Innlent

Úttekt séreignar og fleiri úrræði samþykkt á Alþingi

Framhald og rýmkun viðspyrnu- og lokunarstyrkja, útgreiðsla séreignarsparnaðar, sérstakur barnabótaauki og fleiri aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru voru samþykktar á Alþingi í gær.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra lagði á dögunum fram frumvörp sem hafa að markmiði að styðja við einstaklinga og rekstraraðila á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn, sem Alþingi hefur nú samþykkt.

Heimilt að taka út séreignarsparnað allt þetta ár

Heimilað var að nýju að taka tímabundið út ákveðinn hluta af séreignarsparnaði, en gripið var til sambærilegrar heimildar snemma í faraldrinum sem gilti út árið 2020. Til að mæta áhrifum faraldursins, sem hafa varað lengur en gert var ráð fyrir í fyrstu, var ákveðið að endurnýja heimildina.

Hægt verður að taka út séreignarsparnað til eigin nota út árið 2021 og eru sömu viðmið um fjárhæðir og tímabil og giltu á árinu 2020. Hámarksútgreiðsla er 12 m.kr. yfir 15 mánaða tímabil og útgreiðsla hvers mánaðar nemur að hámarki 800 þúsund krónum.

Viðspyrnustyrkir framlengdir og rýmkaðir

Samþykkt var að framlengja og rýmka úrræðið um viðspyrnustyrki. Nú þegar hafa um 3.200 umsóknir borist um styrkina og ríflega 3,1 milljarður króna hefur verið greiddur út.

Í nýjum lögum um styrkina kemur fram að rekstraraðilar sem hafa vegna heimsfaraldursins orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 30. nóvember 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk. Lágmarks tekjufall hefur hingað til verið 60%, en lækkaður þröskuldur gildir afturvirkt til nóvember 2020.

Styrkfjárhæð getur mest numið 90% af rekstrarkostnaði umsækjanda, en verður þó aldrei hærri en sem nemur tekjufallinu á viðkomandi tímabili.Að auki eru eftirfarandi viðmið sett fram um styrkfjárhæðir:

  • 40-60% tekjufall: 300 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 1,5 milljónir króna.
  • 60-80% tekjufall: 400 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2 milljónir króna.
  • 80–100% tekjufall: 500 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2,5 milljónir króna.

Heimilt er að miða við fjölda stöðugilda við fjölda þeirra í sama mánuði 2019.

30.000 krónur í sérstakan barnabótaauka

Við álagningu opinberra gjalda um næstu mánaðamót verður greiddur út sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni til þeirra framfærenda sem fá ákvarðaðar tekjutengdar barnabætur, en barnabótaaukinn verður greiddur vegna um 45.000 barna. Barnabótaaukinn telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna. Markmið aðgerðarinnar er að koma til móts við tekjulægri barnafjölskyldur vegna áhrifa faraldursins.

Greiðsludreifing staðgreiðslu og tryggingagjalds

Þá var samþykkt að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem fengið hafa frest til skila á afdreginni staðgreiðslu af launum og greiðslu staðgreiðslu tryggingagjalds vegna ársins 2020 geti sótt um að dreifa þeim greiðslum í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Er með þessu komið frekar til móts við lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, sem lent hafa í greiðsluvanda.

Tekið við umsóknum um lokunarstyrki út september

Jafnframt var framlengdur umsóknarfrestur um lokunarstyrki. Almennur umsóknarfrestur um lokunarstyrki sem veittir voru vegna fyrri hluta ársins 2020 var til og með 1. september 2020 og um viðbótarlokunarstyrki til og með 1. október 2020. Með nýjum lögum hefur Skattinum verið heimilað að taka til afgreiðslu umsóknir sem berast eftir þann tíma allt til 30. september 2021.

Grunnstoðir varðar

Öll úrræðin, sem og önnur sem enn eru í meðförum Alþingis, miða að því að verja áfram grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Síðustu mánuði hafa vel yfr 80 milljarðar verið greiddir í sértækan stuðning í stærstu úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátöldum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar og aukinnar endurgreiðslu virðisaukaskatts (VSK). Á fimmta þúsund rekstraraðilar og um fjörutíu þúsund einstaklingar hafa nýtt stuðninginn.

Innlent

Grein um fullveldi og peningastefnu birt í nýjustu útgáfu Efnahagsmála

24. júní 2021

Ritið Efnahagsmál nr. 10 með greininni „Fullveldi og peningastefna“ eftir Arnór Sighvatsson hefur verið birt á vef Seðlabanka Íslands. Í greininni er fjallað um peningalegt fullveldi, hvernig hugmyndir um það hafa þróast í gegnum aldirnar og því verið beitt til tekjuöflunar, eflingar viðskipta eða hagstjórnar.

Þá er fjallað um takmörk peningalegs fullveldis, m.a. í ljósi óheftra fjármagnshreyfinga og alþjóðavæðingar viðskiptalífsins, hvernig þróun hagfræðikenninga hefur haft áhrif á skilning stjórnvalda og fræðimanna á hlutverki peningalegs fullveldis, togstreitu sem myndast getur á milli trúverðugleika peningastefnu og þarfar fyrir sveigjanleika í hagsstjórn, valið á milli leiða samtryggingar og sjálfstryggingar og samband fullveldis og athafnafrelsis einstaklinga og fyrirtækja.

Efnahagsmál nr. 10 með umfjöllun Arnórs Sighvatssonar um fullveldi og peningastefnu má nálgast hér: Efnahagsmál nr. 10 – Fullveldi og peningastefna.

Sjá hér nánari upplýsingar um útgefin rit Seðlabanka Íslands: Rit og skýrslur

Halda áfram að lesa

Innlent

Hvað með trukkana?

Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ

Trukkur, samkvæmt orðabók, er stór og kraftmikill vörubíll. Trukkar eru okkur mikilvægir þó flest okkar leiði hugann sjaldnast að þeim. Trukkar eru ekki bara öskubílar, olíubílar og mjólkurbílar heldur flutningabílar sem færa vörur milli staða. Trukkar færa t.d. matinn í verslanirnar, byggingarefnið á byggingastað og fiskinn í útflutning. Sérstakir trukkar flytja túrista en eru þá kallaðir rútur, sem væntanlega á að vísa til dálítils kassa af öli. Í þessu ljósi má t.d. ímynda sér að heiti trukksins, sem er frábær réttur á matseðli Gráa Kattarins, vísi til gagnsemi trukksins enda er hann samansettur úr fjölmörgum hráefnum og fullnægir daglegum þörfum afar vel. Það er sennilega ekki tilviljun að þegar rætt er um að taka eitthvað með trukki er gjarnan skírskotað til þess að gera eitthvað að afli, almennilega, fara alla leið.

Tökum það með trukki

Stjórnvöld hafa sett fram afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í gildandi aðgerðaáætlun er m.a. fjallað um hvernig megi draga úr losun koltvísýrings í samgöngum. Ein af aðgerðunum snýr að því hvernig draga megi úr losun í þungaflutningum innanlands, m.ö.o. hvernig tökum við trukkana með trukki án þess að missa trukkið.

Trukkaland

Hér á landi eru margir trukkar í notkun miðað við höfðatölu eða a.m.k. finnst mér rökrænt að álykta á þennan hátt. Samkvæmt Wikipedíu er Ísland 16. stærsta ríki heims, miðað við höfðatölu. Ef íbúaþéttleiki á Íslandi væri hinn sami og í Mónakó byggju hér tæplega 2 milljarðar Íslendinga. Ef íbúaþéttleiki í Mónakó væri hinn sami og hér á landi byggju þar 8 manns. Ef við gefum okkur að nokkuð margir trukkar séu í notkun í okkar stóra, strjálbýla, veðurbarða og mishæðótta landi, miðað við höfðatölu, má jafnframt álykta sem svo að fjarlægðir manna á milli kalli á töluverðan trukkaakstur.

Réttu trukkarnir

Nýverið keypti ég mér rafmagnsbíl. Kaupin voru ekki sérlega frumleg enda fer hver að verða síðastur að kaupa bensín- eða dísilbíl. Bílinn losar ekki gróðurhúsalofttegundir í akstri og nú kaupi ég eingöngu innlenda orku. Umskiptin voru einföld. Fólksbílar knúnir rafmagni eru vel þróaðir, framleiddir á nokkuð hagkvæman máta og hleðsluinnviðir til staðar, bæði heima hjá mér og víða um landið. En ekki eru allir eins. Hyggist eigandi trukks kaupa nýjan trukk, sem gengur fyrir öðru en dísilolíu, vandast málið. Valkostirnir eru fáir og þeir sem eru þó til staðar kosta svo heiftarlega mikið að kaupin ganga ekki upp. Þá er drægi sumra kostanna enn takmörkuð og flutningagetan óljós. Sé trukki stungið í samband er hætt við að það verði ekki margar innstungur eftir fyrir aðra.

Við þurfum öll á trukkunum að halda. Eigendur trukkanna vilja eiga trukka til að þjónusta okkur. Helst vilja þeir aka trukkunum á innlendri orku. Þar liggur vandinn því slíkir trukkar standa enn vart til boða en eru þó á leiðinni, í framtíðinni og vonandi þeirri nánustu. Að hanna og smíða trukk tekur mörg ár, jafnvel fyrir reyndustu menn, og þegar hann hefur verið smíðaður þarf að prófa hann við ýmsar aðstæður. Þar að auki þarf að koma upp tækjum til að koma orkugjafa á trukkinn, þ.e. hliðstæðu olíudælunnar.

Trukkar í loftslagsvísi atvinnulífsins

Hinn 23. júní var Loftslagsvísir atvinnulífsins gefinn út. Eins og önnur fyrirtæki hafa flutningafyrirtæki verulegan áhuga á að taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Þegar kemur að akstri trukka á lengri leiðum virðist vetnisvæðing helsta lausnin framundan. Nokkrir trukkaframleiðendur eru að prófa sína trukka erlendis en það er enn nokkuð í að hægt verði að kaupa þá. Það er hins vegar ljóst að trukkarnir verða ekki bara dýrir í innkaupum heldur verður það töluvert vesen að fara að nota þá. Til dæmis vantar okkur fjölda vetnisstöðva.

Púslin í nýorkuveruleika trukka eru sannarlega mörg en það er búið að taka lokið af öskjunni. Wasgij-púslið blasir við, menn eru búnir að klóra sér svolítið í hausnum en eru sannfærðir um að þetta muni klárast.

Að lokum skora ég á Gráa köttinn að breyta nafninu á trukknum í vetnistrukkinn, svona til að taka af allan vafa.

Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ

Greinin birtist fyrst á Vísi.is, fimmtudaginn 24. júní 2021.

Halda áfram að lesa

Innlent

Heimsókn fulltrúa Geðhjálpar

Formaður og framkvæmdastjóri Geðhjálpar fóru yfir ýmis hagsmunamál umbjóðenda sinna, einkum hvað snertir réttarstöðu þeirra sem vistaðir eru á lokuðum deildum geðheilbrigðisstofnana, á fundi með umboðsmanni í dag.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin