Innlent

Vegna umfjöllunar um úthlutun tollkvóta

Í tilefni af umfjöllun um erindi Félags atvinnurekenda til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um nýlegan dóm Landsréttar um úthlutun tollkvóta vill ráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.

Föstudaginn 19. mars sl. féll dómur í Landsrétti í máli nr. 739/2019 er varðar fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta. Í málinu krafðist stefnandi endurgreiðslu á fjárhæðum sem hann hafði innt af hendi fyrir tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðaravörum árið 2018. Íslenska ríkið hafði áður verið sýknað í héraðsdómi Reykjavíkur þann 1. nóvember 2019. Í dómi Landsréttar kemur fram að ráðherra hefði á því tímabili sem málið tók til haft heimildir í 3. mgr. 65. gr. búvörulaga til að setja ákvæði í reglugerð um það hvernig velja skyldi á milli þeirra sem gerðu tilboð í tollkvóta og við hvaða boð, eða aðra fjárhæð, skyldi miða hið álagða gjald. Taldi dómurinn að 3. mgr. 65. gr. búvörulaga, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, samrýmdist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar og féllst því á endurgreiðslukröfu stefnanda vegna oftekinna gjalda fyrir tollkvóta.

Haustið 2019 lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til breytinga á búvörulögum og tollalögum. Í frumvarpinu, sem Alþingi samþykkti 17. desember 2019, var m.a. gerð breyting á 3. mgr. 65. búvörulaga þannig að kveðið var með mun skýrari hætti á um það hvernig sú fjárhæð sem tilboðsgjafar þurfa að inna af hendi vegna tollkvóta er ákveðin. Þá kemur fram í tímabundnu bráðabirgðaákvæði því sem tók gildi sl. desember að verð tollkvóta ráðist af fjárhæð tilboða hverju sinni. Kvótanum verði fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess er næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hafi verið úthlutað.

Í ljósi framangreinds er það mat ráðuneytisins að nú sé kveðið á um það með skýrum hætti í lögunum hvernig útboði skuli háttað og ákvæðið sé eftir breytingarnar 2019 í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ekki sé því þörf á lagabreytingum til að bregðast við dómi Landsréttar. Í dómi Landsréttar er raunar sérstaklega vísað til framangreindra lagabreytinga og þess að eftir breytingarnar sé með skýrum hætti kveðið á um skattskyldu þeirra sem fá úthlutað tollkvóta, en í dómi Landsréttar segir:

„Eftir  þær  breytingar  á  ákvæði  3.  mgr.  65.  gr.  búvörulaga, [ …]  er  með  skýrum  hætti  kveðið  á  um  skattskyldu  þeirra  sem  fá  úthlutað tollkvóta, auk þess sem úthlutaður tollkvóti er þar skilgreindur sem skattstofn. Er atvik máls þessa áttu sér stað var aftur á móti enn aðeins kveðið á um það í 3. og 5. mgr. 65.  gr.  laganna  að  tollkvótar  skyldu  boðnir  út  og  að  ráðherra  setti  nánari  reglur  um úthlutunina í reglugerð.“

Varðandi framhald málsins vísar ráðuneytið til þess að það er ríkislögmanns að taka ákvörðun um hvort óskað verði eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin