Samtök Atvinnulífsins

Stjórnendur 400 stærstu í maí 2021: Stökkbreyttar væntingar

Stjórnendur 400 stærstu í maí 2021: Stökkbreyttar væntingar

Ársfjórðungsleg könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu fór fram í maí og júníbyrjun 2021. Um miðjan maí var slakað á sóttvarnaraðgerðum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og 25. maí voru gerðar enn frekari tilslakanir. Takmörkunum gagnvart atvinnulífinu innanlands var þá að mestu aflétt og tilslakanir á landamærunum fólu í sér möguleika á margföldun ferðamanna. Könnunin ber þess glöggt vitni að tilslakanirnar hafa verið áhrifamiklar og afdrifaríkar fyrir efnahagslífið.

Óvenju mikill viðsnúningur í mati á aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, tekur sitt hæsta stökk frá upphafi þessara mælinga. Gildið hækkar um rúmlega 100 stig, úr 40 í 145, en áður var hæsta stökkið 70 stig í mars 2014. Rúm 40% stjórnenda töldu aðstæður góðar, svipað hlutfall hvorki góðar né slæmar en aðeins 16% að þær væru slæmar. Í öllum atvinnugreinunum töldu fleiri stjórnendur að staðan væri góð en slæm, en jákvæðast mat á aðstæðum var í þjónustugreinum og verslun.

Næstum allir stjórnendur vænta bata eftir 6 mánuði

Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði sýnir bjarta mynd og fær sitt hæsta gildi frá upphafi þessara mælinga, eða 191 þar sem 200 er hæsta gildi. Niðurstaðan sýnir að 84% stjórnenda telja að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, 4% að þær verði verri en 12% að þær verði óbreyttar.

Víða skortur á starfsfólki

Skortur á starfsfólki minnkaði meira milli kannana en áður hefur gerst og tvöfaldaðist fjöldi fyrirtækja sem búa við skort. Nú telja 23% fyrirtækjanna skort fyrirliggjandi samanborið við 11% fyrir þremur mánuðum. Mestur skortur er í byggingarstarfsemi (60% fyrirtækja), þjónustu (32%) og ferðaþjónustu (28%).

Starfsmönnum á almennum markaði gæti fjölgað um 2.200 á næstu 6 mánuðum

Væntingar um betri tíð skila sér í áformum um mikla fjölgun starfsfólks á árinu.

26 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 38% stjórnenda búast við fjölgun starfsmanna, 9% við fækkun og rúmlega helmingur við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki könnunarfyrirtækjanna fjölgi um 1,8%. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um rúmlega 2.200 á næstu sex mánuðum, þ.e. til ársloka. Fjölgunin er 2.800 hjá fyrirtækjum sem sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkunin 600 hjá þeim sem búast við fækkun.

Stjórnendur í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en þar á eftir koma stjórnendur í þjónustu og verslun.

Vænta verðbólgu yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,5% og hækka úr 3,0% sem þær hafa verið undanfarið ár, en þar á undan höfðu legið við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru 3% eins og undanfarin ár.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Stjórnendur búast við verulegri aukningu innlendrar eftirspurnar á næstu 6 mánuðum. 55% þeirra búast við aukningu, 42% að hún standi í stað og 3% að hún minnki. Enn betri horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem 69% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn, 28% óbreyttri stöðu en 3% við samdrætti.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er ársfjórðungsleg og framkvæmd hennar í höndum Gallup. Annað hvort skipti er könnunin ítarleg með 20 spurningum en hin skiptin er hún minni með 9 spurningum. Að þessu sinni var minni könnunin gerð á tímabilinu 12. maí til 4. júní 2021.

Í úrtaki voru 430 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 214, þannig að svarhlutfall var 50%. Niðurstöður eru flokkaðar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort það starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök Atvinnulífsins

Má bjóða þér lægri húsnæðiskostnað?

Má bjóða þér lægri húsnæðiskostnað?

Skörp hækkun hefur mælst á fasteignaverði að undanförnu. Ein augljós skýring þess er vaxtalækkanir Seðlabankans sem var ætlað að auðvelda heimilum og fyrirtækjum fjármögnun til neyslu og fjárfestingar í einum dýpsta samdrætti sögunnar. Þá hafa umtalsverðar launahækkanir raungerst á sama tíma sem hefur aukið á eftirspurnarþrýstinginn. Íbúðum í byggingu hefur hins vegar farið fækkandi. Allt hefur þetta leitt til þess að árstaktur verðhækkana á höfuðborgarsvæðinu mælist nú um 10% að raunvirði.

Hlutfall fyrstu kaupenda aldrei reynst hærra

Þó að fasteignaverð hafi hækkað að undanförnu er ekki þar með sagt að heimilum reynist almennt erfiðara að kaupa húsnæði en áður, enda hefur hlutfall fyrstu kaupenda á markaði aldrei verið hærra. Vísitala húsnæðiskostnaðar, sem tekur tillit til markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, launa og vaxtastigs, gefur raunar til kynna að nokkuð auðveldara sé að festa kaup á fasteign nú en í hækkunarfasanum sem átti sér stað fyrir 3-5 árum. Þá mældist árstaktur raunverðshækkana á bilinu 10-25% þó vaxtastig hafi verið töluvert hærra. Fasteignaverð hækkaði verulega umfram laun og ljóst mátti vera að mikill skortur hafði myndast á markaðinum eftir margra ára tímabil frosts í íbúðafjárfestingu. Síðan þá hefur framboð íbúða aukist umtalsvert en nú hafa myndast vísbendingar um framboðsskort á ný. Eignir staldra stutt við á söluskrá. Samdráttur mælist í fjölda íbúða í byggingu samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins og ekki hafa verið færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í fjögur ár.

Aðgerðir yfirvalda beinast að eftirspurnarhlið

Þó að aðstæður til fasteignakaupa hafi um margt verið góðar að undanförnu, eins og mikil velta ber vitni um, er tilefni til að staldra við. Vaxtastig er sögulega lágt og sú hætta er fyrir hendi að nýtt vaxtahækkunarferli, sem þegar gæti verið hafið, þyngi greiðslubyrði skuldsettra fasteignaeigenda og skapi þeim vandræði þegar fram í sækir. Einnig er hætta á því að einhverjir fari að veðja á áframhaldandi íbúðaverðshækkanir og freistist til að skuldsetja sig um of, sem ýtir undir bólumyndun. Það er ekki síst þess vegna sem Seðlabankinn ákvað nú á dögunum að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda úr 85% í 80%, að undanskildum fyrstu kaupendum sem munu áfram geta fengið lán fyrir allt að 90% af markaðsverði fasteignar.

Aðgerðir yfirvalda til að hafa áhrif á fasteignamarkað beinast yfirleitt að eftirspurnarhliðinni enda er það fljótvirkari leið til að hafa áhrif á markaðinn heldur en aðgerðir sem beinast að framboðshlið. Ekki má hins vegar vanmeta þau áhrif sem stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, geta haft á framboðshliðina.

Byggingarkostnaður óþarflega hár

Byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis er einn sá mesti í Evrópu og nær helmingi meiri en að meðaltali í Evrópusambandslöndum. Margvíslegar skýringar liggja þar að baki. Samkvæmt nýlegri úttekt OECD voru gerðar 316 tillögur til úrbóta á lagaumgjörð fyrir íslenska byggingariðnaðinn. Má þar nefna tillögur til: einföldunar á leyfisveitingum, skilvirkara ferlis við breytingar á skipulagsákvörðunum sveitarfélaga, breytinga á byggingarreglugerð sem eykur svigrúm hönnuða til að leita skapandi lausna og breytinga á lögum um löggiltar starfsgreinar. Ísland er í 72. sæti af 185 þegar kemur að skilvirkni við öflun byggingaleyfa samkvæmt Alþjóðabankanum. Af þessum niðurstöðum má vera ljóst að fjölmargar hindranir eru í vegi framkvæmdaaðila í byggingariðnaði sem tefja framkvæmdaferlið og auka byggingarkostnað. Hér geta yfirvöld gert betur.

Sú umgjörð sem yfirvöld hafa mótað fyrir byggingariðnaðinn er óskilvirk, tímafrek og kostnaðarsöm.

Fleiri þætti má nefna. Stefna sveitarfélaga varðandi framboð og úthlutanir lóða þarf að liggja ljós fyrir. Aukin rafræn þjónusta þegar kemur að hvers kyns gagnaskilum til skipulagsyfirvalda er augljós og tímabær umbót sem gæti hraðað framkvæmdaferlinu verulega og minnkað kostnað. Að auki má nefna að skortur hefur verið á rauntímagögnum um byggingu íbúðarhúsnæðis svo hægt sé að meta betur húsnæðisþörf hverju sinni og bregðast tímanlega við markaðsaðstæðum. Því ber að fagna fyrirætlunum stjórnvalda um nýja mannvirkjaskrá sem ætlað er að veita áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirkjagerð og stöðu á húsnæðismarkaði.

Skilvirkt framkvæmdaferli varðar almannahagsmuni

Það er áhyggjuefni að íbúðafjárfesting sé að dragast saman á ný á meðan íbúðaverð hækkar ört. Vaxtalækkanir Seðlabankans voru rökrétt og eðlilegt skref í efnahagssamdrætti þótt þær hafi haft fyrirsjáanleg áhrif til hækkunar eignaverðs. Til að gera umbætur sem lækka byggingarkostnað þurfa yfirvöld hins vegar að bregðast við þeim ábendingum sem ítrekað hafa komið fram á undanförnum árum, nú síðast frá OECD.

Sú umgjörð sem yfirvöld hafa mótað fyrir byggingariðnaðinn er óskilvirk, tímafrek og kostnaðarsöm. Allar hindranir sem hamla því að framkvæmdaaðilar geti brugðist tímanlega og haganlega við markaðsaðstæðum magna sveiflur, ýta undir óstöðugleika og auka þannig íbúðakostnað sem getur svo valdið ólgu á vinnumarkaði. Fasteignaverð hér á landi er hærra en það þyrfti að vera. Úr því má bæta ef viljinn er fyrir hendi.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins

Greinin birtist fyrst 8. júlí 2021 í Markaðnum 

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Opið fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 6. október í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á [email protected] merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins. 

Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins

 • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
 • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
 • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
 • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
 • Innra umhverfi er öruggt
 • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
 • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins

 • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
 • Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

*Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins. 

Dagskrá verður birt er nær dregur. 

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta:

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna (1)

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 6. október í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á [email protected] merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins. 

Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins

 • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
 • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
 • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
 • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
 • Innra umhverfi er öruggt
 • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
 • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins

 • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
 • Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

*Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins. 

Dagskrá verður birt er nær dregur. 

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta:

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin