Samherji

Viðburðaríkt ár á Dalvík að baki

Viðburðaríkt ár á Dalvík að baki

Í dag, miðvikudaginn 21. júlí, er síðasti vinnsludagur í nýja hátækni fiskvinnsluhúsinu á Dalvík fyrir langþráð sumarfrí.

Í ágúst í fyrra hófst vinnsla í nýju húsi og má með sanni segja að árið hafi verið mjög krefjandi og viðburðaríkt. Við þurftum að takast á við Covid-19 með öllum þeim takmörkunum og reglum sem því fylgdu. Á sama tíma opnuðum við nýja vinnsluhúsið með gerbreyttri tækni og tækjum. Allt starfsfólk þurfti að læra ný vinnubrögð og tileinka sér fjölmargar tækninýjungar. Vegna Covid-faraldursins var ekki hægt að fá sömu aðstoð og í „venjulegu árferði“ og til marks um það má nefna að engir utanaðkomandi sérfræðingar komu í húsið svo mánuðum skipti.

Metár í vinnslunni

Með samstilltu átaki allra starfsmanna tókst opnunin frábærlega og vinnslan hefur gengið vonum framar. Nú, ári seinna, höfum við unnið úr um 16.500 tonnum af hráefni sem er það langmesta sem unnið hefur verið úr á Dalvík á einu ári til þessa. Fyrra metið var árið 2018 þegar unnið var úr tæplega 15.000 þúsund tonnum. Uppistaða hráefnisins var eins og áður þorskur en við höfum unnið meira af ýsu en við höfum áður gert og hefur það gengið mjög vel.

Þrátt fyrir að Covid hafi sett mark sitt á alla helstu markaði heims höfum við náð að selja allar afurðir á ásættanlegu verði. Helstu viðskiptavinir okkar eru stórmarkaðir víða um Evrópu. Með nýrri tækni á Dalvík höfum við getað lagað okkur hratt að breytingum á markaði og þjónustað viðskiptavini með þær vörur sem þeir hafa óskað eftir, á þeim tíma sem þeim hentar best.

Starfsfólk ÚA tekur við keflinu

Núna tekur við 4 vikna sumarfrí á Dalvík. Þá taka starfsmenn ÚA á Akureyri við keflinu og koma til vinnu á morgun, tvíefldir eftir ótrúlegar 4 vikur í góða veðrinu hér fyrir norðan.

Með þessu fyrirkomulagi, þ.e. að hafa alltaf a.m.k. eina vinnslu í gangi, þjónustar Samherji viðskiptavini sína allt árið um kring. Það er mjög mikilvægt í viðskiptum með matvæli nú til dags.

Samherji

Björgvin EA heldur til veiða eftir endurbætur

Björgvin EA 311 nýmálaður við Togarabryggjuna á Akureyri í morgun.

Björgvin EA 311 nýmálaður við Togarabryggjuna á Akureyri í morgun.

Togarinn Björgvin EA 311 hefur verið í slipp síðustu vikur þar sem sinnt hefur verið ýmis konar viðhaldi á skipinu. Stærstu verkþættir voru upptekt á aðalvél og viðhald á spilkerfi, þvottur og málun skipsins, ásamt ýmsum smáverkum. Verkið var unnið hjá Slippnum Akureyri og heldur skipið til veiða í dag.

Björgvin EA var teiknaður af Bárði Hafsteinssyni skipaverkfræðingi og er einn af mörgum togurum sem smíðaðir voru í Flekkefjord í Suður-Noregi. Skipið var smíðað árið 1988, kom til heimahafnar á Dalvík í fyrsta skipti hinn 26. júlí það ár og er því orðið 33 ára. Skipið hefur ávallt verið í góðu viðhaldi og þá hefur áhöfnin gætt þess að fara vel með skipið í gegnum árin.

Skrokklag skipsins hefur alltaf þótt býsna athyglisvert. Segja má að með hönnun skipsins hafi í fyrsta sinn verið þróað stefni sem Bárður Hafsteinsson útfærði síðan enn frekar við hönnun nokkurra togara sem smíðaðir hafa verið í Tyrklandi á síðustu árum og hafa reynst afar vel.

Halda áfram að lesa

Samherji

Oddeyrin EA komin til Akureyrar, skipið getur geymt lifandi fisk í tönkum

Oddeyrin við bryggju á Akureyri í morgun

Oddeyrin við bryggju á Akureyri í morgun

  • Skipið hefur þegar vakið mikla athygli í alþjóðlegum sjávarútvegi

Tímamót urðu í sögu Samherja í dag og þar með íslenskum sjávarútvegi, er Oddeyrin EA kom til Akureyrar eftir gagngerar breytingar á skipinu í dönsku skipasmíðastöðinni Karstensens. Samherji keypti uppsjávarveiðiskip og lét breyta því fyrir bolfiskveiðar, jafnframt verður hægt að dæla fiski um borð og geyma lifandi í sér útbúnum tönkum.

Sex tankar sem geta geymt lifandi fisk

Hjörvar Kristjánsson skipaverkfræðingur og verkefnastjóri á útgerðarsviði Samherja segir skipið á margan hátt flókið.

„Já, þetta er nokkuð flókið skip, hérna er hægt að gera ýmislegt sem ekki er hægt að gera á öðrum fiskveiðiskipum. Í fyrsta lagi getur það stundað hefðbundnar veiðar en stóra nýjungin er að um borð er búnaður til að dæla fiski um borð og geyma hann lifandi í alls sex tönkum skipsins. Í þessum tönkum er líka hægt að kæla fiskinn, ef hann er ekki fluttur lifandi til lands.“

Alþjóðlegur sjávarútvegur fylgist vel með

Hjörvar segir að Oddeyrin hafi þegar vakið töluverða athygli í alþjóðlegum sjávarútvegi.

„Já, klárlega. Karstensens skipasmíðastöðin stendur framarlega á sínu sviði og þar er daglega fólk sem fylgist vel með öllum tækninýjungum. Við urðum sannarlega vör við áhuga greinarinnar á þessu verkefni okkar og víst er að það verður vel fylgst með okkur þegar skipið kemst á veiðar. Þetta eru stór tímamót í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Hjörvar.

Hægt að jafna út skammtímasveifur og sækja inn á nýja markaði

Næsta skref er að Slippurinn tekur við skipinu og kemur fyrir ýmsum búnaði, aðallega á vinnsludekki.

Heiðdís Smáradóttir verkefna- og gæðastjóri Samherja fiskeldis, segir að aldurinn á fiskinum til landvinnslunnar geti hæglega farið úr þremur til fimm dögum niður í nokkrar klukkustundir, með tilkomu Oddeyrarinnar.

„Afhendingaröryggi landvinnslunnar eykst til mikilla muna. Með því að geyma fiskinn lifandi um borð eða í kvíum í landi er hægt að jafna út skammtímasveiflur, svo sem vegna hráefnisskorts. Einnig aukast möguleikar á því að sækja inn á nýja markaði með ferskan ófrosinn fisk vegna lengri líftíma vörunnar, svo dæmi séu nefnd. Stór hluti af þessu öllu saman er að geta alltaf átt hráefni klárt fyrir landvinnsluna og svo auðvitað að geta boðið upp á enn ferskara hréfni. Við erum ekki komin á þann stað að geyma fiskinn í kvíum á landi, en möguleikarnir eru fyrir hendi. Norðmenn hafa sett fisk í kvíar en með þessu skipi er stigið skrefinu lengra. Samherji leggur ríka áherslu á ferskleika og það erum við sannarlega að gera með þessu nýja skipi,“ segir Heiðdís.

Búnaðurinn reyndist vel

„Mér líst mjög vel á skipið. Við fórum í tvo stutta prufutúra við Danmörku, aðallega til að tékka af búnaðinn og allt virkaði fínt. Það ríkir auðvitað alltaf ákveðin spenna þegar eitthvað nýtt kemur fram á sjónarsviðið og ég hef heyrt ýmsar pælingar, sem segir sitt um áhugann á þessari nýjung. Ég er alveg sannfærður um að þetta gangi allt saman upp og það hefur verið frábært að vinna að þessu verkefni með framsæknu og lausnarmiðuðu starfsfólki Samherja,“ segir Hjörtur Valsson skipstjóri.

Frábært að sigla inn Eyjafjörðinn í fallegu veðri

„Við lögðumst að bryggju á Akureyri snemma í morgun og það var alveg frábært að sigla inn Eyjafjörðinn í fallegu veðri. Ísland tók vel á móti okkur, það er ekki hægt að segja annað,“ segir Hjörtur.

Halda áfram að lesa

Samherji

Tillaga að matsáætlun vegna eldisgarðs

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin