krónur með niðurgreiðslu frá ríkinu. „Við þetta niðurgreidda verð gátu einkarekin fræðslufyrirtæki engan veginn keppt og voru ýmis námskeið hjá fyrirtækjunum felld niður af þessum sökum, með tilheyrandi tekjutapi. Segja má að fyrirtækin hafi orðið fyrir tvöföldu áfalli í faraldrinum; annars vegar urðu þau af tekjum og urðu að leggja í kostnað við endurskipulagningu á starfsemi sinni vegna samkomutakmarkana, hins vegar urðu þau að takast á við aukna samkeppni frá endurmenntunardeildum háskólanna, sem niðurgreidd var af ríkinu,“ segir í erindi FA til menntamálaráðherra.

Rifjað er upp að í framhaldi af sendingu erindisins áttu FA og félagsmenn þess í jákvæðum samskiptum við menntamálaráðuneytið, þar sem kom fram vilji þess til að leitast við að rétta samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja. „Það veldur FA því nokkrum vonbrigðum að áform um ríkisstyrkt sumarnám skuli kynnt á ný án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við félagið eða félagsmenn þess í hópi fræðslufyrirtækja,“ segir í erindi félagsins. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins verður styrkur þess til sumarnáms hækkaður úr 500 milljónum króna í fyrra í 650 milljónir í ár.

Stjórnvöld lágmarki samkeppnislegan skaða
Á opnum streymisfundi FA 11. febrúar síðastliðinn, „Samkeppnin eftir heimsfaraldur“ var m.a. fjallað um áhrif ríkisstyrkja til sumarnáms á samkeppni á fræðslumarkaði. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, ræddi þar um mikilvægi þess að stjórnvöld mætu samkeppnisleg áhrif aðgerða, sem gripið væri til vegna kórónuveirufaraldursins, og útfærðu stuðninginn þannig  að samkeppnislegur skaði væri lágmarkaður. „Sama aðferðafræði á að vera leiðarljós stjórnvalda þegar þau útfæra til dæmis fjárveitingar til námskeiðahalds ríkisrekinna skóla,“ sagði forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

FA fer í bréfinu fram á svör ráðuneytisins við eftirfarandi spurningum:

  1. Hefur ráðuneytið lagt mat á áhrif þess fyrirkomulags ríkisstyrkja til náms, sem viðhaft verður í sumar, á samkeppni á fræðslumarkaði?
  2. Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið af hálfu ráðuneytisins til að gæta að samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja og tryggja að ríkisstyrkur til háskólanna rúmist innan ákvæða laga um opinbera háskóla, samkeppnislaga og EES-samningsins?
  3. Hefur ráðuneytið tekið til skoðunar tillögu félagsins um ávísanakerfi, sambærilegt ferðagjöfinni, sem tryggi að hægt sé að velja á milli námskeiða hjá háskólum sem njóta ríkisframlaga og námskeiða einkarekinna fræðslufyrirtækja?
  4. Hefur útfærsla fyrirhugaðra ríkisstyrkja verið borin undir Samkeppniseftirlitið eða Eftirlitsstofnun EFTA?

Erindi FA til menntamálaráðherra

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Lög um ráðherraábyrgð brotin með gjaldtöku fyrir tollkvóta

6. apríl 2021

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins. Þar er auglýstur tollkvóti vegna tímabilsins 1. maí til 15. september nk. Í auglýsingunni kemur hins vegar ekkert fram um að ráðuneytið hafi horfið frá því að úthluta kvótanum með útboðsfyrirkomulagi því sem Landsréttur hefur dæmt ólögmætt þar sem það var í andstöðu við stjórnarskrána. FA hefur sent Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erindi og bent ráðherra á að taka útboðsgjalds fyrir tollkvóta samkvæmt þessu ólögmæta fyrirkomulagi væri vísvitandi brot á stjórnarskránni og þar með á lögum um ráðherraábyrgð.

Einróma og afdráttarlaus niðurstaða Landsréttar í máli Ásbjörns Ólafssonar ehf. gegn íslenska ríkinu var að það fyrirkomulag, sem var viðhaft við útboð á tollkvóta fyrir búvörur á árinu 2018, væri ólögmætt og gengi gegn stjórnarskrá Íslands. Sagði orðrétt í niðurstöðu Landsréttar: Álagning gjalda þeirra sem málið varðar studdist samkvæmt þessu ekki við lögmæta skattlagningarheimild og var því ógild.“ FA bendir í bréfi sínu til ráðherra á að dómar Landsréttar séu endanlegir og bindandi fyrir málsaðila með þeirri einu undantekningu að sækja megi um áfrýjun þeirra til Hæstaréttar. Sé slík beiðni samþykkt sé málið tekið fyrir í Hæstarétti en þar til að nýr dómur er kveðinn upp haldi dómur Landsréttar gildi sínu og bindi, í þessu tilfelli, stjórnvöld.

„Athafnir ráðherra í andstöðu við dóm Landsréttar eru því ekki bara brot gegn grunnreglum réttarríkisins og reglum um þrískiptingu ríkisvalds heldur felst í þeim brot á lögum um ráðherraábyrgð sbr. t.d. a- og c-lið 8. gr. þeirra laga,“ segir í bréfi FA til ráðherra. „Umrætt fyrirkomulag, sem Landsréttur telur afdráttarlaust að brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, var að frumkvæði ráðherra tekið upp á nýjan leik um síðustu áramót með breytingu á búvörulögum. Í ljósi niðurstöðu Landsréttar er að mati FA óhugsandi að gjaldtaka vegna tollkvótanna geti farið fram að óbreyttu enda liggur fyrir fortakslaus dómur áfrýjunardómstóls um ólögmæti hennar. FA telur að ráðherra verði að hafa atbeina að því að Alþingi breyti búvörulögum á nýjan leik eða úthluti tollkvótunum án gjalda. Ella er um að ræða skýrt ásetningsbrot ráðherra gegn stjórnarskrá lýðveldisins.“

Úthlutun kvóta liggi fyrir með þriggja vikna fyrirvara
Í erindinu til ráðherra er einnig bent á að úthlutun tollkvóta fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins hafi ekki legið fyrir fyrr en hartnær mánuði eftir að tímabilið hófst. Í ljósi þess að innflytjendur panti ekki inn vörur nema hafa fengið kvótaúthlutun og 3-6 vikur geti liðið frá pöntun þar til varan sé komin á lager, hafi stór hluti tímabilsins farið forgörðum. FA bendir á að miðað við sama hraða á meðferð þessarar annarrar kvótaúthlutunar ársins, verði kvóta tæplega úthlutað fyrr en kvótatímabilið sé hafið, eða þá fáeinum dögum áður en nýir tollkvótar taka gildi 1. maí. FA segir að þessi vinnubrögð fari í bága við tvíhliða samning Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur, sem undirritaður var í september 2015, en í honum segir: „Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að ávinningnum, sem þeir veita hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.“ Vinnubrögðin við úthlutun tollkvóta séu augljósar takmarkanir í vegi innflutnings búvöru og brjóta því gegn samningnum.

„FA fer fram á að ráðuneytið endurskoði verklag sitt við auglýsingu og úthlutun tollkvóta þannig að ferlið fari fram með mun betri fyrirvara og úthlutun kvóta liggi fyrir ekki síðar en þremur vikum fyrir upphaf úthlutunartímabils. Þannig má stuðla að því að starfsumhverfi innflutnings búvöru sé stöðugra og fyrirsjáanlegra,“ segir í erindi félagsins til ráðherra.

Erindi FA til ráðherra

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin