Innlent

Utanríkisráðherra ávarpaði alþjóðamálaráðstefnu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði áherslu á alþjóðasamvinnu og þau lýðræðislegu gildi sem alþjóðakerfið byggist á í opnunarávarpi á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland. Hann sagði borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hafa sannað gildi sitt í heimsfaraldrinum.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytið og Norræna húsið, í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun Stjórnsýslufræða og stjórnmála og Vestnorræna ráðið, gengust fyrir ráðstefnunni.

Í opnunarávarpi sínu ræddi Guðlaugur Þór þær áskoranir sem fylgt hafa heimsfaraldrinum og hvaða lærdóm mætti draga að reynslu undanfarinna missera. „Um leið og þýðing alþjóðlegrar samvinnu hefur líklega sjaldan verið ljósari hefur ástandið líka sýnt fram á að þegar á reynir gildir það allt of oft að hver sé sjálfur sér næstur,“ sagði ráðherra.

Guðlaugur Þór lýsti yfir áhyggjum að sótt væri að þeim lýðræðislegu gildum sem alþjóðakerfið byggði á, oft í skjóli COVID-19, en um leið stæðum við frammi fyrir nýjum áskorunum. „Frjór jarðvegur hefur skapast fyrir falsfréttir meðan farsóttin hefur geisað, oft settar fram af annarlegum hvötum eða til að grafa undan frjálsum lýðræðissamfélögum og samstöðu þeirra. Árvekni og upplýst umræða skipta hér eftir sem hingað til höfuðmáli við að sporna gegn þeirri óværu sem upplýsingaóreiðan er.“

Því næst vék Guðlaugur Þór að árangursríkri alþjóðasamvinnu um bóluefni en líka hvernig faraldurinn hefði truflað samskipti ríkja á milli, dæmi um það væri útflutningshömlur Evrópusambandsins á bóluefni sem bitnaði á EFTA-ríkjunum, þar á meðal Íslandi. „Öflug málafylgja íslenskra stjórnvalda tryggði að reglugerðinni var breytt enda hefði það haft stóralvarlegar afleiðingar fyrir framkvæmd EES-samningsins ef EES-ríkjunum væri mismunað með þessum hætti og yrði að teljast skýrt brot á samningnum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þá rifjaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra upp aðgerðir sem ráðist var í til stuðnings útflutningsgreinunum á tímum heimsfaraldurs og hvernig borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins aðstoðaði þúsundir Íslendinga þegar hann skall á. „Hún hefur heldur betur sannað gildi sitt á COVID-tímum. Árið 2019 voru 679 aðstoðarbeiðnir skráðar hjá henni en í fyrra bárust ráðuneyti og sendiráðum yfir níu þúsund slíkar beiðnir,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í niðurlagi ræðu sinnar ræddi ráðherra svo kosti fjarfunda sem um margt hefðu stuðlað að árangursríkum samskiptum á stjórnmálasviðinu þrátt fyrir COVID-19. Ekkert kæmi þó í staðinn fyrir mannleg samskipti augliti til auglitis.

Alþjóðamálin voru rædd frá ýmsum hliðum á ráðstefnunni, voru alþjóðasamvinna á tímum heimsfaraldurs, falsfréttir og fjölmiðlar á Norðurlöndunum og framtíð alþjóðasamstarfs á dagskrá pallborðsumræðna. Í hádeginu tóku formenn og aðrir fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi þátt í umræðum um alþjóðamál. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sló svo botninn í ráðstefnuna með erindi sínu.

Ráðstefnan var í beinu vefstreymi og má sjá upptöku af því í spilaranum að neðan.

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? from The Nordic House on Vimeo.

Innlent

Um grímuskyldu

Nokkurrar óvissu hefur gætt um framkvæmd reglugerðar nr. 587/2021frá 25. júlí s.l. um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Óvissan hefur einkum beinst að því hversu langt skyldan til að bera andlitsgrímur nær.

SVÞ finnst því ástæða til að skýra þessi atriði frekar.

Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðarinnar er einungis um að ræða skyldu til að bera andlitsgrímu inni í verslunum og öðrum sambærilegum stöðum, þegar ekki er hægt að tryggja a.m.k eins metra fjarlægð milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Ákvæði sem upphaflega var í reglugerðinni þess efnis að einnig bæri að bera anliltsgímur þegar loftræsting væri ófullnægjandi, hefur verið felld út.

Eftir þessu er það lagt í hendur hvers fyrirtækis fyrir sig að meta hvenær ekki er hægt að tryggja nálægðartakmörkun með fullnægjandi hætti.

Halda áfram að lesa

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 28. – 29. júní

27. júlí 2021

Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar
Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 28. – 29. júní 2021 hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndarmenn ræddu meðal annars um stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika, stöðu efnahagsmála, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, stöðu og áhættu í fjármálakerfinu og í rekstri einstakra fjármálafyrirtækja, vanskil, fasteignamarkaðinn, álagspróf, kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, fjármálasveifluna, ný heildarlög um gjaldeyrismál, sveiflujöfnunaraukann og takmörkun á fasteignalánum.

Sjá hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 28. – 29. júní 2021 (8.fundur). Birt 27. júlí 2021.

Sjá nánari upplýsingar um nefndina hér.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ungir Íslendingar geti búið og starfað í Bretlandi

Samkomulag er í höfn milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í dag en það gerir ungum Bretum að sama skapi mögulegt að búa og starfa á Íslandi. 

Viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands hafa verið afar umfangsmiklar. Í byrjun júlí undirritaði ráðherra nýjan fríverslunarsamning við Bretland og þá hefur einnig verið skrifað undir samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda

Guðlaugur Þór fagnar samkomulaginu sem hann segir afar mikilvægt. „Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að tryggja tækifæri ungs fólks til þess að búa, starfa og mennta sig í Bretlandi, sem sést meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er fyrsta ríkið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að gera samning við Bretland um vinnudvöl ungs fólks frá því landið gekk úr Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að sterk tengsl ríkjanna muni styrkjast enn frekar með þessum samningi,“ segir Guðlaugur Þór. 

Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu þurfa allir sem vilja flytja til Bretlands að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands, en nýja samkomulagið mun auðvelda ungu fólki frá Íslandi ferlið til muna. 

Áætlað er að nýja fyrirkomulagið taki gildi í byrjun árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin