Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Stuðningur og velvild í garð ÍSÍ og Ólympíufara

16.07.2021

Það er alltaf áskorun að halda út í heim til íþróttakeppni og ekki síst í verkefni eins og Ólympíuleika þar sem oft þarf að ferðast um langan veg að keppnisstað og dvölin getur orðið í lengra lagi. Fjarvera frá sínu nánasta fólki tekur á og oft fátt um afþreyingu. Nú á tímum kórónuveirufaraldurs eru áskoranirnar um margt þyngri þar sem takmarkanir á ferðafrelsi í Tókýó eru umtalsverðar og afþreying því mögulega fábreyttari en oft áður.

Undirbúningur fyrir þátttöku í Ólympíuleikum felst í ýmsum þáttum og er það í höndum ÍSÍ að útvega þátttakendum fatnað til ferðarinnar og ýmsan annan varning og útbúnað til að nota í ferðinni. Þátttaka í Ólympískum verkefnum er því kostnaðarsöm fyrir ÍSÍ að öllu jöfnu.

Nú sem endranær styðja velviljuð fyrirtæki ÍSÍ og íslenska hópinn á Ólympíuleikunum í Tókýó með ýmsum hætti. Nú í vikunni afhenti fyrirtækið Storytel íslensku keppendunum lesbretti og þriggja mánaða áskrift að þúsundum hljóðbóka fyrirtækisins. Eins fengu allir í íslenska hópnum þriggja mánaða áskrift að Storytel. Það var Arnar Bentsson viðskiptastjóri hjá Storytel sem afhenti varninginn í höfuðstöðvum ÍSÍ og var myndin sem fylgir fréttinni tekin við það tækifæri. Á móti gjöfinni tóku Guðni Valur Guðnason og Ásgeir Sigurgeirsson fyrir hönd keppenda og Andri Stefánsson aðalfarstjóri og Örvar Ólafsson aðstoðarfararstjóri fyrir hönd föruneytis ÍSÍ.

Beiersdorf á Íslandi hefur einnig stutt dyggilega við bakið á verkefnum ÍSÍ um áralangt skeið og afhenti fyrirtækið öllum í íslenska hópnum sem fer á Ólympíuleikana í Tókýó veglegt sérmerkt ferðaveski með ýmsum húðvörum sem koma sér vel í ferðinni. Beiersdorf er alþjóðlegt fyrirtæki með markaðsleiðandi vörumerki eins og NIVEA, Eucerin o.fl.

Það er afar dýrmætt að hljóta stuðning með þessum hætti frá velviljuðum fyrirtækjum og ánægjan meðal íslenska hópsins er mikil með varninginn. Bæði Storytel og Beiersdorf fá bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Tókýó 2020 – Snæfríður Sól keppti í dag

28.07.2021

Snæfríður Sól keppti í 100 metra skriðsundi í undanrásum á Ólympíuleikunum í dag. Hún synti sundið af miklum krafti, sérstaklega seinustu 50 metrana, þar sem hún vann sig upp í 4. sætið upp úr því seinasta. Það nægði samt ekki til að koma henni áfram. Þrátt fyrir það þá bætti hún sitt persónulega met í dag, náði 56,15 sek. en fyrra persónulega met hennar var 56,32, þannig að bætingin var 17/100 úr sekúndu. Snæfríður Sól endaði í 34. Sæti af 52 keppendum. Til að komast upp úr riðlinum og vera þá á meðal 16 vestu hefði hún þurft að synda á 53,70 sek.

Íslenska sundfólkið okkar hefur þá lokið keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó og munu öll halda heim á leið á föstudaginn.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Tókýó 2020 – Anton Sveinn Mckee keppti í dag

27.07.2021

Anton Sveinn McKee synti í undanrásum 200 metra bringusunds á Ólympíuleikunum í dag.

Þrátt fyrir að vera annar í mark í sínum riðli, á 2:11,64 eftir æsispennandi sund, þá var það ekki nóg til að komast áfram í undanúrslit. Hann hafnaði í 24. sæti af 40, en 16 efstu komust áfram. Anton Sveinn hefði þurft að ná tímanum 2:09,95 til að komast áfram. Íslandsmet Antons frá 2015 er 2:10,21, þannig að hann var nokkuð frá sínum besta tíma, þó að vissulega hafi sundið gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig.

Anton Sveinn er skiljanlega vonsvikinn með niðurstöðuna en lætur engan bilbug á sér finna og sagði meðal annars í viðtali við RÚV, aðspurður um framhaldið:

„Þetta er alla veganna það skemmtilegasta sem ég geri, þótt það sé hundleiðinlegt að ganga illa.”

Það verður áhugavert að sjá hvað hann gerir næst, við fylgjumst spennt með.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Snæfríður Sól bætti eigið met í Tókýó

26.07.2021

Snæfríður Sól Jór­unn­ar­dótt­ir sló sitt eigið Íslands­met í 200 metra skriðsundi í morgun með frumraun sinni á Ólympíuleikum. Hún synti á 2:00,20 mín­út­um en fyrra Íslands­met henn­ar í grein­inni var 2:00,50 mín­út­ur. Það nægði samt ekki til að tryggja henni sæti í undanúrslitum en hún endaði í 22. sæti af 30 keppendum í undanrásum, 16 efstu komust áfram. Snæfríður Sól hefði þurft að ná 1:58,33 til að komast í undanúrslitin.

Engu að síður er þetta stórglæsilegur árangur hjá henni og magnað að ná að bæta sitt eigið met á svona stóru móti.

Næst keppir Snæfríður Sól í undanrásum 100 metra skriðsunds á miðvikudag.  Bein útsending hefst klukkan 10 á RÚV.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin