Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Terra en framtak ársins á sviði umhverfismála eiga Netpartar.
Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið. Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum efnum og gerir viðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með úrgangstölum og endurvinnsluhlutfalli í rauntíma.Gunnar Bragason, forstjóri Terra tók við verðlaununum fyrir hönd Terra.
„Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Terra. En við höfum metnað til að gera enn betur. Með nýjum markmiðum, nýjum starfrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag.
Ég skora á okkur öll að taka umhverfis- og endurvinnslumál föstum tökum og gefa þeim það vægi sem þau þarfnast. Vörur eru framleiddar til að anna eftirspurn. Ef við sem búum þessa jörð förum að hugsa og framkvæma með það að leiðarljósi að varan sem við notum sé hluti af hringrásarhagkerfinu, að það sé búið við hönnun að gera ráð fyrir því hvað gert er við vöruna að loknum líftíma hennar, þá getum við breytt miklu. Ísland er ekki stórt land en öll skref í þessa átt eru til bóta. Við skiptum því máli. Skiljum jörðina eftir á betri stað en við tókum við henni.”
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Terra, Gunnar Bragason, forstjóri Terra, Jónína G. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og viðskiptasviðs Terra, Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA
Netpartar fengu verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin en viðurkenninguna fá Netpartar fyrir að vera leiðandi í umhverfismálum við niðurrif bíla og sölu varahluta.
Markmið Netparta hefur frá upphafi verið að stuðla að frekari nýtingu notaðra varahluta úr bifreiðum sem og að endurvinna þær með umhverfisvænum hætti til annarra hlutverka. Það leiðir af sér betri nýtingu verðmæta, stuðlar að minni sóun, minni urðun, betra umhverfi og loftslagi. Þannig gegna Netpartar hlutverki í hringrásarhagkerfinu.
Framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins er Aðalheiður Jacobsen, viðskiptafræðingur og frumkvöðull.
„Ég og við öll hjá Netpörtum erum yfir okkur stolt og þakklát að hafa hlotið þessa viðurkenningu frá atvinnulífinu sem er okkur sannarlega mikil hvatning. Alveg frá stofnun Netparta hafa umhverfismál og samfélagsábyrgð verið okkar leiðarljós, þar sem markmiðið er að sem mest af ónýtum bíl fari aftur í annað hvort nýtilega bílavarahluti eða í önnur hlutverk í hringrásarkerfinu. Við lítum á það sem okkar skyldu að stuðla að minni sóun og urðun fyrir betra umhverfi og loftslagi og við erum þakklát fyrir þann meðbyr sem finnum, frá bæði viðskiptavinum og öðrum.“
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Kristín Jóhannsdóttir, almannatengill Netparta, Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA
Í valnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Bryndís Skúladóttir, formaður dómnefndar, Sigurður M. Harðarson og Gréta María Grétarsdóttir.
Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
SVÞ í samstarfi við KoiKoi býður til heillrar viku af fyrirlestrum og reynslusögum fyrir þau sem vilja taka vefverslunina sína upp á næsta stig.
Covid-19 hefur hraðað þróun íslenskrar vefverslunar svo um munar. Fyrirtæki hafa þurft að bregðast hratt við margvíslegum áskorunum, ekki síst óskum og þörfum viðskiptavina um betra viðmót og þjónustu vefverslana. Fyrirtæki hér á landi hafa tekið stór skref í umbótum en ljóst er að til mikils er að vinna með því að þróa og bæta stöðugt vefverslanir og markaðssetningu þeirra.
Jafnt innlendir sem erlendir sérfræðingar munu miðla af reynslu sinni og þekkingu um allt mögulegt sem viðkemur vefverslun, allt frá uppbyggingu hennar til „last mile delivery” og allt þar á milli.
Dagskráin er birt með fyrirvara um breytingar. Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um það sem fyrir liggur,en yfirskriftir fyrirlestra og allar frekari upplýsingar verða uppfærðar eftir því sem þær eru staðfestar.
AÐGANGUR ER ÖLLUM OPINN OG ENDURGJALDSLAUS en upptökur verða eingöngu gerðar aðgengilegar félagsmönnum í SVÞ.
Viðburðurinn fer fram í Eventee og verða innskráningarupplýsingar sendar fyrir viðburðinn.
Skráning er hafin hér fyrir neðan. Athugið að lokað verður fyrir skráningu stundvíslega föstudaginn 29. janúar kl. 12:00 á hádegi og ekki er hægt að ábyrgjast að þau sem skrái sig eftir þann tíma fái aðgang.
Nú þegar tækninni hefur fleygt hratt fram og mögulegt er að nálgast viðskiptavini á öllum tímum og bjóða þeim vörur og þjónustu í hvaða snjalltæki sem er, hefur það reynst mörgum veruleg áskorun að standa að slíkum rekstri á arðsaman og skilvirkan hátt. Í þessu erindi reynum við að varpa ljósi á þá þætti sem oftast reynast fyrirtækjum erfiðir þegar þau hafa sett upp verslun eða þjónustu á netinu. Eins drögum við fram mikilvægi þess að hafa vel skilgreint viðskiptalíka og tengjum það saman við grunnþætti starfseminnar svo hægt sé að ná markmiðum fyrirtækisins og mæta væntingum viðskiptavinanna.
Einar Thor Bjarnason á að baki langan starfsferil sem stjórnunarráðgjafi bæði hér á Íslandi og erlendis þar sem hann starfaði m.a. hjá Accenture. Viðskiptavinir hafa verið stór sem smá einkafyrirtæki í ólíkum geirum sem og fjölmargar opinberar stofnanir og ráðuneyti. Einar hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og er einn af eigendum Intellecta ehf. Hann er með M.Sc. iðnaðarverkfræði og MBA í stjórnun og stefnumótun.
ATHUGIÐ AÐ VIÐBURÐURINN ER AÐEINS FYRIR FÉLAGSMENN Í SVÞ, Þ.E. STARFSMENN AÐILDARFYRIRTÆKJA
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum á jóladag:
Það verður víst nóg um greinar sem tíunda allt hið slæma sem gerst hefur á því annus horribilis sem 2020 hefur verið. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott eins og sagði í Dýrunum í Hálsaskógi. Kófið hefur haft ýmsar jákvæðar aukaverkanir og sú sem við hjá SVÞ fögnum helst er að fleiri hafa öðlast skilning á mikilvægi stafrænnar umbreytingar og séð kosti hennar og þau tækifæri sem hún skapar. Fjöldi fastheldinna manna og kvenna sem aldrei fyrr hefðu samþykkt fundarhöld á netinu, rafræna viðburði og annað slíkt, hafa verið neyddir út fyrir þægindarammann og ýtt af hörku inn í nútímann. Fólk sem áður fussaði og sveiaði yfir frösum á borð við „stafræn þróun” og „stafræn umbreyting” gerir sér í dag ekki bara grein fyrir því að það verður að vera með, heldur einnig því að þessar breytingar eru af hinu góða ef við höldum rétt á málunum.
Hið opinbera hefur sett stafræna stjórnsýslu kyrfilega á dagskrá og nýlega bárust af því fréttir að Ísland hafi færst upp um sjö sæti á mælikvarða Sameinuðu þjóðanna á stafrænni opinberri þjónustu og sitji þar nú í 12. sæti af 193 löndum. Því ber að fagna, enda njótum við öll góðs af þeirri hagræðingu sem þessi vegferð hefur í för með sér, bæði í tíma og fjármagni, svo ekki séu nefnd jákvæð umhverfisáhrif. Þeir tæpu tíu milljarðar á ári sem ríkið mun spara árlega eftir um 3-5 ár eru einnig fjármunir sem augljóslega má nýta til betri verka í framtíðinni. Stafrænt Ísland og tengd verkefni eru því mikilvæg og verðug fjárfesting ríkisins.
Stjórnvöld hafa einnig hugað að ýmsum fleiri þáttum, svo sem máltækni og gervigreind, gagnanýtingu, færnimati á vinnumarkaði, tæknilegum innviðum og netöryggi, að ekki sé minnst á nýsköpun, auk þess að hafa skuldbundið sig til norræns samstarfs sem kallar á verulega nýtingu stafrænnar tækni – og nauðsynlegrar tilheyrandi hæfni. Í sumum þessara þátta hefur aðgerðum verið hrint af stað en öðrum ekki.
Það sem stjórnvöldum hefur hins vegar yfirsést hingað til er að huga að stuðningi við stafræna umbreytingu atvinnulífsins. Tækniþróunin er einfaldlega svo hröð að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hægt sé að treysta eingöngu á markaðsöflin til að atvinnulífið geti haldið í við hana og nýtt sér ávinning hennar almennilega. Þátttaka í þessu tæknikapphlaupi er óhjákvæmileg – það er einfaldlega ekki hægt að vera ekki með – og eins og staðan er núna er íslenskt atvinnulíf að dragast aftur úr.
Hvað er þá til ráða? Til að Ísland geti verið samkeppnishæft á alþjóðasviðinu verðum við öll að leggjast á eitt til að efla atvinnulífið í nýtingu stafrænnar tækni til verðmætasköpunar – og sköpunar starfa. Stjórnvöld víða um heim hafa þegar gert sér grein fyrir þessu, ekki síst á hinum Norðurlöndunum og víða annars staðar í Evrópu þar sem til staðar er skýr skilningur á mikilvægi stafrænnar umbreytingar atvinnulífsins sem undirstöðu lífsgæða og velferðar. Stjórnvöld þessara landa hafa nú fyrir nokkrum árum bæði mótað stefnu og gripið til markvissra aðgerða til að tryggja að fyrirtæki þeirra og starfsfólk á vinnumarkaði hafi það sem þarf til þess að halda í við þróunina á alþjóðavísu og í tilfelli nágranna okkar á hinum Norðurlandanna, að vera í fremstu röð stafrænnar umbreytingar í heiminum.
Íslenskt atvinnulíf er því miður almennt skammt komið á stafrænni vegferð og hefur hingað til ekki hlotið stuðnings stjórnvalda í því efni. Því lengur sem við erum að koma okkur almennilega af stað, því erfiðara verður að ná og halda í við samanburðarríki okkar og tryggja til framtíðar þá velferð og þau lífsgæði sem við viljum búa við. Önnur lönd eru komin á fljúgandi ferð – við verðum að koma okkur úr startholunum sem allra fyrst. Til að íslenskt atvinnulíf geti nýtt stafræna þróun sér og okkur öllum til framdráttar þurfa nokkrir hlutir að gerast:
Stjórnir og stjórnendur fyrirtækja þurfa að öðlast greinargóðan skilning og þekkingu á stafrænni umbreytingu, ávinningi hennar, hvernig á að stýra stafrænum umbreytingarverkefnum á farsælan og árangursríkan hátt og síðast en ekki síst því að þessi þróun er ekki einstakt verkefni heldur nýr veruleiki sem kominn er til að vera
Bæði stjórnendur fyrirtækja og starfsfólk á vinnumarkaði þurfa að hafa þá stafrænu hæfni sem þarf til að geta nýtt sér tæknina sér til framdráttar
Fjármagn til að fara í stafræn umbreytingarverkefni og almennur skilningur þarf að vera á að slík verkefni eru fjárfesting til framtíðar, en ekki útgjöld
SVÞ og VR hafa hafið samtal við stjórnvöld um þetta mikilvæga mál og fengið jákvæðar undirtektir. Við höfum lagt til samstarf þvert á stjórnvöld, atvinnulíf, vinnumarkað, háskólasamfélag og aðra hagaðila um að hraða stafrænni þróun í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði með vitundarvakningu og eflingu stafrænnar hæfni, til að tryggja samkeppnishæfni Íslands og lífsgæði í landinu. Lagðar hafa verið fram markvissar, skýrar og vel ígrundaðar tillögur sem eru tilbúnar til framkvæmda. Málið er til skoðunar hjá stjórnvöldum og vonir okkar standa til að samstarf geti hafist sem allra fyrst á nýju ári.
Stafræn vegferð ríkisins hefur sýnt, svo ekki verður um villst, að ef við Íslendingar tökum skýra ákvörðun um að ganga í málin getum við áorkað ótrúlegustu hlutum. Á mettíma höfum við rokið upp stigatöfluna í opinberri stafrænni stjórnsýslu. Nú er kominn tími til að setja stafræna umbreytingu atvinnulífsins á dagskrá, rjúka upp þá stigatöflu og verða fullgildir þátttakendur með frændum okkar á Norðurlöndunum í því að leiða stafræna umbreytingu okkur öllum til heilla.