Hagstofan

Talnaefni um vísitölu byggingarkostnaðar í mars frestað

Hagstofan

Skráðum gistinóttum ferðamanna fjölgaði um 68% árið 2021

Heildarfjöldi skráðra gistinátta ferðamanna á Íslandi var um fimm milljónir árið 2021 en þær voru um 3,3 milljónir árið 2020. Gistinóttum fjölgaði um allt land á milli ára, mest á Suðurnesjum, þar sem þær tvöfölduðust, en minnst á Vestfjörðum og Austurlandi þar sem þeim fjölgaði um þriðjung.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 3,2 milljónir árið 2021, um 833.000 í annarri innigistingu og gistinætur á tjaldsvæðum voru um 939.000.

Heildarfjöldi gistinátta árið 2021 jókst því um 52,1% á milli ára. Þar af var 60,4% fjölgun á hótelum og gistiheimilum, 26,6% fjölgun var í annarri innigistingu og 52,1% aukning á tjaldsvæðum.

Mikil aukning var í nánast öllum landshlutum og gistitegundum, einna minnst á tjaldsvæðum á Vestfjörðum þar sem gistinætur voru 61.900 árið 2020 en 64.900 árið 2021 og er það aukning um 4,7%. Þó var samdráttur í annarri innigistingu á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru gistinætur 272.200 árið 2020 en 205.400 árið 2021 og var því samdráttur um 24,5% á milli ára.

Vegna kórónuveirufaraldursins var óvenju stór hluti gistinátta árið 2020 vegna innlendra ferðamanna. Árið 2021 fjölgaði bæði innlendum og útlendum gistinóttum á milli ára og má sérstaklega merkja fjölgun erlendra ferðamanna. Innlendar gistinætur voru um 1,9 milljónir sem er aukning um 32,2% frá fyrra ári en erlendum gistinóttum fjölgaði um 68,1% og voru þær um 3,1 milljón.

Takmarkanir á samgöngum sem settar voru á um miðjan mars 2020 endurspeglast í breytingum á milli ára þegar gistinætur eru skoðaðar eftir mánuðum. Á fyrsta ársfjórðungi var mikill samdráttur frá fyrra ári (67%-87%) en aukning frá fyrra ári það sem eftir lifði 2021. Aukningin var um 40%-85% yfir sumarið en enn meiri þar fyrir utan og síðustu mánuði ársins voru gistinætur allt að sexfalt fleiri en þær voru árið 2020.

Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega fyrstu áætlun um gistingu á öllum tegundum gististaða í fyrri mánuði. Þessar tölur hafa nú verið uppfærðar. Samkvæmt fyrstu áætlunum var heildarfjöldi gistinátta árið 2021 tæplega 5.100.000 en endanlegur fjöldi reyndist 5.012.000 og munar þar 1,7%. Íslenskar gistinætur reyndust 4,9% færri en við upphaflegar áætlanir en útlendar gistinætur 0,4% fleiri.

Önnur verkefni
Fram að upphafi kórónuveirufaraldursins voru tölur um fjölda erlendra gistinátta, á gististöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður, áætlaðar út frá svörum í landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands. Skyndileg fækkun á brottförum frá landinu í mars 2020 olli því að ómögulegt reyndist að halda uppi svörun í landamærarannsókn og var hún tímabundið lögð niður með það fyrir augum að taka hana upp á ný þegar aðstæður færu batnandi. Af þessum orsökum eru áætlaðar gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu, sem miðlað var í gegnum deilisíður á borð við Airbnb, ekki taldar með í ofangreindum heildarfjölda skráðra gistinátta ferðamanna. Landamærarannsókn fór af stað aftur sumarið 2021 og er ætlunin að hefja á ný að áætla gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu í gegnum deilisíður síðar á þessu ári.

Árið 2021 hóf Hagstofa Íslands gagnasöfnun fyrir ferðavenjurannsókn. Tilgangur hennar er að afla upplýsinga um ferðalög þeirra einstaklinga sem búsettir eru á Íslandi, bæði innanlands og utan, auk þess sem vonir standa til þess að hægt verði að nota upplýsingar úr henni til þess að áætla fjölda innlendra gistinátta í heimagistingu sem miðlað er gegnum vefsíður á borð við Airbnb. Ætlunin er að byrja að birta niðurstöður úr ferðavenjurannsókn síðar á þessu ári.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Launavísitala hækkaði um 1,6% í apríl

Flýtileið yfir á efnissvæði