Veður

Tíðarfar í ágúst 2021

Hitakort


Stutt yfirlit

3.9.2021

Óvenjuleg hlýindi voru á landinu öllu í ágúst. Mánuðurinn var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á allmörgum stöðvum, t.d. á Akureyri, Stykkishólmi, Bolungarvík, Hveravöllum og Grímsey. Hlýjast var dagana 23. til 25. ágúst. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,4 stig á Hallormsstað þ. 24. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Óvenju þurrt og sólríkt var á Norðaustur- og Austurlandi, en þungbúið suðvestanlands. Mánuðurinn var hægviðrasamur.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í ágúst var 12,7 stig og er það 1,6 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020 og einnig 1,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti ágústmánaðar hefur aðeins einu sinni verið hærri í Reykjavík, en það var ágúst 2003. Á Akureyri var meðalhitinn 14,2 stig, 3,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 3,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mánuðurinn var hlýjasti ágústmánuður frá upphafi mælinga á Akureyri. Fyrra met var frá ágúst 1947 þegar mánaðarhitinn var 13,2 stig og er bætingin því upp á heilt stig líkt og í júlímánuði síðastliðnum. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 12,7 stig. Þar hefur mánaðarhiti ágústmánaðar aldrei verið hærri, en samfelldar hitamælingar í Stykkishólmi ná aftur til ársins 1846.

Mánuðurinn var einnig hlýjasti ágústmánuður frá upphafi mælinga í Bolungarvík, Grímsey og á Hveravöllum. Og sá næsthlýjasti á Egilsstöðum og Teigarhorni. Meðalhiti í byggðum landsins var 12,2 stig og jafnar þar með fyrra met frá ágúst 2003.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 12,7 1,6 2 151 1,6
Stykkishólmur 12,7 2,2 1 176 2,4
Bolungarvík 12,7 3,1 1 124 3,3
Grímsey 11,3 2,5 1 148 2,6
Akureyri 14,2 3,4 1 141 3,7
Egilsstaðir 12,6 2,2 2 67 2,7
Dalatangi 11,0 1,8 3 84 1,8
Teigarhorn 10,8 1,2 2 149 1,2
Höfn í Hornaf. 11,1 0,7
Stórhöfði 11,3 0,9 6 144 1,0
Hveravellir 10,6 3,4 1 57 3,6
Árnes 12,4 1,5 3 142 1,5

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2021

Óvenju hlýtt var á landinu öllu í ágúst, sérstaklega norðaustan- og austanlands. Mánuðurinn var sá hlýjasti á allmörgum stöðvum og hitamet voru slegin víða. Að tiltölu var hlýjast á Norðurlandi, noðranverðum Vestfjörðum og á norðaustanverðu hálendinu. Þar fóru hitavik miðað við síðustu tíu ár víða vel yfir fjögur stig líkt og í júlí s.l. sem þykir mjög mikið í sumarmánuði. Jákvætt hitavik var mest 4,5 stig á Vaðlaheiði. Á sunnanverðu landinu var að tiltölu svalara þó hiti hafi verið vel yfir meðallagi. Hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst 0,7 stig á Höfn í Hornafirði.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 14,2 stig á Bíldudal og á mönnuðu stöðinni á Akureyri. Það er nýtt mánaðarhitamet fyrir ágústmánuð. Eldra met var var 13,4 stig (Írafoss í ágúst 2004).

Lágmarksmeðalhiti var sérstaklega hár á Bíldudal, 11,6 stig og er það nýtt lágmarksmeðalhitamet bæði fyrir ágúst og fyrir alla mánuði ársins. Eldra met (fyrir hvaða mánuð sem er) var 11,0 stig (Garðar í Staðarsveit, júlí 1991, Surtsey, júlí 2012 og Arnarstapi á Snæfellsnesi, júlí 1943).

Hámarksmeðalhiti mánaðarins var hæstur 19,0 stig í Ásbyrgi og er það nýtt hármarksmeðalhitamet fyrir ágúst. Eldra met var 18,4 stig (Staðarhóll í ágúst 2004).

Meðalhiti mánaðarins var lægstur 8,0 stig á Skálafelli. Á láglendi var meðalhitinn lægstur á Kambanesi 9,6 stig.

Mjög hlýtt var dagana 23. til 25. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,4 stig á Hallormsstað þ. 24. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Eldra met var 29,2 stig (Egisstaðaflugvöllur 11.ágúst 2004). Fjöldi annarra mánaðarhámarkshitameta féllu á einstaka stöðvum þessa daga.

Lægsti hiti mánaðarins mældist 0,4 stig á Miðfjarðarnesi þ. 19.

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenju þurr á Norðaustur- og Austurlandi og tiltölulega þurr í flestum öðrum landshlutum.

Úrkoma í Reykjavík mældist 56,0 mm sem er um 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Mánuðurinn var mjög þurr á Akureyri. Úrkoman mældist 7,0 mm sem er aðeins um 15% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020, en svo lítil úrkoma hefur ekki mælst í ágúst á Akureyri síðan 1960. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 30,5 mm sem er um 60 % af heildarúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoma 19,1 mm sem er það minnsta sem mælst hefur þar. Óvenju lítil úrkoma mældist á flestum úrkomustöðvum Austurlands.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 11 sem eru jafnmargir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 3 daga mánaðarins, fimm færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Mjög sólríkt var á norðaustanverðu landinu í ágúst, á meðan þungbúið var suðvestanlands.

Sólskinsstundir á Akureyri mældust 181,5 sem er 43,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Aðeins fjórum sinnum hafa sólskinsstundirnar verið fleiri á Akureyri í ágúst, mest 209 stundir árið 2004, en einnig mældust sólskinsstundirnar fleiri en nú árin 2012, 1975 og 1994

Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 89,5 sem er 75,3 stundum færri en að meðallagi áranna 1991 til 2020. Ekki hefur verið eins sólarlítið í ágústmánuði í Reykjavík síðan árið 1995.

Vindur

Mánuðurinn var óvenju hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,7 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Suðlægar áttir voru ríkjandi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1013,6 hPa og er það 6,0 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1036,3 hPa á Önundarhorni þ. 31. Það er hæsti lofþrýstingur sem mælst hefur á landinu í ágústmánuði. Eldra met var 1034 hPa (Grímsey 13 ágúst 1964). Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1001,3 hPa á Húsafelli þ. 3.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

Veður

Veðurstofa Íslands hlýtur viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlum

Vidurkenning-fyrir-visindamidlun-2021-verdlaunahafar

Veðurstofa Íslands og Sævar Helgi Bragason hlutu viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun 2021


24.9.2021

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti  í dag viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun. Að þessu sinni hlutu tveir aðilar viðurkenninguna, Veðurstofa Íslands annars vegar, fyrir miðlun vísindalegra upplýsinga um hvers kyns náttúruvá og Sævar Helgi Bragason hins vegar, sem hefur miðlað vísindum til almennings á fjölbreyttan hátt, með sérstakri áherslu á að ná til barna og ungmenna.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Árna Snorrasyni, forstjóri Veðurstofunnar viðurkenninguna og þakkaði Árni Rannís og Vísindavöku fyrir þennan heiður. ”Ég óska okkar öfluga starfsfólki á Veðurstofunni til hamingju með þessa viðurkenningu, sem er hvatning til að gera enn betur en við á Veðurstofunni höfum einmitt unnið leynt og ljóst að því að bæta náttúrulæsi þjóðarinnar” sagði Árni.

 “Okkar einkunnarorð eru “vísindi á vakt” því það er okkur mikilvægt að halda á lofti hlut vísindanna þegar kemur að því að styðja almenning, stjórnvöld og fyrirtækin í landinu til að taka ákvarðanir – til skamms tíma og eins lengra fram í tímann. Næsta skref hjá okkur er að efla miðlun sem snýr að loftslagsbreytingum í gegnum nýja skrifstofu Loftslagsþjónustu og aðlögunar sem tók til starfa í lok sumars”, sagði Árni að lokum.

Veðurstofa Íslands hefur vaktað náttúruöfl landsins í 100 ár. Auk þess að sinna mikilvægum almannavörnum hefur hún unnið leynt og ljóst að því að auka náttúrulæsi þjóðarinnar. Miðlun vísindaþekkingar spilar þar stórt hlutverk, hvort sem um er að ræða jarðskjálfta og eldgos, ofsaveður eða aðra náttúruvá og hefur starfsfólk Veðurstofunnar verið óþreytandi við að miðla upplýsingum byggðum á rannsóknum, á ábyrgan hátt til almennings. Þar er skemmst að minnast öflugrar upplýsingamiðlunar um jarðskjálftana og eldgosið á Reykjanes.

Halda áfram að lesa

Veður

“Litla gosið” við Fagradalsfjall orðið sex mánaða

Eldstöðvarnar rúmum mánuði eftir upphaf gossins. Horft til norðurs yfir gosstöðvarnar úr vél Icelandair í aðflugi til Keflavíkur frá Amsterdam síðdegis 27. apríl. (Ljósmynd: Ágúst J. Magnússon)


19.9.2021

Í dag, 19. september, eru sex mánuður frá upphafi eldgossins í Fagradalsfjalli. Hraunflæðið er metið tiltölulega lítið á mælikvarða eldgosa sem orðið hafa á Íslandi. En vegna  staðsetningar, nálægðar við byggð og aðgengi almennings og vísindamanna að gosstöðvunum, má segja að áhrif gossins og þær áskoranir sem því hafa fylgt, hafi orðið meiri en með önnur nýleg gos.

Forboðar eldgossins í Fagradalsfjalli hófust í desember 2019 með mikilli  skjálftavirkni  í og við Þorbjörn sem hafði áhrif á allan Reykjanesskagann. Ástæða skjálftanna var kvika sem var að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið við Þorbjörn. Það var síðan þann 24. febrúar 2021 sem virknin byrjaði á ný, þegar krafmiklir skjálftar riðu um Reykjanesskagann og sem fundust víða um landið.  Hrinan hófst með skjálfta við Keili sem var 5,7 að stærð og komu tugir þúsunda skjálfta í kjölfarið á næstu vikum.

Mynd1

Mynd 1. Sýnir þróun jarðskjálftanna í kringum Fagradalsfjall frá desmeber 2019 þangað til eldgos hófst (Graf: Skjálfta-Lísa fengin af vef Veðustofunnar).

Gervihnattamyndir og GPS gögn sýndu að kvikagangur hafði myndast suðvestur af Keili og inn að Fagradalsfjalli (Mynd 2 A&B). Óvíst var hvort kvikan myndi ná upp á yfirborðið.

„Tímabilið áður en eldgosið hófst var mjög stressandi og því fylgdi álag fyrir teymið“ segir Michelle Maree Parks, þegar hún var spurð um þær áskoranir sem urðu á vegi hennar og hvað hún hafði lært á þeim. Michelle er ein af vísindamönnum í aflögunarteymi Veðurstofunnar, sem fylgist meðal annars með landrisi.  „Óróinn hófst í desember 2019 þannig að þarna í mars 2021 höfðum við  þegar verið búin að vinna hörðum höndum í 14 mánuði við vöktun svæðisins. Við vorum stöðugt að uppfæra aflögunar kort frá gervihnöttum og að keyra líkön til að reyna að finna út hvað aflögunin var að segja okkur“ segir Michelle. Það voru þrír kvikugangar undir Svartsengi og annar fyrir neðan Krýsuvík árið 2020. Síðan hóf einn gangur að færa sig í átt að Fagradalsfjalli í enda febrúar 2021. „Það var mjög mikilvægt að geta staðsett hann, hversu djúpt hann var og hversu mikið magn af kviku væri í honum“ segir Michelle. „Þetta þýddi að við þurftum oft að vaka lengi vikurnar fyrir gosið til að útbúa ný líkön. Það sem við lærðum af þessu er að þó að aukning í skjálftavirkni og aflögun gæti verið fyrirvari eldgoss þá er það ekki alltaf raunin. Það veltur á því hversu mikil spenna hefur nú þegar verið leist úr læðingi og á styrkleika skorpunnar“, segir Michelle að lokum.

Mynd2Mynd 2. A) GPS færslur frá stöðinni KRIV í Krísuvík. Bláa línan sýnir byrjun skjálftavirkninnar þann 24.febrúar og rauðalínan táknar byrjun eldgossins þann 19.mars. Grafið sýnir hraða aflögun sem átti sér stað áður en gosið hófst og síðan hæga suðvestur hreyfingu eftir að gosið hófst sem þýðir að sig er í gangi (Graf: Veðurstofa Íslands/Benedikt Gunnar Ófeigsson). B) Sýnir hvar kvikugangurinn hafði myndast (Mynd: Fengin af vef Veðurstofunnar).

Síðustu dagana fyrir eldgosið var skjálftavirknin með minna móti og höfðu engir skjálftar mælst yfir 4 að stærð, en það hafði ekki gerst frá því að skjálftahrinan hófst. Það má segja að það hafi verið lognið á undan storminum. Þann 19. mars kl 20:45 opnaðist sprunga við Fagradalsfjall sem bauð upp á stórfenglega sjón í kvöldbirtunni. Eldgos var hafið. 

opnun-sprungu-kj

Mynd 3. Eldgosið nokkrum klukkustundum eftir að kvikan náði upp á yfirborðið en þetta var fyrsta ljósmyndin sem náðist af gosinu, hún var tekin kl. 23:03 (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Kristín Jónsdóttir).

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir það hafa reynst mikil áskorun að spá fyrir um hvort og hvenær gos myndi hefjast. „Það kom á óvart að það dróg úr skjálftavirkni í aðdraganda eldgossins og í raun voru merkin um að gos myndi hefjast þennan dag afar lítil“ segir Kristín þegar að hún rifjar upp atburðarás föstudagins fyrir sex mánuðum. „Helst að það mældust nokkrir grunnir skjálftar sem við skiljum nú að voru til marks um að kvikan lá grunnt“, segir Kristín.

Mynd4

Mynd 4. Eftirlitssalur Veðurstofunnar rétt eftir miðnætti á fyrsta kvöldi eldgossins. Kristín Vogfjörð, hópstjóri jarðar og eldgosa situr fyrir aftan Sigurdísi Björgu Jónasdóttur, náttúruvársérfræðingi á vakt sem ræðir við Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson).

Vel fylgst með gosinu

Frá því að  eldgosið hófst  hefur verið vel fylgst með gangi mála á svæðinu og hefur síbreytileiki gossins fært vísindamönnum og viðbragðsaðilum miklar áskoranir. Það má segja að staðsetning eldgossins sé einkar hentug þar sem aðgengi er auðvelt og því nokkuð auðvelt að koma fyrir mælibúnaði til vöktunar. Snemma var myndavélum, gasmælum, hitamælum komið fyrir en eins búnaði til að safna úrkomu og gjósku til að meta mengun frá gosinu. Mynd5

 Sérfræðingar Veðurstofunnar þeir Jón Bjarni Friðriksson og Ágúst Þór Gunnlaugsson við uppsetningu á nýrri veðurstöð við eldstöðvarnar 25. mars. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/ Jón Bjarni Friðriksson)

Skjálftavirknin fór ört minnkandi eftir að kvikan náði upp á yfirborðið, en hegðun eldgossins hefur breyst mikið á þessum sex mánuðum og skiptist í raun í nokkur tímabil. Í fyrstu flæddi kvikan nokkuð stöðugt upp á yfirborðið úr einum megin gíg, en síðan fóru ný gosop að myndast og alls hafa átta gosop opnast. Í dag hafa öll gosopin lokast nema fimmta gosopið sem myndaðist. Því næst tók kvikustrókavirkni við og þar á eftir kviðukennd virkni þar sem hlé kom á gosið í nokkra klukkustundir og jafnvel daga og síðan virknin á ný í nokkra klukkutíma. Í dag þá er virknin mest innan gígsins en hraunið fer þaðan í pípum í átt að Geldingadölum. Hægt er að sjá hvernig mismunandi tímabil gossins passa vel við óróann á mynd 6.

Mynd6

Mynd 6. A) Sýnir óróann í gosinu frá upphafi (Graf: Stöðin FAF er í eigu Czech Academy of Science

(CAS) og Ísor). B) Sýnir dægursveiflur SO2 sem er mælt með DOAS mælitækum (Graf: Veðurstofa Íslands/Melissa Anne Pfeffer)

Gasmengun er mikil áskorun

Einn af fylgifiskum eldgossins í Fagradalsfjalli er gasmengun. Mikil dægursveifla var á gasi sem kom frá eldgosinu en magn þess sveiflaðist í takti við breytta hegðun gossins. Magn hrauns gerði það einnig með breyttri virkni. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, hefur reglulega mælt útbreiðslu hraunsins en síðustu flugmælingar sem gerðar voru þann 9.september sýndu að hraunbreiðan var orðin 4,6 km2. en það er aðeins 1/10 af flatarmáli Holuhrauns. Heildar losun gass við Fagradalsfjall er einnig aðeins 1/10 af því sem að kom úr Holuhrauni en talið er að um 9.6 milljónir tonna af gasi hafi komið upp á yfirborðið í því gosi.

Mynd8

Mynd 7: Sýnir þróun á stærð hraunbreiðunnnar frá upphafi (Mynd: Ragnar Þrastarson/Veðurstofa Íslands/Náttúrustofnun)

Melissa Anne Pfeffer sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar segir að í byrjun eldgoss þá hafi verið mjög auðvelt að mæla efnasamsetningu og hversu mikið gasflæði kom frá eldgosinu. „Þegar leið á gosið og gígurinn fór að hækka og hraunbreiðan tók að stækka þá hefur það verið miklu erfiðara“ segir Melissa. „Teymið okkar hefur stöðugt verið að finna nýjar leiðir og nota nýja tækni til þess að ná að mæla efnasamsetningu og dægursveiflu gass við eldstöðvarnar“, segir Melissa.

Mynd7

Mynd 8: Ein af þeim hættum sem leynast í kringum gosstöðvar er gasmengun. Sérútbúnir sérfræðingar Veðurstofunnar fara reglulega til að mæla gasstyrk við upptök eldgossins, svo hægt sé að spá fyrir um magn gasmengunar frá eldstöðvunum og eins til að safna gögnum til frekari rannsókna. Hér klæðir Melissa Anne-Pfeffer starfsfélaga sinn í réttan búning (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Elísabet Pálmadóttir).

Gas frá eldstöðvunum hefur mælst víða um landið á síðustu 6 mánuði en mest hefur mælst norðvestur af eldgosinu. Nokkrir toppar af SO2 hafa náð yfir 1000 míkrógrömm/m3 í Njarðvík (Mynd 8) og Vogum sem dæmi, en þetta há gildi eru talin óholl fyrir viðkvæma.  Gosmóða hefur einnig gert vart við sig í sumar, mest megnis í Reykjavík og á Reykjanesskaga. Gosmóða auðkennist af samhliða aukningu SO2 og fínustu svifryksögnum. Í sumar hefur hefur verið mikil þoka á vestur hluta Íslands sem hefur haft áhrif á loftgæði og skyggni. Eldgosið hafði einnig áhrif á úrkomu sem kemur fram í sýrstigi vatns sem var safnað í kringum eldgosið. Stöku sinnum þá féll pH gildið niður fyrir 3 eins og sjá má á mynd 9. Mestu áhrifin urðu frá 15. maí fram í miðjan júní.

Mynd9

Mynd10

Myndir 9 og 10. Sýnir styrk SO2 við jörðina. Mælingar eru gerðar á klukkutíma fresti og sýnir grafið tímabilið frá upphafi goss til dagsins í dag. Appelsínugula línan táknar heilsuverndarmörk manna en það er 350 míkrógrömm/m3(Gröf: Umhverfisstofnun/Veðurstofa Íslands).

Mynd11

 Mynd 11: Sýnir pH gildi úrkomu í Keflavík frá upphafi eldgoss. Græna línan táknar hreina úrkomu en appelsínugula línan sýnir eðlilegt sýrustig í úrkomu á þessum slóðum en hún er aldrei fyllilega tær (Graf: Veðurstofa Íslands/Gerður Stefánsdóttir).

Eldgosið stöðugt að breyta um takt

Á þessum sex mánuðum hefur eldgosið verið síbreytilegt. Það hefur fært vísindamönnum einstakt tækifæri til að auka við þekkingu sína en jafnframt gefið almenningi kost á því að komast í tæri við náttúruöflin. Það má kannski segja að eldgos eru jafn heillandi og þau geta verið hættuleg.

Þegar ný gosop tóku að opnast við upphaf gossins, reyndu vísindamenn að rýna í göng til að sjá hvort mögulegt væri að spá fyrir um hvar og hvenær næsta opnun yrði. Fljótlega tókst að greina fyrirboða nýrrar opnunar með því að rýna í óróagröf. Þannig gat sólarhringsvakt Veðurstofunnar sent út viðvörun til viðbragðsaðila á svæðinu sem gátu brugðist við í tíma.

 Þetta var ekki síst mikilvægt þar sem að eldgosið hafði mikið aðdráttarafl frá upphafi. Allt að 6000 ferðamenn komu fyrstu vikurnar og mikill fjöldi þegar sumarið hófst og útlendingar gátu heimsótt Ísland á ný. „Það hefur verið mikil áskorun að vakta svæðið til að reyna að tryggja öryggi fólks, þar sem eldgosið er stöðugt að breytast og hætturnar samfara því“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands.

„Við höfum séð hraunflæði, gasmengun, hraunbombur, gróðurelda og auðvitað erfiðar aðstæður vegna veðurs. Þessi samblanda hefur oft verið krefjandi. En samstarf milli vísindamanna og viðbragðsaðila hefur verið framúrskarandi sem hefur gert okkur kleift að tryggja öryggi fólks “ segir Sara að lokum.

Það verður svo að koma í ljós hversu lengi gosið kemur til með að standa yfir og hver áhrif þess á endanum verða. Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram.

Mynd12Mynd 12: Gosið var kallað „lítið“ gos, en ef við skoðum stærðarhlutföll á myndinni af vefmyndavél RÚV, þá er „lítið“ gos afstætt hugtak. Innan hringsins í horninu niðri vinstra megin má sjá nokkrar manneskjur við hraunjaðarinn og ofar er hringur utan um þyrlu sem sveimar yfir gosstöðvunum. Viðbragðsaðilar áttu fljótlega fullt í fangi með að koma í veg fyrir að fólk setti sig í bráða hættu við gosstöðvarnar (Ljósmynd: Fengin af vefmyndavél RÚV

Halda áfram að lesa

Veður

Hlaup í Skaftá

Mynd úr eftirlitsflugi í gær og sýnir hlaupvatn við brúna efst í Skaftárdal. (Ljósmynd: Veðurstofan/Benedikt G. Ófeigsson)


Rennsli heldur áfram að minnka. Gul viðvörun vegna úrkomu hefur verið gefin út fyrir flóðasvæðið.

10.9.2021

Uppfært 10.09. kl. 14.45

Hlaupið í Skaftá er enn í gangi, þó verulega hafi dregið úr rennsli og vatnhæð minnkað í árfarveginum.

Hlaupvatn er ennþá að dreifa sér um láglendið. Helstu merki þess eru að vatnshæð í Tungulæk sem kemur undan Eldhrauni er áfram hækkandi. Þó er ljóst að verulega hefur dregið úr áhrifum frá hlaupvatni á flóðasvæðinu. Áfram er þó hætta á gasmengun nálægt upptökum Skaftár.

Gul viðvörun hefur verið gefin út vegna úrkomu á flóðasvæðinu og tekur hún gildi seinnipart sunnudags. Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu og búast má við vatnavöxtum í ám og lækjum. Áhrif úrkomunnar geta orðið meiri en ella á áhrifasvæði hlaupsins vegna hárrar vatnsstöðu í kjölfar þess.

Eldhraun_1009

Mynd tekin í morgun sem sýnir vatnsstöðuna við þjóðveg 1 þar sem hann liggur í gegnum Eldhraun. (Ljósmynd: Embætti lögreglustjórans á Suðurlandi)

Uppfært 9.9. 16:15

Áfram dregur úr rennsli Skaftár.  Rennsli við Sveinstind er komið niður fyrir 470m3/sek og rennsli við Eldvatn mælist um 370m3/sek.

Á þessu stigi hefur dregið úr líkum á því að hlaupvatn nái að flæða yfir þjóðveg 1. Vatnshæð í Tungulæk sem kemur undan Eldhrauni fer þó enn hækkandi (sjá kort hér að neðan) og því er ekki hægt að útiloka að hlaupvatn nái upp á þjóðveginn.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og meta frekari framgang hlaupsins.


Rauntíma eftirlitskort af Skaftá. Kortið sýnir staðsetningu vatnshæðamælis Veðurstofunnar í Tungulæk í Landbroti. (Merktur með rauðu)

Uppfært 9.9. kl. 8:30

Rennsli við Sveinstind heldur áfram að minnka og er nú komið niður fyrir 600m3/sek. Rennsli við Eldvatn hefur einnig farið minnkandi í nótt.

Enn er þó talsvert í það að rennsli í Skaftá nái jafnvægi og viðbúið er að hlaupvatn muni halda áfram að dreifa úr sér um láglendið á næstu dögum.


Uppfært 8.9. kl. 14:45

Rennsli við Sveinstind heldur áfram að lækka og er nú komið niður fyrir 1.000m3/sek. Rennsli við Eldvatn hefur einnig farið lækkandi og hámarksrennsli þar því verið náð.

Flóðið í árfarveginum er því í rénun, en viðbúið er að vatnið muni halda áfram að dreifa úr sér um láglendið á næstu dögum.


Uppfært 8.9. kl. 9:30

Dregið hefur úr rennsli Skaftár við Sveinstind og mælist það nú um 1.100m3/sek miðað við hámarksrennsli í gær upp á um 1.500m3/sek. Rennsli á mælinum við þjóðveg 1 mælist 600m3/sek og hefur svo til staðið í stað frá því í um miðnætti.

Sérfræðingar Veðurstofunnar fóru í eftirlitsflug yfir flóðasvæðið í gær til að kanna áhrif hlaupsins. Útbreiðsla hlaupsins nálægt jökli reyndist minni en í hlaupinu 2018 og er það í samræmi við að hámarksrennsli er einnig minna. Áhrif hlaupsins nærri byggð eiga ennþá eftir að koma í ljós þar sem hlaupvatn á ennþá eftir að skila sér niður farveg Skaftár.

Sérfræðingar munu hittast á samráðsfundi kl. 14 í dag til að fara betur yfir nýjustu gögn og meta hvert framhald hlaupsins verður.

Mynd sem sýnir hlaupvatnið koma undan jöklinum. Fyrir miðri mynd má sjá jaka á floti í farveginum. (Ljósmynd: Veðurstofan/Benedikt G. Ófeigsson)


Uppfært 7.9. kl. 15:40

Talsvert hefur hægt á vextinum í Skaftá við þjóðveg 1 það sem af er degi. Vatnshæðamælirinn við Eldvatn sýnir nú rennsli upp á rúma 560m3/sek. Það sama gildir um rennsli við Sveinstind sem mælist áfram rétt undir 1.500m3/sek.

Áætlað er að um 75 gígalítrar af hlaupvatni hafi komið fram við Sveinstind á fyrsta sólarhringi hlaupsins. Mælingar gefa til kynna að heildarrúmmál eystri ketilsins hafi verið um 260 gígalítrar áður en hljóp úr honum. Það má því áætla að aðeins um 1/3 heildarrúmmáls hlaupvatnsins sé nú þegar kominn fram við Sveinstind.

Hámarksrennsli við Sveinstind er lægra en í síðustu hlaupum úr eystri katlinum svo ætla má að núverandi hlaup komi til með að vara lengur. Hlaup sem varir lengur, ásamt hárri vatnsstöðu í upphafi hlaups, getur orsakað meiri útbreiðslu hlaupvatns í byggð.

Uppfært 7.9. kl. 9:40

Rennsli við Eldvatn í Skaftá hefur aukist jafnt og þétt frá því í gærkvöldi og mælist nú rúmlega 520m3/sek. Vatnshæðamælir við Sveinstind sýnir nú um 1.400m3/sek þegar tekið er tillit til þess að talsvert af hlaupvatni er farið að flæða framhjá mælinum líkt og í fyrri hlaupum. Mikið hefur hægt á vextinum frá því kl. 23 í gær. Þróun hlaupsins í nótt bendir til þess að hámarksrennsli hlaupsins nú verði minna en bæði 2015 og 2018. Hámarksrennsli hlaupsins 2018 var rúmir 2.000m3/sek.

Áfram er reiknað með að hlaupið komi til með að ná hámarki við þjóðveg 1 á morgun. Gera má ráð fyrir því að útbreiðsla hlaupsins komi til með að vaxa í byggð í sólarhring eða meira, eftir að hámarkrennsli er náð við Eldvatn. Íssjármælingar Jarðvísindastofnunar gefa til kynna að vatnsmagn hlaupsins úr eystri katlinum verði meira en 2018, því geta áhrif hlaupsins í byggð orðið svipuð og 2018, þrátt fyrir að hámarksrennsli nú verði mögulega minna. Við þetta bætist að hlaupið úr vestari katlinum og úrkoma að undanförnu gerir það að verkum að flóðasvæðið er mettað af vatni sem mun líklega auka útbreiðslu hlaupsins.

Hlaupið óx nokkuð hratt í fyrstu og var vöxturinn við Sveinstind fyrstu 12 tímana mun hraðari en áður hefur sést. Þessi hraði vöxtur í gær gaf tilefni til þess að hafa áhyggjur af því hversu stórt hlaupið yrði. Líklegasta skýringin á hröðum vexti er sú að hlaupið úr eystri katlinum kemur í kjölfar hlaups úr þeim vestari. Vatnið á því greiðari leið undir jöklinum. Við þetta bætist að hlaupið ýtir vatni sem fyrir er í farveginum úr vestari katlinum á undan sér.

Rennsli við Eldvatn í Skaftá hefur aukist jafnt og þétt frá því í gærkvöldi og mælist nú rúmlega 520m3/sek.

Uppfært 6.9. kl. 22.10

Um kl. 20 fór rennsli að aukast nokkuð hratt við Eldvatn í Skaftá og mælist nú rétt undir 240m3/sek. Fremsti hluti hlaupsins hefur því náð niður að þjóðvegi 1 um það leyti sem spár gerðu ráð fyrir.

Vatnshæðamælir við Sveinstind sýnir nú um 1.000m3/sek en gera þarf ráð fyrir að talsvert af hlaupvatni sé farið að flæða framhjá mælinum líkt og í fyrri hlaupum. Ef tekið er tillit til þess, má ætla að rennsli við Sveinstind sé nær 1.300m3/sek.

Frá því að hlaupvatn byrjaði að mælast við Sveinstind upp úr hádegi í dag jókst rennslið nokkuð hratt. „Þetta virðist vera að þróast dálítið hraðar núna en árið 2018”, sagði Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands í viðtali í sjónvarpsfréttum RÚV kl. 19 í kvöld. “Við vissum að hlaupið sem kom úr vestari katlinum myndi opna rásir undir jöklinum og að það gæti leitt til þess að þetta hlaup risi brattar og það virðist ætla að verða raunin“, segir Tómas.

Nú upp úr kl. 22 virðist aðeins hafa hægt á vextinum við Sveinstind. Ef hraðinn á vextinum er borinn saman við fyrri hlaup er hann mitt á milli þess sem sást 2018 og 2015.

Rennsli við Eldvatn um kl. 21 í kvöld, 6. september.

Uppfært 6.9. kl. 14:45

Rennsli og vatnshæð í Skaftá við Sveinstind hefur vaxið hratt frá því skömmu eftir hádegi. Um klukkan 14 rennslið komið í um 610m3/sek. Þetta er í takti við það sem sérfræðingar gerðu ráð fyrir um framgang hlaupsins. Enn er nokkuð í það að rennslið nái hámarki við Sveinstind, en hámarksrennsli flóðsins 2018 var um 2.000m3/sek og sú tala gerir ráð fyrir framhjárennsli sem mælirinn við Sveinstind nemur ekki.

Gera má ráð fyrir því að fyrstu merki hlaupsins komi fram við Eldvatn seint í kvöld

Myndin sýnir vatnshæð og rennsli við Sveinstind um kl. 14 í dag, 6. september.


Uppfært 6.9. kl. 8:55

Samkvæmt nýjustu mælingum má gera ráð fyrir að hlaupvatnið úr Eystri-Skaftárkatli nái niður að vatnhæðamæli við Sveinstind eftir um 10 klukkustundir. Miðað við fyrri hlaup nær það hámarki við Sveinstind rúmum 30 klukkustundum eftir það. Gera má ráð fyrir því að fyrstu merki hlaupsins komi fram við Eldvatn í nótt eða snemma í fyrramálið. Eftir það mun rennsli aukast jafnt og þétt og líklega ná hámarki við þjóðveg 1 síðla kvölds miðvikudag eða aðfaranótt fimmtudags.


Uppfært 5.9. kl. 11.45

GPS mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar er farin að lækka. Það bendir til þess að rennsli úr lóninu sé hafið. Mælingar sýna að íshellan byrjaði að lækka um kl. 23 í gærkvöldi og hefur hún lækkað um tæpan 1 m frá þeim tíma. Búast má við að í heildina lækki íshellan um 60-100m. Þetta hlaup kemur í kjölfar hlaups úr vestari katlinum sem nú er í rénun.

Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018 og miðað við vatnsstöðuna í katlinum er líklegt að þetta hlaup verði ámóta stórt. Þá hljóp hinsvegar fyrst úr eystri katlinum og sá vestari fylgdi í kjölfarið. Hámarksrennsli hlaupsins 2018 var um 2.000m3/sek sem er fjórfalt hámarksrennsli í hlaupinu úr vestari katlinum sem nú stendur yfir.

Þegar vatn hleypur úr Skaftárkötlunum rennur það fyrst um 40 km leið undir jöklinum og síðan um 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmælinum við Sveinstind (sjá kort hér að ofan).  Ef miðað er við framgang hlaupsins 2018 má búast við að hlaupið sjáist á vatnshæðarmæli við Sveinstind á morgun, mánudaginn 6. september. Frá Sveinstindi tekur það hlaupvatnið tæpar 10 klst til viðbótar að ná vatnshæðarmæli í Eldvatni við Ása nærri hringveginum. Ef fram fer sem horfir mun hlaupvatn því ná að þjóðveginum annað kvöld.

Ámóta stórt og hlaupið 2018 en gæti dreift meira úr sér

Hlaupið núna úr vestari katlinum hefur hækkað grunnvatnsstöðu og getur því hlaupvatnið úr eystri katlinum dreift sér meira um flóðasvæðið en 2018. Við þetta bætist að talsverð úrkoma hefur einnig verið á svæðinu undanfarinn sólarhring.

Náttúruvárvakt Veðurstofunnar fylgist náið með þróun atburðarins og sendir frá sér nánari upplýsingar eftir því sem líður á atburðinn.


Mælingar sýna að íshellan byrjaði að lækka um kl. 23 í gærkvöldi og hefur íshellan lækkað um tæpan 1 m frá þeim tíma. Búast má við að íshellan lækki í heildina um 60-100m. Hér má sjá stöðuna á lóðréttu færslunni.

Möguleg vá:

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:

  • Næstu daga er mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Uppfært 3.9. kl. 15:15

Rennsli hefur farið hægt minnkandi í Skaftá við Sveinstind síðustu klukkustundir og mældist klukkan 14.30 um 412 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið náði hámarki á miðnætti aðfaranótt 2. september og var þá um 520 rúmmetrar á sekúndu.

Miðað við framgang hlaupsins og fyrri hlaup úr vestari katlinum má gera ráð fyrir að hlaupvatn verði áfram í Skaftá næstu daga og rennslistölur háar miðað við árstíma.


Uppfært 2.9. kl. 9.40

Rennsli hefur verið nokkuð stöðugt í Skaftá við Sveinstind síðustu klukkustundir og mælist nú um 520 rúmmetrar á sekúndu. Ekki er ólíklegt að hlaupið hafi náð hámarki ef horft er til fyrri flóða úr vestari katlinum.

Eins og myndin hér að neðan sýnir er rennsli að aukast smám saman neðar í ánni en vanalega tekur hlaupvatnið um 8-10 klst. að berast milli mælis við Sveinstind og mælis í Eldvatni við Ása.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á Kirkjubæjarklaustri á loftgaedi.is

Rennsli_0209

Rennsli er að aukast smám saman neðar í ánni en vanalega tekur hlaupvatnið um 8-10 klst. að berast milli mælis við Sveinstind og mælis í Eldvatni við Ása.

Uppfært 1. september

Rafleiðni í Skaftá hefur hækkað jafnt og þétt síðustu tvo sólarhringa og vatnshæð árinnar við Sveinstind aukist síðustu klukkustundir. Einnig hafa borist tilkynningar um brennisteinslykt í nágrenni Skaftár og Hverfisfljóts. Ekki er talið að leysing á jökli eða úrkoma valdi þessum breytingum heldur benda þessar athuganir til þess að Skaftárhlaup sé hafið. Gögn gefa til kynna að upptök hlaupsins séu í Vestari-Skaftárkatli. Síðast hljóp úr katlinum í september 2019 en hlaupin úr vestari katlinum eru að jafnaði minni en hlaupin úr þeim eystri.

Rennsli við Sveinstind var um 290 m3/s kl. 12 en búist er við að hámarksrennsli í þessu hlaupi fari ekki yfir 750 m3/s. Þó er ekki útilokað að vatn hlaupi úr Eystri-Skaftárkatli í kjölfarið líkt og gerðist í ágúst 2018.

Samráðsfundur verður haldinn á Veðurstofunni kl. 14 þar sem farið verður nánar yfir þróun mála.

Rennsli_Skafta_01092021

Rennsli við Sveinstind var um 290 m3/s kl. 12 en búist er við að hámarksrennsli í þessu hlaupi fari ekki yfir 750 m3/s.

Rafleidni_Skafta_01092021

Rafleiðni í Skaftá hefur hækkað jafnt og þétt síðustu tvo sólarhringa.

Möguleg vá:

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:

  • Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Alls er vitað um 58 hlaup í Skaftá

Skaftárkatlarnir eru tveir, eystri og vestari, og eru í vestanverðum Vatnajökli. Þeir myndast þar vegna jarðhita sem bræðir jökulbotninn og vatns sem safnast þar saman. Þegar vatnsþrýstingur er orðinn það hár að farg jökulsins nær ekki að halda aftur af því hleypur það undan kötlunum. Hlaup úr Eystri-Skaftárkatli eru að jafnaði stærri en hlaupin úr Vestari katlinum. Skaftárhlaup eins og þau koma fram í dag hófust árið 1955 en síðan þá er vitað um 58 jökulhlaup í Skaftá. Að jafnaði hleypur úr hvorum katli fyrir sig á tveggja ára fresti.  

Hér er hægt að nálgas Handbók um viðbragðsáætlun vegna Skaftárhlaup

Hér er hægt að lesa meira um hættumat vegna jökulhlaupa í Skaftá

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin