Innlent

Starfsemi Þjóðhagsráðs á árinu 2022

Þjóðhagsráð hefur það sem af er ári fundað níu sinnum. Fyrir utan reglubundin viðfangsefni ráðsins hefur megináhersla fundanna varðað viðfangsefni sem tengjast áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði, árangri lífskjarasamninga og þætti sem geta stuðlað að því að verja kaupmátt og lífskjör í landinu en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru flestir lausir í nóvember á þessu ári og á opinberum markaði í mars 2023.

Þjóðhagsráð tók til starfa í breyttri mynd í kjölfar lífskjarasamninganna árið 2019 en þar koma saman fulltrúar ríkisstjórnar, sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðar. Markmið ráðsins er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Þjóðhagsráð ræðir reglulega stöðu efnahags- og félagsmála í samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þá er í ráðinu rætt um aðgerðir stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga hverju sinni.

Eitt stærsta viðfangsefnið um þessar mundir eru húsnæðismál. Fyrir tilstuðlan ráðsins var sett af stað vinna um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynnt var opinberlega þann 19. maí sl. Þjóðhagsráð mun fylgja niðurstöðunum eftir en þegar hafa verið skipaðir tveir starfshópar á vegum innviðaráðherra um endurskoðun á húsnæðisstuðningi og endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Þá undirrituðu ríki og sveitarfélög nýverið rammasamning um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á næstu tíu árum í samræmi við tillögurnar þar sem þessir aðilar sammælast í fyrsta sinn um stefnu og aðgerðir til að tryggja húsnæðisuppbyggingu í samræmi við þarfir allra hópa.  Samstaða er innan ráðsins um mikilvægi þess að tryggja aukið framboð íbúða til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Þá hefur í ráðinu einnig m.a. verið fjallað um umbætur í kjaraviðræðum, afkomuöryggi atvinnuleitenda, öryrkja og barnafjölskyldna, eflingu sí- og endurmenntunar til að takast á við nýjar áskoranir á vinnumarkaði og jafnrétti- og starfsumhverfi á vinnumarkaði.

Í upphafi starfsársins var ákveðið að fela óháðum sérfræðingum að vinna greinargerð um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga. Slíkri greiningu væri einkum ætlað að  lýsa þjóðhagslegu umhverfi samninganna, sérstaklega stöðu á vinnumarkaði og fjalla eftir atvikum um svigrúm til launahækkana á haustmánuðum. Til verksins voru fengin þau Katrín Ólafsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík og Arnór Sighvatsson, hagfræðingur. Greinargerðirnar voru til umræðu á fundi ráðsins þann 1. júní síðastliðinn og eru þær hér meðfylgjandi.

Í skýrslu sinni bendir Katrín mikilvægt að kaupmáttaraukning síðustu ára týnist ekki á næsta samningstímabili en takmarkað svigrúm til launahækkana kalli á að leitað sé annarra leiða til að bæta stöðu fólks á vinnumarkaði og huga þurfi að sértækum aðgerðum sem snúa ekki síst að þeim er verst standa. Arnór bendir á að launabreytingar þyrftu að taka mið af því að hinar óvenjulega hagstæðu ytri aðstæður sem stuðluðu að þjóðhagslegu jafnvægi á undanförnum árum séu ekki lengur fyrir hendi. Verði það gert megi binda vonir við að hægt verði að varðveita bæði ytra og innra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og verja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem undirritaðir verða.

Tenglar á greinargerðirnar:

Skýrsla um efnahagsmál og vinnumarkað.

Hugleiðing um hagkerfið, hagstjórnina og vinnumarkaðinn.

Innlent

Lögreglustjóri beðinn um skýringar á takmörkuðu aðgengi barna að gosstöðvum

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum og skýringum frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum á ákvörðun um að takmarka aðgengi barna að gosstöðvunum í Meradölum.

  

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland hefur frumkvæði að sprengjueyðingarverkefni í Úkraínu

Ísland stendur ásamt hinum norrænu ríkjunum fyrir verkefni sem er fyrirhugað á sviði þjálfunar í sprengjuleit og sprengjueyðingu í Úkraínu. Líklegt er að fleiri lönd muni taka þátt í verkefninu þegar fram í sækir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kynnti verkefnatillögu þess efnis á ráðstefnu um stuðning við öryggi og varnir Úkraínu í Kaupmannahöfn í dag. 

Markmið ráðstefnunnar Copenhagen Conference for Northern European Defence Allies of Ukraine sem fram fór í dag var að styrkja samstarf og samráð um hvernig best megi styðja Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi. Áhersla er á viðbótarstuðning til lengri tíma litið, einkum framlög sem styðja við hernaðarlega getu úkraínsku þjóðarinnar til varnar innrás Rússa, fjárframlög, þjálfun hermanna og sprengjueyðingu. 

Á fundinum kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tillögu að verkefni á sviði sprengjuleitar og sprengjueyðingar í Úkraínu. Það felur annars vegar í sér að veita úkraínskum sprengjusérfræðingum þjálfun á þessu sviði og hins vegar að sjá þeim fyrir nauðsynlegum búnaði. Öll norrænu ríkin hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu sem er í samræmi við þarfir Úkraínu á þessu sviði. Þá skoða fleiri ríki þátttöku. 

„Ég tel ákaflega mikilvægt að Ísland haldi áfram að leita allra leiða til þess að styðja við úkraínsku þjóðina. Við getum ekki stutt við hernaðarmátt Úkraínu en við viljum finna allar þær leiðir sem mögulegar eru til þess að leggja okkar af mörkunum til þess að hjálpa þeim að verja sig gegn árás Rússa og byggja upp samfélagið eftir að sigur hefur unnist og friði komið á. Verkefnið sem við kynntum í dag hefur sérstaka þýðingu fyrir almenna borgara í Úkraínu. Talið er að ósprungnar sprengjur af ýmsu tagi, þar á meðal jarðsprengjur, sé að finna á allt að fimmtungi úkraínsks landssvæðis. Þær geta legið í jörðu árum saman og sprungið þegar minnst varir, löngu eftir að stríðátökum lýkur eða víglínur færst til. Þetta framlag stuðlar því að björgun mannslífa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Landhelgisgæsla Íslands hefur tekið þátt í viðræðum og undirbúningi verkefnisins en sprengjusérfræðingar á hennar vegum hafa á undanförnum árum sinnt verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins á sviði þjálfunar sprengjusérfræðinga, meðal annars í Írak og Jórdaníu. 

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði ráðstefnuna. Í ræðu sinni minnti hann á að það hafi verið á Norðurlöndum sem fyrst komst upp um geislavirka mengun vegna Tsjernóbýlslyssins og það hafi gerst meðan sovésk stjórnvöld reyndu enn að hylma yfir atburðinn. Setti hann þetta í samhengi við þá hættu sem nú er í kringum stærsta kjarnorkuver Evrópu í borginni Zaporizhzhia. Þá ræddi hann um mikilvægi fjárstuðnings við daglegan rekstur innviða í Úkraínu, þar á meðal skóla. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ávarpaði einnig ráðstefnuna og lagði áherslu á að árás Rússa á Úkraínu væri árás á þau sameiginlegu gildi sem evrópsk samfélög byggja velferð sína á.

Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, var gestgjafi fundarins ásamt Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands og Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu. Auk þeirra sóttu ráðstefnuna fulltrúar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Hollands, Póllands, Þýskalands, Tékklands, Slóvakíu, Slóveníu, Bandaríkjanna, Atlantshafsbandalagsins,  Evrópursambandsins, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Georgíu, Rúmeníu og Japans.

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Bætt staða á íslenskum vinnumarkaði frá fyrra ári

Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir annan ársfjórðung 2022 sýna bætta stöðu vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði frá árinu áður.

Fjöldi starfandi eykst
Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 81,6% á öðrum ársfjórðungi 2022 sem er aukning um 1,4 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2021. Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2022 var 210.600 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 78,1%. Frá öðrum ársfjórðungi 2021 til annars ársfjórðungs 2022 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,2 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 74,8 % og starfandi karla 81,1%. Starfandi konum fjölgaði um 8.900 og körlum um 7.200.

Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 78,2% og utan höfuðborgarsvæðis 77,9%. Til samanburðar var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 74,9% og 72,1% utan höfuðborgarsvæðisins á öðrum ársfjórðungi 2021.

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi
Á öðrum ársfjórðungi 2022 töldust að meðaltali 9.500 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 4,3% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Til samanburðar voru um 16.700 einstaklingar atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2021 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 7,9%.

Mjög dró úr atvinnuleysi kvenna á milli ára en það mældist nú 3,2% og hafði þá lækkað um 6,1 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi 2021. Á sama tímabili lækkaði atvinnuleysi karla úr 7,6% í 5,2% eða um 2,4 prósentustig.

Á öðrum ársfjórðungi hvers árs mælist atvinnuleysi yfirleitt alltaf hæst miðað við aðra fjórðunga ársins og stafar það af því að þá sækir ungt fólk og námsmenn út á vinnumarkaðinn í leit að sumarstörfum. Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 13,9% sem er talsverð lækkun frá sama ársfjórðungi árið 2021 þegar það var 20,0%. Á tímabilinu minnkaði atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um fjögur prósentustig eða úr 6,5% í 2,5%. Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 0,8 prósentustig, úr 3,4% á öðrum ársfjórðungi 2021 í 2,5% á öðrum ársfjórðungi 2022.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin