Innlent

Visit Iceland – upplýsingamiðlun til ferðamanna stórefld

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði í dag samning við  Íslandsstofu og Ferðamálastofu  um heildstæða landkynningar- og upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn undir merkjum Visit Iceland.

Markmiðið er að efla markaðs- og upplýsingavefinn visiticeland.com og gera hann að miðpunkti upplýsingamiðlunar til ferðamanna ásamt þeim samfélagsmiðlum og öðrum dreifileiðum sem vefurinn nýtir. Vefurinn er þegar einn af burðarásum í markaðsstarfi Íslands og sá vefur sem flestir ferðamenn eru líklegir til að hafa kynnt sér fyrir komuna til Íslands.

Öflug upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna er mikilvægur liður í kynningu á áfangastaðnum Íslandi en hingað til hefur hún verið á höndum margra aðila og samstarf þeirra á milli verið takmarkað og boðleiðir ólíkar. Mikilvægt er að bæta úr þessu og koma á framfæri samræmdum skilaboðum til ferðamanna.

Með samvinnu Íslandsstofu og Ferðamálastofu verður unnið að því að efla eina sameiginlega vefgátt sem veitir góðar, tímanlegar og gagnlegar upplýsingar til erlendra ferðamanna á grunni sem stuðlar að sjálfbærri, arðsamri og samkeppnishæfri ferðaþjónustu í sátt við land og þjóð eins og kveðið er á um í Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030

Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra:

„Með því að vinna saman að því að efla visiticeland.com bætum við upplýsingagjöf til ferðamanna svo um munar og byggjum hana á þörfum þeirra og forsendum. Við samræmum aðgerðir okkar og byggjum upp frekara samstarf að markaðssetningu og upplýsingagjöf til ferðamanna til framtíðar.“

Segjum ferðamönnum okkar eigin sögu

Til að kynna áfangastaðinn Ísland er nauðsynlegt að koma upplýsingum á framfæri við ferðamenn fyrir ferð hingað til lands, meðan á ferðinni stendur auk eftirfylgni þegar heim er komið svo deila megi minningum með öðrum. Leggja verður áherslu á að segja ítarlega frá landi og þjóð á forsendum Íslands. Með því er stuðlað að því að ferðamenn ferðist víðar um landið og njóti fjölbreytileika íslenskra áfangastaða. Með öflugri upplýsingasíðu er athygli ferðamanna dregin að því fjölbreytta úrvali þjónustu sem er í boði og þeim bent á að bóka beint hjá fyrirtækjunum.

Samningurinn er gerður til þriggja ára og tryggir verkefninu 45 m.kr. á ári. Jafnframt verður settur upp gagnagrunnur fyrir verkefnið, unnið verður að uppbyggingu stafrænnar miðlunar og framsetningu gönguleiða auk þess sem spjallmenni verður sett upp á síðunni. 

Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Halda áfram að lesa

Alþingi

Forsætisnefnd afgreiðir erindi um siðareglumál

12.5.2021

Forsætisnefnd afgreiddi á fundi sínum 10. maí erindi sem henni barst 18. apríl sl. frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann óskaði álits forsætisnefndar á því hvort ummæli hans í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. stæðist siðareglur alþingismanna. Niðurstaða forsætisnefndar er birt í meðfylgjandi bréfi til Björn Levís Gunnarssonar

Var niðurstaðan sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglnanna.

Halda áfram að lesa

Innlent

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að landlæknir veiti upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna COVID-19 bólusetningar. Einkum með tilliti til þeirra sem, af heilsufarslegum ástæðum, telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin