Veður

Yfirlit um íslenska jökla í árslok 2021

Yfirlitskort_Joklar_Islands_v3

Yfirlitskort yfir jökla Íslands


Afkoma íslensku jöklanna hefur verið neikvæð síðan árið 1995 með einni undantekningu 

13.7.2022

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver skýr­asti vitnis­burð­ur  hérlendis um hlýn­andi loftslag. Á árinu 2021 hopuðu jökul­sporðar víða um tugi metra en nokkrir brattir skriðjöklar gengu fram, mest Morsárjökull sem gekk fram um meira en 100 m. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálf­boða­lið­um Jöklarannsóknafélags Íslands hop­aði Skeiðarárjökull mest eða um 400 m þar sem mest var við austanverðan sporðinn en þar slitnaði sporðurinn frá dauðísfláka. Breiðamerkurjökull hopaði víða um eða yfir 150 m þar sem kelfir af hon­um í Jökulsárlón. (Sjá nánari upplýsingar á nýrri íslenskri jöklavefsjá.) Þetta kemur fram í nýútkomnu fréttabréfi á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar“. Verkefnið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagnað af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans og Náttúrustofu Suðausturlands.

KB-LMI_Fjallsjokull_1988_Labeled-version-2KB-LMI_Fjallsjokull_2021_Labeled-version-2

Flugsýn af tungu Fjallsjökuls 1988 og 2021. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1988 og flygildi 2021 og landlíkönum sem reiknuð voru á grundvelli myndanna og sýna vel hörfun jökuljaðarsins og lækkun yfirborðs jökulsins á rúmlega 30 ára tímabili. (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee.)

Afkoma ársins 2021

Afkoma stærstu íslensku jöklanna hefur verið nei­kvæð síðan 1995 með einni undantekningu, afkoma ársins 2015 var jákvæð í fyrsta sinn í 20 ár. Árið 2016 mældist afkoman aftur neikvæð eins og flest undan­farin ár og einnig fyrir Langjökul og Hofsjökul árið 2017 en Vatnajökull var þá nærri því að vera í jafnvægi. Allir þrír jöklarnir voru nærri jafnvægi 2018. Sumur hafa verið nokkuð hlý síðan 2018 og hefur afkoma allra þriggja jöklanna mælst neikvæð síðan þá. Jökl­arnir hafa alls tapað um 250 km3 íss síðan 1995 sem er um 8% af heildarrúmmáli þeirra. (Sjá nánari upplýsingar á nýrri íslenskri jöklavefsjá.)

Lhv-mb-til-2021-rb

Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn sem hann tapar/græðir á ári hverju.

Mýrdalsjökull hefur rýrnað um u.þ.b. 5 km3 síðan 2010 og yfirborð hans lækkað um 9 m að meðaltali

Íslensku jöklarnir eru kortlagðir reglulega til þess að fylgjast með rýrnun þeirra. Síðsumars 2021 voru Vatnajökull, Langjökull og Mýrdalsjökull kortlagðir með gervihnattamælingu og sýnir meðfylgjandi kort hæðarbreytingu yfirborðs Mýrdalsjökuls á tímabilinu 2010 til 2021. Á þessu tímabili lækkaði yfirborð neðanverðs leysingarsvæðisins víða um meira en 30 m og hann tapaði samanlagt um 5 km3 íss. Ofarlega á ákomusvæðinu hækkaði yfirborði hins vegar víðast um nokkra metra. Meðallækkun jökulyfirborðsins er um 9 m yfir þetta árabil. Nánar má fræðast um samband jökla og loftslags á fræðsluvef Vatna­jökuls­þjóðgarðs um jökla- og loftslagsbreytingar Hörfandi jöklar og á nýrri íslenskri jöklavefsjá islenskirjoklar.is.

Myrdalsjokull_geodiff_lidar2010_pleiades2021_v2

Breyting á hæð yfirborðs Mýrdalsjökuls skv. kortum sem byggð eru á leysimælingum úr flugvél (2010) og á ljósmyndum Pléiades gervihnatta (2021). (Pléiades © CNES (2021), Distribution AIRBUS DS. Kort: Maud Bernat.)

Nálgast má fréttabréfið í heild sinni hér.

Veður

Eldgos hafið að nýju á Reykjanesskaga

Fyrsta myndin sem við birtum af nýju sprungunni við Fagradalsfjall. Hún er staðsett við norðurjaðar nýja hraunsins um 1,5 km norður af Stóra-Hrúti.


3.8.2022

Eldgos er hafið í vestanverðum Merardölum um 1,5 km norður af Stóra-Hrút og jarðeldurinn virðist koma upp um norðuraustur suðvestur sprungu á þeim stað. Við fyrstu skoðun á vefmyndavélum virðist kvika hafa komið upp á yfirborð kl 13:18.

Út frá fyrstu myndum sem Halldór Björnsson á Veðurstofu Íslands tók úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni er sprungan staðsett í norður jaðri nýja hraunsins sem kom upp í síðasta gosi.

Sprungan virðist um 300 m löng út frá fyrstu mælingum.


Kort sem sýnir grófa staðsetningu á sprungunni út frá fyrstu myndum. Sprungan er staðsett í norður jaðri hraunsins sem myndaðist í gosinu sem hófst í mars í fyrra.

Halda áfram að lesa

Veður

Jarðskjálftahrina á Reykjanesi

Jarðskjálftahrina NA við fagradalsfjall

Mikil smáskjálftavirkni hefur átt sér stað Norðaustan við Fagdralsfjall í dag


30.7.2022

Í hádeginu í dag hófst kröftug jarðskjálftahrina með mikilli smáskjálfta virkni rétt norðaustan við Fagradalsfjall skammt norðan við Fagradalshraun. Stærsti skjálfti hrinunnar mældist af stærð 4,0 kl. 14:03. Skjálftarnir eru nú að mælast á um 5-7 km dýpi. Skjálftarnir hafa fundist í Reykjanesbæ, Grindavík, á Höfðuborgarsvæðinu og allt upp í Borgarnes. Talið er þetta stafi vegna kvikuhlaups sem er að eiga sér stað norðaustan við Fagradalsfjall á 5-7 km dýpi.

Vegna hrinunnar er aukin hætta á grjóthruni. Nú þegar hafa nokkrir skjálftar mælst yfir 3 stigum og í jarðskjálftum sem þessum getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður fallið. Enn hafa ekki borist tilkynningar um nýlegt grjóthrun á svæðinu. Ef öflugri skjálftar verða, aukast líkur á grjóthruni. Fólk er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum, nálægt bröttum sjávarbjörgum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið. Ríkislögreglustjóri í samvinnu við Lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur lýst yfir óvissustigi

 Almannavarna og eins hefur VONA tilkynning verið gefin út og færð yfir á gult fyrir Krísuvík. Veðurstofan mun fylgjast náið með framvindu.

Halda áfram að lesa

Veður

Fundur um þróun mála við Öskju

Sentinel-1 bylgjuvíxlmynd frá Öskju - tímabilið frá 27. júlí 2021 til 22. júlí 2022

Sentinel-1 bylgjuvíxlmynd frá Öskju – tímabilið frá 27. júlí 2021 til 22. júlí 2022. Bylgjuvíxlmyndin sýnir yfirborðsfærslur við Öskju undanfarina 12 mánuði en litirnir sýna hvar landrisið hefur átt sér stað siðan 2021 fram til dagsins í dag. Breytingar á yfirborði tengjast grunnstæðu kvikuinnstreymi (á um 2 km dýpi) sem hófst samkvæmt mælingum í byrjun ágústmánaðar 2021. GPS mælistöð veðurstofunar OLAC er merkt inn á myndina sem svartur þríhyrningur. Þar hefur þennslan mælst um 35 cm á þessu 12 mánaða tímabili.


26.7.2022

Veðurstofa Íslands fundaði mánudaginn 25. Júlí með vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun HÍ ásamt fulltrúum almannavarna. Fundarefnið var þróun mála í Öskju síðustu mánuði þar sem landbreytingar og jarðskjálftagögn voru rædd. Land hefur risið frá því í ágúst í fyrra. Skýrari mynd hefur nú fengist á landrisið á svæðinu með úrvinnslu og túlkun gervitunglamynda eftir að snjóa hefur leyst á svæðinu. Landrisið mælist nú mest um 35 cm og er miðja þess skammt vestan við Öskjuvatn. Landrisið stafar af þrýstiaukningu í rótum eldstöðvarinnar og er ástæða þess talin vera söfnun kviku grunnt í jarðskorpunni. Líkanreikningar benda til þess að dýpi kvikusöfnunarinnar sé um 2 km og að kvikan dreifi sér þar lárétt í jarðskorpunni í miðju eldstöðvarinnar. Rishraðinn er óvenjumikill sé m.v. sambærileg eldfjöll í heiminum. Skjálftavirkni hefur ekki verið mikil samfara þessu, hugsanlega vegna þess að áður en núverandi ristímabil hófst þá var viðvarandi landsig í Öskju síðastliðna áratugi. Einnig getur hluti aflögunar orðið á öskjusprungum sem geta hreyfst að hluta án skjálftavirkni.

Sviðsmyndir eru óbreyttar. Ef kvikustreymi verður viðvarandi kann risferlið að halda áfram með svipuðum hætti í nokkurn tíma. Búist er við að aukin skjálftavirkni verði skýr aðdragandi að frekari kvikuhreyfingum neðanjarðar eða eldgosi. Líklegasta sviðsmynd ef til eldgoss kemur er sprungugos í nærumhverfi öskjunnar. Mælingar á eldfjöllum með þroskuðum öskjum, eins og í tilfelli Öskju, sýna að þar geta orðið miklar jarðskorpuhreyfingar án þess að til eldgoss komi, jafnvel þannig að hreyfingar nemi meir en einum metra áður en til eldgoss komi. Ekki er þó hægt að útiloka að í tilfelli Öskju verði fyrirvarinn verði stuttur, jafnvel talinn í nokkrum klukkustundum.

Óvissustig Almannavarna er í gildi við Öskju og Veðurstofan fylgist áfram vel með svæðinu í samstarfi við Almannavarnir, lögregluna og Vatnajökulsþjóðgarð.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin