Connect with us

Innlent

Stefna og viðmið í húsnæðismálum stofnana

Published

on

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út stefnu um áherslur og viðmið í húsnæðismálum stofnana með það að leiðarljósi að tryggja hagkvæma og markvissa húsnæðisnýtingu og ná fram markmiðum um fjölbreytt og sveigjanlegt vinnuumhverfi sem styður við aukna teymisvinnu og samstarf þvert á stofnanir.

Í stefnunni segir að síbreytilegar áskoranir kalli á breyttar áherslur í húsnæðisöflun ríkisins sem stuðla að markmiðum um betri þjónustu og aukinn sveigjanleika og samlegð í starfsemi stofnana. Byggja þurfi upp og þróa hagkvæmara húsnæði sem nýtt verður með sveigjanlegum hætti undir margar stofnanir. Með því að búa starfsfólki samkeppnishæft og nútímalegt vinnuumhverfi með sveigjanlegum starfsstöðvum, auknum samrekstri og betri nýtingu innviða megi hámarka þann ávinning sem hlýst af nýrri tækni og nýjum vinnuaðferðum. 

Fram kemur í stefnunni að eftirfarandi meginmarkmið skuli höfð að leiðarljósi við húsnæðisöflun hins opinbera:

  1. Hagkvæm og markviss húsnæðisnýting.
  2. Nútímalegt vinnuumhverfi með áherslu á fjölbreytt og sveigjanleg rými.
  3. Vönduð aðstaða en án íburðar.
  4. Samnýting aðstöðu þvert á stofnanir.

Lögð er áhersla á að Ríkiseignir verði miðlægur leigutaki ríkisins að atvinnu- og skrifstofuhúsnæði á almennum markaði. Ríkiseignir muni því annast endurleigu á húsnæði til ríkisstofnana með það að markmiði að tryggja yfirsýn í húsnæðismálum.

Leiðbeiningar FSR um þróun húsnæðis og starfsaðstöðu ríkisaðila

Samhliða þessu hefur Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) gefið út leiðbeiningaritið „Viðmið um vinnuumhverfi – leiðbeiningar um þróun húsnæðis og starfsaðstöðu ríkisaðila”. Í ritinu er fjallað nánar um þróun og útfærslu nútímalegs vinnuumhverfis ríkisaðila. Fyrri viðmið um vinnuumhverfi voru gefin út út árið 2010 og felur nýja útgáfan í sér umtalsverðar breytingar í takt við breyttar áskoranir í ríkisrekstri og hraða framþróun starfsaðferða og stafrænna innviða. Við þróun nýrra viðmiða hefur Framkvæmdasýslan m.a. notið ráðgjafar frá kjara- og mannauðssýslu og Stafrænu Íslandi og er í viðmiðunum fjallað um þrjár meginvíddir nútíma vinnuumhverfis, þ.e. fólk, tækni og aðstöðu.

Í breyttum áherslum fyrir aðstöðu felst því meðal annars að horfið er frá þeirri stefnu að meirihluti starfsfólks hafi til afnota einkaskrifstofu, en aukið pláss fer þess í stað í fjölbreytta vinnuaðstöðu út frá verkefnum svo sem fundarherbergi, hópvinnurými, næðisrými og félagsleg rými. Með þessum breytingum verða ríkisaðilar betur í stakk búnir að bregðast við breytingum í starfsemi og jafnframt næst fram aukin hagkvæmni í nýtingu húsnæðis.

Innlent

Ísland leggur fram 285 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Jemen

Published

on

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tilkynnti um 285 milljóna króna heildarframlag Íslands, til þriggja ára, á áheitaráðstefnu um Jemen í dag. Framlagið skiptist á milli þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna, sem vænta þess að áheitaráðstefnan skili 3,85 milljörðum bandarískra dala, tæplega 500 milljörðum íslenskra króna. Ekki verður ljóst fyrr en í lok ráðstefnunnar undir kvöld hvort sú fjárhæð náist.

„Jemenska þjóðin er á barmi hungursneyðar sem er sú skelfilegasta sem við höfum séð í áratugi. Þörfin fyrir árangursríka, skilvirka og skipulagða fjármögnun mannúðaraðgerða í Jemen hefur því aldrei verið eins brýn,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi á ráðstefnunni fyrr í dag sem fór fram gegnum fjarfundabúnað með þátttöku rúmlega eitt hundrað fulltrúa ríkisstjórna.

Guðlaugur Þór greindi frá því í ávarpinu að framlag Íslands skiptist á milli þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna sem allar væru áherslustofnanir í stefnu Íslands í mannúðarmálum. Um er að ræða svæðasjóð vegna Jemen hjá samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Af 95 milljóna króna árlegu framlagi næstu þrjú árin ráðstafar UNFPA 40 milljónum, WFP 30 milljónum og svæðasjóður OCHA 25 milljónum.

„Íbúar Jemens hafa þjáðst of mikið og of lengi. Það þarf að binda enda á átökin með varanlegri pólitískri lausn,“ voru lokaorð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á áheitaráðstefnunni í dag.

„Lífið er á þessari stundu óbærilegt fyrir flesta íbúa Jemen,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu áður en ráðstefnan hófst. Hann sagði jafnframt að börn í Jemen upplifðu bernskuna sem „sérstaka tegund af helvíti“ og brýnt væri að koma á friði og takast á við afleiðingar átakanna. 

Áheitaráðstefnur sem þessar hafa jafnan verið haldnar árlega frá því stríðið í Jemen hófst fyrir tæplega átta árum. Markmið þeirra er að tryggja nauðsynlegan mannúðarstuðning við óbreytta borgara í Jemen en hvergi í heiminum er neyðarástand talið alvarlegra. Um átta af hverjum tíu íbúum þurfa á mannúðaraðstoð að halda og ástandið versnar dag frá degi.

Á síðasta ári var af hálfu Íslands varið 105 milljónum íslenskra króna til mannúðarmála í Jemen, 65 milljónum var ráðstafað til UNFPA og 40 milljónum til WFP.

Continue Reading

Alþingi

Sérstök umræða um innviði og þjóðaröryggi þriðjudaginn 2. mars

Published

on
1.3.2021Þriðjudaginn 2. mars um kl. 13:45 verður sérstök umræða um innviði og þjóðaröryggi. Málshefjandi er Njáll Trausti Friðbertsson og til andsvara verður forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir.

NjallTrausti_KatrinJak

Continue Reading

Innlent

COVID-19: Upplýsingar um bólusetningar í viku hverri

Published

on

Um 8.900 einstaklingar verða bólusettir á landsvísu í þessari viku, þ.e. dagana 1. – 7. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu sóttvarnalæknis í dag sem birtir áætlun um bólusetningar hverrar viku á vef embættis landlæknis. Eins og fram kemur í tilkynningunni verða einstaklingar í aldurshópnum 80 ára og eldri bólusettir með 4.600 skömmtum af bóluefni Pfizer og 4.300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila verða bólusettir með bóluefni Astra Zeneca. Allt bóluefni sem fer í dreifingu í vikunni verður notað til að bólusetja fyrri bólusetningu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) annast bólusetningar í sínu heilbrigðisumdæmi. Eins og fram kemur í tilkynningu HH í dag verður öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins sem eru fæddir 1939 eða fyrr boðin bólusetning sem fram fer í Laugardagshöllinni þriðjudaginn 2. mars og miðvikudaginn 3. mars. Nánari upplýsingar um framkvæmdina eru á vef HH.

Continue Reading

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin