Samtök Atvinnulífsins

Stjórnendur 400 stærstu: Góðar horfur

Reglubundin könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins var gerð um mánaðamót nóvember og desember 2021.

Meta núverandi aðstæður góðar

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar nokkuð frá síðustu könnun. Tæpur helmingur telur aðstæður góðar en rúmlega tíundi hver að þær séu slæmar. Í öllum þeim atvinnugreinum sem könnunin nær til telja mun fleiri stjórnendur að staðan sé góð en slæm og er mestur munur í þjónustu og verslun. Þá telja hlutfallslega fleiri aðstæður góðar á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og í heimamarkaðsgreinum en í útflutningsgreinum.

Helmingur telur að aðstæður fari batnandi

Fleiri stjórnendur telja að aðstæður batni en að þær versni á næstu sex mánuðum. Tæpur helmingur telur að aðstæður batni en einn af hverjum sjö að þær versni. Bjartsýni er almenn en er þó minni en fyrr á árinu.

Stöðugur vöxtur í spurn eftir starfsfólki

Skortur á starfsfólki hefur vaxið jafnt og þétt síðastliðið ár. Fyrir ári síðan bjuggu 8% fyrirtækja við skort á starfsfólki en nú er hlutfallið komið upp í 39%. Skortur á starfsfólki er mestur í byggingarstarfsemi, þar sem meirihluti fyrirtækja býr við skort, og þar á eftir koma iðnaður, verslun og ýmis þjónusta þar sem um 35-45% fyrirtækja búa við skort.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 2.100 á næstu 6 mánuðum

Fyrirtæki áforma umtalsverða fjölgun starfsfólks á næstunni. 27 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 39% þeirra við fjölgun starfsmanna, 8% við fækkun en aðrir óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 1,7% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn má ætla að störfum fjölgi um 2.100 á næstu sex mánuðum, þ.e. á fyrri hluta ársins 2022. Áætluð fjölgun er 2.600 hjá fyrirtækjum sem áforma fjölgun starfsfólks en áætluð fækkun er 500 hjá hinum.

Stjórnendur í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en stjórnendur í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi og sjá fram á minnsta fjölgun.

Verðbólga yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,7% og aukast nokkuð frá síðustu könnun. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru stöðugar við 3% eins og undanfarin tvö ár.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Almennt er búist við aukinni innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum. Tæplega helmingur stjórnenda býst við að hún aukist, álíka margir að hún standi í stað og örfáir að hún minnki. Enn betri horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem tæplega 60% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 15. nóvember til 7. desember 2021 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 444 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 206, þannig að svarhlutfall var 46%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök Atvinnulífsins

Kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samtaka atvinnulífsins uppfærður

Samkomulag hefur verið gert um uppfærslu á kjarasamningi SA og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Breytingar varða einkum vinnutímaákvæði sem og uppfærslu á ýmsum réttindaþáttum kjarasamningsins. Með breytingunni eru vinnutímaákvæði samningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði en í framkvæmd hefur dagvinnutími víða verið samræmdur milli þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi þessum og þeirra sem starfa eftir kjarasamningum skrifstofufólks.

Vinnutímastytting kemur einungis til framkvæmda þar sem virkur vinnutími (sá tími sem starfsmaður er við störf) er lengri en 35,5 stundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi. Vinnutímastyttingin á að koma til framkvæmda, þar sem við á, eigi síðar en 1. október nk.

Kjarasamningurinn nær til félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við lögmenn Samtaka atvinnulífsins ef einhverjar spurningar vakna um kjarasamninginn sem má nálgast hér á vef Samtaka atvinnulífsins.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Taktu tvær – forðumst netsvindl

Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Neytendasamtökin hafa tekið höndum saman til að vekja athygli á því vaxandi vandamáli sem netglæpir eru. Átakið nefnist Taktu tvær.

Tilgangur verkefnisins er að hvetja fólk til umhugsunar um hegðun á netinu. Netglæpir kosta samfélagið hundruði milljóna króna á ári og allir geta orðið fyrir barðinu á netglæpamönnum; einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og opinberar stofnanir.

Efni tengt átakinu mun birtast á fjölda staða á næstunni en nánar er hægt að kynna sér málið á vef átaksins www.taktutvær.is

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Áform um rýni á erlendum fjárfestingum ekki tímabær

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra hafa tekið til umsagnar áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Um er að ræða mikilvæga löggjöf um grundvallarhagsmuni fullvalda ríkis sem samtökin fagna.

Samtökin gera hins vegar alvarlegar athugasemdir við áformin í núverandi mynd, sem snúa að því að skortur er á samhengi við þá löggjöf sem þegar er til staðar á réttarsviðinu og takmarkar verulega eignarhald erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum. Þá virðast áformin gera ráð fyrir að gengið verði lengra en í öðrum löndum þegar kemur að sambærilegri löggjöf án þess að það sé rökstutt með nokkrum hætti. Ennfremur er hvergi að finna efnislegt mat á mögulegum efnahagslegum áhrifum frumvarpsins. Þau eru að öllum líkindum veruleg og til þess fallin að hamla erlendri fjárfestingu enn frekar en núverandi regluverk, sem er afar strangt í alþjóðlegum samanburði.

Kostir beinnar erlendrar fjárfestingar eru ótvíræðir – hún er til þess fallin að auka framleiðni, áhættudreifingu, þekkingu og fjölbreytni í atvinnulífinu. Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif beinnar erlendrar fjárfestingar á hagvöxt. Því er miður að hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar af landsframleiðslu skuli mælast afar lágt á Íslandi í samanburði þjóða. Ísland skipar 61. sæti af 63 hvað varðar beina erlenda fjárfestingu í úttekt IMD háskólans og hafa umsvif hennar jafnframt dregist saman á umliðnum árum. Þá hefur OECD bent á að Ísland er með einna ströngustu reglurnar þegar kemur að erlendri fjárfestingu, langt yfir meðaltali OECD, og hafa yfirvöld verið hvött til að draga úr hömlum.

Af þessu ætti að vera ljóst að áður en unnt er að leggja fram frumvarp um rýni á erlendum fjárfestingum þarf að fara fram heildstæð skoðun á því regluverki sem þegar er til staðar þar sem einnig er lagt mat á efnahagslegar afleiðingar regluverksins. Tryggja þarf að ný og heildstæð löggjöf verði í samræmi við stefnu yfirvalda um erlendar fjárfestingar. Þrátt fyrir verðug markmið laganna má það ekki verða hliðarafurð að við fórnum meiri hagsmunum fyrir minni og mögulega lokum á eða þrengjum fyrir fjárfestingar sem eru mikilvægar fyrir íslenska hagsmuni til framtíðar.

Lesa má umsögn Samtakanna í heild sinni hér

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin