Veður

Vatnshæð við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum hefur farið lækkandi síðustu daga

Aftur er komið á samband við vefmyndavél sem staðsett er á mælaskúr Veðurstofunnar sem fór á hliðina í krapaflóðinu. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)


Vísbendingar um að krapaþekjan sé að þynnast. Ótakmarkaðri umferð hleypt á brúna.

8.2.2021

Uppfært 08.02. kl. 15.30

Vatnshæð við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum hefur farið lækkandi síðustu daga. Myndir af árfarveginum ofan við brúna sýna að opið rennsli vatns hefur aukist og á radarmyndum eru vísbendingar um að krapaþekjan sé að þynnast. Því er talið að líkur á krapahlaupi líkt og það sem varð 26. janúar hafi farið mjög minnkandi.  Því hefur verið tekin ákvörðun í samráði við Vegagerðina að hleypa ótakmarkaðri umferð yfir brúna við Grímsstaði. Þó eru aðstæður í ánni stöðugt vaktaðar og brugðist við af aðstæður breytast.

Uppfært 05.02. kl. 16.30

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglan á Norðurlandi eystra, Vegagerðin, Veðurstofan og sveitastjóri Skútustaðahrepps funduðu í morgun vegna Jökulsár á fjöllum.

Enn er vatnshæð há í Jökulsá á Fjöllum við brúarstæðið yfir ána, eða um 5 m.  Vatnshæð hefur farið hægt lækkandi frá 1. febrúar en búast má áfram við sveiflum í henni.  Enn er töluverður ís og krapi ofan og neðan við brúna, en frá því í gær hefur opið rennsli um miðjan krapann farið stækkandi, sem er jákvæð þróun. 

Næstu daga verður áfram kalt í verði og því fyllsta ástæða til þess að fylgjast vel með aðstæðum.  Vegagerðin vaktar brúna á opnunartíma, Veðurstofan fylgist með vatnsmælum og sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðar lögregluna á norðurlandi eystra við gagnasöfnun með reglulegu drónaflugi. 

Í ljósi þess að dag lengir og jákvæð teikn eru á lofti hvað varðar krapastífluna hefur verið ákveðið að lengja opnunartíma fyrir umferð.  Vegurinn verður opinn næstu daga á milli 09:00-19:00, en lokaður utan þess tíma. 

Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á mánudaginn 8. febrúar að öllu óbreyttu.

Ljósmynd sem sýnir að Jökulsá á Fjöllum hefur brotið sér farveg í gegnum krapann sem er vísbending um að áin sé að bræða af sér krapann. (Ljósmynd: Lögreglan á Norðurlandi eystra)

Uppfært 03.02. kl. 11.45

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglan á Norðurlandi eystra, Vegagerðin og Veðurstofan funduðu í morgun vegna Jökulsár á Fjöllum. Í gær var veginum um Mývatnsöræfi lokað vegna aukinnar hættu á öðru þrepahlaupi í ánni. 

Sérfræðingar Veðurstofunnar fóru í könnunarflug eftir ánni í gær. Mikill krapi er enn í ánni og heldur ís áfram að safnast upp á meðan kalt er í veðri. Flogið var eftir ánni og farvegurinn kannaður talsvert norðan við brúna og allt suður að Herðubreið. „Það er greinilega mikill krapi ennþá í ánni og nær hann rúma 3 km upp ána frá brúnni. Við sáum þó engar vísbendingar í fluginu í gær um að nýjar stíflur væri að myndast sem gætu framkallað svipað flóð og kom um daginn“, segir Jón Ottó Gunnarsson, sérfræðingur í mælarekstri á Veðurstofunni. „Þessi lækkun á vatnshæð við brúna í gær voru líklega merki um að áin væri að bræða af sér krapa og vatn þannig að finna sér leið undir krapanum. Það er vonandi að veðrið vinni með okkur og áin losni smám saman úr klakaböndum, án þess að það komi til flóðs“, segir Jón Ottó.

Það sem oftast hefur gerst þegar krapastífla myndast á þessum stað er að áin hefur fundið sér farveg og bræðir af sér stífluna jafnt og þétt með hjálp vatnshitans sem getur verið 2 °C og jafnvel meiri ef milt er í veðri. „Við getum í raun ekki útilokað annað flóð og því nauðsynlegt að fylgjast áfram náið með þróun mála“, segir Gunnar Sigurðsson, hópstjóri vatnamælikerfa á Veðurstofunni. Flóðið 26. janúar var í raun mjög sjaldgæfur atburður og ekki hefur orðið slíkur atburður frá því að vatnshæðamælirinn var settur upp árið 1965. Það er því heilmikill lærdómur sem við getum dregið af þessum atburði og eykur skilning okkar á því hvernig áin hagar sér“, segir Gunnar.

Niðurstöður fundarins voru þær að óhætt er að opna veginn aftur með þeim takmörkunum sem áður voru. Vegurinn verður opinn næstu daga á milli 09:00-18:00, en lokaður utan þess tíma.  Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á föstudaginn að öllu óbreyttu.


Úr eftirlitsfluginu í gær. Hér má sjá þann stað í ánni þar sem líklegt er að stífla hafi myndast sem framkallaði hlaupið þann 26. janúar. Talsverður krapi og ís er enn í ánni. Hér að neðan er kort sem sýnir flugleið eftirlitsflugsins. Guli punkturinn táknar þann stað í ánni sem myndin sýnir. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Jón Ottó Gunnarsson)


Uppfært 02.02. kl. 15.30

Vatnshæðamælar við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum sýna að vatnshæð hefur lækkað frá því síðdegis í gær. Sú lækkun getur verið vísbending um að áin sé að bræða krapann ofan af sér og losa þannig hægt og rólega um krapann á yfirborðinu. Vatnshæðin við brúna er ennþá mjög há vegna krapans í ánni, en engu að síður rennur áin undir honum og er vatnsrennsli um 100 m3/s sem er eðlilegt miðað við árstíma. Framvinda þessa atburðar veltur því að miklu leyti á veðurástandi á svæðinu næstu daga, en þar er áfram gert ráð fyrir talsverðu frosti.

Á þessum tímapunkti er þó ekki hægt að útiloka að aðrar krapastíflur séu að myndast sunnar í ánni. Farið verður í eftirlistflug til að kanna betur aðstæður í ánni. Óvissustig er ennþá í gildi og er svæðið er áfram vaktað. Vegurinn er lokaður en gert er ráð fyrir að ákvörðun um vegaopnun verður tekin af lögreglu á Norðurlandi eystra eftir stöðufund viðbragðsaðila í fyrramálið, miðvikudaginn 3. febrúar.


Uppfært 02.02. kl. 12.20

Lögreglan á Norðurlandi Eystra ásamt Vegagerðinni hafa lokað þjóðvegi 1 frá Námaskarði að gatnamótum Vopnafjarðarafleggjara. Hjáleið er um Norðausturströndina, Húsavík, Þórshöfn og Vopnafjörð. Ástæðan fyrir þessari lokun eru vísbendingar eru um að hreyfing sé komin á klakastíflu sunnan við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Verið að er að kanna aðstæður og Veðurstofan fylgist vel með mælitækjum í og við ána. Vatnshæð hefur lækkað við brúna sem bendir til klakastíflu í ánni, eins hefur jarðskjálftamælir nemið óróa sem gefur vísbendingar um hreyfingar á ís í ánni.

Uppfært 01.02. kl. 11.30

Enn er mikill krapi og ís í Jökulsá á Fjöllum og vatnsstaða við brúna á þjóðvegi 1 er enn há. Áfram er spáð miklum kulda og því má áfram búast við svipuðum aðstæðum í ánni næstu daga.  Á meðan ástandið varir, er enn yfirvofandi hætta á að krapastíflur bresti ofar í ánni sem geta valdið hættu eða tjóni á og við brúna.

Að þessum sökum verða áfram takmarkanir á umferð, en vegurinn er opinn á milli 09:00-18:00 og verður vakt á staðnum til þess að fylgjast með ef einhverjar breytingar verða.  Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á miðvikudaginn næstkomandi nema aðstæður breytist verulega. 


Uppfært 31.01. kl. 15.25

Vatnshæðamælir við brúna sýnir lítilsháttar lækkun frá því í gærmorgun þegar vatnshæðin náði hámarki. Einnig hafa verið gerðar handvirkar mælingar á staðnum og ber þeim saman við þá lækkun sem mælar Veðurstofunnar sýna. Áfram er þó fylgst náið með þróun mála. Óvissustig almannavarna enn í gildi.


Uppfært 30.01. kl. 14.10

Mælir við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum sýnir að vatnshæð hefur hækkað rólega frá því kl. 15 í gær. Sjáanleg hækkun er einnig í ánni og er stöðugt verið að meta aðstæður við brúna og á veginum í næsta nágrenni. Reglulegir stöðufundir eru haldnir að leggja frekara mat á aðstæður og þróun mála. Áfram verður lokað fyrir umferð um svæðið á þjóðvegi 1 frá kl. 18:00 – kl. 09:00.


Uppfært 29.01. kl. 20.20

Óbreytt ástand er við Jökulsá á Fjöllum. Áfram verður lokað fyrir umferð um svæðið á þjóðvegi 1 frá kl. 18:00 – kl. 09:00 fram á mánudag. Miðað við veðurspá næstu daga er líklegast að ástand árinnar haldist nokkuð stöðugt. Sérfræðingar Veðurstofunnar gera ráð fyrir að fara í vettvangsferð á sunnudag til að meta aðstæður og huga að mælitækjum. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um næstu skref nema að aðstæður breytist í millitíðinni.

Það er ljóst af þeim gögnum og myndum sem Veðurstofan hefur skoðað af svæðinu að mikið hefur gengið á þegar Jökulsá ruddi sig síðdegis á þriðjudag. Sem dæmi um hversu mikil lætin voru og ef til vill einnig hversu næmir jarðskjálftamælar Veðurstofunnar eru, þá sýnir jarðskjálftamælir sem staðsettur er við Grímsstaði á Fjöllum aukningu í óróa um það leyti sem krapahlaupið varð. Mælirinn er staðsettur í um 3,5 km frá brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum. Ekki er þó hægt að staðsetja upptök þessa óróa út frá þessum eina mæli, né að staðfesta að óróinn sem hann nemur sé vegna hlaupsins í ánni. Engu að síður áhugavert og eitthvað sem sérfræðingar Veðurstofunnar muni skoða nánar og meta hvernig þessar upplýsingar mögulega nýtist til að greina þennan atburð betur.

IMG_4226

Óróinn sem jarðskjálftamælirinn við Grímsstaði nam sést hér neðst í þessu grafi. Greinilegur órói sést á grafinu um það leyti sem vatnshæðamælar hafa skráð tímasetningu krapahlaupsins í Jökulsá á Fjöllum sem var milli 15.20 og 15.30.

Uppfært 28.01. kl. 15.39

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, hefur ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna krapastíflu og flóðahættu í Jökulsá á Fjöllum, á milli Mývatnssveitar og Egilsstaða.

Sérfræðingar Veðurstofunnar vakta ástandið náið og eru aðstæður metnar þannig að ekki er hægt að útiloka að frekari flóð verði í ánni sem geti skapað hættu á svæðinu næst brúnni. Vatnshæð getur aukist við brúna á mjög skömmum tíma og skapað varasamar aðstæður fyrir vegfarendur. Verið er að rýna í fleiri göng m.a. gervihnattamyndir til að meta ástandið í farvegi árinnar ofan við brúna til að sjá hvort stíflur séu að myndast og þá um leið meta líkurnar á frekari flóðum. Eins er verið að kanna hvaða möguleikar eru á uppsetningu mælibúnaðar ofar í ánni svo hægt sé að segja til um hlaup með lengri fyrirvara.

Lokað verður fyrir umferð um svæðið á þjóðvegi 1 frá kl. 18:00 – kl. 09:00 næstu fjóra daga. Umferð um veginn verður stýrt þess utan.

Uppfært 28.01. kl. 11.00

Veðurstofan fylgist grannt með Jökulsá á Fjöllum eftir að áin ruddi sig með látum um miðjan dag á þriðjudag. Vatnsborðið hækkaði um 180 cm á einni mínútu þegar mest var. Veginum var lokað síðdegis sama dag vegna krapa sem ruddist upp og yfir veginn við brúna. Engar skemmdir urðu á brúnni og ekki er vitað til þess að vegurinn sé skemmdur. Umferð var hleypt á veginn undir eftirliti tímabundið í gær, miðvikudag, en var svo lokað kl. 18 í varúðarskyni þar sem ekki var hægt að fylgjast með ánni vegna myrkurs.

Áin hefur ekki rutt sig með þessum hætti svo vitað sé

Það er ljóst að mikið hefur gengið á við brúna. Skúr sem í eru mælitæki Veðurstofunnar virðist hafa lyfst upp og dregist til við bakka árinnar. Liggur hann nú svo til á hliðinni en vatnshæðargögn eru enn sem komið er að berast frá mælistöðinni. „Það sem líklega hefur átt sér stað er að áin hefur rutt sig þegar uppsafnað vatn ofar í farveginum hleypur fram“ segir Jón Ottó Gunnarsson, sérfræðingur í mælarekstri á Veðurstofu Íslands, en hann er einn af þeim sérfræðingum sem fylgst hefur grannt með gangi mála frá því í gær. Vatnhæðamælir Veðurstofunnar nemur flóðatoppinn um kl. 15.20 til 15.30 í gær. Eins og sjá má í grafinu hér að neðan hækkaði vatnsborðið um 180 cm á aðeins einni mínútu en heildarhækkun í atburðinum var 250 cm.

Mælitæki Veðurstofunnar sýna að hlaupið hafi orðið í kringum 15.20 og 15.30 á þriðjudag. Hækkaði vatnsborðið um 180 cm á aðeins einni mínútu en heildarhækkun í atburðinum var 250 cm.

„Hér er um svokallað þrepahlaup að ræða, en slík hlaup geta orðið við vissar aðstæður í ánni“, segir Jón Ottó. Þrepahlaup er þegar ísstíflur bresta hver af annarri og flóðöldur magnast oft þrep af þrepi. „Það að ís hrannist upp á þessum stað er ekki óþekkt í Jökulsá á Fjöllum, en hingað til hefur áin ekki rutt sig með þessum hætti svo vitað sé. Það er mjög mikilvægt að fylgjast grannt með ánni því það geta skapast mjög varasamar aðstæður, eins og til dæmis við þessi þrepahlaup og vatnshæð getur þá aukist við brúna á mjög skömmum tíma“, segir Jón Ottó. Sérfræðingar Veðurstofunnar stefna á að fara á vettvang á næstu dögum og meta aðstæður, en sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist grannt með gangi mála í góðri samvinnu við Vegagerðina og lögregluna á Norðurlandi eystra. 

Krapi er yfir ánni eins langt og augað eygir. Skúr Veðurstofunnar sem hýsir vatnamælingabúnað er nánast á hliðinni en merkilegt nokk sendir vatnshæðamælir ennþá merki til vaktar Veðurstofunnar. Ljósmynd: Lögreglan á Norðurlandi Eystra 

Stórar krapastíflur hafa áður myndast á sömu slóðum 

Krapastíflur í Jökulsá á Fjöllum myndast þegar mjög kalt er í veðri og skafrenningur. Vatnshiti lækkar þá hratt niður að frostmarki. Mikill krapaburður verður í ánni og við stefnubreytingu eða hindranir hrannast krapinn upp og byrjar að frjósa saman. 

Ofarlega á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum rennur lindarvatn í ána, og finnur það sér oftast farveg undir ísnum og getur runnið þar óhindrað. Neðar geta myndast miklar ísrendur eða skarir. Ef rennsli eykst skyndilega, hvort sem er þegar losar um stíflu eins og nú, eða vegna snarprar hlýnunar í veðri og hláku, getur áin rutt sig með miklum látum.  Þá lyftir vatnið undir ísinn, brýtur hann upp og hann flýtur af stað. Stundum brotna upp stórir flekar. Flekarnir berast svo niður ána, stranda á hindrun eða grynningum. Síðan berst krapi og fleiri jakar að þeim sem eru þegar strandaðir og þannig byrjar ís að hrannast upp. Það sem oftast hefur gerst þegar krapastífla myndast á þessum stað er að áin hefur fundið sér farveg og bræðir af sér stífluna jafnt og þétt með hjálp vatnshitans sem getur verið 2 °C og jafnvel meiri ef milt er í veðri.

Þann 20. janúar 2015 byrjaði ís að hrannast upp við brúna við Grímsstaði. Íshellan sem þá lá yfir ánni og bökkunum brotnaði upp og hrannir, og ísruðningur safnaðist fyrir. Það var þá stærsta krapastífla í ánni síðan í desember 2010 og þakti nokkra kílómetra farvegarins. Ekki hefur tekist að meta umfang stíflunnar nú sökum lélegs skyggnis, en sérfræðingar Veðurstofunnar vonast til að geta lagt mat á það þegar þeir komast á staðinn.

Veður

Hversu lengi varir gosið við Fagradalsfjall?

Átta strókar sjást við gosstöðvarnar þegar þessi mynd er tekin. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson).


20.4.2021

Spá veðurvaktar um gasdreifingu

Sjálfvirk spá fyrir Fagradalsfjall og veðurathuganir

Sjá einnig færslur á Facebook og Twitter síðum Veðurstofunnar

Uppfært 20.04. kl. 15:15

Þegar um þrjátíu dagar eru liðnir frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall er eðlilegt að spyrja sig hvort hægt sé að segja til um hversu lengi eldgosið muni standa. Nýjar sprunguopnanir hafa myndast nokkrum sinnum frá því að gos hófst og nú hefur til að mynda engin kvika komið upp úr nyrsta gígnum á gosstöðvunum síðustu tvo sólarhringa eða svo.

„Það er ekki augljóst hvað það táknar varðandi framgang gossins“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofunni. „Frá því að gosið hófst fyrir um þrjátíu dögum hefur það verið síbreytilegt. Nú er engin kvika að streyma upp úr fyrsta gígnum sem opnaðist utan Geldingadala, það til dæmis endurspeglar þennan síbreytileika og ekki víst að gígurinn sé alveg sofnaður“, segir Sara. „Því er ekkert hægt að fullyrða um að það séu fyrstu merki þess að gosið sé að dvína. Þvert á móti þá sýnir nýjasta samantekt samstarfsfélaga okkar í Háskólanum að hraunflæði hefur ekki minnkað og hefur jafnvel aukist síðustu daga“, segir Sara að lokum.

Nordur_Gigur_

Loftmynd af nyrsta gígnum við gosstöðvarnar tekin sunnudaginn 18. apríl. Af myndinni að dæmi virðist engin virkni vera í gígnum. (Ljósmynd: Náttúrufræðistofnun Íslands).

Hægt að áætla mátt gossins út frá upplýsingum frá gervihnöttum

Til að meta mátt gossins er einnig hægt að notast við upplýsingar úr gervitunglum sem greina hitageislun á yfirborði jarðar. Slíkar mælingar má til dæmis sjá á vefsíðu MIROVAverkefnisins (Middle InfraRed Observation of Volcanic Activity) sem greinir og birtir nánast í rauntíma upplýsingar um frávik í hitageislun á yfirborði jarðar

ThermalAnomaly_Krisuvik_20042021

Yfirlit af vefsíðu MIROVA sem sýnir hitafrávik yfir gosstöðvunum. (Mynd: MIROVA)

30days

Skemmtileg samantekt sem sýnir hvernig hraunbreiðan frá gosstöðvunum hefur þróast. Útlínur hraunbreiðunnar eru byggðar á mælingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og úrvinnslu frá Landmælingum Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.


Uppfært 19.04. kl. 12:10

Í dag eru um 30 dagar frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall. Í samantekt frá Jarðvísindastofnun Háskólans segir að meðalhraunrennslið fyrstu 30 dagana er 5,6 m3/s. Í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. Mælingarnar á hrauninu sýna nú að nokkur aukning hefur orðið síðustu 1-2 vikur. Meðalrennslið fyrstu 17 dagana var 4,5-5 m3/s, en síðustu 13 daga er það nálægt 7 m3/s.

Samanburður við önnur gos sýnir að þrátt fyrir aukninguna er rennslið nú aðeins um helmingur þess sem kom að meðaltali upp fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Samanburður við Holuhraun sýnir að rennslið nú er 6-7% af meðalhraunrennsli þá sex mánuði sem það gos stóð. Rennslið er svipað og var lengst af í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.

Afl gossins hefur aukist samhliða opnun fleiri gíga

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit sem Jarðvísindastofnun Háskólans gaf út í morgun á mælingum á hraunflæði gossins. Niðurstöðurnar eru að heildarrennsli frá öllum gígum á sex daga tímabili, 12.-18. apríl hafi að meðalatali verið tæpir 8 m3/s. Þetta er nokkur aukning frá meðalrennslinu í gosinu og staðfesting á því að samhliða opnun fleiri gíga í síðustu viku hefur afl gossins aukist nokkuð, Flatarmál hrauns er orðið 0,9 km2 og heildarrúmmál er nú rúmlega 14 milljónir rúmmetrar.

Hraunflaedi_19042021

Gröfin hér að ofan sýna meðal annars þróun á flatarmáli og rúmmáli hrauns og hraunflæði. Sjá má að þróun á flatarmáli hraunsins er ekki jafn „línuleg“ og þróun rúmmálsins, en það er vegna þess að til að byrja með óx hraunbreiðan á þykktina innan Geldingadala frekar en að dreifa úr sér. Vinna við úrvinnslu gagna varðandi jarðefnafræði og gas stendur yfir og verða línuritin uppfærð um leið og henni er lokið

Þrívíddarlíkan af gosstöðvunum

Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er starfrækt loftljósmyndastofa þar sem unnið er að jarðfræðikortlagningu með myndmælingatækni, þar sem teknar eru ljósmyndir úr lofti og myndirnar notaðar við gerð þrívíddarlíkana. Þessi aðferð hefur nýst vel við kortlagningu á gossvæðinu í við Fagradalsfjall en með þrívíddarlíkönunum má áætla rúmmál og þykkt hraunsins, hraunrennsli og margt fleira. Hægt er að skoða þrívíddarlíkanið með því að smella á myndina hér að neðan.

Skjamynd-2021-04-19-114118

Uppfært 17.04. kl. 18:15

Upp úr klukkan þrjú í dag var staðfest að ný sprunguopnun hafi myndast við gosstöðvarnar. Um litla opnun er að ræða sem staðsett er inn á hraunbreiðu og þétt upp við annan gíg á svæðinu. Ekki er líklegt að þessi nýja opnun breyti miklu um framgang gossins.

Á fundi vísindaráðs fyrr í vikunni var talsvert rætt um möguleikan á að greina fyrirvara um nýjar sprunguopnanir. Um klukkan 13:20 í dag tóku náttúruvársérfræðingar á vakt Veðurstofunnar eftir lækkun í styrk á óróamælum næst gosstöðvunum. Staðfest hefur verið að styrkur í óróa hefur fallið í um klukkustund, eða lengur, áður en nýjar gossprungur opnast við Fagradalsfjall. Eftir að vakt Veðurstofunnar varð vör við lækkun í óróastyrk var tilkynning send á almannavarnir og björgunarsveitarmenn sendar á staðinn til þess að fylgjast vel með hvort breytingar yrði á gosvirkni eða nýjar sprungur væru að opnast. Stuttu síðar kom tilkynning frá vettvangi að ný opnun hafi myndast.

MicrosoftTeams-image--16-

Nýja opnunin sést hér fyrir miðri mynd og er staðsett þétt við gíg sem áður hafði myndast. (Ljósmynd: Almannavarnir)

Eins og rætt var á fundi vísindaráðs síðasta fimmtudag er fylgni milli þess að styrkur óróa falli og að nýtt gosop myndast. Hinsvegar eru einnig nokkur dæmi um að styrkur á óróamælum minnki án þess að ný gosop myndist. Eins er ekki hægt að greina mögulega staðsetningu á nýjum opnunum út frá óróamælingunum. Hér er hægt er að lesa stutta fróðleiksgrein um greiningu á styrk óróa og möguleg tengsl við myndun nýrra sprunguopnanna við Fagradalsfjall.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun halda áfram að vakta svæðið og fylgjast sérstaklega vel með breytingum á óróa sem gefur vísbendingar um að ný gosop gætu myndast við Fagradalsfjall.


Uppfært 15.04. kl. 16:30

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi í dag. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun, framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þá mengun sem fylgir eldgosinu.

Áfram er mesta skjálftavirkni á Reykjanesskaga norðarlega í kvikuganginum, við Litlahrút og að Keili.  Lítil aflögun mælist á þessu svæði bæði á GPS tækjum og í gervitunglagögnum.

Síðustu vikuna hafa opnast nýir gígar á sprungunni á milli Geldingadala og þess gígs sem opnaðist annan í páskum.  Þetta hefur haft áhrif á hvert hraun rennur og bunkast nú upp hraun í SA hluta Geldingadala og má búast við að það renni úr skarðinu sem þar er á næstunni.  Rætt var um hvort hægt væri að sjá fyrir þegar nýjar opnanir verða á sprungunni innan eldgosasvæðisins, en merkin eru afar lítil og erfitt að mæla þau með þeim hætti að hægt verði að vara fyrir með mikilli vissu og fyrirvara.

Hraunflæði hefur verið nokkuð stöðugt frá upphafi goss, þó hægt sé að greina litlar sveiflur inn á milli.  Ekkert bendir til þess að það sjái fyrir endan á gosinu.  Gosmengun er mest gosstöðvarnar og dvínar hratt með aukinni fjarlægð frá þeim.

Uppfært 15.04. kl.0:30

Frá því að ný gossop mynduðust á þriðjudaginn er hægt að tala um að kvika komi nú upp á 8 stöðum við Fagradalsfjall. Hraun hefur runnið frá nýjustu opnunum yfir nýja gönguslóðann – gönguleið A – það gerðist síðdegis í gær. Ekki eru komnar nýjar mælingar á heildar hraunrennsli frá gosstöðvunum en samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar sem gerðar voru áður en nýju opin mynduðust hafði hraunrennsli haldist nokkuð jafnt síðustu fjóra sólarhringa, eða um tæpir fimm rúmmetrar á sekúndu að meðaltali. Vísindaráð almannavarna mun funda í dag til að fara yfir nýjustu gögn og mælingar.

Lokað er við gosstöðvarnar í dag. Talsverð mengun var við gosstöðvarnar í gær og allnokkur verkefni hjá viðbragðsaðilum þeim tengdum. Við minnum á að hægt hér er að nálgast nýjustu gasmengunarspána og hægt er að fylgjast með loftgæðum á vefsíðu Umhverfisstofnunar, loftgaedi.is

Myndir teknar með um tveggja klukkustunda millibili. Á seinni myndinni er hraunbreiðan komin yfir nýja gönguslóðan. Ef miðað er við slóðann fyrir miðri mynd sést framrás hraunjaðarins vel. (Ljósmyndir: Almannavarnir/Björn Oddsson).

Ljósmynd tekin síðdegis á þriðjudaginn eftir að nýjustu opin mynduðust. Þarna má telja átta stróka. (Ljósmyndi: Almannavarnir/Björn Oddsson).


Uppfært 10.04. kl. 9:15

Um eða upp úr klukkan þrjú í nótt varð sólarhringsvakt Veðurstofunnar þess vör að líklega hefði enn önnur opnunin myndast við gosstöðvarnar. Við birtingu varð það ljóst á vefmyndavélum að fjórða opnunin er miðja vegu milli þeirra sem opnuðust á hádegi þann 5. apríl og á miðnætti aðfaranótt 7. apríl.

Við sjónrænt mat af vefmyndavélum virðist megin hrauntaumurinn sameinast því hraunflæði er rennur í Geldingadali úr norðri.

Við bendum á nýjustu gasmengunarspána og veðurspá fyrirgosstöðvarnar .

Eins bendum við á nýtt kort af gosstöðvunum sem er í færslunni hér að neðan, þar sem hættusvæði við Fagradalsfjall er skýrt afmarkað.

Screenshot-from-2021-04-10-05-49-39

Skjáskot af vefmyndavél á MBL tekin í birtingu í morgun.

Uppfært 09.04. kl. 20.30

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi til að ræða framgang gossins við Fagradalsfjall. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og mengun sem fylgir eldgosinu. 

Á fundinum voru einnig ræddar þær hættur sem snúa að fólki sem sækir gosstöðvarnar heim og hvaða svæði væru hættulegust með tilliti til hraunflæðis, gasmengunar og mögulegrar opnunar á nýjum sprungum.

Nýjar sprungur geta opnast án fyrirvara

Á fundinum var farið yfir GPS mælingar og gervitunglamyndir til að meta breytingar sem hafa orðið á svæðinu eftir að nýjar sprungur opnuðust. Merki um breytingar komu fram við nýjar gossprungur sem opnuðust annan í páskum og aðfaranótt þriðjudags.  Breytingarnar eru hinsvegar mjög litlar og fyrirboðar áður en sprungurnar opnast ekki greinanlegir.  Vísbendingar eru um að á svæðinu frá sunnanverðum Geldingadölum og norðaustur fyrir gossprungurnar liggi kvika grunnt og ekki hægt að útiloka að fleiri gossprungur geti opnast á næstu dögum eða vikum. Opnun nýrrar gossprungu án sjáanlegra fyrirvara gæti valdið bráðri hættu fyrir fólk.  Svæðið sem þessi hætta nær til er talið vera þar sem kvikan náði næst yfirborði eða frá suðvestur hluta Geldingadala og í norðaustur að Litla-Hrúti.

MicrosoftTeams-image--8-

Kortið afmarkar það svæði þar sem fólk getur verið í bráðri hættu vegna skyndilegra atburða sem geta orðið á gosstöðvum. Innan hættusvæðisins er allra mesta hættan á opnun fleiri gossprungna án fyrirvara og því getur fylgt skyndilegt og hratt hraunflæði sem erfitt er að forðast. Utan þessa svæðis eru einnig aðrar hættur sem fylgja framrás hrauns og uppsöfnunar gass. Á kortinu má sjá drög að nýrri gönguleið austan við hættusvæðið.

Brattar og háar brúnir á hraunbreiðunum við gosstöðvarnar geta verið óstöðugar. Stór glóandi hraunstykki geta hrunið úr þeim án fyrirvara sem getur skapað mikla hættu. Eins getur kvika skotist út undan hraunbrúninni og sú kvika getur ferðast mjög hratt.

Mesta skjálftavirknin síðustu tvær vikur er norðarlega í kvikuganginum og nær að Keili. Rétt sunnan við Keili, við Litla-Hrút, mælast grunnir skjálftar og er fylgst vel með þeirri virkni. Grunnir skjálftar geta verið vísbending um að kvika sé að leita til yfirborðs. Ekki er því hægt að útiloka að kvika nái til yfirborðs norðar yfir í kvikuganginum sem nær að Keili. 

Líkur á því að með auknu hraunrennsli aukist gasmengun

Bráðabirgðamælingar benda til þess að hraunflæði hafi frekar aukist við opnun síðustu gossprungna, en nákvæmari mælinga er að vænta í dag. Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður í Meradali og Geldingadali. 

Við opnun á fleiri sprungum og auknu hraunflæði má leiða líkur að því að magn gass frá gosstöðvunum hafi aukist miðað við það sem var þegar einungis gaus í Geldingadölum. Mesta afgösunin kemur frá gígunum en mun minna frá hraunrennslinu sjálfu, en talað er um afgösun þegar gas sem veldur mengun losnar úr kvikunni út í andrúmsloftið. 

Mikil mengun mælist í kringum gosstöðvarnar, en utan hennar dvínar hún hratt.  Veðurstofan hefur sett upp tvo gasmæla, annan við gönguleið A og hinn í Meradölum til að fá skýrari mynd af gasmenguninni næst gosstöðvunum.

Uppfært 07.04. kl. 18.15

Á myndum sem voru teknar í könnunarflugi nú síðdegis má sjá að hraunbreiðurnar úr gosopunum þremur ná nú saman. Hraun frá þriðja gosstaðnum sem opnaðist á miðnætti hefur runnið bæði til suðurs niður í Geldingadali og í norðaustur í áttina að gosopinu ofan við Meradali. Samfeld hraunbreiða er því á milli gosstaðanna þriggja sem í raun tilheyra einni og sömu gossprungunni yfir kvikuganginum við Fagradalsfjall.

BO1_07042021

Samfelld hraunbreiða er nú á milli gosstaðanna þriggja við Fagradalsfjall. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Lava_078042021_2

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu gosstaðanna þriggja með rauðu og hraunflæði úr þeim eins og staðan er síðdegis í dag. Ekki er búið að kortleggja hraunflæðið úr nýjasta gosopinu sem opnaðist á miðnætti nákvæmlega. Útlínur þess hrauns eru innan skástrikaða svæðisins og unnið út frá ljósmyndum.


Uppfært 07.04. kl. 8:45

Hraunflæðið úr nýjustu gosrásinni virðist að mestu renna niður í Geldingadali. Þessi þriðja gosrás opnaðist á miðnætti og er á milli gosstaðanna tveggja sem fyrir voru. Björgunarsveitir höfðu séð jarðsig á svæðinu í gær um 420 metrum norðaustan við upptakasvæðið í Geldingadölum sem var um 150m að lengd og um 1 metri að dýpt. Það er þar sem nýjasta gosrásin er staðsett.

Uppfært 06.04. kl. 17:50

Hraun heldur áfram að renna úr nýju sprungunum til austurs og niður í Meradali og er hraunflæði talið vera um 7 rúmmetrar/sekúndu. Til samanburðar er hraunflæði úr gígunum í Geldingadölum talið vera um. 5,5 rúmmetra/sekúndu.

New_sprungur_05042021_3--005-

Nýju gossprungurnar sem mynduðust í gær, um kl 12 á hádegi, eru um 700 m norðaustan við gosstöðvarnar, á Fagradalsfjallsheiðinni norðan við Geldingadali. Sprungurnar eru í heild um 200 m langar og eru í sömu stefnu og sprungur á fyrri gosstöðvum. Rauða línan táknar sprunguna sem opnaðist 19. mars.

BO1

Hraunið frá nýju sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Meradali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar eins og þessi mynd sýnir sem tekin var um klukkan 15 í dag. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 05.04. kl. 14:50

Myndir frá nýjum gossprungum í nágrenni gosstöðvanna í Geldingadölum sýna að um er að ræða tvær gossprungur og er miðja þeirra staðsettar um 700 metra norðaustan við eldgígana í Geldingadölum. Sprungurnar eru samtals um 100 – 200 metra langar. Hraunið frá sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Meradali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar.

Ný gossprunga

Yfirlitsmynd sem sýnir nýjar gossprungur ausutur af eldgígunum í Geldingadölum, hrauná sem rennur úr nýju sprungunum og hraun sem er að myndast í Meradölum (til hægri á myndinni.

MicrosoftTeams-image--2-

Hraunið er þunnfljótandi og rennur eftir gili í Meradali.

Ný gossprunga

MicrosoftTeams-image--7-

Ljósmyndirnar tók Björn Oddsson hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Uppfært 05.04. kl. 13.20

Ný gossprunga opnaðst um klukkan 12 í dag í grennd við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Fyrsta mat er að sprungan sé sennilega um 200 metra löng og er miðja hennar staðsett um kílómetra norðaustur af gosstöðvunum í Geldingadölum. Hraunið frá nýju sprungunni rennur niður í Meradali.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nú við gosstöðvarnar til að rýma svæðið. Flugvél með vísindamönnum er á leiðinni og munu þeir meta nánar staðsetningu og stærð nýju gossprungunnar.

Flugkóði fyrir Keflavíkurflugvöll er áfram appelsínugulur þar sem um er að ræða hraungos með lítilli sem engri öskudreifingu og er því ekki talin hætta af gosinu fyrir flugumferð.

Nýja gossprungan er vel sýnileg í gegn um vefmyndavél RÚV sem fylgjast má með á RÚV 2

Halda áfram að lesa

Veður

Áhrif loftslagsbreytinga þegar of dýru verði keyptar


Alþjóðaveðurfræðistofnunin kynnti í dag nýja skýrslu um ástand loftslags jarðar

19.4.2021

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) gaf út í dag skýrslu sem lýsir ástandi loftslags jarðar – „State of the Global Climate“. Skýrslan er samantekt unnin af fjölmörgum stofnunum og vísindamönnum og lýsir ástandi loftslags jarðar sem og afleiðingum loftslagsbreytinga.

“Loftslag jarðar er að breytast og áhrif breytinganna eru þegar of dýru verði keyptar, bæði gagnvart íbúum og náttúrunni. Við þessu þarf að bregðast og það strax í ár“, sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, þegar skýrslan var kynnt í New York í dag.

Samkvæmt skýrslunni þurftu milljónir jarðarbúa að takast á við öfgar í veðri á síðasta ári vegna loftslagsbreytinga samhliða baráttunni við kórónuveiruna. Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi hægt á hagkerfum heims virðist faraldurinn ekki hafa hægt á loftslagsbreytingum.

Síðustu sex ár þau heitustu á jörðinni frá upphafi mælinga

Árið 2020 var eitt heitasta ár á jörðinni frá upphafi mælinga. Hitamet var slegið þegar hitinn fór í 38.0 °C í Verkhoyansk í Rússlandi 20. júní, sem er hæsta hitastig sem mælst hefur norðan heimskautsbaugs. Árið 2020 fór nærri því að jafna met ársins 2016 og reyndar er munurinn á þessum tveimur árum innan óvissumarka í hnattrænum samantektum (mynd 1). Árið 2016 var ákaflega öflugur El Nino atburður í gangi í Kyrrahafi, en slíkir atburðir hækka hnattrænan hita iðulega. Árið 2020 var engu slíku til að dreifa, heldur var Kyrrahafið óvenju kalt, en slíkt gerist samfara La Nina atburðum.

Síðustu sex ár eru heitustu ár frá upphafi mælinga og síðasti áratugur einnig sá heitasti.

“Árið 2020 var óvenju heitt og það þrátt fyrir kælandi áhrif frá La Nino atburðinum” sagði prófessor Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. “Það er merkilegt að hiti ársins 2020 var sambærilegur við hita ársins 2016 þegar einn öflugasti El Nino sögunnar átti sér stað. Þetta sýnir að merkjanleg áhrif mannkyns eru nú jafnstór kröftum náttúrunnar”.

Mynd1

Mynd 1: Myndin sýnir hnattrænar hitabreytingar  síðustu 140 árin. Punktarnir sýna meðaltal hvers árs, en strikin tákna óvissumörk. Litlu munar á árunum 2016, 2019 og 2020 og því geta smávægilegar breytingar í mati á hita breytt röðinni hvaða ár er í fyrsta eða öðru sæti. Sýnd er samantektin frá Berkeley háskóla , en samantektir frá  öðrum stofnunum sýna mjög álíka niðurstöður.

Stöðugar og áframhaldandi loftslagsbreytingar

Allir mælikvarðar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra sem sýndir eru í þessari skýrslu sýna stöðugar og áframhaldandi loftslagsbreytingar, aukingu í aftakaveðrum með eyðileggingu og tjóni fyrir einstaklinga og samfélög.

„Þessi neikvæða þróun mun halda áfram árum saman óháð því hvort okkur tekst að hemja losun gróðurhúsalofttegunda“, segir prófessor Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. „Þess vegna er mikilvægt að fjárfesta í aðlögun. Fjárfesting í kerfum til að vakta og fylgjast með þróun veðurs og vara við aftakaveðrum er mikilvæg leið til að aðlagast. Hjá sumum minna þróuðum ríkjum er gap í athugunarkerfum og brotalamir í veður-, vatns- og loftslagsþjónustu“, segir Petteri.

Halda áfram að lesa

Veður

Ný gossprunga skammt frá gosstöðvum í Geldingadölum

Ný gossprunga

Ljósmynd/Almannavarnir


5.4.2021

Uppfært 05.04. kl. 14:50

Myndir frá nýjum gossprungum í nágrenni gosstöðvanna í Geldingadölum sýna að um er að ræða tvær gossprungur og er miðja þeirra er staðsett um 700 metra norðaustan við eldgígana í Geldingadölum. Sprungurnar eru samtals um 100 – 200 metra langar. Hraunið frá sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Merardali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar. 

Uppfært 05.04. kl. 13.20

Ný gossprunga opnaðst um klukkan 12 í dag í grennd við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Fyrsta mat er að sprungan sé sennilega um 200 metra löng og er miðja hennar staðsett um kílómetra norðaustur af gosstöðvunum í Geldingadölum. Hraunið frá nýju sprungunni rennur niður í Merardali.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nú við gosstöðvarnar til að rýma svæðið. Flugvél með vísindamönnum er á leiðinni og munu þeir meta nánar staðsetningu og stærð nýju gossprungunnar.

Flugkóði fyrir Keflavíkurflugvöll er áfram appelsínugulur þar sem um er að ræða hraungos með lítilli sem engri öskudreifingu og er því ekki talin hætta af gosinu fyrir flugumferð.

Nýja gossprungan er vel sýnileg í gegn um vefmyndavél RÚV sem fylgjast má með á RÚV 2

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin