Veður

Vel fylgst með skjálftahrinunni við Keili

Keilir-20210930-45x25-cm-IS-100-v2

Hraunflæðilíkan sem sýnir mögulegt hraunflæði ef til eldgoss kæmi suður af Keili. Sjá nánar í myndtexta í fréttinni hér að neðan.


Unnið að uppsetningu mælitækja við Öskju. Vísindaráð almannavarna fundaði um stöðuna

1.10.2021

Vísindaráð almannavarna hittist í gær á reglulegum fundi til að ræða virknina á Reykjanesskaga og við Öskju.

Hrinan við Keili heldur áfram

Skjálftahrina hófst 27. september SV af Keili. Skjálftarnir í hrinunni eru staðsettir í norðurenda kvikugangsins sem myndaðist fyrr á árinu leiddi til eldgoss við Fagradalsfjall. Í dag hafa um 2.000 skjálftar mælst í hrinunni það sem af er, 6 af þeim hafa verið yfir 3 að stærð. Enginn gosórói mælist, en skjálftavirknin í þessari hrinu er áþekk því sem sást við Fagradalsfjall í aðdraganda eldgossins þar. Á þessu stigi er hinsvegar ekki hægt að útiloka að skjálftarnir getir verið vegna spennubreytinga á svæðinu, en ekki vegna kvikuhreyfinga.

Nýjustu mælingar á jarðskorpuhreyfingum sýna engin skýr merki um að kvika sé við það að brjóta sér leið til yfirborðs á slóðum skjálftahrinunnar. Það útilokar hinsvegar ekki að kvika sé á hreyfingu á miklu dýpi sem ekki sæist í mæligögnum og því nauðsynlegt að fylgjast enn frekar með þróun virkninnar við Keili.

„Við þurfum í raun að fá meiri gögn“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. „Von er á nýjum gervitunglamyndum í næstu viku sem vonandi varpa skýrara ljósi á þróun mála við Keili og hvort að kvika er þarna á ferðinni nálægt yfirborði“, segir Sara.

Keilir-20210930-45x25-cm-IS-100-v2

Hraunflæðilíkan sem sýnir mögulegt hraunflæði ef til eldgoss kæmi suður af Keili. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri) Í líkaninu er gert ráð fyrir gosi á um 1.5km langri sprungu sem liggur N-S og er á svæðinu þar sem skjálftahrinan á upptök. Til að skoða möguleg áhrif frá eldgosi á þessum slóðum er gert ráð fyrir 10-falt meira hraunflæði (100m3/s) en mælst hefur að meðaltali í eldgosinu við Fagradalsfjall. Líkanið sýnir hvert hrauntungan myndi ná eftir ákveðinn dagafjöld, frá 1 upp í 14 daga. Líkanið gefur til kynna að miðað við margfalt hraunflæði á við það sem líklegt er, mun það taka hraunflæði frá gosi á þessum slóðum meira en 2 vikur að ógna innviðum. (Mynd/Líkan: Veðurstofa Íslands/Háskóli Íslands/Gro Birkefeldt Möller Pedersen)

Ekki ráðlagt að vera á ferðinni í nágrenni Keilis

Lítil virkni hefur verið sýnileg úr aðalgígnum við Fagradalsfjall síðan 18. september og minni gosórói hefur mælst. „Hegðun gossins hingað til hefur einkennst af slíkum hléum“ segir Sara. „Breyting á hegðun gossins samfara aukinni skjálftavirkni við Keili gæti þýtt að kvika leiti annað, en upptök skjálftahrinunnar við Keili er á svæði sem tengist kvikuganginum sem myndaðist í vor. Þannig að við fylgjumst áfram vel með þróun mála og vísindamenn og viðbragðsaðilar eru undir það búin ef kvika nær til yfirborðs við Keili“, segir Sara að lokum.

Ef kæmi til eldgoss við Keili yrði það að svipuðum toga og eldgosið við Fagradalsfjall. Svæðið er vel vaktað og er utan alfaraleiðar en vinsælt útivistarsvæði. Á þessu stigi er fólki ráðlagt að vera ekki á ferðinni í nágrenni vil Keili.

Eins er mælst til þess að fólk hugi að forvörnum gegn skjálftum á heimilum sínum á meðan að á hrinunni stendur.

Land rís áfram við Öskju

Vísindamenn fylgjast grannt með jarðskorpuhreyfingum við Öskju, en land hefur tekið að rísa þar eftir langt tímabil þar sem þrýstingur minnkaði og landsig átt sér stað. Á fundi vísindaráðs var farið yfir nýjustu mælingar sem benda til þess að land haldi áfram að rísa í vesturjaðri Öskjuvatns og með nokkuð jöfnum hraða.

Jarðskjálftavirknin við Öskju síðustu vikur er meiri en að öllu jöfnu mælist á svæðinu. Skjálftarnir eru þó á þekktum slóðum og af svipaðri stærð og alla jafna, en tíðni skjálfta hefur aukist og haldist jöfn frá því í byrjun ágúst.

Veðurstofan vinnur að því að auka vöktun við Öskju með uppsetningu á nýjum mælabúnaði, en aðstæður þar eru mjög erfiðar vegna veðurs og mikilla snjóa eftir óveðrið fyrr í vikunni. Nú þegar hefur einum GPS mæli til viðbótar verið komið upp.

Vísindaráð mun funda aftur eftir tvær vikur um virknina við Öskju og í framhaldinu stilla upp mögulegum sviðsmyndum um þróun mála við eldstöðina.

Veður

Loftslagsvísindamenn fá Nóbelsverðlaun í eðlisfræði

Syukuro Manabe, Klaus Hasselmann and Giorgio Parisi. (Mynd: Ill. Niklas Elmehed © Nobel Prize Outreach)


7.10.2021

Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 2021 fóru til þriggja vísindamanna sem hafa unnið að fjölþættum og flóknum kerfum, samspili ólíkra lengda- og tímakvarða og því hvernig regluleg hegðan myndast.

Tveir þeirra, Sukyro Manabe og Klaus Hasselmann, báðir fæddir 1931, eru loftslagsvísindamenn sem hafa lengi verið í fremstu röð vísindamanna sem rannsaka loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Það er áhugaverð tenging milli verðlaunanna til Sukyro Manabe og verðlaunahafans í efnafræði árið 1903. Það ár fékk Svante Arrhenius verðlaunin fyrir framlag sitt til eðlisefnafræði. Hann var hinsvegar einnig fyrstur til að leggja tölulegt mat á það hversu mikillar hlýnunar mætti vænta frá tvöföldun á styrk koldíoxíðs í lofthjúpnum.

Á fyrri hluta 20. aldar urðu miklar framfarir í skilningi vísinda á því hvernig varmageislun sólar og jarðar víxlverka við lofthjúpinn og sá skilningur var grundvöllur að miklum framförum í þróun loftslagslíkana. Á sama tíma urðu miklar framfarir í þróun veðurlíkana sem gjörbreyttu veðurspám. Sukyro Manabe lauk doktorsprófi í Japan árið 1958 og fór fljótlega að vinna á rannsóknastofu í Bandaríkjunum þar sem m.a. hafði verið unnið að þróun fyrstu veðurlíkananna. Þar hófst hann  handa við að þróa líkan sem nota mætti til að herma loftslag jarðar og breytingar á því.  Þetta líkan er forveri allra annarra loftslagslíkana, og með því má segja að rannsóknir á gróðurhúsaáhrifum hafi  komist á nútímastig.

Klaus Hasselmann (f. 1931) lauk doktorsprófi í Göttingen árið 1957 og var áratugum saman prófessor við Hamborgarháskola og yfirmaður Max Planck stofnunarinnar veðurfræði í Hamborg.  Hann hefur lagt gjörfa hönd á mörg svið, bæði innan haffræði, veðurfræði og veðurfarsfræði. Öldulíkön eins og þau sem notuð eru til að spá fyrir um öldulag á hafsvæðinu umhverfis Ísland byggja m.a. á vinnu hans. Á miðjum áttunda áratug síðustu aldar skrifaði hann mikilvægar greinar um samspil ólíkra tímakvarða, t.d. hvernig tilviljanakennt flökt í vindi á yfirborði hafsins gæti gæti valdið langtímabreytingum í hafi. Þegar ljóst var að loftslagsbreytinga væri farið að gæta þróaði hann ásamt samverkamönnum aðferðir við að finna hvaða breytingar mætti rekja til athafna mannkyns.  Þessar aðferðir liggja til grundavallar mati á áhrifum mannkyns á lofstlag sem t.d. má lesa um  í skýrslum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, en síðasta skýrsla þeirra kom út síðastliðinn ágústmánuð.

Olduspalikan_Hasselmann

Ölduspá sem Veðurstofan nýtir byggir á vinnu Hasselmann

Fyrir áhugasama um hin ólíku svið eðlisfræðinnar, má benda á að ásamt þeim Sukyro Manabe og Klaus Hasselmann hlaut Giorgio Parisi einnig Nóbelsverðlaunin í ár. Parisi er kennilegur eðlisfræðingur sem hefur lagt margt til rannsókna á sviði skammtasviðsfræði, vökvaaflfræði, m.a. fjölbrotaróf kviks flæðis, safneðlisfræði og þá sérstaklega eðlisfræði spunaglers. Rannsóknir hans tengja saman breytileika yfir breitt róf tíma og lengdarkvarða, spanna mjög vítt svið og skarast m.a. á við rannsóknir Hasselmann á áhrifum slembiferla í loftslagskerfinu. Þannig sýndu hann og samverkamenn hans fyrir nokkrum áratugum hvernig sveiflur milli jökulskeiða og hlýskeiða mætti skýra sem eiginsveiflur í loftslagskerfinu sem þá væru þvingaðar af slembiferlum. Þó fæstar rannsóknir hans tengist loftslagvísindum beint, hafa niðurstöður hans og hugmyndir haft árhif langt út fyrir hans sérsvið.

Halda áfram að lesa

Veður

Engin skýr merki um landris við Keili

Nýjustu gervitunglagögn úr Sentinel-1 (InSAR) af svæðinu við Keili sem sýna breytingar á svæðinu frá 23. september til 5. október. Engin merki sjást um breytingar á jarðskorpunni á slóðum skjálftahrinunnar sem hefur verið í gangi frá því í lok september. Rauðu línurnar afmarka hraunflæði frá gosstöðvunum.


6.10.2021

Nýjustu gervitunglagögn úr Sentinel-1 af svæðinu við Keili sýna engin skýr merki um að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs. Á nýjustu myndinni sem sýnir breytingar á svæðinu frá 23. september til 5. október sjást engin merki um breytingar á jarðskorpunni á slóðum skjálftahrinunnar sem hefur verið í gangi frá því í lok september.  Það útilokar hins vegar ekki að kvika sé á hreyfingu á það miklu dýpi að það sæist ekki í gervitunglagögnum. 

“Við höfum verið að keyra líkön út frá nýjustu jarðskjálfta- og landmælingagögnum og líkönin gefa til kynna að ef kvika er að safnast fyrir, þá er hún ekki í miklu magni og á talsverðu dýpi, eða meira dýpi en sást í aðdraganda gossins í mars”, segir Michelle Parks sem unnið hefur að greiningu gagnanna ásamt Vincent Drouin á Veðurstofu Íslands. “Ef kvika er að byggjast upp á meira en 5km dýpi, en skjálftavirknin í hrinunni er að megninu til á meira dýpi en það, þá sæist það ekki á gervitunglamyndum fyrr en talsvert meira magn hefur safnast fyrir. Því er nauðsynlegt að halda áfram að fylgjast náið með þróun virkninnar við Keili” segir Michelle.

Halda áfram að lesa

Veður

Tíðarfar í september

Stutt yfirlit

6.10.2021

September var hlýr framan af, sérstaklega norðan- og norðaustanlands. Síðustu tíu dagar mánaðarins voru aftur á móti kaldir. Það snjóaði víða í byggð í lok mánaðar og var jörð alhvít á mörgum stöðum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Úrkoma mældist víðast hvar vel yfir meðallagi í mánuðinum. Óvenju þungbúið var suðvestanlands og hafa ekki mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í septembermánuði síðan 1943. Mánuðurinn var fremur illviðrasamur.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í september var 8,3 stig og er það -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,6 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,2 stig og 8,6 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 8,3 -0,2 52 til 53 151 -0,1
Stykkishólmur 8,2 0,1 46 176 0,0
Bolungarvík 7,6 0,3 42 124 0,3
Grímsey 7,6 0,7 20 148 0,5
Akureyri 8,6 0,6 27 141 0,5
Egilsstaðir 8,5 0,7 12 67 0,5
Dalatangi 9,1 1,1 7 84 0,8
Teigarhorn 8,6 0,4 26 til 27 149 0,2
Höfn í Hornaf. 8,6 -0,1
Stórhöfði 8,4 0,0 42 144 0,0
Hveravellir 3,8 -0,1 20 57 0,1
Árnes 7,7 -0,3 56 til 57 142 -0,1

Meðalhiti og vik (°C) í september 2021

September var hlýr framan af, sérstaklega norðan- og norðaustanlands þar sem óvenjuleg hlýindi sumarsins héldu að einhverju leyti áfram. Síðustu tíu dagar mánaðarins voru aftur á móti kaldir. Þegar allur mánuðurinn er skoðaður var að tiltölu hlýjast á Ströndum og á Norðausturlandi en að tiltölu kaldast suðvestanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,5 stig á Gjögurflugvelli en neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,6 stig í Þúfuveri.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey 9,5 stig en lægstur 1,8 stig á Þverfjalli. Í byggð var meðalhitinn lægstur 5,6 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,0 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 1. Mest frost í mánuðinum mældist -7,6 stig á Kárahnjúkum þ. 27. Mest frost í byggð mældist -6,6 stig í Möðrudal þ. 27.

Úrkoma

September var úrkomusamur og mældist úrkoma víðast hvar vel yfir meðallagi. Fyrri hluti mánaðarins var þó tiltölulega þurr á austanverðu landinu en síðari hlutinn úrkomusamur.

Úrkoma í Reykjavík mældist 124,4 mm sem er um 40% umfram meðallag áranna 1991 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 117,2 mm sem er meira en tvöföld meðalúrkoma áranna 1991 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 136,7 mm og 172,5 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 19, fjórir fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 15 daga sem er sex fleiri en í meðalári.

Það snjóaði víða í byggð í lok mánaðar og var jörð alhvít á mörgum stöðum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Jörð var flekkótt tvo daga á Akureyri, en alauð alla aðra daga. Í Reykjavík var alautt allan mánuðinn.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 52,7 sem er 65,6 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í septembermánuði síðan 1943. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 76,7 sem er 13,8 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Mánuðurinn var fremur illviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,4 m/s yfir meðallagi. Óvenjulegt norðvestan hvassviðri gekk yfir landið þ. 28. Einnig var mjög hvasst þ. 21. (norðvestanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1002,1 hPa og er það 2,9 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1035,9 hPa á Önundarhorni þ. 1. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 959,5 hPa á Húsafelli þ. 21.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var óvenjulega hlýtt og sólríkt á Norðaustur- og Austurlandi. Það byrjaði þó í kaldara lagi. Óvenju kalt var á landinu um miðjan júní og það frysti og snjóaði víða í byggð. Gróður tók hægt við sér eftir kalt og þurrt vor. Í lok júní hlýnaði til muna og við tóku óvenjuleg hlýindi á Norður- og Austurlandi sem héldu áfram nánast óslitið fram í byrjun september. Ágústmánuður var óvenjuhlýr á landinu öllu.

Meðalhiti í Reykjavík var 10,3 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jafn meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti sumarsins er í 28. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,7 stig, 1,9 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Sumarið er, ásamt árinu 1933, hlýjasta sumar frá upphafi mælinga á Akureyri.

Sumarið var einnig það hlýjasta frá upphafi mælinga á Egilsstöðum, Dalatanga og á Grímsstöðum á Fjöllum.

Sumarið var þurrt framan af, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. En september var mjög úrkomusamur þannig að heildarúrkoma sumarsins endar í kringum meðallag. Úrkoma í Reykjavík mældist 246,0 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 149,1 mm sem er einnig jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 3 fleiri en í meðalári í Reykjavík en 1 degi færri en í meðalári á Akureyri.

Óvenju þungbúið var suðvestanlands í sumar. Sólskinsstundir mældust 415,2 í Reykjavík sem er 240,6 stundum færri en að meðaltali 1991 til 2020. Sumarið hefur ekki verið eins sólarlítið í Reykjavík síðan 1983 (þá mældust stundirnar jafn margar og nú), og þar með það sólarminnsta í 100 ár. Sumarið var aftur á móti mjög sólríkt á Akureyri, sólskinsstundirnar mældust 706,2 og er það 135,3 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Sumarið er það fjórða sólríkasta frá upphafi mælinga á Akureyri.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu níu mánuði ársins var 6,1 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 27. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna níu 6,0 stig. Það er 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 7.sæti á lista 141 ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 478,4 mm sem er 78% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 364,9 mm sem er jafnmikið og meðalúrkoma áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin