Almannavarnir

Vöktun, viðbúnaður og viðbragð við jarðskjálftum á Reykjanesi

Í dag funduðu fulltrúar frá Grindavíkurbæ, lögreglunni á Suðurnesjum, Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, HS Orku og öðrum viðbragðsaðilum í kjölfar stóru skjálftanna sl. sólarhring á Reykjanesskaganum. Á fundinum var farið yfir vöktunarupplýsingar Veðurstofu Íslands og ákvarðanir um viðbúnað og viðbragð voru byggðar á þeim.

Vöktun jarðskjálftahrinunnar á Reykjanesskaga

Samkvæmt vöktunarupplýsingum Veðurstofunnar er líklegast að jarðskjálftarnir við Fagradalsfjall séu vegna kvikuinnskots við Fagradalsfjall. Kvikuinnskotið veldur spennubreytingum vestan og austan við Fagradalsfjall og framkallar þar skjálfta. Þessir skjálftar eru gjarnan kallaðir gikkskjálftar og eru merki um spennulosun en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum þar sem þeir mælast. Í upphafi hrinunnar voru skjálftarnir á um 6-8 km dýpi og fóru svo grynnkandi. Skjálftavirknin hefur hins vegar haldist stöðug frá því um eftirmiðdaginn sl. laugardag og er á um 2-5 km dýpi.

Grannt er fylgst með svæðinu af Veðurstofu Íslands. Þar sem óvissustig er nú í gangi vegna jarðskjálftahrinunnar hefur vöktun veðurstofunnar verið aukin og skipulag Almannavarna er í viðbragðsstöðu. Jafnframt verða þau sveitarfélög sem mögulega verða fyrir áhrifum upplýst um leið um stöðu mála ef einhver frávik eiga sér stað sem benda til þess að eldgos sé í vændum.

Viðbúnaður og viðbragð vegna jarðskjálfta
Eitt það mikilvægasta fyrir íbúa á jarðskjálftasvæðum er að gera ráðstafanir sem eykur öryggi fólks og dregur úr mögulegu tjóni. Það sama á að sjálfsögðu við um alla starfsemi á jarðskjálftasvæði. Slíkar ráðstafanir auka einnig öryggistilfinningu fólks sem dregur úr vanlíðan í ástandi sem þessu. Ýmislegt er hægt að gera til að auka öryggi eins og að festa þunga hluti við gólf eða veggi og hafa ekki þunga hluti á veggjum eða ofarlega í hillum.

Hægt að kynna sér varnir og viðbúnað nánar hér á heimasíðu Almannavarna.

Að kunna og æfa viðbrögð við jarðskjálfta er einnig mikilvægt. Mörg slys í þessum aðstæðum eiga sér stað þegar hlaupið er af stað í jarðskjálfta. Því er brýnt að fara yfir jarðskjálftaæfingar með fjölskyldumeðlimum, í skólum, á vinnustöðum o.s.frv.

Hægt er að kynna sér viðbrögð við jarðskjálfta nánar hér á heimasíðu Almannavarna. Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að forðast brattar hlíðar. Íbúum og fyrirtækjum er bent á að hafa samband við Náttúruhamfaratryggingu Íslands ef tjón hafa orðið vegna skjálftanna.

Mörgum finnst jarðskjálftar óþægilegir og í hrinu eins og þessari þarf að takast á við marga óvissuþætti. Því er mikilvægt að gera það sem hægt er til að draga úr vanlíðan, hlúa hvert að öðru og aðstoða þau sem síður eru í stakk búin að takast á við þessar aðstæður. Við minnum á Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Hjálparsíminn er alltaf opinn, trúnaði og nafnleynd er heitið og hann er ókeypis.

Almannavarnir

Framgangur eldgossins eins og við er að búast

Vísindaráð Almannavarna fundaði í morgun um eldgosið á Reykjanesskaga. Farið var yfir nýjustu gögn og mælingar til að meta stöðuna og framhald gossins. Er það mat vísindamanna að framgangur gossins er eins og við mátti búast. Gosvirknin hefur haldist nokkuð stöðug síðustu daga og er mikilvægt að undirbúa sig undir að gosið standi yfir í nokkuð langan tíma.

Á gervihnattamyndum sem sýna landbreytingar á Reykjanesskaga frá lok júlí má sjá merki um aflögun skammt norðaustur af Grindavík (Sjá svartan kassa á mynd hér að neðan). Aflögunin sem sést á gervihnattamyndunum er við upptök skjálftans sem varð 31. júlí og mældist M5.5. Á fundi vísindaráðs var farið yfir önnur gögn frá svæðinu s.s. GPS mælingar, skjálftagögn og sýna þau engar vísbendingar um að kvika sé þarna á ferðinni og líklegast skýringin sé breytingar á yfirborði sem urðu í skjálftanum fyrir um 10 dögum síðan. Engu að síður munu vísindamenn safna frekari gögnum til að staðfesta ennfrekar að svo sé. Rætt var að mikilægt væri að auka vöktun enn frekar á þeim umbrotasvæðum sem geta haft áhrif nærri byggð með því að setja upp fleiri mælitæki til rauntímavöktunar.

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Drónaflug og eldgosið á Reykjanesi

Almannavarnir eru í góðu samstarfi við Samgöngustofu. Textinn hér að neðan er af heimasíðu Samgöngustofu.

Nú þegar eldgos er hafið að nýju á Reykjanesi vill Samgöngustofa, að gefnu tilefni, árétta reglur sem gilda um drónaflug. Þær eru settar til að tryggja öryggi, t.d. aðgreiningu dróna og annarra loftfara:

  • Drónar skulu EKKI fljúga hærra en 120 m yfir jörðu
  • Drónar skulu víkja fyrir mönnuðum loftförum
  • Dróna má ekki fljúga utan sjónsviðs stjórnanda hans
  • Umráðandi dróna ber ábyrgð á því tjóni sem kann að hljótast af notkun hans
  • Til dróna í atvinnuskyni eru gerðar frekari kröfur, til dæmis um skráningu

Verði vart við brot sem geta stefnt öryggi í hættu gæti þurft að grípa til þess að setja verulegar takmarkanir eða bann við drónaflugi við eldstöðina.

Rannsóknarflug í forgangi
Vegna eldgossins má búast við reglubundnu rannsóknarflugi flugvéla og þyrlna á vegum stjórnvalda við eldstöðina. Flugið er í þágu almannavarna og vísinda og mun njóta forgangs fram yfir annað flug.

Til að tryggja öryggi verður svæði skilgreint sem hættu- eða haftasvæði fyrir starfrækslu flugvéla og þyrlna. Samhliða þessu verður skilgreint bannsvæði fyrir dróna á meðan rannsóknarflugið fer fram. Hætt er við að stuttur fyrirvari verði á slíku og mun umfang og gildistími markast af aðstæðum hverju sinni.

  • Stjórnendur dróna skulu fylgjast með nýjustu tilkynningum um slíkt bannsvæði á vef Almannavarna . Upplýsingar verða reglulega uppfærðar þar.
  • Hættu- eða haftasvæði fyrir loftför önnur en dróna verða auglýst með NOTAM.
  • Jafnframt er bent á upplýsingar í flugmálahandbók AIP og gagnlegar upplýsingar og reglur um drónaflug.

 

Til að tryggja öryggi er svæði skilgreint sem hættu- eða haftasvæði fyrir annað flug og bannsvæði fyrir dróna á meðan rannsóknarflugið fer fram. Hætt er við að stuttur fyrirvari verði á slíku og mun umfang og gildistími markast af aðstæðum hverju sinni. Þegar slíkt bann er í gangi þá verður tilkynningin sett hér að ofan og á facebooksíðu Almannavarna.

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Almannavarnastig fært niður á hættustig vegna eldgossins í Meradölum

Í dag fóru fór vísindafólk og fulltrúi frá Almannavörnum í könnunarflug yfir gosstöðvarnar til að meta umfang eldgossins. Það er mat þeirra að eldgosið sé fremur lítið og ógni ekki byggð eða mannvirkjum.

Í kjölfar könnunarflugsins var farið yfir tiltæk gögn og ákveðið af Ríkislögreglustjóra í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum að lækka almannavarnastig úr neyðarstigi niður á hættustig.

Hér er athyglisvert hraunlíkan sem birt var á vef Veðurstofu Íslands í dag:
https://www.vedur.is/um-vi/frettir/eldgos-a-reykjanesskaga

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin