Samtök Atvinnulífsins

Stjórnendur 400 stærstu: Góðar horfur

Reglubundin könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins var gerð um mánaðamót nóvember og desember 2021.

Meta núverandi aðstæður góðar

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar nokkuð frá síðustu könnun. Tæpur helmingur telur aðstæður góðar en rúmlega tíundi hver að þær séu slæmar. Í öllum þeim atvinnugreinum sem könnunin nær til telja mun fleiri stjórnendur að staðan sé góð en slæm og er mestur munur í þjónustu og verslun. Þá telja hlutfallslega fleiri aðstæður góðar á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og í heimamarkaðsgreinum en í útflutningsgreinum.

Helmingur telur að aðstæður fari batnandi

Fleiri stjórnendur telja að aðstæður batni en að þær versni á næstu sex mánuðum. Tæpur helmingur telur að aðstæður batni en einn af hverjum sjö að þær versni. Bjartsýni er almenn en er þó minni en fyrr á árinu.

Stöðugur vöxtur í spurn eftir starfsfólki

Skortur á starfsfólki hefur vaxið jafnt og þétt síðastliðið ár. Fyrir ári síðan bjuggu 8% fyrirtækja við skort á starfsfólki en nú er hlutfallið komið upp í 39%. Skortur á starfsfólki er mestur í byggingarstarfsemi, þar sem meirihluti fyrirtækja býr við skort, og þar á eftir koma iðnaður, verslun og ýmis þjónusta þar sem um 35-45% fyrirtækja búa við skort.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 2.100 á næstu 6 mánuðum

Fyrirtæki áforma umtalsverða fjölgun starfsfólks á næstunni. 27 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 39% þeirra við fjölgun starfsmanna, 8% við fækkun en aðrir óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 1,7% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn má ætla að störfum fjölgi um 2.100 á næstu sex mánuðum, þ.e. á fyrri hluta ársins 2022. Áætluð fjölgun er 2.600 hjá fyrirtækjum sem áforma fjölgun starfsfólks en áætluð fækkun er 500 hjá hinum.

Stjórnendur í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en stjórnendur í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi og sjá fram á minnsta fjölgun.

Verðbólga yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,7% og aukast nokkuð frá síðustu könnun. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru stöðugar við 3% eins og undanfarin tvö ár.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Almennt er búist við aukinni innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum. Tæplega helmingur stjórnenda býst við að hún aukist, álíka margir að hún standi í stað og örfáir að hún minnki. Enn betri horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem tæplega 60% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 15. nóvember til 7. desember 2021 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 444 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 206, þannig að svarhlutfall var 46%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök Atvinnulífsins

Takmarkanir án trúverðugra lausna

Síðustu misseri hafa verið atvinnulífinu þungbær. Þrátt fyrir afléttingu á sóttkví hjá þríbólusettum og styttingu einangrunar er ljóst að íþyngjandi aðgerðir sóttvarna hafa haft gífurleg áhrif á daglega starfsemi margra íslenskra fyrirtækja.

Nú þegar standa fyrir dyrum enn frekari herðingar, fækkun á hámarksfjölda í rými ásamt lokun á starfsemi, er ljóst að stjórnvöld verða að koma fram með frekari lausnir gagnvart fyrirtækjum sem verst verða fyrir barðinu. Flest þau úrræði sem hafa gefist vel á síðustu árum vegna faraldursins hafa nú runnið sitt skeið. Fjöldi fyrirtækja er þrátt fyrir þetta enn að troða marvaðann og lítið má bregða útaf. Útvíkkun á lokunarstyrkjum og öðrum úrræðum fyrir atvinnulífið er eðlileg krafa til að koma til móts við þá starfsemi sem sætir áfram takmörkunum, en ljóst má vera að tíu manna samkomutakmarkanir eru í raun og veru gífurleg takmörkun á starfsemi fjölmargra fyrirtækja.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað um mikilvægi þess að hleypa súrefni inn í atvinnulífið með það að markmiði að viðspyrnuþróttur þess sé til staðar þegar faraldurinn er á braut. Skjót viðbrögð stjórnvalda og aðgerðir á fyrri hluta faraldurins báru vissulega þess merki og því eru vonbrigði að frekari stuðningsaðgerðir hafi ekki verið kynntar samfara herðingu sóttvarnaaðgerða sem kynntar voru í dag.

Ríkisstjórnin verður að koma fram með trúverðugar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum samhliða hertum sóttvarnartakmörkunum, án tafar. Það er allra hagur.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Daglegur launakostnaður atvinnulífsins um 100 milljónir vegna sóttvarnaraðgerða

Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld um breytingar á reglum um sóttkví gagnvart einstaklingum sem eru þríbólusettir og einstaklingum sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru tvíbólusettir. Breytingarnar koma til móts við kröfur atvinnulífsins en rekstur margra fyrirtækja hefur raskast vegna fjölda starfsmanna í sóttkví eða einangrun. Fækkun starfsfólks í sóttkví skiptir atvinnulífið miklu en breytir ekki þeirri staðreynd að kostnaður atvinnulífsins á næstu mánuðum mun hlaupa á milljörðum króna vegna mikils fjölda starfsfólks sem sætir takmörkunum sóttvarnaryfirvalda sem hafa veruleg neikvæð áhrif á samfélagið allt.

Mat Samtaka atvinnulífsins er að kostnaður atvinnulífsins vegna launakostnaðar starfsfólks í sóttkví eða einangrun nemi ríflega 100 milljónum króna, dag hvern. Auk þess hafa fjölmörg fyrirtæki orðið fyrir miklu rekstrartapi vegna sóttvarnaraðgerða stjórnvalda vegna skertrar starfsemi.

Ríkið kemur til móts við fyrirtæki er varðar greiðslu launa í sóttkví. Enginn stuðningur er þó veittur vegna einangrunar en staðreyndin er sú að mikill meirihluti einstaklinga í einangrun er ekki veikur. Þrátt fyrir þetta er sú ábyrgð lögð á atvinnurekendur að greiða laun eins og um veikindi væri að ræða.

Í Svíþjóð er lögbundinni sóttkví ekki beitt. Sænska ríkisstjórnin ákvað í ljósi Ómíkrón afbrigðisins að endurgreiða launagreiðendum greidd veikindalaun frá 1. desember 2021 eftir ákveðinni reiknireglu. Dönsk stjórnvöld fara sambærilega leið, beita sóttkví í takmörkuðum mæli og ríkið greiðir launafólki sjúkradagpeninga frá fyrsta veikindadegi með sambærilegum hætti og gert er í tilviki sóttkvíar á Íslandi. Norðmenn fara sambærilega leið og Íslendingar hvað varðar sóttkví en endurgreiða einnig atvinnurekendum hluta veikindalauna vegna einangrunar.

Ísland er þannig eftirbátur í samanburði við Norðurlöndin. Þau hafa flest horfið frá beitingu sóttkvíar og koma auk þess til móts við atvinnulífið með endurgreiðslu hluta launakostnaðar vegna Covid-einangrunar. Íslensk fyrirtæki búa nú við minnstan opinberan stuðning hvað varðar greiðslu launakostnaðar í norrænum samanburði vegna íþyngjandi áhrifa sóttvarnaraðgerða.

Reglur landanna má finna á eftirfarandi vefslóðum:
Danmörk hér og hér
Svíþjóð hér
Noregur hér

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Skattadagur SA, VÍ og Deloitte – Upptaka

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarsamtökum sem starfa á grunni atvinnugreina. Yfir 2.000 fjölbreytt fyrirtæki eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði. Við erum Samtök atvinnulífsins.

Sjá nánar

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin