Connect with us

Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun takmarkar umferð í hella í Þeistareykjahrauni

Birt

þann

11. september.2020 | 14:07

Umhverfisstofnun takmarkar umferð í hella í Þeistareykjahrauni

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur staðfest ákvörðun Umhverfisstofnunar um að takmarka aðgengi að hellum í Þeistareykjahrauni í Þingeyjasveit í verndarskyni. Umferð um alla hella í hrauninu, að undanskildum Togarahelli, verður bönnuð fyrir aðra en þá sem sinna lögbundnum rannsóknum á hellunum eða hafa lögbundið eftirlit með verndun þeirra. Ákvörðunin byggist á heimild í 25.gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ákvörðunin hefur verið birt í B-deild stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 888/2020. 

Í Þeistareykjahrauni hefur fundist nokkur fjöldi ósnertra hraunhella á undanförnum árum. Verndargildi þessara nýfundnu hella þykir sérlega hátt sökum mikils fjölda viðkvæmra hraunmyndana. Þéttleiki þeirra myndana er slíkur að erfitt er um vik að ferðast um hellana án þess að valda óafturkræfu tjóni. Þeistareykjahraun er að miklu leyti ókannað með tilliti til hraunhellarannsókna og er því viðbúið að fleiri hellar muni finnast með áframhaldandi rannsóknum.

Hraunhellar eru fágætar jarðmyndanir á heimsvísu, en sökum jarðfræðilegrar sérstöðu er Ísland sérlega ríkt af slíkum hellum. Fjölmargir nafnkunnir hellar hafa orðið fyrir óafturkræfum skaða á liðnum áratugum þar sem hraunstrá og dropsteinar hafa verið brotin og fjarlægð úr hellunum eftir því sem aðsókn í þá jókst. Með slíkri umgengni skerðist verðmæti hellana varanlega. 

Með  takmörkunum á aðgangi í hellana í Þeistareykjahrauni vonast Umhverfisstofnun til að hægt verði að fyrirbyggja skaða á ósnertum hellum í hrauninu. 

Ákvörðun þessi var unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Hellarannsóknarfélag Íslands og sveitarfélagið Þingeyjarsveit, ásamt því sem leitað var umsagnar Landsvirkjunar. Ákvörðunin verður endurskoðuð árlega. 

Lesa meira

Heilsa

Ný og uppfærð Græn skref

Birt

þann

Eftir

14. janúar.2021 | 13:27

Ný og uppfærð Græn skref


Nýr og uppfærður gátlisti Grænna skrefa hefur nú verið kynntur til leiks.  

Fyrir þá sem ekki þekkja til  Grænna skrefa þá eru þau verkefni fyrir ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Nú þegar eru 117 stofnanir og fyrirtæki í meirihluta eigu ríkisins skráð en stefnt er að því að allir ríkisaðilar séu skráðir og hafi innleitt Græn skref til fulls í sitt starf fyrir árslok 2021.  

Í skrefunum er farið í gegnum fimm skref sem hvert um sig inniheldur 30 – 40 aðgerðir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af skrifstofustarfsemi og öðru sem henni tengist – það eru þessar aðgerðir sem nú hafa verið uppfærðar. Þó hið formlega ferli sé hugsað fyrir stofnanir er um að gera fyrir aðra starfsemi svo sem fyrirtæki, skóla og aðra sem vilja gera vel í umhverfismálum að nýta sér listann og skoða hvort ekki megi framkvæma aðgerðir skrefanna í sínu starfi.  

Það kennir ýmissa grasa í nýju skrefunum en nokkrar aðgerðir voru teknar út, sumar tóku minniháttar breytingum og svo má einnig finna splunkunýjar aðgerðir. Nýju Grænu skrefin samræmast betur skyldu ríkisaðila til að setja sér loftslagsstefnu ásamt því að leggja aukna áherslu á samgöngumál. Þar að auki hefur flokkinum Eldhús og kaffistofur verið bætt við. Metnaðurinn hefur því aukist í samræmi við auknar væntingar almennings til stofnana og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins á sviði umhverfismála. 

Nánar má lesa um nýju Grænu skrefin á vefsíðunni graenskref.is auk þess sem hægt er að sækja þar allskonar umhverfisvænan innblástur fyrir vinnustaði.

Lesa meira

Heilsa

Útgáfa starfsleyfis fyrir vetnisframleiðslu Orku náttúrunnar ohf.

Birt

þann

Eftir

13. janúar.2021 | 10:39

Útgáfa starfsleyfis fyrir vetnisframleiðslu Orku náttúrunnar ohf.

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Orku náttúrunnar ohf. fyrir framleiðslu á vetni við Hellisheiðarvirkjun.

Verkefnið er hluti af skilgreindu þróunarverkefni á vegum Evrópusambandsins sem heitir „Hydrogen Mobility Europe (H2ME)“. Verkefninu er ætlað að stuðla að notkun vetnis sem orkugjafa fyrir bifreiðar og er liður í baráttu við loftlagsbreytingar. Markmiðið er að nýta orkuframleiðsluna í Hellisheiðarvirkjun á þeim tímum sem minni eftirspurn er eftir rafmagni.

Tillaga að starfsleyfi ásamt ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, starfsleyfisumsókn og lýsingu á framkvæmd var auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 24. nóvember til og með 22. desember 2020 og gafst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin. Engar athugasemdir eða umsagnir bárust á auglýsingatíma og var starfsleyfið gefið út með aðeins smávægilegum breytingum sem gerð er grein fyrir í greinargerð sem fylgir starfsleyfinu.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Auglýsing þessi er birt á fréttavefsvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálki fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem stofnunin gefur út.

Starfsleyfi þetta, sem gefið er út í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, öðlast þegar gildi og gildir til 31. desember 2022.

Starfsleyfi

Lesa meira

Heilsa

Tillaga að starfsleyfi Eldisstöðin Ísþór hf. Þorlákshöfn

Birt

þann

Eftir

12. janúar.2021 | 13:16

Tillaga að starfsleyfi Eldisstöðin Ísþór hf. Þorlákshöfn


Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Eldisstöðina Ísþór hf. Um er að ræða landeldi í Þorlákshöfn þar sem hámarks lífmassi á hverjum tíma má ekki fara yfir 1.800 tonn. Eldisstöðin Ísþór hf. hefur verið með leyf fyrir 600 tonnum í Þorlákshöfn og er því verið að auka eldið um 1.200 tonn.

Að mati Umhverfisstofnunar munu helstu áhrif aukningarinnar vera í formi aukins magns næringarefna bæði á föstu formi og uppleystu sem munu verða losuð í viðtakann. Áætluð losun næringarefna verður undir þeim mörkum sem almennt er miðað við varðandi losun í sjó. Í starfsleyfi eru ákvæði þar sem hægt er að gera aukna kröfum um hreinsun fari rekstaraðili yfir þau mörk sem sett hafa verið í leyfið.

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun ([email protected]). Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 10. febrúar 2021. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl:
Tillaga að starfsleyfi Eldisstöðin Ísþór hf.
Álit Skipulagsstofnunar
Matsskýrsla Eldisstöðin Ísþór hf.
Umsókn um starfsleyfi

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin