Connect with us

Innlent

Tómas skipaður varaformaður kærunefndar útlendingamála

Published

on

Dómsmálaráðherra hefur skipað Tómas Hrafn Sveinsson varaformann kærunefndar útlendingamála. Tómas Hrafn var valinn úr hópi tíu umsækjanda.

Tómas Hrafn útskrifaðist með cand. jur. frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2006.
Hann öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2007 og fyrir Hæstarétti 2013. Hann hefur verið lögmaður að aðalstarfi frá útskrift úr laganámi og flutt tugi mála fyrir íslenskum dómstólum. Hann tók við formennsku í barnaverndarnefnd Reykjavíkur í nóvember 2015 og gegnir þeirri stöðu enn. Hann hefur sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands í 11 ár, fyrst sem stundakennari en síðar aðjúnkt.

Tómas Hrafn hefur setið í yfirkjörstjórnum í fimm kosningum, þar af sem oddviti í eitt skipti. Hann vann að frumvarpi um bætur vegna sakamála fyrir dómsmálaráðuneytið vorið 2020 og vinnur nú að frumvarpi ásamt sérfræðingum félags- og barnamálaráðuneytisins að nýjum barnaverndarlögum. Hann hefur auk þess birt tvær ritrýndar greinar um lögfræðileg málefni.

Innlent

Guðlaugur Þór opnaði fund Útflutnings- og markaðsráðs

Published

on

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra opnaði fund Útflutnings- og markaðsráðs í gær sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica. Í ávarpi sínu undirstrikaði ráðherra mikilvægi undirbúningsvinnu undanfarinna mánaða við að koma útflutningsgreinunum aftur á skrið.

Yfirskrift fundarins var framkvæmd útflutningsstefnunnar og staða íslenskra útflutningsgreina á tímum heimsfaraldurs. Á fundinum var farið yfir þróun útflutningsgreina þjóðarinnar frá því að heimsfaraldurinn skall á auk þess sem gerð var grein fyrir yfirliti aðgerða á áherslusviðum útflutningsstefnunnar.

„Sú vinna og áætlanagerð sem við höfum ráðist í síðustu misseri mun skipta sköpum í viðspyrnu okkar nú þegar við sjáum fyrir endann á þessum ósköpum sem yfir okkur hafa dunið,“ segir Guðlaugur Þór, sem jafnframt er formaður Útflutnings og markaðsráðs.

„Þótt ýmsir þættir horfi nú öðruvísi við en þeir gerðu fyrir ári síðan þá byggjum við viðspyrnuna á þeirri greiningu og þeim undirbúningi sem Útflutnings- og markaðsráð hefur staðið fyrir,“ segir ráðherra enn fremur.

Guðlaugur Þór tók einnig þátt í pallborðsumræðunum eftir fundinn ásamt Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, Pétri Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, og Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins. Bergþóra Halldórsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu, stýrði umræðunum.

Til máls tóku einnig Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu.

Árið 2018 samþykkti Alþingi ný lög um Íslandsstofu þar sem er meðal annars kveðið á um að útflutnings- og markaðsráð skuli starfrækt. Samkvæmt lögunum skipar utanríkisráðherra 31 fulltrúa í ráðið til fjögurra ára í senn. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra er sjálfur formaður ráðsins, en auk hans skulu ráðherrar sem fara með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, ferðamál og málefni iðnaðar og nýsköpunar, mennta- og menningarmál og umhverfis- og auðlindamál ásamt fulltrúum þingflokka utan ríkisstjórnar á hverjum tíma eiga sæti í ráðinu.

Hlutverk ráðsins er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning. Ráðið skal taka til umfjöllunar tillögur að verkefnum sem unnin eru í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda og tryggja að slík verkefni falli að markaðri langtímastefnu. Ráðið getur skipað starfshópa úr ráðinu um afmörkuð verkefni og skal Íslandsstofa vera þeim til ráðgjafar.

Continue Reading

Innlent

Ráðherra skoðar innviðaframkvæmdir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli

Published

on

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skoðaði í vikunni framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöð og gestastofu á Hellissandi og nýlegar framkvæmdir við göngustíga og útsýnispalla í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

Mikill gangur er í framkvæmdunum við þjóðgarðsmiðstöðina sem verður um 700 m2 að flatarmáli og mun hýsa sýningu, skrifstofur og aðra aðstöðu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Kostnaður við gerð miðstöðvarinnar nemur ríflega 600 milljónum króna. Gestum þjóðgarðsins hefur farið ört fjölgandi undanfarin ár og sækir nú um hálf milljón gesta þjóðgarðinn heim árlega. Á síðasta ári heimsóttu um 200 þúsund gestir þjóðgarðinn, langflestir Íslendingar, þar sem fáir erlendir ferðamenn komu til landsins vegna aðstæðna.

Gestum fjölgar um 20-30% á ári

Ráðherra var á ferð á Snæfellsnesi á miðvikudaginn þar sem hann undirritaði, ásamt Björgu Ágústsdóttur, formanni stjórnar Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi, samkomulag um forathugun á því hvort landsvæði Svæðisgarðsins verði tilnefnt á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Um er að ræða lista á vegum UNESCO undir heitinu Maður og lífhvolf (e. Man and Biosphere) sem miðar að því að styrkja tengsl milli fólks og umhverfis á grunni vísindalegrar þekkingar.

Ferðina nýtti ráðherra einnig til að skoða framkvæmdir sem styrktar eru af Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Komið var við á Djúpalónssandi og skoðaður hlaðinn göngustígur sem er sérstaklega lagaður að landslaginu og á Svalþúfu til að skoða nýjan útsýnispall. Þá heimsótti ráðherra gestastofuna á Malarrifi. Þar hefur verið unnið að framkvæmdum við bílastæði og aðra aðstöðu við gestastofuna, en gestum þar hefur fjölgaði um 20-30% á ári undanfarin ár, ef undan er skilið árið 2020. Eins kom ráðherra við á Saxhóli og skoðaði tröppustíginn, sem hlaut hin alþjóðlegu Rosa Barba landslagsarkitektúrverðlaun árið 2018.

Í lok heimsóknarinnar kastaði ráðherra kveðju á þátttakendur á rafrænum íbúafundi um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, en unnið er að stækkun hans.

Um 300 milljónir í framkvæmdir á Snæfellsnesi

Fjármagni var fyrst úthlutað á grundvelli Landsáætlunar um uppbyggingu innviða árið 2018 en frá þeim tíma og næstu ár er gert ráð fyrir hátt í 300 milljónum króna í framkvæmdir á svæðinu. Rúmlega 54 milljónum var varið í framkvæmdir á Snæfellsnesi í fyrra. Gert er ráð fyrir 84 milljónum í verkefni á svæðinu á þessu ári m.a. í salerni og frekari endurbætur á göngustígum við Djúpalónssand, gerð göngupalla og akstursleiðar við Saxhól, og uppsetningu skilta víða um þjóðgarðinn.

Með ráðherra í för voru fulltrúar í ráðgjafarnefnd um þjóðgarðinn: Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunnar og Margrét Björk Björnsdóttir forstöðumaður Vesturlandsstofu, ásamt starfsfólki þjóðgarðsins, en hjá honum starfa þrír fastir starfsmenn á ársgrundvelli.

Gleðilegt að sjá gestastofuna rísa hratt

„Á komandi sumri verða 20 ár frá því að þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður. Það er virkilega gaman að sjá hversu vel hefur til tekist í uppbyggingu innviða á svæðinu. Gestastofa þjóðgarðsins á Hellissandi hefur verið á teikniborðinu í langan tíma og gleðilegt að sjá hana rísa hratt þessa dagana og finna eftirvæntinguna í samtölum mínum við heimafólk. Fjárfesting í náttúruvernd er fjárfesting í jákvæðri byggðaþróun, fjárfesting til framtíðar. Náttúran skartaði sínu fegursta hvar jökulinn sjálfan bar við himinn. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er sannkölluð perla sem alltaf er jafn gaman að heimsækja og við getum verið mjög stolt af uppbyggingunni innan hans,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Continue Reading

Innlent

Skýrari leiðsögn um námsmat í grunnskólum

Published

on

Menntamálastofnun hefur verið falið að vinna að tveggja ára umbótaverkefni um námsmat í grunnskólum.

„Markmið þessa verkefnis er að auka skilning kennara, nemenda, foreldra og skólastjórnenda á námsmati í grunnskólum, auðvelda kennurum vinnu með námsmat og stuðla þannig að betra samhengi milli náms nemenda og árangursmælinga. Þar eru mörg sóknarfæri sem við viljum nýta betur. Virk ráðgjöf og stuðningur á þessu sviði mun standa skólastjórnendum og kennurum til boða frá og með næsta hausti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Samspil við nýja menntastefnu
Í menntastefnu til 2030 sem gert er ráð fyrir að Alþingi samþykki á vorþingi sem þingsályktun er námsmat meðal lykilþátta. Þar segir m.a. að námsmat skuli meta hæfni nemenda á gagnsæjan og leiðbeinandi hátt og taka til mismunandi hæfni hvers og eins. Einnig að námsmat verði sett fram þannig að það veiti reglulega skýrar upplýsingar um framvindu náms og sé fjölbreytt mat á námi, vellíðan og velferð nemenda.

Ákall um skýrari leiðsögn
Fyrir liggur nýlega birt skýrsla á vef ráðuneytisins um mat á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla, þar sem fram kemur að innleiðing núgildandi aðalnámskrár tókst ekki sem skyldi, þá sérstaklega innleiðing greinasviða grunnskóla sem voru gefin út 2013.

Kallað hefur verið eftir skýrari leiðsögn um námsmat og samspil grunnþátta menntunar og lykilhæfni við útgefin hæfni- og matsviðmið greinasviða grunnskóla. Skýrt ákall er eftir útskýringum og dæmum um hvernig vinna skuli með hæfni- og matsviðmið og kynningu þeirra fyrir nemendum og foreldrum.

Fimm aðgerðir til úrbóta

Í framangreindri skýrslu eru einnig settar fram fimm meginaðgerðir til úrbóta sem hafa verið samþykktar. Ein þeirra lýtur að sérfræðingateymi sem aðstoði skuli skóla og sveitarfélög við innleiðingu og vinnu samkvæmt aðalnámskrá. Áhersla teymisins, sem starfa mun innan Menntamálastofnunar, verður á vinnu með hæfni- og matsviðmið á öllum stigum grunnskólans og tengingu þeirra við grunnþætti og lykilhæfni eftir því sem þurfa þykir. Gert er ráð fyrir að sérfræðingateymið komi einnig að rýni og endurskoðun á greinasviðum aðalnámskrár grunnskóla sem farin er af stað.

Menntamálastofnun mun leita til frumkvöðla í skólasamfélaginu til að taka þátt í verkefninu. Teymið mun meðal annars búa til leiðbeinandi efni og viðmið, verkefni og myndbönd með hagnýtum dæmum um vinnu með hæfni- og matsviðmið og einnig kynningarefni fyrir nemendur og foreldra. Teyminu er einnig ætlað að vera í tengslum við þau sveitarfélög og skóla sem óska eftir aðstoð við innleiðingu. Tiltækar tæknilausnir verða nýttar við framkvæmd verkefnisins.

Continue Reading

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin