Samherji

Tillaga að matsáætlun vegna eldisgarðs

Samherji

Stór og góður þorskur veiðist vel á Dohrnbanka

Björgvin EA við bryggju í Grundarfirði / myndir samherji.is

Björgvin EA við bryggju í Grundarfirði / myndir samherji.is

Togaraflotinn hefur ekki stundað veiðar á Dohrnbanka – sem er djúpt vestur af landinu – í háa herrans tíð, enda svæðið aðallega þekkt fyrir rækjuveiði. Þegar aflabrögð voru slök á hefðbundnum bolfiskmiðum í síðasta mánuði, ákvað Samherji að senda togarann Björgvin EA á Dohrnbanka. Skemmst er frá því að segja að aflabrögðin voru góð, stór og vænn þorskur. Íslenskum skipum fjölgaði hratt á þessum slóðum í kjölfarið, enda fiskisagan fljót að fljúga innan greinarinnar.

Ásgeir Pálsson skipstjóri á Björgvin segir að íslenski flotinn veiði við miðlínuna milli Grænlands og Íslands, rúmlega eitthundrað sjómílur vestur af Látrabjargi. Björgvin landaði fullfermi í Grundarfirði og er aflanum ekið til vinnslu á Akureyri og Dalvík.

Meðalvigtin rúmlega 6 kíló

„Þetta var annar túrinn okkar. Sá fyrri gekk vel, við vorum tvo og hálfan sólarhring að fylla skipið og í þessum túr tók svipaðan tíma að fylla. Þetta er stór þorskur og greinilega vel haldinn, lifrin er stór. Meðalvigtin hjá okkur var 6,2 kíló og í nokkrum holum allt að sjö kílóum. Mest tókum við 18 tonn en reyndum að hafa á bilinu 10 til 12 tonn í holi til þess að afurðirnar verði sem bestar og verðmætastar. Það er ekki nóg að fiska sem mest, gæðin skipa mestu og þar með aflaverðmætið.“

Stærsti foss í heimi , þungur staumur og landsins forni fjandi

„Já, þarna er allra veðra von, það getur verið hauga helvítis sjór í norð-austan áttinni. Öldurnar eru ansi krappar og stutt á milli þeirra enda er straumurinn þungur. Annars hefur veðrið verið ágætt á okkur í þessum tveimur túrum, fyrir utan fyrsta sólarhringinn en þarna er líka hafís sem getur verið varasamur,“ segir Ásgeir.

Talandi um sterka strauma, þá fellur stærsti foss heims skammt SA af veiðislóð skipanna en það er kaldur djúpsjór sem kemur úr norðurhöfunum og flæðir með botninum fram af háum hrygg þarna í Grænlandssundi.

Þessi mikla straumbuna er um 3 miljónir rúmmetra á sekúndu (m3/s) með fallhraða upp á 55 sentimetra á sekúndu, til samanburða fer Ölfusá fram með 400 rúmmetra á sekúndu (m3/s) sem er mesta rennsli íslenskra áa. Ölfusáin er þess vegna eins og bæjarlækur.

Ræða upprunann í talstöðinni

Fljótlega eftir að fréttist af góðum aflabrögðum fjölgaði skipum hratt. Flest voru þau fimmtán en þegar þetta viðtal var tekið, voru skipin sjö.

„Menn hafa verið að velta þessu fyrir sér, hvort þetta er Grænlandsþorskur sem kemur úr grænlenskri lögsögu og hrygnir síðan í Breiðafirði en það er sem sagt ekki vitað nákvæmlega á þessari stundu. Ég hef heyrt tilgátur í talstöðinni um þetta en sjálfsagt kemur hið sanna í ljós með tíð og tíma.“

Nóg að gera í landi

„Það er um fimmtán klukkustunda stím á Grundarfjörð og flutningabílarnir aka svo hráefninu norður í Eyjafjörð til vinnslu. Það hafa fleiri skip frá Samherja og ÚA verið á þessum slóðum og veitt vel, þannig að landvinnslan hefur úr nógu að moða þessa dagana, enda veitir ekkert af eftir tregt fiskerí á undanförnum vikum,“ segir Ásgeir Pálsson skipstjóri á Björgvin EA.

Halda áfram að lesa

Samherji

Öflugur kælibúnaður er lykilatriði

Vilhelm Þorsteinsson á síldarmiðunum / myndir samherji.is

Vilhelm Þorsteinsson á síldarmiðunum / myndir samherji.is

„Við erum með tæp 900 tonn af síld og siglingin af miðunum til Neskaupsstaðar er um 30 klukkustundir, enda um 400 sjómílur,“ segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Síldarmiðin eru þessa dagana 80 – 90 sjómílur vestur af Reykjanestá og segir Birkir að veiðin í þessum túr hafi verið frekar döpur. Vilhelm Þorsteinsson á miðunum

Ferskara hráefni

„Megnið af aflanum fer til manneldis, stærðin á síldinni er 290 til 300 grömm. Þetta nýja öfluga skip er einstaklega vel úbúið og kælibúnaðurinn í tönkunum gerir það að verkum að aflinn helst lengur ferskur. Við getum þess vegna verið lengur að veiðum þegar þess gerist þörf eins og í þessum túr. Góður og öflugur kælibúnaður er í raun og veru lykilatriði.“

Háhyrningar elta skipin

Um sólarhring tekur að dæla hráefninu til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd elta háhyrningar Vilhelm, rétt eins og önnur veiðiskip.

„ Já já, það er alldeilis nóg af hvölum hérna. Háhyrningarnir hafa svo sem ekki verið til mikilla vandræða, hafa ekki farið í trollið.“

Hlakkar til loðnuvertíðarinnar

Birkir segir að Vilhelm verði eitthvað áfram á síldveiðum, síðan taki við loðnuvertíð. Hann segir að mannskapurinn sé samhentur.

„Þetta eru hörku strákar, enda hundvanir. Auðvitað tekur tíma að læra á nýtt skip en þetta er allt saman að koma. Við verðum eitthvað áfram á síldinni en svo tekur loðnan við. Það er viss tilhlökkun að fara á loðnuveiðar, enda svo að segja ár og öld síðan svo miklar veiðiheimildir voru gefnar út. Til þess að vertíðin heppnist vel, þurfa ótal margir þættir að ganga upp, það er ábyggilegt,“ segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Halda áfram að lesa

Samherji

Bylting í ferskleika hráefnisins á nokkrum árum

Vikulega eru fluttir út tveir stórar gámar af þurrkuðum hryggjum og hausum/myndir samherji.is

Vikulega eru fluttir út tveir stórar gámar af þurrkuðum hryggjum og hausum/myndir samherji.is

ÚA fiskþurrkun á Laugum í Reykjadal gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu á staðnum, starfsmenn eru hátt í tuttugu. Þar fer fram þurrkun allra hausa og hryggja sem til falla hjá fiskvinnslu ÚA á Akureyri og eru afurðirnar seldar til Nígeríu. Að jafnaði fara tveir fjörutíu feta gámar á viku frá Laugum til Nígeríu. Vinnslustjórinn segir að ferskleiki hráefnisins hafi tekið stórstígum framförum á undanförnum árum.

Á síðasta ári bárust 7.700 tonn til þurrkunar á Laugum, sem er svipað magn og árið á undan. Pétur Hafsteinn Ísleifsson stýrir vinnslunni á Laugum. Hann segir að jarðhitinn á svæðinu geri það að verkum að hagstætt sé að vera með slíka vinnslu á staðnum og hann segir að með árunum hafi byggst upp verðmæt verkkunnátta starfsfólksins.

 40 þúsund tonn af heitu vatni

„Ég hef starfað hérna í ellefu ár en margir eru með mun lengri starfsaldur en ég, sem segir okkur að líklega er þetta góður vinnustaður. Margir spyrja sig hvers vegna slík vinnsla sé langt inni í landi og svarið er að hérna er nóg af heitu vatni en við erum að nota um það bil 40 þúsund tonn af heitu vatni á mánuði og erum því langstærsti notandinn á svæðinu,“ segir Pétur Hafsteinn.

Umhverfisvæn framleiðsla

Pétur segir að vinnslugetan sé um 180 til 200 tonn af hausum og hryggjum á viku og unnið alla virka daga vikunnar.

 „Þetta þýðir að blásararnir eru í gangi nánast alla daga ársins. Hryggirnir eru tilbúnir til útflutnings eftir um fjóra sólarhringa en hausarnir eru tilbúnir til pökkunar eftir 12 daga. Tölvukerfið sér um að stýra þurrkferlinu en hráefnið má ekki þorna of hratt né vera of þurrt eða blautt. Nei, þetta telst ekki vera mjög flókin starfsemi, en hún krefst verkþekkingar. Mannauðurinn hérna skiptir miklu máli og svo auðvitað heita vatnið og rafmagnið, þetta er að miklu leyti umhverfisvæn framleiðsla.“

Allt önnur staða

 „Það hefur orðið gríðarleg breyting á ferskleika hráefnisins á nokkrum árum, núna eru togararnir að landa fiski eftir þriggja til fimm sólarhringa túra og kælikerfi skipanna eru auk þess mjög öflug. Þetta gerir okkur kleift að framleiða gæðaafurðir og kaupendurnir eru hæstánægðir. Þetta er mikil breyting miðað við á árum áður er úthald skipa var lengra og biðin í hráefniskælum einnig, við getum í raun og veru talað um byltingu. Þetta þýðir líka að lyktin sem óhjákvæmilega fylgir slíkri starfsemi er ekki lengur teljandi vandamál.“

 Stöðugur útflutningur

„Útflutningur er stöðugur, héðan fara vikulega tveir fjörutíu feta gámar og kaupendurnir eru hæstánægðir með gæðin. Framleiðslan á þessu ári verður ósköp svipuð og á undanförnum árum, enda stöðugleikinn nauðsynlegur, bæði fyrir okkur og kaupendurna í Nígeríu,“ segir Pétur Hafsteinn Ísleifsson verkstjóri fiskþurrkunar ÚA á Laugum í Reykjadal.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin