Innlent

Tilkynningum um nauðganir og heimilisofbeldi fjölgaði til lögreglu

17 Maí 2022 09:02

 

  • Lögreglunni bárust tilkynningar um 59 nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem samsvarar 17% fjölgun frá síðustu þremur árum þar á undan.
  • Lögreglunni bárust tilkynningar um 610 tilvik heimilisofbeldis og ágreinings milli skyldra eða tengdra aðila fyrstu þrjá mánuði ársins. Um er að ræða 19% aukningu frá síðustu þremur árum þar á undan.
  • Alls voru tilkynnt 176 kynferðisbrot til lögreglu fyrstu þrjá mánuði ársins 2022.
  • Ríkislögreglustjóri telur mikilvægt að tilkynningum vegna brota fjölgi, þar sem kannanir benda til að lítill hluti kynferðisbrota sé tilkynntur til lögreglu.
  • Vitundarvakningin ,,Er allt í góðu?“ er liður í aðgerðum stjórnvalda sem miða að því að fjölga tilkynningum og fækka brotum.

 

Fleiri tilkynningar um nauðganir annars vegar og heimilisofbeldis og ágreiningsmál hins vegar bárust á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í tölfræði sem embætti ríkislögreglustjóra hefur birt um heimilisofbeldi og kynferðisbrot. Tölurnar eru gefnar út ársfjórðungslega, í samræmi við áherslur dómsmálaráðherra um aukna vitundarvakningu um kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi.

Upplýsingar eru aðgengilegar á síðu lögreglunnar um tölfræði vegna kynbundins ofbeldis (https://www.logreglan.is/utgafa/stadfestar-tolur/kynbundid-ofbeldi/ ‎)

 

Sjö tilkynningar á dag um heimilisofbeldi eða ágreining

Lögreglunni á landsvísu bárust tilkynningar um 610 tilvik heimilisofbeldis og ágreinings milli skyldra eða tengdra aðila fyrstu þrjá mánuði ársins, sem jafngildir sjö slíkum tilkynningum á dag.  Um er að ræða 19% aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan.

Þegar litið er eingöngu til heimilisofbeldismála, þ.e. tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, þá eru tilvikin álíka mörg og í fyrra, eða 290 talsins. Síðustu þrjú árin á undan var talan 230-250. Tilkynningum um heimilisofbeldi fækkaði á höfuðborgarsvæðinu á milli ára en fjölgaði á landsbyggðinni.

Flest tilvik heimilisofbeldis, eða tvö af hverjum þremur málum, eru af hendi maka eða fyrrverandi maka. Þeim málum þar sem um er að ræða fyrrverandi maka hefur fækkað milli ára. Í um fjórðungi heimilisofbeldismála er um að ræða fjölskyldutengsl, svo sem ofbeldi á milli barna og foreldra. Slíkum málum hefur fjölgað undanfarin ár, bæði þar sem foreldrar beita börn sín ofbeldi og öfugt, en hafa ber í huga að um er að ræða lágar tölur sem eru viðkvæmar fyrir sveiflum.

Þegar litið er til ágreiningsmála, þ.e. mála þar sem lögregla kemur á vettvang en enginn grunur er um brot, þá hefur skráningu slíkra mála fjölgað miðað við fyrri ár, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem um er að ræða ágreining á milli maka eða fyrrverandi maka. Tilvikin voru 320 talsins fyrstu þrjá mánuði ársins 2022 en voru 226 árið áður.

Tilkynningum um nauðganir fjölgaði um fimmtung

Alls voru tilkynnt 176 kynferðisbrot til lögreglu fyrstu þrjá mánuði þessa árs, eða 6% fleiri brot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú árin á undan. Hluti brotanna var tilkynntur á tímabilinu en átti sér stað fyrr. Þegar einungis er litið til þeirra kynferðisbrota sem áttu sér stað fyrstu þrjá mánuði ársins þá fækkar þeim um 27% samanborið við meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára á undan.

Lögreglunni bárust tilkynningar um 59 nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem samsvarar tæpri 17% fjölgun frá meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan.   Þar af áttu 33 nauðganir sér stað á tímabilinu. Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru 39 talsins, fleiri en fyrri ár, en blygðunarsemisbrot voru 14 talsins sem er fækkun frá síðustu árum. Þá bárust 64 tilkynningar sem falla undir „önnur kynferðisbrot“ en þar er í flestum tilvikum um að ræða stafræn kynferðisbrot eða kynferðislega áreitni.

Meðalfjöldi tilkynntra kynferðisbrota til lögreglu, burtséð frá því hvenær þau áttu sér stað, fyrstu þrjá mánuði ársins var um tvö brot á dag.

Flestar nauðganir eiga sér stað um helgar

Í skýrslunni má finna greiningu á tímasetningu allra kynferðisbrota sem tilkynnt eru til lögreglu. Hún leiðir í ljós að flest brotin eiga sér stað á virkum dögum en þegar eingöngu er rýnt í tímasetningu nauðgana má sjá að þær eiga sér flestar stað um helgar og þar af rúmur helmingur að nóttu til.

Sögulega hefur lágt hlutfall kynbundins ofbeldis, kynferðisbrota og heimilisofbeldis verið tilkynnt til lögreglu og oft löngu eftir að brotið átti sér stað.  Því er markmið stjórnvalda að fjölga tilkynningum til lögreglu um kynbundið ofbeldi samhliða því að vinna að forvörnum gegn afbrotum. Hefur það m.a. verið gert með vitundarvakningu á borð við „Er allt í góðu?“ og með aukinni samfélagslegri umræðu um kynbundið ofbeldi. Með því er vonast til að fleiri brot verða tilkynnt til lögreglu.

Vinsamlegast athugið að fyrsta blaðsíðan í skýrslunum tveimur sýnir þróun fyrstu þrjá mánuði ársins. Aðrar síður miða við heilt almanaksár, þ.e. sýna þróun í heilum árum og ná því almennt fram til 2021.

 

Nánari upplýsingar veitir Gunnar H. Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, [email protected]

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin