Hagstofan

Tilraunatölfræði: Um 200.000 gistinætur á hótelum í desember

Tilraunatölfræði

Gistinætur

Samantekt

Hagstofa Íslands gefur út tölur um gistinætur ferðamanna á hótelum í hverjum mánuði og birtast þær að jafnaði 30 dögum eftir að mánuði lýkur, en þá eru skil frá hótelum vanalega um 90%. Vegna áhuga notenda á að fá tímanlegri tölur var ákveðið að nota gögn frá þeim aðilum sem skila strax eftir að tímabili lýkur til að fá fyrsta mat á það stuttu eftir lok tímabils hverjar endanlegar tölur hvers mánaðar yrðu fyrir nýtingu rúma og fjölda gistinátta á hótelum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á stuttum tíma í ferðaþjónustunni. Svo örar breytingar ýta undir þörfina fyrir tímanlegar hagtölur en skapa einnig vandkvæði við tölfræðilega vinnslu og þarf fyrir vikið að taka bráðabirgðatölunum með fyrirvara.

Lýsing

Um 20% hótela skila inn gögnum fyrstu dagana eftir lok hvers mánaðar. Athugað var hvort þessi gögn væru nothæf fyrir fyrsta mat á nýtingu rúma og fjölda gistinátta á hótelum. Þar sem þessi hótel eru ekki valin af handahófi er þeim skipt upp eftir landsvæðum og gögnin vigtuð til að leiðrétta fyrir því.

Gögn um rúmanýtingu og fjölda gistinátta í þessum undirhópi hótela sem skila að jafnaði snemma, voru skoðuð aftur í tímann og borin saman við lokaniðurstöður fyrir hvern mánuð. Í ljós kom að hægt var að áætla rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum í hverjum mánuði með 95% öryggismörkum.

Markmið

Þessi aðferð gerir það mögulegt að áætla rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum stuttu eftir að tímabili lýkur og er ætlunin að birta þessa áætlun innan 10 daga frá lokum hvers mánaðar. Vonast er til að þessi birting á tímanlegri tölum gefi vísbendingar um þróun gistinátta nær rauntíma en ella.

Um 200.000 gistinætur á hótelum í desember

Síðast uppfært: 10. janúar 2022

Miðað við bráðabirgðatölur sem byggja á fyrstu skilum fyrir desember má ætla að gistinætur á hótelum hafi verið um 198.400 (95% öryggismörk 186.000-210.700), þar af hafi gistinætur Íslendinga verið um 41.400 (95% öryggismörk 34.300-48.500) og gistinætur útlendinga um 156.900 (95% öryggismörk 145.900-167.900).

Í desember 2020 voru um 21.300 gistinætur en um 90% þeirra voru gistinætur íslendinga. Til frekari samanburðar má nefna að gistinætur á hótelum í desember 2019 voru 307.200, þar af voru gistinætur útlendinga 275.000. Gistinætur í desember 2021 eru því um 35% færri en þær voru 2019.

Samkvæmt sömu áætlun var rúmanýting í desember 2021 um 28,2% (95% öryggismörk: 26,5%-30,0%) samanborið við 5,1% í sama mánuði í fyrra og 43,2% árið 2019. Rúmnýting er á við það sem hún var í desember 2012 en þá var hún 27,3%.

Bráðabirgðatölur fyrir nóvember 2021 gerðu ráð fyrir að gistinætur hefðu verið um 251.800 (95% öryggismörk 240.000-263.700) en endanlegur fjöldi hótelgistinátta var 250.600. Í sömu útgáfu var gert ráð fyrir að rúmnýting hefði verið um 36,2% (95% öryggismörk: 34,5%-37,9%). Þegar búið var að vinna úr öllum tölum reyndist nýtingin vera 33,9% eða rétt undir öryggismörkum.

Miklar breytingar eiga sér nú stað á framboði á hótelrýmum og eykur það mjög óvissu í bráðabirgðamati á fjölda gistinátta. Fyrir vikið er rétt að taka áætluðum bráðabirgðatölum um fjölda gistinátta á hótelum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur eru birtar.


Talnaefni

Hótel bráðabirgðatölur 100122 (xlsx)


Lýsigögn

Fyrir gistináttatölfræði Hagstofunnar: Fjöldi gististaða, gesta og gistinátta (pdf)

Lýsing á aðferðafræði (enska): Fast estimates of proportions and occupancynumbers of hotels (pdf)


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma +528 1000. Netfang: [email protected]

Hagstofan

Kjötframleiðsla 14% meiri en í maí 2021

Flýtileið yfir á efnissvæði