Samtök Atvinnulífsins

Vextir óbreyttir enn um sinn

Vextir óbreyttir enn um sinn

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að meginvöxtum bankans yrði haldið óbreyttum, í samræmi við væntingar greiningaraðila. Standa þeir því enn í 0,75% sem er tveimur prósentustigum lægra en við upphaf heimsfaraldursins. Raunvextir bankans standa því í -3,2% miðað við 12 mánaða verðbólgu. Á þann mælikvarða eru raunstýrivextir nokkru lægri en hjá samanburðarþjóðum, enda mælist verðbólga hér á landi nokkuð meiri. 

Á fundi nefndarinnar í byrjun febrúar síðastliðnum voru allir nefndarmenn á eitt sáttir um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum. Enn vegast á sjónarmið um slaka í hagkerfinu annars vegar og aukna verðbólgu hins vegar, sem er enn lítillega yfir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs bankans. Má í yfirlýsingunni merkja létti yfir betri hagvaxtartölum fyrir seinasta ár en óttast var, og því minni þörf á frekari vaxtalækkunum, en á sama tíma nokkrar áhyggjur af kjölfestu verðbólguvæntinga, sem væri þá fremur tilefni til vaxtahækkana. Því þarf ekki að koma á óvart að meginvöxtum bankans hafi verið haldið óbreyttum enn um sinn. 

Gerólík viðbrögð 

Í kjölfar fjármálakreppunnar hríðféll gengi krónunnar og verðbólga rauk upp í nær 19% þegar mest lét, en viðbragð Seðlabankans þá fólst í því að hækka vexti. Í október 2008 voru meginvextir bankans hækkaðir um fjórar prósentur í einu vetfangi, upp í 18%. Viðbrögðin í þetta sinn hafa verið gerólík. Til að styðja við aðgerðir stjórnvalda, endurspegla breyttar efnahagshorfur og auka fjárhagslegt svigrúm heimila og fyrirtækja lækkaði Seðlabankinn meginvexti sína síðastliðið vor, þrátt fyrir veikara gengi og aukna verðbólgu. Hafa vextirnir lækkað í skrefum frá mars 2020 og farið úr 2,75% niður í 0,75% þar sem þeir standa nú.  

Hafa vaxtalækkanir skilað árangri? 

Sé horft til aukinna útlána innlánsstofnana má segja að vaxtalækkanirnar hafi skilað sér í meira mæli til heimila en fyrirtækja. Hrein ný útlán innlánsstofnana til atvinnufyrirtækja námu 8 milljörðum á seinasta ári á meðan hrein ný útlán til heimila námu 320 milljörðum. Í einhverjum tilvikum hefur reyndar verið um endurfjármögnun fasteignalána að ræða en markaðshlutdeild viðskiptabankanna hefur aukist á kostnað lífeyrissjóðanna að undanförnu vegna betri lánakjara þeirra. Þá hefur aukin ásókn heimila verið í óverðtryggð lán sem og lán með breytilegum vöxtum sem ætti að auka virkni peningastefnunnar horft fram á veg. 

Fyrstu kaupendur fasteigna hafa aldrei verið fleiri, en á seinasta ári var nær einn af hverjum þremur fasteignakaupendum að festa kaup á sinni fyrstu fasteign. Vaxtalækkanirnar hafa þannig bæði aukið ráðstöfunartekjur margra, þökk sé lægri greiðslubyrði lána, en einnig gert stærri hóp fólks kleift að binda sparnað sinn í fasteign. Auknar ráðstöfunartekjur heimilanna hafa vafalaust stutt við innlenda einkaneyslu sem hefur verið umfram væntingar seinustu misseri. 

Velta ársins 2020 á fasteignamarkaði náði sömu hæðum og sást fyrir fjármálakreppu. Þrátt fyrir það hafa íbúðaverðshækkanir haldist fremur hóflegar miðað við verðlag og hefur leiguverð reyndar lækkað að teknu tilliti til verðbólgu. Á seinasta ári mældust verðhækkanir íbúðarhúsnæðis um 3,6% að raunvirði, sem er nokkurn veginn í takt við kaupmáttaraukningu launa á árinu. Til samanburðar mældist raunhækkun íbúðaverðs 15,5% á árinu 2017, sem var langt umfram launahækkanir þess árs. Verðhækkanir íbúðarhúsnæðis að undanförnu hafa því þróast ágætlega í takt við undirliggjandi þætti, svo sem laun og verðlag, þrátt fyrir sögulega lágt vaxtastig. 

Hafa vaxtalækkanir ekki skilað sér til fyrirtækja? 

Þó að vaxtalækkanir Seðlabankans endurspeglist ekki í auknum útlánum innlánsstofnana til fyrirtækja hafa þær óneitanlega dregið úr greiðslubyrði lána þeirra fyrirtækja sem eru með lán á fljótandi vöxtum. Þá hafa þær örvað eftirspurn með auknum ráðstöfunartekjum heimila og því skilað sér til fyrirtækja í formi aukinnar neyslu. Einkaneyslan var talsvert sterkari á seinasta ári en vonir stóðu til. Þó erfitt sé að meta áhrifin nákvæmlega má ætla að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi þar haft sitt að segja. Þá hafa aðrar aðgerðir Seðlabankans, svo sem lækkun bindiskyldu, gert bankakerfið betur í stakk búið til að styðja við fyrirtæki í formi aukinna útlána þegar aðstæður leyfa. 

Ýmis fyrirtæki eru vitanlega enn undir áhrifum sóttvarnaraðgerða og eru því áfram í vanda, en ekki er víst að aukin skuldsetning sé ákjósanlegasti kostur þeirra í núverandi stöðu. Þar hafa aðrar aðgerðir yfirvalda gagnast í einhverjum tilvikum, svo sem beinir styrkir, frestun opinberra gjalda, greiðsluskjól, stuðningslán og hlutastarfaleiðin.  

Framboðsskortur íbúðarhúsnæðis gæti leitt til verðhækkana 

Vaxtalækkanirnar hafa einnig skilað sér með beinum og óbeinum hætti í aukna íbúðafjárfestingu en samdráttur hennar á seinasta ári reyndist mun minni en óttast var. Um tíma var talið að samdráttur íbúðafjárfestingar gæti numið allt að 19% en reyndist nær 1% miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Þá er ekki að sjá að kórónukreppan hafi haft jafn neikvæð áhrif á atvinnustig í byggingariðnaði og raunin var eftir fjármálakreppuna þar sem hlutfall atvinnulausra í byggingariðnaði fór yfir 20%.  

Áhyggjur hafa verið viðraðar af mögulegum framboðsskorti á næstu misserum en talningar Samtaka iðnaðarins endurspegla fækkun í fjölda nýbygginga á næstu árum. Því er mikilvægt að íbúðafjárfesting haldi dampi til að halda aftur af verðhækkunum íbúðarhúsnæðis í framtíðinni. Stuðningur við íbúðamarkað í formi vaxtalækkana og annarra hvata til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði, svo sem aukinni endurgreiðslu virðisaukaskatts, ætti að hjálpa til við að sporna gegn þeirri þróun. Í því samhengi er einnig mikilvægt að huga að lóðaframboði, skilvirkari leyfisveitingarframkvæmd og sveigjanlegri byggingarreglugerð sem heimilar nýstárlegar og skapandi lausnir til að draga úr kostnaði íbúðarhúsnæðis. 

Brothætt jafnvægi 

Viðbrögð yfirvalda við heimsfaraldri kórónuveiru hafa verið fjölþætt. Ráðist var í ýmsar sértækar aðgerðir til handa heimilum og fyrirtækjum sem flestar höfðu það að markmiði að verja störf. Þó deila megi um einstaka aðgerðir hafa þær heilt á litið gagnast vel samkvæmt niðurstöðum kannana á vegum Samtaka atvinnulífsins. Þrátt fyrir það er atvinnuleysi enn mun meira en við verður unað. Sú verður að líkindum staðan á meðan strangar sóttvarnaraðgerðir gilda.  

En hlutverk Seðlabankans hefur ekki síður verið mikilvægt. Gengi krónu hefur haldist merkilega stöðugt sé tekið mið af því að hrun varð í einni aðalútflutningsgrein þjóðarbúsins og væntingar um verðbólgu við markmið virðast enn halda ágætlega þrátt fyrir sögulega lágt vaxtastig. Landsframleiðslutölur seinasta árs máluðu jákvæðari mynd en vænta mátti. Það má því segja að ágætur árangur hafi náðst í hagstjórninni með margvíslegum viðbrögðum yfirvalda og Seðlabankans þó enn séu verk óunnin og staðan að mörgu leyti brothætt. Mikilvægt er að kjölfesta verðbólguvæntinga haldi á meðan hagkerfið vinnur sig upp í fyrri framleiðslugetu. 

Eins og Seðlabankastjóri hefur bent á geta báðir hagstjórnaraðilar ekki stigið á bensíngjöfina um leið og aðstæður fara að glæðast. Því má telja ólíklegt að vextir verði lækkaðir frekar á næstunni. Reynist verðbólgan þrálát eða fari ríkisfjármálin úr böndunum er hins vegar viðbúið að hækka þurfi vexti þegar fram líða stundir. Verkefnið framundan er að styðja við endurreisn hagkerfisins – án þess að jafnvægi í ríkisfjármálum eða verðstöðugleika sé ógnað.  

Samtök Atvinnulífsins

Samstaða um launahækkanir í Noregi

Samstaða um launahækkanir í Noregi

Í gær, sunnudaginn 11. apríl 2021, náðist samkomulag milli norsku Samtaka atvinnulífsins og tveggja helstu landssamtaka verkalýðsfélaga.

Samkomulagið er svokallað milliuppgjör. Kjarasamningar í Noregi eru jafnan gerðir til tveggja ára og er heildarsamtökunum, beggja vegna borðs, falið að komast að niðurstöðu um launabreytingar á seinna árinu. Á seinna árinu er eingöngu samið um launabreytingar.

Samkomulagið er efnahagslegur rammi um 1,0-1,5% launahækkanir á árinu, mismiklar eftir starfsstéttum, og ber öllum kjarasamningum í framhaldinu að lúta honum. Þegar hækkanir verða komnar til framkvæmda áætla samningsaðilar að hækkun meðallauna milli áranna 2020 og 2021 verði 2,7%, samkvæmt mælingum hagstofu Noregs á raunverulegum launabreytingum.

Ramminn um launahækkanir, sem heildarsamtökin í Noregi semja um, er breyting meðallauna milli ára samkvæmt mælingum á raunverulegum launabreytingum. Mælingarnar fela þannig í sér hvers kyns launaskrið til viðbótar lágmarks launahækkunum samkvæmt kjarasamningum.

Markmið norsku Samtaka atvinnulífsins var að standa sérstaklega vörð um hagsmuni þeirra atvinnugreina sem verst hafa orðið fyrir barðinu á kórónukreppunni. Í samkomulaginu felst þannig að sérstakar hækkanir lægstu launa eru takmarkaðar. Framkvæmdastjóri samtakanna, Ole Erik Almlid,  telur það sérstaklega mikilvægt nú þegar fjöldi fyrirtækja berst í bökkum.

Almlid segir krefjandi við núverandi aðstæður að gera kjarasamninga um sömu hækkanir fyrir allar atvinnugreinar þar sem kreppan kemur mjög mismunandi niður. En samtök atvinnurekenda standa saman til að verja hagsmuni heildarinnar.

Framkvæmdastjóri norsku Samtaka iðnaðarins, Stein Lier-Hansen, segir samningsaðila hafa axlað samfélagslega ábyrgð sem sé mikilvægt fyrir samskiptin til framtíðar. Aðilar vinnumarkaðarins ætla sér að standa saman að endurreisn Noregs eftir kórónukreppuna og vinna sameiginlega að grænni umskiptingu í Noregi.

Framkvæmdastjóri norsku Samtaka ferðaþjónustunnar, Kristin Krohn Devold, segir erfitt fyrir greinina að axla frekari byrðar í ljósi kreppunnar sem enn ekki sér fyrir endann á. Að hennar mati eru launahækkanir það síðasta sem greinin þarfnist í baráttunni við að lifa kreppuna af og endurráða starfsfólk. 

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Eyjólfur Árni gefur áfram kost á sér til formennsku

Eyjólfur Árni gefur áfram kost á sér til formennsku

Eyjólfur Árni Rafnsson gefur áfram kost á sér sem formaður Samtaka atvinnulífsins. Hann tók við formennskunni árið 2017.

„Ískyggilegar horfur um langvinnt atvinnuleysi valda áhyggjum. Stærsta áskorun yfirvalda og aðila vinnumarkaðar á komandi misserum verður að vinna á atvinnuleysinu. Þótt efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafi mildað höggið sem kórónukreppan olli til skamms tíma, birtast þær sömu aðgerðir í stóraukinni skuldsetningu og hallarekstri ríkissjóðs. Þar kristallast sú staðreynd að umsvif atvinnulífsins og framleiðslugeta hafa allt að gera með stöðu ríkissjóðs sem aftur stendur undir því velferðarkerfi sem íslenskt samfélag reiðir sig á,” segir Eyjólfur Árni.

„Þessi risavöxnu verkefni verða stærstu viðfangsefni þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við eftir kosningar síðar á árinu. Nú er mikilvægt að allir vinni samstíga að því sameiginlega verkefni að skapa störf hjá fyrirtækjum í atvinnulífinu. Leiðin út úr kreppunni er ekki sú að fjölga opinberum störfum. Þvert á móti eru stöndug fyrirtæki forsenda þess að skapa verðmæt störf. Með því að auka súrefni til atvinnulífsins bætum við lífskjör fólks í landinu.”

Viðburðaríkt og sögulegt starfsár er að baki hjá Samtökum atvinnulífsins. Forgangsverkefnin fólust ekki síst í því að vinna tillögur upp í hendur stjórnvalda og beita okkur fyrir því að aðgerðir í efnahagsmálum yrðu útfærðar með sem bestum hætti. Þá einbeittum við okkur að því að miðla upplýsingum fljótt og örugglega á óvenjulegum tímum til félagsmanna. Reglulegir upplýsingafundir voru haldnir um sóttvarnaraðgerðir, útfærslur efnahagsaðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í áföngum og um horfur í atvinnulífinu til lengri og skemmri tíma. Til þess voru auk okkar starfsliðs, kallaðir til stjórnmálamenn og sérfræðingar um efnið. Öllu var þessu miðlað með rafrænum hætti.

Eyjólfur Árni hefur áratugareynslu af stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi en frá árinu 2016 hefur hann sinnt ýmsum ráðgjafa- og stjórnunarstörfum. Hann hefur setið í stjórn SA frá árinu 2014 og í framkvæmdastjórn SA frá 2016.

Rafræn kosning formanns meðal aðildarfyrirtækja SA fyrir starfsárið 2021-2022 hefst  þann 14. apríl nk. Tilkynnt verður um kjörið á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 12. maí næstkomandi.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Ný fjármálaáætlun: Bættar efnahagshorfur en áskoranir framundan

Ný fjármálaáætlun: Bættar efnahagshorfur en áskoranir framundan

Ríkisstjórnin birti í gær fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 sem byggir á nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar. Ný ríkisstjórn sem taka mun sæti í haust verður ekki bundin af áætluninni en hún dregur engu að síður upp mynd af líklegri þróun fjármála hins opinbera miðað við nýjustu þjóðhagsspá sem liggur til grundvallar. Spáin gefur þannig vísbendingar um þróun á tekju- og útgjaldahlið hins opinbera svo unnt sé að haga stefnu, til að mynda í lánamálum, til samræmis við horfur í efnahagslífinu.  

Í stuttu máli endurspeglar nýbirt fjármálaáætlun bættar efnahagshorfur og betri afkomu ríkissjóðs. Horfur um þrálátt atvinnuleysi eru hins vegar áhyggjuefni og ljóst að forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðar verður að skapa skilyrði svo unnt sé að vinna hratt á atvinnuleysinu.  

Þó að tíðindi gærdagsins hafi á heildina litið verið jákvæð er ljóst að fjölmargar áskoranir eru enn fram undan. Aðgerðir yfirvalda hafa mildað höggið til skamms tíma, en þær birtast í miklum hallarekstri og aukinni skuldsetningu og hafa þannig frestað vandanum. Ef takast á að stöðva skuldsetninguna, þannig að hún haldist innan þeirra marka sem sett voru í lögum um opinber fjármál, mun þurfa að grípa til ráðstafana nema hagvöxtur reynist kröftugri en vonir standa til.  

Sjást þar svart á hvítu þau áhrif sem umsvif og framleiðslugeta hagkerfisins hafa á opinber fjármál og þar af leiðandi gæði þeirra velferðarkerfa sem við reiðum okkur á. Á þessum vanda mun næsta ríkisstjórn þurfa að taka með trúverðugum áætlunum og stefnu sem er til þess fallin að skapa störf – hjá fyrirtækjum í atvinnulífinu, ekki í opinbera geiranum.  

Meiri hagvöxtur en þrálátt atvinnuleysi 

Hagstofan gerir nú ráð fyrir 2,6% hagvexti í ár og 4,8% hagvexti á næsta ári. Jafnframt er nú spáð kröftugri hagvexti á seinni hluta tímabilsins sem minnkar þörf á aðhaldsaðgerðum af hálfu hins opinbera. Spáin málar því eilítið bjartari mynd en birtist í seinustu spá Hagstofunnar í október síðastliðnum enda hafa rauntölur sem birst hafa síðan þá komið þægilega á óvart, ekki síst  hvað varðar einkaneyslu og fjárfestingu eins og Samtök atvinnulífsins hafa fjallað um. 

Samdráttur landsframleiðslu á seinasta ári reyndist vera 6,6% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar en flestar ef ekki allar spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir lakari niðurstöðu. Bættar horfur leiða til 134 milljarða króna betri afkomu ríkissjóðs á tímabilinu samkvæmt áætluninni og þá væntanlega minni skuldsetningu ríkissjóðs um leið. 

Þrátt fyrir horfur um aukinn hagvöxt er gert ráð fyrir þrálátu atvinnuleysi á spátímabilinu. Atvinnuleysi verður nær 5% á árinu 2024 skv. spánni, sem er umfram langtímameðaltal atvinnuleysis hér á landi. Þetta fyrirséða atvinnuleysi verður stór áskorun fyrir yfirvöld, og ekki síður aðila vinnumarkaðarins, á komandi árum. Þrálátt atvinnuleysi hefur ekki einungis í för með sér aukinn kostnað fyrir sameiginlega sjóði heldur hefur það neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra sem fyrir því verða. 

Líkur eru á að grynnka muni verulega á atvinnuleysinu þegar sóttvarnaraðgerðum sleppir. Til stuðnings væri ráðlegt að beita úrræðum til að auka virkni á vinnumarkaði svo sem endurbættri útgáfu ráðningarstyrks sem kynnt var á dögunum. Umfram allt er þó mikilvægast að hérlendis séu ávallt hagfelld og samkeppnishæf skilyrði til fyrirtækjarekstrar, svo sem hófleg skattheimta og einfalt regluverk eins og Samtök atvinnulífsins þreytast ekki á að benda á. 

Hafa efnahagsaðgerðir skilað árangri? 

Frá því faraldurinn hófst fyrir rúmlega ári hafa yfirvöld ráðist í fjölþættar aðgerðir til stuðnings heimilum og fyrirtækjum, með tilheyrandi hallarekstri og skuldsetningu ríkissjóðs. Að mati fjármálaráðuneytisins hafa sértækar aðgerðir yfirvalda skilað sér í aukinni landsframleiðslu fyrir um 100 milljarða á árunum 2020-2021 og þannig mildað efnahagsáfallið. Þessar sértæku aðgerðir, sem telja um helming viðbragðs yfirvalda á þessum árum, fela ekki allar í sér bein fjárútlát af hálfu ríkissjóðs þar sem einnig er um úrræði á borð við frestun skattgreiðslna og ríkistryggð lán að ræða.  

Samkvæmt könnunum sem Samtök atvinnulífsins hafa framkvæmt fyrir félagsmenn ríkir almenn ánægja með efnahagsaðgerðir yfirvalda þó deila megi um gagnsemi mismunandi aðgerða. Í mars 2021 töldu til að mynda tæplega 67% stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu að aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í mars í fyrra hefðu verið gagnlegar á meðan tæplega helmingur forsvarsmanna allra fyrirtækja telur aðgerðirnar hafa komið að miklu eða einhverju gagni.  

Þær aðgerðir sem flestir töldu að hefðu gagnast voru; hlutastarfaleiðin, frestun skattgreiðslna, laun í sóttkví, útvíkkun á „allir vinna” og frekari sókn til nýsköpunar, en misjafnt er eftir atvinnugreinum og öðrum aðstæðum hvaða aðgerðir nýttust fyrirtækjunum helst. Atvinnurekendur eru jákvæðir í garð efnahagsaðgerða stjórnvalda þrátt fyrir að faraldurinn hafi reynst langvinnari en vonir stóðu til. Hefur sú afstaða lítið breyst síðastliðna sex mánuði.  

Fjölmargar áskoranir enn til staðar 

Þó að byrðum áfallsins hafi verið dreift yfir tíma er ærið verk enn fyrir höndum. Þúsundir starfa hafa glatast. Ekki er gert ráð fyrir jákvæðum frumjöfnuði ríkissjóðs fyrr en á árinu 2025 og þá einungis ef gripið verður til sérstakra ráðstafana á tekju- eða útgjaldahlið. Hættan er sú að taka muni langan tíma að draga úr þeirri útgjaldaaukningu sem hefur átt sér stað vegna kreppunnar.  

Sagan sýnir að aðhald í opinberum fjármálum reynist oft erfitt á uppgangstímum og verður því fróðlegt að sjá hverjar áherslur næstu ríkisstjórnar verða þegar kemur að fjármálastefnunni. Ef framtíðin ber dræman hagvöxt í skauti sér verður erfitt að standa undir útgjöldunum án viðvarandi hallarekstrar og tilheyrandi skuldasöfnunar. Þannig niðurstaða hefði vissulega mildað högg kórónukreppunnar, en gæti einnig ógnað lífsgæðum komandi kynslóða. Slíka arfleifð ber að varast. 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin