Innlent

Unnur Brá og Steinar Ingi aðstoða umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ráðið Unni Brá Konráðsdóttur, lögfræðing og fv. forseta Alþingis og Steinar Inga Kolbeins, varaformann Sambands ungra Sjálfstæðismanna og fv. blaðamann á mbl.is, sem aðstoðarmenn sína.

Unnur Brá lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Hún sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2009-2018 og var forseti Alþingis árið 2017. Hún gegndi formennsku í allsherjar- og menntamálanefnd 2013-2016 og sat í fjölmörgum öðrum nefndum þingsins. Hún gegndi starfi aðstoðarmanns ríkisstjórnar 2018-2020 þar sem hún var sérstakur fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, var verkefnisstjóri í vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar og sinnti ýmsum öðrum þverfaglegum verkefnum. Þá var hún skipuð formaður samninganefndar ríkisins vegna endurskoðunar búvörusamninga af Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðarráðherra. Frá því í september 2020 hefur Unnur Brá starfað sem formaður stýrihóps um framkvæmdir við Landspítala.

Unnur Brá starfaði áður sem sveitarstjóri Rangárþings eystra og hefur öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum. Þá hefur hún lagt stund á mastersnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Steinar Ingi er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og stundar nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Samhliða námi hefur Steinar Ingi unnið sem blaðamaður á Morgunblaðinu og mbl.is og starfað í félags- og frístundamiðstöðvum í Gufunesbæ. Þá hefur Steinar Ingi  starfað sem kosningastjóri í prófkjöri og starfað við framkvæmd kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum. Hann hefur setið í stjórn Vöku, hagsmunafélagi stúdenta, Heimdalli, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík og Politicu, félagi stjórnmálafræðinema auk þess er hann 1. varaformaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna

Steinar Ingi hefur þegar hafið störf í ráðuneytinu og Unnur Brá hefur störf síðar í mánuðinum.

Innlent

Fimm í gæsluvarðhaldi

23 Maí 2022 16:20

Fimm sitja í gæsluvarðhaldi eftir aðgerðir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi, sem ráðist var í fyrir helgina. Lagt var hald á umtalsvert magn af marijúana, eða um 40 kg, en leitir voru framkvæmdar á allmörgum stöðum, bæði í húsum og ökutækjum. Um var að ræða aðgerðir gegn framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna, auk peningaþvættis, en lögreglan tók einnig í sína vörslu ökutæki, peninga og tölvubúnað. Nokkrir tugir lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum, en við þær naut embættið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurlandi. Alls voru tíu manns handteknir í þágu rannsóknarinnar og fimm úrskurðaðir í gæsluvarðhald eins og áður sagði, en varðhaldið er til tveggja vikna.

Rannsókn málsins miðar vel.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ákvarðanir leiðréttar í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns

Stjórnvöld leiðrétta reglulega ákvarðanir sínar í tilefni af fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis. Kunna spurningar hans þá t.d. að varpa nýju ljósi á mál eða gefa tilefni til að endurskoða fyrri afstöðu. Á árinu 2021 lauk til að mynda 48 málum með leiðréttingu stjórnvalds og 9 með endurupptöku eftir umboðsmaður spurðist fyrir vegna kvartana sem honum bárust. Þetta var 10% heildarfjölda kvartana í fyrra.

Halda áfram að lesa

Innlent

Framfylgd þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í góðum farvegi

Stýrihópur um framfylgd þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021-2025 telur framgang áætlunarinnar í heildina litið í góðum farvegi.

Í október 2021 voru tíu verkefni enn á byrjunarstigi en eru fjögur núna. Tíu verkefni eru hafin og sex verkefni komin vel á veg en eitt verkefni var í þeim flokki við síðustu uppfærslu í október 2021.

Stýrihópurinn fundar  að jafnaði mánaðarlega og fer yfir stöðu aðgerða. Í byrjun maí fundaði stýrihópurinn með tengiliðum og ábyrgðaraðilum verkefna og í kjölfarið var mælaborðforvarnaráætlunarinnar uppfært í samræmi við stöðu aðgerða.

Í stýrihópnum sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, Jafnréttisstofu, Menntamálastofnunar, Barna- og fjölskyldustofu,  Embættis landlæknis, mennta- og barnamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin