Innlent

Yfirgripsmikil skýrsla um utanríkisviðskipti Íslands komin út

Skýrsla utanríkisráðuneytisins Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands er komin út. Skýrslan er afar yfirgripsmikil og tekur til allra hliða utanríkisviðskipta. Fjallað er um áhrif heimsfaraldursins á íslenskan útflutning, stöðu utanríkisviðskipta, gang mála innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, fríverslunarsamskipti Íslands við EFTA-ríkin og ESB, fríverslunarsamninga EFTA og Íslands sem tryggja íslenskum útflytjendum betri aðgang að fjölda markaða um allan heim, auk þess sem finna má í skýrslunni ítarlegt yfirlit yfir alla helstu viðskiptasamninga Íslands.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir Íslendinga njóta góðs af því viðskiptafrelsi sem ríkir á Íslandi, hvort sem um ræðir aukið vöruval og lækkað verð til neytenda eða auknar skatttekjur ríkisins frá fyrirtækjum sem selja vörur og þjónustu á erlenda markaði.

„Hingað til höfum við talið það sjálfsagt að geta flogið til hvaða lands sem er og þeir sem sækja vinnu erlendis telja fráleitt að greiða skatt í tveimur ríkjum. Lífskjör Íslendinga byggjast á frjálsum vöru- og þjónustuviðskiptum og fjölmörg störf í landinu eru tengd utanríkisviðskiptum með einum eða öðrum hætti,” segir Guðlaugur Þór í inngangsorðum sínum. 

Í skýrslunni er viðskiptastefna Íslands og annarra EFTA-ríkja borin saman við viðskiptastefnu Evrópusambandsins. Í þeim samanburði sést meðal annars að hlutfallslega eru hér á landi mun fleiri tollskrárnúmer sem bera engan almennan toll og að meðaltollur er töluvert lægri í samanburði við ESB. 

Jafnframt eru í skýrslunni birtar niðurstöður greiningar á áhrifum hugsanlegrar þátttöku í tollabandalagi ESB. Í greinargerð sem unnin var af íslenskum stjórnvöldum kemur fram að áhrif af að aðild íslands að tollabandalaginu hefði í för með sér umtalsverðar breytingar á tollframkvæmd. Meðal annars leiddi frumáætlun tollyfirvalda í ljós að auk hækkunar meðaltolls, sbr. töfluna að neðan, myndi kostnaður við upptöku nýrra tollkerfa nema allt að 30 milljónum evra.

Í skýrslunni er varpað ljósi á þær áskoranir sem blasa við íslenskum útflutningsfyrirtækjum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og hvernig utanríkisráðuneytið vinnur að því að koma til móts við þau eins og kostur er.

Þá er einnig horft fram á veg og þótt áfram verði brýnt að sinna nærmörkuðum er ljóst að mikil tækifæri bíða íslenskra útflutningsfyrirtækja á nýmörkuðum. Gera má ráð fyrir að þungamiðja alþjóðlegrar fríverslunar og viðskipta haldi áfram að færast til austurs. Í þessum ríkjum er ört vaxandi millistétt sem hefur tileinkað sér nýjar neysluvenjur. Mikilvægt er að fylgjast vel með þróuninni á þessum mörkuðum og tryggja að net viðskiptasamninga Íslands nái til markaðssvæða þar sem spáð er mestum vexti á næstu árum. 

Í dag ná fríverslunarsamningar Íslands til 74 ríkja og landsvæða og tæplega 3,2 milljarða manna. Þrír samningar EFTA bíða gildistöku, einn bíður undirritunar auk þess sem EFTA á í samningaviðræðum við fleiri ríki. Skili núverandi samningaviðræður árangri mun Ísland því eiga í fríverslunarsambandi við ríki þar sem 2/3 hlutar mannkyns búa.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum. 

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin