Samtök Atvinnulífsins

Tíu færniþættir framtíðar

Tíu færniþættir framtíðar

Á Menntadegi atvinnulífsins fór fram fjölbreytt og skemmtileg dagskrá þar sem valinkunnir stjórnendur úr atvinnulífinu fjölluðu m.a. um topp tíu færniþætti framtíðar eftir viðmiðum Alþjóðaefnahagsstofnunar fyrir árið 2025.

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF stýrði umræðum um þessa færniþætti undir yfirskriftinni „Strax í dag“. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, Sigrún Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Bláa Lónsins og Ingvi Hrannar Ómarsson, sérfræðingur í skólaþróunarteymi Menntamálaráðuneytisins töluðu hispurslaust um innslög stjórnendanna og um það sem allar menntastofnanir og vinnustaðir geta ráðist í strax í dag:

Topp tíu færniþættir

1. Greiningar- og nýsköpunarhæfni  

Gerum betur með

 • að vinna með gagnasafn
 • að vinna í fjölbreyttum teymum til að skapa nýjar lausnir
 • teymiskennslu

2. Virkni í námi og námsaðgerðum 

Gerum betur með

 • að hvetja til sjálfsnáms t.d. netnámskeiða
 • að kapa námsumhverfi á vinnustað
 • röð fræðsluerinda
 • að deila hugmyndum með öðrum

3. Lausnamiðuð nálgun  

Gerum betur með

 • að takast á við raunveruleg viðfangsefni
 • að vinna í hópum með ólíka styrkleika

4. Gagnrýnin hugsun og greining 

Gerum betur með

 • að þjálfa rökræðu
 • að æfa ályktunarhæfni
 • að koma fram og færa rök fyrir máli sínu

5. Sköpun, frumleiki og frumkvæði  

Gerum betur með

 • að vinna með spuna
 • að vinna með túlkun í fjölbreyttu listformi
 • að skapa rými fyrir flæði
 • að vinna með liðsheild

6. Forysta og félagsleg áhrif 

Gerum betur með

 • að úthluta leiðtogahlutverkum
 • að æfa lýðræðislega þátttöku
 • að leggja fram tillögur að breytingum og fylgja þeim eftir

7. Tækninotkun, eftirlit og stjórn 

Gerum betur með

 • að æfa sig að gera mistök
 • að æfa sig í að reka sig á
 • að æfa kjark og þor gagnvart hinu óþekkta

8. Tæknihönnun og forritun 

Gerum betur með því að

 • að vinna með óvissu – hvað ef?
 • að æfa rökhugsun

9. Seigla, streituþol og sveigjanleiki

Gerum betur með

 • að vinna markvisst að langtímaverkefni með endanlegu markmiði
 • að æfa sjálfsvinnu

10. Rökhugsun, lausn vandamála og hugmyndaauðgi

Gerum betur með

 • skapandi hugsun og að leysa verkefni með mismunandi útfærslum
 • að geta fært rök fyrir því hvers vegna valin leið er góð leið

Horfðu á þáttinn í heild sinni hér: 

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Samtök Atvinnulífsins

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn: Efnahagsaðgerðir skilað árangri en nauðsynlegt að endurskoða umgjörð kjarasamninga

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn: Efnahagsaðgerðir skilað árangri en nauðsynlegt að endurskoða umgjörð kjarasamninga

Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa efnahagsaðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka Íslands stuðlað að hagfelldari þróun í íslensku efnahagslífi en búist var við í upphafi faraldurs. Samstillt hagstjórn, skjót viðbrögð og vel útfærðar aðgerðir gegndu lykilhlutverki í að skapa traust og trú á íslensku efnahagslífi. Aðgerðirnar hafa stutt við stöðugleika á fjármálamörkuðum, ásamt því að styðja við bakið á heimilum og fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli. Landsframleiðslan dróst að endingu minna saman en búið var að gera ráð fyrir. 

Þá leggur sjóðurinn sérstaka áherslu á endurskoðun ramma um heildarsamninga á vinnumarkaði. Mikilvægt sé að tengja betur saman launaþróun og framleiðni til að standa vörð um samkeppnishæfni atvinnulífsins, fjölga störfum á ný og tryggja aukna fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í gær. Þar er lagt mat á stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Megináherslur úttektarinnar að þessu sinni voru afleiðingar og viðbrögð hagstjórnaraðila í kjölfar heimsfaraldursins. 

Þá bendir sjóðurinn sérstaklega á að Ísland hafi verið í sterkri stöðu við upphaf faraldursins – þökk sé skynsamlegri stefnumótun og réttri forgangsröðun í stefnu ríkisfjármála og peningamála. Lág skuldastaða hins opinbera, rúmur gjaldeyrisforði, sterkur viðnámsþróttur bankakerfisins og endurbætt stjórntæki Seðlabankans hafa veitt hagstjórninni umtalsvert svigrúm til að bregðast við efnahagsáfallinu.  

Óvissan er hins vegar enn mikil og margar áskoranir fram undan. Efnahagsbatinn mun velta á því hvernig faraldurinn þróast og framvindu bólusetninga bæði innanlands og í helstu viðskiptalöndum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ítrekar mikilvægi þess að hagstjórnin verði áfram samstillt og styðji áfram við heimili og fyrirtæki, á sama tíma og staðið sé vörð um efnahagslegan stöðugleika og sjálfbærni ríkisfjármála. Nauðsynlegt sé þó að gæta gagnsæis varðandi framvindu ríkisfjármála og innleiðingu aðgerða til að halda í það traust sem skapast hefur í garð opinberra fjármála. 

Íslendingar leggi aukna áherslu á tækni og hugvit 

Faraldurinn hefur jafnframt undirstrikað mikilvægi þess að auka fjölbreytileika í íslensku efnahagslífi. Þar liggja tækifærin einna helst í tækni og hugvitstengdum greinum að mati sjóðsins. Með það að markmiði sé nauðsynlegt að skapa vaxtarbroddum gott umhverfi t.d. með minna íþyngjandi regluverki og stafvæðingu. 

Áherslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ofangreindri úttekt eru um margt sambærilegar þeim sem Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir að undanförnu, nú síðast í umsögn SA um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026.

Að mati SA er mikilvægt að stjórnvöld sýni áfram ábyrgð í verki og missi ekki sjónar af því erfiða verkefni sem fram undan er. Vinna þurfi ötullega að því að byggja upp efnahagslegar stoðir á ný og gefa nýjum færi á að blómstra, viðhalda trausti og gagnsæi opinberra fjármála, og skapa hagstæð skilyrði til efnahagslegs vaxtar. Til að svo megi verða þarf að leyfa kröftum einkaframtaksins að njóta sín með stuðningi frá gegnsæju regluverki, hóflegri skattheimtu og skilvirkri stjórnsýslu. 

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Föst í fjötrum atvinnuleysis

Föst í fjötrum atvinnuleysis

Fyrr í vikunni náðist samkomulag milli norsku Samtaka atvinnulífsins og helstu landssamtaka verkalýðsfélaga. Samkomulagið felur í sér ramma um 2,7% hækkun meðallauna milli áranna 2020-2021. Álíka niðurstaða náðist milli aðila vinnumarkaðarins í Svíþjóð í lok síðasta árs þegar samið var um að laun hækkuðu að meðaltali um 1,8% á ári á tímabilinu 2020-2023. Til samanburðar hækkuðu laun á Íslandi um ríflega 6% í fyrra og í febrúar síðastliðnum hækkaði launavísitalan um tæplega 11% milli ára.

Á Norðurlöndunum snúast deilur um það hvort 2% launahækkanir hamli fjölgun starfa og skaði samkeppnisstöðu atvinnulífsins en á Íslandi virðast flestir telja að launahækkanir geti aldrei orðið of miklar. Á síðasta ári mældist samdráttur í landsframleiðslunni hér á landi 6,6% en samdráttur í Noregi 0,8% og í Svíþjóð 2,8%. Næstum tveimur þriðju hlutum verðmætasköpunar í landinu er varið til greiðslu launa og tengdra gjalda. Í því ljósi er augljóst að umsamdar launahækkanir samræmast illa greiðslugetu flestra fyrirtækja. Það gefur augaleið að háu atvinnustigi verður ekki viðhaldið við slík skilyrði.

Í lok mars fengu 25 þúsund manns greiddar atvinnuleysisbætur og mældist samanlagt atvinnuleysi 12%. Atvinnulausum hefur fjölgað í öllum geirum á almennum vinnumarkaði, en fjölgunin er hlutfallslega mest í ferðaþjónustu. Það er furðuleg staða að miklar launahækkanir eigi sér stað á sama tíma og atvinnuleysi er í methæðum og stærsta útflutningsgrein landsins í lamasessi.

Við byggjum lífskjör okkar á verðmætasköpun. Sem eyland verðum við að treysta því að útflutningsgreinarnar leiði áfram vöxtinn og standi undir verðmætasköpun hagkerfisins. Velgengni okkar hvílir á því að vöxtur þeirra sé tryggður. Norrænir kollegar okkar hafa fyrir löngu síðan komið upp samskiptareglum og vinnubrögðum á vinnumarkaði sem koma í veg fyrir að útflutningsgreinum sé teflt í tvísýnu. Það hlýtur að koma að okkur líka.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Samstaða um launahækkanir í Noregi

Samstaða um launahækkanir í Noregi

Í gær, sunnudaginn 11. apríl 2021, náðist samkomulag milli norsku Samtaka atvinnulífsins og tveggja helstu landssamtaka verkalýðsfélaga.

Samkomulagið er svokallað milliuppgjör. Kjarasamningar í Noregi eru jafnan gerðir til tveggja ára og er heildarsamtökunum, beggja vegna borðs, falið að komast að niðurstöðu um launabreytingar á seinna árinu. Á seinna árinu er eingöngu samið um launabreytingar.

Samkomulagið er efnahagslegur rammi um 1,0-1,5% launahækkanir á árinu, mismiklar eftir starfsstéttum, og ber öllum kjarasamningum í framhaldinu að lúta honum. Þegar hækkanir verða komnar til framkvæmda áætla samningsaðilar að hækkun meðallauna milli áranna 2020 og 2021 verði 2,7%, samkvæmt mælingum hagstofu Noregs á raunverulegum launabreytingum.

Ramminn um launahækkanir, sem heildarsamtökin í Noregi semja um, er breyting meðallauna milli ára samkvæmt mælingum á raunverulegum launabreytingum. Mælingarnar fela þannig í sér hvers kyns launaskrið til viðbótar lágmarks launahækkunum samkvæmt kjarasamningum.

Markmið norsku Samtaka atvinnulífsins var að standa sérstaklega vörð um hagsmuni þeirra atvinnugreina sem verst hafa orðið fyrir barðinu á kórónukreppunni. Í samkomulaginu felst þannig að sérstakar hækkanir lægstu launa eru takmarkaðar. Framkvæmdastjóri samtakanna, Ole Erik Almlid,  telur það sérstaklega mikilvægt nú þegar fjöldi fyrirtækja berst í bökkum.

Almlid segir krefjandi við núverandi aðstæður að gera kjarasamninga um sömu hækkanir fyrir allar atvinnugreinar þar sem kreppan kemur mjög mismunandi niður. En samtök atvinnurekenda standa saman til að verja hagsmuni heildarinnar.

Framkvæmdastjóri norsku Samtaka iðnaðarins, Stein Lier-Hansen, segir samningsaðila hafa axlað samfélagslega ábyrgð sem sé mikilvægt fyrir samskiptin til framtíðar. Aðilar vinnumarkaðarins ætla sér að standa saman að endurreisn Noregs eftir kórónukreppuna og vinna sameiginlega að grænni umskiptingu í Noregi.

Framkvæmdastjóri norsku Samtaka ferðaþjónustunnar, Kristin Krohn Devold, segir erfitt fyrir greinina að axla frekari byrðar í ljósi kreppunnar sem enn ekki sér fyrir endann á. Að hennar mati eru launahækkanir það síðasta sem greinin þarfnist í baráttunni við að lifa kreppuna af og endurráða starfsfólk. 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin