Innlent

Utanríkisráðherra fundaði með Margrethe Vestager

Samkeppnismál, gróska í nýsköpun, stafræn umbreyting og samstarf Íslands og Evrópusambandsins (ESB) á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) voru á meðal þess sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Margrethe Vestager, varaforseti og framkvæmdastjóri samkeppnismála og stafrænnar umbreytingar ESB, ræddu á fundi sínum í Brussel í dag.

Hin danska Vestager hefur vakið athygli fyrir framgöngu sína gagnvart stórum tæknifyrirtækjum vegna samkeppnishamlandi hegðunar þeirra á stafrænum mörkuðum. „Það er mikilvægt að á innri markaðnum ríki heilbrigð og öflug samkeppni en jafnframt að fyrirtækin búi við jöfn samkeppnisskilyrði eins og EES-samningurinn tryggir,“ segir Þórdís Kolbrún. Þá væri mikilvægt að efla nýsköpun enda sé hún helsti drifkraftur heilbrigðrar samkeppni. 

Mikil þróun á sér nú stað á vettvangi innri markaðarins á þessu sviði. Fyrirhuguð löggjöf ESB um stafræna markaði og þjónustu (e. Digital Markets Act og Digital Services Act), sem um þessar mundir er til meðferðar innan stofnana ESB, bar einnig á góma á fundinum. Tillögurnar fela í sér uppfærslu á reglum um stafræna markaði og þjónustu og felast í stuttu máli í sér að komið verði í veg fyrir að svokallaðir hliðverðir geti viðhaft ósanngjarna viðskiptahætti gagnvart neytendum og fyrirtækjum, einkum meðalstórum og smærri aðilum. Jafnframt að vernd neytenda og réttindi séu tryggð á netinu, til að mynda með því að auka gagnsæi og setja ramma utan um ábyrgð þjónustuaðila. Utanríkisráðherra kom því á framfæri við Vestager að mikilvægt væri að vel tækist til í þessum efnum og að búið verði um hnútana á þann hátt að hagsmunir neytenda og fyrirtækja verði hafðir að leiðarljósi. 

Síðar í dag mun Þórdís Kolbrún meðal annars sækja fund EES-ráðsins, ásamt utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar ESB.

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin