Innlent

Utanríkisráðherrar Norðurlanda ræddu væntanlegan ráðherrafund Norðurskautsráðsins

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í fjarfundi með öðrum utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Á fundinum gerði Guðlaugur Þór meðal annars grein fyrir undirbúningi ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem fram fer á Íslandi 20. maí næstkomandi. Vonir standa til að sérstök yfirlýsing, svokölluð Reykjavíkuryfirlýsing, verði samþykkt á fundinum, auk stefnu ráðsins til næstu tíu ára. 

„Það er einlæg von mín að okkur takist að merkja 25 ára afmæli Norðurskautsráðsins með því að samþykkja stefnu fyrir ráðið á komandi ráðherrafundi. Vinna við Reykjavíkuryfirlýsinguna lofar einnig góðu,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum. 
Þá sagði hann skipulagningu fundarins miða vel miðað við krefjandi tíma og áður óþekktar aðstæður vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Fundurinn verði augljóslega ekki að sama umfangi og undir venjulegum kringumstæðum. Vegna heimsfaraldursins hefur þátttaka á fundinum í Reykjavík verið takmarkaður við utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna átta, auk ráðherra Færeyja og Grænlands, og samtök frumbyggja. Aðrir taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Þá greindi ráðherra starfssystkinum sínum frá símafundi sínum við Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í síðustu viku. Þar ræddu þeir meðal annars ráðherrafund Norðurskautsráðsins, en Blinken mun leiða sendinefnd Bandaríkjanna á fundinum. Jafnframt ræddu ráðherrarnir öryggismál, mannréttindi og loftslagsmál, en Svíar gegna nú formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og þá á Noregur sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í fundinum Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, en Finnar leiða samstarf utanríkisráðherra Norðurlanda í ár, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar.

Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Halda áfram að lesa

Alþingi

Forsætisnefnd afgreiðir erindi um siðareglumál

12.5.2021

Forsætisnefnd afgreiddi á fundi sínum 10. maí erindi sem henni barst 18. apríl sl. frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann óskaði álits forsætisnefndar á því hvort ummæli hans í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. stæðist siðareglur alþingismanna. Niðurstaða forsætisnefndar er birt í meðfylgjandi bréfi til Björn Levís Gunnarssonar

Var niðurstaðan sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglnanna.

Halda áfram að lesa

Innlent

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að landlæknir veiti upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna COVID-19 bólusetningar. Einkum með tilliti til þeirra sem, af heilsufarslegum ástæðum, telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin