Innlent

Umferðarupplýsingar beint í snjalltæki vegfarenda

Vegfarendur geta brátt fengið upplýsingar um færð og ástand vega beint í leiðsögukerfi í snjalltækjum sínum. Vegagerðin hefur hafið útgáfu þessara upplýsinga á samevrópskum DATEXII (Datex2) staðli og verða þar með gerðar aðgengilegar alþjóðlegum leiðsöguþjónustum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í morgun þátt í opnum veffundi Vegagerðarinnar þar sem þessar nýjungar voru kynntar.

„Mikilvægi góðra og réttra upplýsinga verður seint vanmetið. Markmiðið er að samræma opinberar ferðaupplýsingar og upplýsinga- og leiðsögukerfi erlendra tæknifyrirtækja. Við gerum það best með því að gera opinber gögn aðgengileg þeim sem geta nýtt þau. Þetta er mikið framfaraskref sem bætir þjónustu og eykur öryggi allra þeirra sem nýta vegakerfið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

DATEXII staðallinn gerir erlendum leiðsöguþjónustum kleift að sækja þær upplýsingar sem Vegagerðin birtir um vegakerfið, svo sem veður og færð, í rauntíma í leiðsögukerfum sínum hvort heldur er í farsímum eða í leiðsögukerfum bifreiða. Dæmi um umferðarupplýsingar eru lokanir á vegum vegna framkvæmda, slysa eða ófærðar. Fyrirtæki eins og Here og TomTom, sem útbúa ferðaupplýsingar ofan á kortin hjá Google og eða Apple, geta með þessu móti varpað upplýsingum til notenda sinna í rauntíma.

„Með innleiðingu staðalsins vonast Vegagerðin til að nauðsynlegar upplýsingar rati til vegfarenda í rauntíma og berist þeim á meðan á ferðalaginu stendur og þetta er líka öryggismál,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. 

Verkefnið var unnið með fjárveitingu sem til kom af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna óveðursins í desember 2019. Sama fjárveiting hefur einnig verið nýtt til að þróa vef um veður og sjólag, sem kynntur verður á næstunni.

Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Halda áfram að lesa

Alþingi

Forsætisnefnd afgreiðir erindi um siðareglumál

12.5.2021

Forsætisnefnd afgreiddi á fundi sínum 10. maí erindi sem henni barst 18. apríl sl. frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann óskaði álits forsætisnefndar á því hvort ummæli hans í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. stæðist siðareglur alþingismanna. Niðurstaða forsætisnefndar er birt í meðfylgjandi bréfi til Björn Levís Gunnarssonar

Var niðurstaðan sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglnanna.

Halda áfram að lesa

Innlent

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að landlæknir veiti upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna COVID-19 bólusetningar. Einkum með tilliti til þeirra sem, af heilsufarslegum ástæðum, telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin