Hagstofan

Tilraunatölfræði: Launasumma dróst saman um tæp 6% á milli mánaða

Tilraunatölfræði

Staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga

Samantekt

Staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga fela í sér tvær tegundir af mánaðarlegu talnaefni. Í fyrsta lagi upplýsingar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (launasumma) sem eru birtar eftir atvinnugreinum og sveitarfélögum ásamt talningum á launafólki og launagreiðendum. Í öðru lagi staðgreiðsluskyldar greiðslur (heildarsumma) sem innhalda flestar staðgreiðsluskyldar greiðslur, þar með talið launagreiðslur, greiðslur í fæðingarorlofi og bóta- og lífeyrisgreiðslur. Heildarsumman er birt eftir sveitarfélögum og skipt upp í launagreiðslur, atvinnuleysisgreiðslur og aðrar greiðslur. Einyrkjar með rekstur á eigin kennitölu, sem greiða sjálfum sér reiknað endurgjald og fjármagnstekjur, eru ekki hluti talnaefnis. Til samanburðar eru birtar samanlagðar árstekjur einstaklinga eftir sveitarfélögum, þar með talið niðurbrot á reiknuðu endurgjaldi og fjármagnstekjum byggt á árlegu uppgjöri skattframtala einstaklinga fyrir tímabilið 2008 til 2019.

Staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga eru bráðabirgðatölur sem birtar eru mánaðarlega og ná aftur til janúar 2008. Vakin er athygli á því að tölur geta breyst meðal annars vegna síðbúinna skila greiðenda. Það á einkum við um nýjustu mánuði talnaefnis þar sem tímanleiki birtingar er mikill eða um 2 mánuðir eftir að viðmiðunartíma lýkur.

Lýsing

Upplýsingar eru unnar á grundvelli staðgreiðslu- og mannfjöldagagna Hagstofunnar. Tímanlegar upplýsingar um mánaðarlega samtölu greiðslna (tekna) einstaklinga hafa ekki verið aðgengilegar fyrr. Árlega birtir Hagstofan upplýsingar um meðaltekjur einstaklinga samkvæmt skattframtölum auk samtölu launa á íslenskum vinnumarkaði í hagtölum um afkomu fyrirtækja (viðskiptahagkerfið) og í framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga um laun og launatengd gjöld atvinnugreina (allt hagkerfið).

Markmið

Markmið birtingar er að veita tímanlega vísbendingu um breytingar á samtölu staðgreiðsluskyldra greiðslna til einstaklinga. Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á síðustu mánuðum vegna kórónuveirufaraldursins (Covid-19) og hefur þörf á tímanlegri tölfræði aukist í kjölfarið. Hagstofan stefnir að því að talnaefni um mánaðarlegar staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga verði hluti af reglulegri hagskýrslugerð og því eru notendur hvattir til að hafa samband og gefa endurgjöf á talnaefnið ([email protected]).

Launasumma dróst saman um tæp 6% á milli mánaða

Síðast uppfært: 8. apríl 2021

Staðgreiðsluskyld launasumma dróst saman um tæp 6% í janúar 2021 frá desember 2020 en jókst um rúm 2% frá janúar 2020. Vakin er athygli á því að greiðslur eru ekki verðlagsleiðréttar. Breytingin á milli ára var mismikil eftir atvinnugreinum. Talnaefni um staðgreiðsluskyldar greiðslur í janúar 2021 hefur verið uppfært.


Talnaefni

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (launasumma), bráðabirgðatölur 080421 (xlsx)

Staðgreiðsluskyldar greiðslur eftir sveitarfélögum (heildarsumma), bráðabirgðatölur 080421 (xlsx)


Lýsigögn

Tekjur einstaklinga geta til dæmis verið í formi launa, hlunninda, bóta- og lífeyrisgreiðslna, styrkja og fjármagnstekna. Almennt eru flestar tekjur einstaklinga skattskyldar en með nokkrum undantekningum þó, eins og barnabætur og nokkrar tegundir greiðslna frá Tryggingastofnun. Árlega birtir Hagstofan upplýsingar um meðaltekjur einstaklinga byggt á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Skattsins. Hins vegar liggja fyrir tímanlegri upplýsingar um staðgreiðsluskyldar tekjur einstaklinga en þeim, sem teljast greiðendur samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinbera gjalda nr. 45/1987, ber að skila mánaðarlega skilagrein með sundurliðuðum upplýsingum um hvern þann einstakling sem þeir greiða staðgreiðsluskylda greiðslu. Uppgjör vegna staðgreiðslu af launum samkvæmt lögunum er grunnur þessa talnaefnis og við úrvinnslu hefur Hagstofan auðgað gögn svo hægt sé að nýta þau til hagskýrslugerðar, til að mynda aðgreint launagreiðslur frá öðrum greiðslum og bætt við atvinnugrein og búsetu.

Vakin er athygli á því að tölur geta breyst vegna síðbúinna skila eða leiðréttinga frá greiðendum staðgreiðsluskyldra greiðslna. Slíkar breytingar leiða yfirleitt til hækkunar greiðslna eftir mánuðum og á það einkum við nýjasta tímabil talanefnis. Algengara er að fyrirtæki sem greiða fáum starfsmönnum laun skili gögnum seint. Einnig geta tölur breyst ef atvinnugreinaskráningu er breytt í fyrirtækjaskrá Hagstofunnar eða lögheimilisskráningu í Þjóðskrá, en slíkar breytingar geta gilt afturvirkt. Breyting á atvinnugrein getur komið til vegna breytingar á starfsemi fyrirtækis eða endurskoðun Hagstofunnar á flokkun.

Staðgreiðsluskyldar greiðslur (heildarsumma) til einstaklinga eru bráðabirgðatölur í íslenskum krónum og á verðlagi hvers mánaðar. Um er að ræða samtölur tekna sem einstaklingar frá greitt og falla undir staðgreiðsluskyldar greiðslur samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samtalan er birt eftir sveitarfélögum og að auki brotin niður á launagreiðslur, atvinnuleysisgreiðslur og aðrar greiðslur. Launagreiðslur, sem eru að auki birtar eftir atvinnugrein, innihalda stærstan hluta launatekna vegna atvinnu sem greiddar eru mánaðarlega til launafólks. Til launa teljast endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, til dæmis laun, hlunnindi, desember- og orlofsuppbót, eingreiðslur, risnufé og ökutækjastyrkir. Atvinnuleysisgreiðslur eru greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna atvinnuleysisbóta, þ.m.t. hlutabóta. Aðrar greiðslur innihalda allar aðrar staðgreiðsluskyldar greiðslur fyrir utan laun og atvinnuleysisbætur, þar með talið greiðslur vegna fæðingarorlofs, bótagreiðslur, styrki og lífeyrisgreiðslur (bæði ellilífeyrisgreiðslur og úttekt einstaklinga á séreignasparnaði). Þær greiðslur sem falla ekki undir staðgreiðslu eru til dæmis útfararstyrkir frá verkalýðsfélagi og einkennisfatnaður frá launagreiðanda, sjá nánar lista um greiðslur sem falla ekki undir staðgreiðslu í reglugerð nr. 591/1987. Einyrkjar með rekstur á eigin kennitölu, sem greiða sjálfum sér reiknað endurgjald, eru ekki hluti talnaefnis Hagstofunnar né fjármagnstekjur.

Samanlagðar árstekjur einstaklinga samkvæmt skattframtali eru jafnframt birtar til að gefa mynd af umfangi heildartekna einstaklinga óháð því hvort þær eru staðgreiðsluskyldar eða ekki. Um er að ræða samanlagðar árstekjur einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Skattsins tekjuárin 2008 til 2019, á verðlagi hvers árs. Samtalan er birt eftir sveitarfélögum og að auki brotin niður á atvinnutekjur, reiknað endurgjald, fjármagnstekjur og aðrar tekjur. Í samtölunni eru allir meðtaldir, þar með talið þeir sem eru með áætlað og handreiknað framtal. Upplýsingar taka mið af stöðu í júní ár hvert fyrir breytingar, kærur og endurákvarðanir. Vakin er athygli á því að í talnaefni um tekjur samkvæmt skattframtölum er ekki sama skilgreining á búsetu og í talnaefni um staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga.

Sveitarfélag tekur mið af búsetu einstaklings sem fær staðgreiðsluskyldar tekjur. Upplýsingar eru sóttar í mannfjöldagögn Hagstofunnar sem byggja á íbúaskrá Þjóðskrár Íslands. Sveitarfélag miðast við lögheimili einstaklings í þeim mánuði sem viðkomandi fær greiddar staðgreiðsluskyldar greiðslur. Heildartala (allir óháð búsetu) telur allar staðgreiðsluskyldar greiðslur sem einstaklingar fá greiddar, þar með talið greiðslur sem einstaklingar fá sem búa erlendis eða eru ekki með skráð lögheimili. Sveitarfélag í talnaefni um árstekjur samkvæmt skattframtali byggir hins vegar á búsetu einstaklinga skráð á framtal sem er áætluð búseta sveitarfélags tengd útsvari.

Atvinnugrein launagreiðanda byggir á aðalatvinnugrein launagreiðanda samkvæmt fyrirtækjaskrá Hagstofunnar í samræmi við ÍSAT2008-atvinnugreinaflokkun. Birtar eru upplýsingar um yfirflokka atvinnugreina, deildir eða samantektir á bálkum, en einstaka flokkar taka mið af því að launagreiðandi getur verið í blönduðum rekstri. Sjá yfirlit og nánari lýsingu í flipa sem heitir „Um ISAT2008“ í talnaefni um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur. Athugið að birtar atvinnugreinar geta skarast og þar af leiðir að ef allar atvinnugreinar, sem settar eru fram í talnaefninu, eru lagðar saman fæst ekki sama niðurstaða og birt heildartala (alls).

Fjöldi launagreiðenda sem greiða staðgreiðsluskyld laun eru allir aðilar sem skila sundurliðun launagreiðslna fyrir a.m.k. einn móttakanda launa til Skattsins. Talning launagreiðenda byggist á auðkenni lögaðila sem tengist kennitölu hans. Hver kennitala lögaðila telst því sem einn greiðandi. Athugið að birtar atvinnugreinar geta skarast og þar af leiðir að ef allir flokkar eru lagðir saman fæst ekki sama niðurstaða og heildartala. Heildartala (alls) telur hvern launagreiðanda einungis einu sinni.

Fjöldi einstaklinga sem fær greidd staðgreiðsluskyld laun er talning á hverjum þeim sem fær greidd staðgreiðsluskyld laun frá launagreiðanda. Ekki er gerður greinamunur á því hvort viðkomandi sé í fullu starfi eða hlutastarfi og ekkert lágmarksviðmið er á launagreiðslum. Í einhverjum tilfellum getur launaupphæð verið mjög lág. Hver einstaklingur sem fær launagreiðslur telst einu sinni óháð launaupphæð. Athugið að birtar atvinnugreinar geta skarast og þar af leiðir að ef allir flokkar eru lagðir saman fæst ekki sama niðurstaða og heildartala. Þeir einstaklingar sem fá greidd laun hjá fleiri en einum launagreiðanda í ólíkum birtum atvinnugreinaflokkum teljast í báðum flokkum en heildartala (alls) telur hvern móttakanda launagreiðslu einungis einu sinni.


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma +354 528 1250. Netfang: [email protected]


Hagstofan

Landaður afli í mars var 104 þúsund tonn

Heildarafli í mars 2021 var tæplega 104 þúsund tonn sem er 11% meiri afli en í mars 2020. Botnfiskafli var rúmlega 55 þúsund tonn samanborið við 53 þúsund tonn í mars í fyrra. Af botnfisktegundum veiddust 33 þúsund tonn af þorski. Uppsjávarafli í mars var að mestu loðna, 45 þúsund tonn, en engin loðna veiddist árið 2020. Kolmunaafli dróst hinsvegar verulega saman, var 1.700 tonn samanborið við 38 þúsund tonn í mars 2020.

Á 12 mánaða tímabili, frá apríl 2020 til mars 2021, var heildaraflinn rúmlega ein milljón tonn sem er 9% meira magn en var landað á sama 12 mánaða tímabili ári áður. Þar af var uppsjávarafli 572 þúsund tonn, botnfiskafli 476 þúsund tonn og flatfiskafli rúm 25 þúsund tonn.

Afli í mars 2021 metinn á föstu verðlagi bendir til 8,7% verðmætaaukningar miðað við mars 2020.

Fiskafli
  Mars Apríl-mars
2020 2021 % 2019-2020 2020-2021 %
Fiskafli á föstu verði
Vísitala 95,3 103,6 8,7
Fiskafli í tonnum
Heildarafli 93.287 103.999 11 990.017 1.079.046 9
Botnfiskafli 53.408 55.371 4 469.159 476.259 2
Þorskur 32.897 33.022 0 269.348 282.861 5
Ýsa 5.237 5.734 10 52.240 56.226 8
Ufsi 6.010 8.199 36 61.857 53.544 -13
Karfi 5.955 5.064 -15 54.181 52.271 -4
Annar botnfiskafli 3.310 3.353 1 31.532 31.357 -1
Flatfiskafli 1.330 1.977 49 20.320 25.530 26
Uppsjávarafli 38.387 46.293 21 490.966 572.086 17
Síld 0 0 0 138.084 134.273 -3
Loðna 0 44.593 100 0 70.726 0
Kolmunni 38.387 1.700 -96 224.796 215.552 -4
Makríll 0 0 0 128.085 151.534 18
Annar uppsjávarfiskur 0 0 0 1 1 -11
Skel-og krabbadýraafli 161 358 122 9.570 5.160 -46
Annar afli 0 0 0 3 10 215

Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Konur 34,1% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri

Rúmur fjórðungur stjórnarmanna fyrirtækja, sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá, voru konur í lok árs 2020 eða 26,5%. Í stjórnum fyrirtækja þar sem fjöldi launamanna árið 2020 var að jafnaði færri en 50 var hlutfallið 26,2% en 34,1% í stjórnum fyrirtækja með 50 launamenn eða fleiri. Til samanburðar var hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með 50 launþega eða fleiri 15,4% árið 2008 og 9,5% árið 1999.

Árið 2010 voru sett lög þar sem kveðið var á um að þegar stjórnarmenn eru þrír í félagi þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skuli hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Þessi lög taka til almennra og opinberra hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnu- og sameignarfélaga. Í tilfelli einkahlutafélaga er jafnframt tiltekið að hvort kyn skuli eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórnarmenn eru tveir. Þessi lög tóku gildi í september árið 2013.

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti tölfræði þar sem kyn stjórnarmanna er greint eftir rekstrarformi og stærð stjórnar. Ef litið er á félög með 50 launamenn eða fleiri árið 2020 var hlutfall kvenna um 40% í stjórnum þar sem stjórnarmenn voru fjórir eða fleiri, bæði fyrir almenn hlutafélög og einkahlutafélög. Í stjórnum með þrjá stjórnarmenn var hlutfallið 30,5% fyrir almenn hlutafélög og 28,1% fyrir einkahlutafélög og í einkahlutafélögum með tvo stjórnarmenn var hlutfall kvenna í stjórn 22,8%.

Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja fór hækkandi frá 2008 fram til ársins 2014 en hefur haldist nokkuð óbreytt síðan þá. Almennt má merkja að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hækkar með bæði stærð stjórna og félaga (talið í fjölda launamanna) og er hærra í almennum hlutafélögum en í einkahlutafélögum.

Hlutfall kvenna í stjórnum félaga 2008-2020
  <50 launamenn >=50 launamenn
Fjöldi stjórnarmanna Rekstrarform 2008 2012 2016 2020 2008 2012 2016 2020
2 Einkahlutafélög 28.5 30.7 31.9 33.4 7.1 15.5 19.1 22.8
3 Almenn hlutafélög 19.9 23.8 25.4 28.5 15.8 24.1 31.3 35.0
3 Einkahlutafélög 24.1 24.4 25.1 25.8 12.5 17.6 28.2 28.1
4 eða fleiri Almenn hlutafélög 15.1 24.6 29.0 29.9 16.4 24.9 39.6 39.9
4 eða fleiri Einkahlutafélög 24.8 25.2 27.4 26.1 18.9 30.3 36.1 40.4

Fyrir félög sem hafa 50 eða fleiri launamenn að jafnaði er nú einnig birt greining á fjölda félaga eftir því hvort kynjahlutföll stjórna þeirra uppfylla áðurnefnda löggjöf sem tók gildi árið 2013.

Ef litið er á fyrirtæki sem hafa 50 launamenn eða fleiri hefur þeim félögum sem hafa blandað hlutfall kynja í stjórn farið jafnt og þétt fjölgandi á síðustu 12 árum. Árið 2008 var hlutfall þeirra félaga sem höfðu að minnsta kosti einn stjórnarmann af hvoru kyni (fyrir tveggja og þriggja manna stjórnir) eða höfðu hlutfall kvenna á meðal stjórnarmanna á bilinu 40%-60% (fyrir stjórnir með fjóra eða fleiri stjórnarmenn) á bilinu 14% (einkahlutafélög með tveggja manna stjórnir) til 39% (almenn hlutafélög með þriggja manna stjórnir). Á liðnu ári var sama hlutfall á bilinu 74% (einkahlutafélög með þrjá stjórnarmenn) til 88% (almenn hlutafélög með þrjá stjórnarmenn), mismunandi eftir rekstrarformi og stærð stjórnar. Einkahlutafélög með tveggja manna stjórnir skera sig þó úr þar sem hlutfall þeirra einkahlutafélaga sem eru með stjórnarmann af sitt hvoru kyni var einungis 37%.

Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkar lítillega á milli ára (23,4%) sem fylgir eftir hægfara aukningu allt frá 1999. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,3% í lok árs 2020.

Tölur um fjölda stjórnarmanna, stjórnarformanna og framkvæmdastjóra eru birtar eftir kyni og aldri, atvinnugrein og stærð fyrirtækis, og tölur um stjórnarmenn eru auk þess birtar eftir rekstrarformi og stærð stjórnar. Frá síðustu birtingu hafa bæst við ítarlegri gögn um virkni fyrirtækja árin 2018 og 2019 og hafa fyrri tölur verið uppfærðar með tilliti til þess.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Launagreiðendum fækkaði um 2,7% í janúar

Flýtileið yfir á efnissvæði