Félag atvinnurekenda

Stjórnvöld afstýri 20% hækkun fasteignaskatta og -gjalda

Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara hafa sent öllum sveitarfélögum landsins, alþingismönnum og ráðherrum fjármála og sveitarstjórnarmála eftirfarandi sameiginlega áskorun:

„Húseigendafélagið, Landssamband eldri borgara og Félag atvinnurekenda skora á ríki og sveitarfélög að grípa til aðgerða til að hindra að gífurlegar verðhækkanir á fasteignamarkaði leiði til mikilla hækkana fasteignagjalda á eignir fólks og fyrirtækja.

  • Til skemmri tíma þurfa sveitarstjórnir, sem vinna nú að gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár, að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta og -gjalda til að sporna gegn sjálfvirkum hækkunum álagna.
  • Til lengri tíma þurfa ríki og sveitarfélög að ná saman um leiðir til að breyta óskiljanlegu og ósanngjörnu kerfi þar sem skattlagning fólks og fyrirtækja eltir sveiflur í eignaverði.

Fasteignamat ársins 2023 er 19,9% hærra en ársins 2022. Án aðgerða af hálfu sveitarfélaganna mun sú hækkun leiða til samsvarandi hækkunar fasteignaskatta og -gjalda. Til að setja þessar hækkanir í samhengi má nefna að hækkun vísitölu neysluverðs undanfarna 12 mánuði er 9,7%. Hækkun launavísitölu frá júní 2021 til maí 2022 er um 8%. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga má vænta 6% hækkunar ellilífeyris á næsta ári. Eldri borgarar eru því í sérstaklega erfiðri stöðu, þar sem þeir geta yfirleitt ekki sótt sér auknar tekjur til að mæta hærri skattbyrði.

Hækkun fasteignaskatta og -gjalda bætir enn í verðbólguna. Húsaleiga jafnt atvinnu- sem íbúðarhúsnæðis hækkar og fyrirtæki neyðast til að hækka verð. Sveitarfélögin geta ekki hlaupist undan sinni ábyrgð á því verkefni að ná tökum á verðbólgunni.

Álagðir fasteignaskattar sveitarfélaganna hækkuðu um 50,2% á hvern íbúa á árunum 2015-2021. Það var rúmlega tvöföld hækkun neysluverðsvísitölu á sama tíma, sem nam 24%. Álögur hafa þannig hækkað langt umfram eðlileg viðmið undanfarin ár. Meiri hækkanir eru yfirvofandi nema eitthvað verði að gert, því að hækkun vísitölu markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hefur t.d. verið 22,6% undanfarna 12 mánuði.

Útreikningur fasteignamats er ógegnsær og uppfyllir ekki þá einföldu kröfu að skattgreiðandinn skilji hvernig skatturinn er reiknaður út. Fasteignamatið er aðallega gjaldstofn fyrir ýmsar opinberar álögur en er að öðru leyti til lítils gagns. Mikla peninga og mannafla kostar að halda því úti, sem skýtur skökku við á meðan fjármálaráðherra boðar einföldun og fækkun stofnana í ríkisrekstrinum. Auðvelt væri að nota annan gjaldstofn, til dæmis brunabótamat, fermetrafjölda eða aðra viðmiðun sem fylgir ekki sveiflum í fasteignaverði og dregur þannig á eftir sér sjálfvirka röð hækkana.

Húseigendafélagið, Landssamband eldri borgara og Félag atvinnurekenda skora á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála að beita sér fyrir viðræðum við sveitarfélögin og hagsmunaaðila um að breyta lögum um fasteignamat og tekjustofna sveitarfélaga og koma á gegnsærra og sanngjarnara kerfi.“

Félag atvinnurekenda

Næsta örnámskeið: Tollflokkun – hvernig verja innflytjendur sig fyrir bakreikningum vegna aðflutningsgjalda?

Arnar Heimir Lárusson

Næsta námskeið í örnámskeiðaröð FA um hagnýta lögfræði í rekstri fyrirtækja verður haldið 4. október kl. 10-10.30. Umfjöllunarefnið er tollflokkun og hvernig innflytjendur geti varið sig fyrir bakreikningum vegna aðflutningsgjalda.

Nokkrir félagsmenn í FA hafa á síðustu árum fengið háa bakreikninga frá tollayfirvöldum vegna meintrar rangrar tollflokkunar. Hefur það í sumum tilfellum gerst þrátt fyrir að flutt hafi verið inn á sömu tollanúmerum og útflytjandi í viðskiptalandi notar, og jafnvel þótt farið hafi verið að ráðum starfsmanna tollstjóra um tollflokkun vörunnar. Veldur þetta iðulega miklu og óafturkræfu tjóni fyrir viðkomandi fyrirtæki og því til mikils að vinna að afstýra slíku. Á námskeiðinu verður farið yfir almenna tollskyldu, skyldur sem hvíla á innflytjendum, heimildir tollyfirvalda til að beita viðurlögum og hvenær sé skynsamlegt að leita eftir bindandi áliti tollayfirvalda um tollflokkun, hvert gildi slíkra álita sé og hvernig fyrirtæki eigi að bera sig að við að afla þeirra.

Umsjón með námskeiðinu hefur Arnar Heimir Lárusson. Arnar er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum. Arnar er með meistaragráðu í lögfræði og starfar nú hjá MAGNA lögmönnum, sem FA á í góðu samstarfi við. Auk starfa sinna hjá MAGNA starfaði hann áður hjá umboðsmanni Alþingis meðfram námi.

Örnámskeið FA eru stutt vefnámskeið, haldin á Zoom með svokölluðu 20+10-fyrirkomulagi; 20 mínútna fyrirlestur og svo tíu mínútur til að svara spurningum og ábendingum. Þannig er markmiðið að stjórnendur þurfi ekki að taka sér meira en hálftíma í hvert námskeið. Námskeiðin henta framkvæmdastjórum, fjármálastjórum, mannauðsstjórum og fleiri stjórnendum. Þau eru opin félagsmönnum í FA og haldin kl. 10-10.30.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá svo sendan hlekk til að taka þátt í námskeiðinu með góðum fyrirvara.

Notice: JavaScript is required for this content.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Franskar, tyggjó og tollar

Tyggjóið er tollfrjálst, 46% tollur á frönsku kartöflunum.

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 22. september 2022.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, skrifaði grein í Morgunblaðið laugardaginn 17. september og vék þar nokkrum orðum að tollamálum, sem Félag atvinnurekenda hefur látið talsvert til sín taka. Ég fagna tækifæri til að koma á framfæri nokkrum atriðum í framhaldi af grein míns ágæta kollega.

Vigdís segir í grein sinni að það sæti furðu að „tollvernd á franskar kartöflur og svo landbúnaðarvörur í heild sinni skuli hafa orðið sá fókus sem raun ber vitni undanfarna daga en ekki t.d. 20% tollur á tyggigúmmí, sem mér best vitandi er ekki framleitt innanlands.“

Það er ekki sízt greinarhöfundur sem ber ábyrgð á að tollvernd fyrir franskar kartöflur skuli hafa verið í fókus að undanförnu. FA hefur lengi barizt fyrir því að 76% tollur á franskar kartöflur – hæsti prósentutollur tollskrárinnar – verði felldur niður, með þeim rökum að hann verndi ekki íslenzkan landbúnað heldur eitt iðnfyrirtæki sem framleiddi til skamms tíma franskar kartöflur og það að stórum hluta úr innfluttu hráefni. Svo hætti fyrirtækið framleiðslu á frönskum kartöflum á dögunum og þá blasir við (flestum) að verndartollurinn þjónar engu hlutverki lengur.

Munurinn á tyggjói og frönskum
Vigdís vill ræða toll á tyggigúmmí í samhengi við fröllutollana. Það er rétt hjá henni að í tollskránni er almenni tollurinn á tyggjó 20% – en reyndar aðeins ef það inniheldur sykur. Sykurlaust tyggigúmmí, sem ber 13% toll, var rúmlega 84% tyggjóinnflutnings á síðasta ári í tonnum talið samkvæmt tölum Hagstofunnar. Samkvæmt EES-samningnum og ýmsum fleiri fríverzlunarsamningum sem Ísland hefur gert ber tyggjó hins vegar engan toll. Þannig lagðist tollur aðeins á 2,4% af tyggjóinnflutningi síðasta árs, hin 97,6 prósentin komu frá ríkjum sem Ísland hefur samið við um niðurfellingu tollsins.

Þar er komið að stóra muninum á tyggigúmmíi og frönskum kartöflum. Eins og áður segir bera franskar 76% toll. Í fríverzlunarsamningum sem Ísland hefur gert, m.a. við Kanada, Bretland og Evrópusambandið, hafa íslenzk stjórnvöld allra náðarsamlegast fallizt á að þær skuli bera „aðeins“ 46% toll. Þessi verndartollur kostar íslenzka neytendur hið minnsta 300-400 milljónir króna á ári.

Með öðrum orðum er auðvelt fyrir innflutningsfyrirtæki að flytja inn tyggjó án tolla. Það er hins vegar allsendis ómögulegt að flytja inn franskar kartöflur án þess að borga 46% toll. Það er ástæðan fyrir því að meira er talað um fröllutollinn en tyggjótollinn, þótt það væri að sjálfsögðu æskilegt að losna líka við þann síðarnefnda.

Tollverndin mest á Íslandi
Framkvæmdastjóri BÍ segir réttilega að tollar séu ekkert séríslenzkt fyrirbæri og vitnar til talna, sem samtökin hafa áður haldið á lofti, um að á Íslandi séu 87% þeirra tollskrárnúmera, sem ná til landbúnaðarvara, tollfrjáls í gegnum hina ýmsu viðskiptasamninga. Þetta á að sýna að tollvernd búvara sé ekki íþyngjandi á Íslandi. Það gleymist að nefna að ástæðan er sú að á Íslandi er framleitt mjög þröngt úrval búvara í samanburði við hið ríkulega framboð þeirra á heimsmarkaði. Íslenzk stjórnvöld hafa sem betur fer borið gæfu til að fella niður eða semja um afnám margra verndartolla sem vernda enga innlenda framleiðslu, enda væru þeir ástæðulaus skattur á neytendur – rétt eins og fröllutollurinn.

Þegar litið er á þá vernd sem tollar veita framleiðendum innlendra búvara blasir hins vegar við önnur mynd. Í skýrslu um þróun tollverndar, sem unnin var á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir tveimur árum, kemur skýrt fram að tollvernd fyrir innlendan landbúnað er ríkust á Íslandi af vestrænum ríkjum samkvæmt gögnum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).  Niðurstaða skýrsluhöfunda er að tollvernd á Íslandi sé langt umfram það sem tíðkast að meðaltali í aðildarríkjum OECD. Þannig var afurðaverð til bænda að jafnaði 77% hærra en innflutningsverð sambærilegrar vöru ef engar hindranir væru á innflutningi á árunum 2017-2019. Þetta er nærri því 20 sinnum meiri tollvernd en í Evrópusambandinu, þar sem hún nemur 4% samkvæmt sömu reikniaðferð. Í OECD í heild er hlutfallið 12%. Þetta eru hlutföll sem er gott að hafa í huga þegar við berum Ísland saman við önnur vestræn ríki.

Mismunandi túlkanir á tollskrá eru viðskiptahindrun
Loks fjallar Vigdís um mikilvægi þess að landbúnaðarvörur séu rétt tollflokkaðar og um það getum við verið sammála. Hún nefnir misræmi í hagtölum Evrópusambandsins um útflutning búvara til Íslands og í tölum Hagstofunnar um innflutning. Við erum líka sammála um að æskilegt er að finna ástæðurnar fyrir því misræmi. Vigdís segir að oft geti verið um háar fjárhæðir að ræða fyrir ríkissjóð að vörur séu rétt tollflokkaðar. Þar getur líka verið um háar fjárhæðir að tefla fyrir innflutningsfyrirtæki. Því miður eru nýleg, staðfest dæmi um að innflutningsfyrirtæki fái háa bakreikninga frá Skattinum fyrir að hafa flutt inn vörur á „röngu“ tollskrárnúmeri, þrátt fyrir að hafa verið í góðri trú þar sem tollayfirvöld í ESB töldu flokkunina rétta – og einnig embættismenn Skattsins sem leitað hafði verið ráða hjá.

Sömuleiðis liggur fyrir að ágreiningur er á milli Íslands og Evrópusambandsins um tollflokkun á sumum vörum. Félag atvinnurekenda og Íslensk-evrópska viðskiptaráðið, sem FA rekur, hafa bent á að ólík túlkun á samræmdu tollskránni sé í raun hindrun í vegi viðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu og skorað á stjórnvöld að fara í vinnu við að samræma tollskrá og tollflokkun á Íslandi og í ESB.

Það má vona …
Verndartollar á búvörur hverfa ekki á næstunni, en það má vona í fyrsta lagi að Ísland hætti að leggja á verndartolla sem ekkert vernda, í öðru lagi að dregið verði úr mestu tollvernd í hinum vestræna heimi og í þriðja lagi að tilhögun tolla geri ekki rekstrarumhverfi innflutningsfyrirtækja flókið og ófyrirsjáanlegt.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Hverjir tapa á hærri áfengissköttum?

Ýmsir tapa á hækkun áfengisskatta. Neytendur, framleiðendur, ferðaþjónustan og jafnvel Fríhöfnin. Framkvæmdastjóri FA skrifar „endahnút“ í Viðskiptablaðið.
Smáframleiðendur sem selja drjúgan hluta framleiðslu sinnar í Fríhöfninni eru líklegir til að verða fyrir skaða vegna skattahækkunarinnar.

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 15. september 2022

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að hækka duglega hæstu áfengisskatta í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Áfengisgjald verður hækkað um 7,7%. Í verzlunum Fríhafnarinnar verður skatturinn hækkaður um 150%; úr 10% af fullu gjaldi í 25%.

Margir tapa á þessari skattahækkun. Í fyrsta lagi auðvitað neytendur, sem eru væntanlega hissa á þessu framlagi ríkisstjórnarinnar til baráttunnar gegn verðbólgu. Þeir sem hafa minnst á milli handanna tapa mest. Skattahækkunin leggst þyngra á ódýrari tegundir vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala sem leggst á áfengismagn. Þeir sem eru vanir að kaupa dýrari tegundir finna minna fyrir skattahækkuninni.

Í öðru lagi versnar samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar. Það þykir tilheyra í fríi að leyfa sér að kaupa drykk og drykk til að njóta á veitingastað eða bar. Nú fjölgar væntanlega enn ferðamönnum sem segja öllum vinum sínum á samfélagsmiðlum að Ísland sé fallegt og fólkið gestrisið – en verðlagið glæpsamlegt.

Í þriðja lagi tapa minni framleiðendur áfengis, sérstaklega sterkra drykkja, sem selja stóran hluta framleiðslu sinnar í fríhafnarverzlunum. Verðið á vöru þeirra mun hækka svo mikið að ferðamenn kaupa sér frekar flösku í fríhöfn erlendis.

Loks hallar á Fríhöfnina í samkeppni hennar við erlendar fríhafnarverzlanir. Neytendur eru engir kjánar og bera saman verð. Það sem á að auka tekjur af sölu í Fríhöfninni getur reynzt tvíeggjað sverð.

Félag atvinnurekenda hefur margoft bent á að áfengisskattar séu komnir út úr öllu korti og frekar ástæða til að vinda ofan af þeim en bæta í. Ríkisstjórnin lætur það ekki hafa áhrif á sig – en rökstyður ekki heldur af hverju eigi að skattpína Íslendinga svona miklu meira en nágrannaþjóðirnar þegar kemur að skatti á þessa einu neyzluvöru.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin