Hagstofan

Tilraunatölfræði: Dánir eftir vikum 2017-2022

Tilraunatölfræði

Dánir

Samantekt

Hér eru birt nýjustu gögn um dána fyrir árið 2021 en þau byggja á upplýsingum úr dánartilkynningum sem skráðar eru hjá Þjóðskrá Íslands. Gögnin gefa góðar vísbendingar um þróun á tíðni andláta þó gera verði ráð fyrir einhverju vanmati í nýjustu tölunum um fjölda látinna, þá aðallega vegna dánarvottorða sem berast seint til Þjóðskrár Íslands. Stefnt er að ársfjórðungslegum birtingum árið 2022.

Lýsing

Birtar eru upplýsingar um dána með lögheimili á Íslandi við andlát. Gögnin eru sundurliðuð eftir kyni, aldri og viku.

Markmið

Vegna mikillar eftirspurnar um talnaefni, bæði alþjóðlega og innanlands, gefur Hagstofa Íslands út tölur um fjölda andláta fyrir árið 2021 og 2022 brotið niður á einstakar vikur. Með þeim hætti er hægt að kanna áhrif kórónuveirunnar (Covid-19) með skjótari hætti og gera notendum kleift að bera saman dauðsföll á milli landa.

Dánir eftir vikum 2017-2022

Síðast uppfært: 25. júlí 2022

Fyrstu 26 vikur ársins 2022 dóu að meðaltali 53,8 í hverri viku eða fleiri en fyrstu 26 vikur áranna 2017-2021, þegar 45,0 dóu að meðaltali. Í níundu viku (dagana 28. febrúar til 6. mars 2022) dóu 78 einstaklingar en það er hæsta gildi einnar viku fyrir tímabilið 2017-2022. Að jafnaði dóu flestir í aldursflokknum 90 ára og eldri yfir tímabilið 2017-2022. Tíðasti aldur látinna fyrstu 26 vikur 2022 var 87 ár en það var einnig tíðasti aldur fyrir sömu vikur áranna 2017-2021.

Á myndinni hér að neðan má sjá línurit yfir þróun á vikulegri dánartíðni árin 2017-2022. Til þess að sýna betur þróun vikulegrar dánartíðni eru línurnar í myndritinu tregbreytilegar og miðað við 10 vikna hlaupandi meðaltal í stað þess að sýna hráar talningar gagnanna. Með þessu móti er auðveldara að bera saman og skoða þróun yfir þau ár sem liggja til grundvallar enda er vikuleg dánartíðni yfirleitt mjög lág á Íslandi og tölurnar talsvert flöktandi frá einni viku til annarrar.


Talnaefni

Dánir – vikugögn 250722 (xlsx)


Lýsigögn

Rétt er að benda á að talningar á dánum fyrir árið 2022 eru bráðabirgðatölur og eru líklegar til þess að vera vanmat á fjölda dáinna, aðallega vegna síðbúinna dánartilkynninga. Fyrir útreikninga á dánum af 100.000 íbúum var notast við meðalmannfjölda hvers árs sem deilitölu.

Við útgáfuna 19. nóvember 2021 var gerð breyting á skilgreiningu á vikum til samræmis við útgáfur Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Vikan hefst nú á mánudegi og hefst fyrsta vika hvers árs því á fyrsta mánudegi ársins. Sem dæmi þá tilheyra fyrstu þrír dagar ársins 2021, viku 53 fyrir árið 2020, eins og sést í töflu 4 í talnefni sem fylgir þessari frétt. Þetta leiðir til þess að samlagning vikna gengur ekki lengur upp í heildarfjölda fyrir árið. Hins vegar er þetta grundvöllur fyrir alþjóðlegan samanburð. Fyrri útgáfur byggðu á þeirri reglu að vikur gengu upp í ár, þannig að samanlagður fjöldi látinna yfir vikur hvers árs gaf rétta heildartölu fjölda látinna á því ári.

Nánari lýsigögn um dána má finna hér: Lýsigögn um dána


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030. Netfang: [email protected]

Hagstofan

Bætt staða á íslenskum vinnumarkaði frá fyrra ári

Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir annan ársfjórðung 2022 sýna bætta stöðu vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði frá árinu áður.

Fjöldi starfandi eykst
Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 81,6% á öðrum ársfjórðungi 2022 sem er aukning um 1,4 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2021. Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2022 var 210.600 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 78,1%. Frá öðrum ársfjórðungi 2021 til annars ársfjórðungs 2022 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,2 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 74,8 % og starfandi karla 81,1%. Starfandi konum fjölgaði um 8.900 og körlum um 7.200.

Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 78,2% og utan höfuðborgarsvæðis 77,9%. Til samanburðar var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 74,9% og 72,1% utan höfuðborgarsvæðisins á öðrum ársfjórðungi 2021.

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi
Á öðrum ársfjórðungi 2022 töldust að meðaltali 9.500 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 4,3% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Til samanburðar voru um 16.700 einstaklingar atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2021 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 7,9%.

Mjög dró úr atvinnuleysi kvenna á milli ára en það mældist nú 3,2% og hafði þá lækkað um 6,1 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi 2021. Á sama tímabili lækkaði atvinnuleysi karla úr 7,6% í 5,2% eða um 2,4 prósentustig.

Á öðrum ársfjórðungi hvers árs mælist atvinnuleysi yfirleitt alltaf hæst miðað við aðra fjórðunga ársins og stafar það af því að þá sækir ungt fólk og námsmenn út á vinnumarkaðinn í leit að sumarstörfum. Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 13,9% sem er talsverð lækkun frá sama ársfjórðungi árið 2021 þegar það var 20,0%. Á tímabilinu minnkaði atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um fjögur prósentustig eða úr 6,5% í 2,5%. Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 0,8 prósentustig, úr 3,4% á öðrum ársfjórðungi 2021 í 2,5% á öðrum ársfjórðungi 2022.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Vöruviðskipti óhagstæð um 31 milljarð í júlí

Fluttar voru út vörur fyrir 75,8 milljarða króna fob í júlí 2022 og inn fyrir 106,8 milljarða króna cif (95,4 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í júlí, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 31,0 milljarð króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 14,8 milljarða króna í júlí 2021 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í júlí 2022 er því 16,2 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 253,6 milljarða króna sem er 75,6 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst um 29,4% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í júlí 2022 jókst um 7,6 milljarða króna, eða um 11,2%, frá júlí 2021, úr 68,1 milljarði króna í 75,8 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 7,0 milljarða króna eða 16,5% samanborið við júlí 2021.

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili frá ágúst 2021 til júlí 2022 var 904,6 milljarðar króna og jókst um 205,3 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 29,4% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 57% alls vöruútflutnings síðustu 12 mánuði og jókst verðmæti þeirra um 53,9% frá fyrra 12 mánaða tímabili. Sjávarafurðir voru 35% alls vöruútflutnings síðustu 12 mánuði en verðmæti þeirra jókst um 5,8% í samanburði við fyrra 12 mánaða tímabil. Verðmæti útflutnings á eldisfiski jókst um 3,7 milljarða á milli 12 mánaða tímabila, eða um 10,4%, og er nú 4% af heildarútflutningsverðmæti á síðustu 12 mánuðum.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 32,0% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 106,8 milljörðum króna í júlí 2022 samanborið við 82,9 milljarða í júlí 2021 og jókst því um 23,8 milljarða króna eða um 28,7%. Verðmæti innflutts eldsneytis nam 22,4 milljörðum og jókst um 15,2 milljarða króna (212%), verðmæti hrá- og rekstrarvöru nam 28,8 milljörðum króna og jókst um 5,9 milljarða (25,9%) og verðmæti fjárfestingarvara (utan flutningstækja) var 21,4 milljarðar króna sem er aukning um 3,5 milljarða króna (19,4%) samanborið við júlí 2021.

Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili frá ágúst 2021 til júlí 2022 var 1.158,2 milljarðar króna og jókst um 281,0 milljarð króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 32% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á tímabilinu var mest í flutningatækjum, hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti.

Meðaltal gengisvísitölu á tólf mánaða tímabili var 191,5 og var gengið 4,7% sterkara en á tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 200,9. Gengið styrktist um 2,5% í júlí (187,0) samanborið við júlí 2021 (191,8).

Meðferð leigusamninga er tengjast utanríkisverslun er til endurskoðunar og getur sú endurskoðun haft áhrif á bæði vöruskipta- og þjónustujöfnuð.

Í þessari frétt er um bráðabirgðatölur fyrir júlí að ræða og gætu niðurstöður breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar, en þá verður talnaefni uppfært.

Talnaefni
Verðmæti út- og innflutnings eftir mánuðum (FOB/CIF) 2011-2022

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Atvinnuleysi 4,0% í júní

Hlutfall atvinnulausra var 4,0% í júní 2022 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,8% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi 76,6%. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi jókst um 0,5 prósentustig á milli mánaða á meðan hlutfall starfandi dróst saman um 1,4 prósentustig. Árstíðaleiðrétt leitni atvinnuleysis hefur lækkað um 0,7 prósentustig síðustu sex mánuði á meðan leitni hlutfalls starfandi hefur aukist um 0,4 prósentustig.

Samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknarinnar, án árstíðaleiðréttingar, voru 224.300 (±6.400) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í júní 2022 sem jafngildir 82,9% (±2,4) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu voru 216.800 (±5.400) starfandi og 7.500 (±2.800) atvinnulausir og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,1% (±2,5) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 3,3% (±1,3). Samanborið við júní 2021 hefur hlutfall starfandi aukist um 1,7 prósentustig á milli ára og hlutfall atvinnulausra dregist saman um 1,4 prósentustig.

Áætlað er að 17.600 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu (slaki) í júní 2022 sem jafngildir 7,7% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Samanburður við júní 2021 sýnir að hlutfallið hefur lækkað um tvö prósentustig á milli ára. Árstíðaleiðrétt leitni slaka hefur dregist saman um 1,3 prósentustig síðustu sex mánuði.

Vinsamlegast athugið að samtala undirliða kann að vera ósamhljóða heildarniðurstöðum þar sem tölur eru námundaðar að næsta hundraði.

Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir júní 2022 ná til fimm vikna frá 29. maí til og með 2. júlí. Í úrtak völdust af handahófi 1.912 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára með lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.880 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 1.046 einstaklingum sem jafngildir 55,6% svarhlutfalli.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin